Tvíþætt misrétti kynslóðanna og þöggun.

Rányrkja felur í sér misrétti kynslóðanna. Ein eða örfáar kynslóðir taka sér það vald að klára auðlindir svo að kynslóðirnar, sem á eftir koma, njóti einskis af þeim og standi jafnvel frammi fyrir stórfelldum óförum og vá vegna græðgi og siðleysi fyrri kynslóða. 

Þetta er að gerast nú og í stað þess að Íslendingar séu til fyrirmyndar í auðlindanýtingu og auglýsi það óspart um allan heim að við séum það,  gerum við í raun þveröfugt í stórum hluta orkunýtingar okkar og ætlum að bæta í með vinnslu olíu á Drekasvæðinu.

Samgöngutæki okkar eru þau mest mengandi í Evrópu. Við erum sóðar í þeim efnum og fleirum.  

Olíuöldin hefur þegar náð hámarki, af því að héðan af verður æ dýrara og erfiðara að finna og vinna olíu, og eru hugmyndir um að vinna olíu á meira en þúsund metra dýpi á Drekasvæðinu gott dæmi um það.

Í ofanálag mun áframhaldandi og jafnvel vaxandi notkun olíu auka enn á misrétti kynslóðanna, vegna þess að komandi kynslóðir munu þá þurfa að fást við stórfelldari loftslagsvá og umhverfisvanda en dunið hefur yfir heimsbyggðina síðustu árþúsundin.

Til þyrfti að vera embætti umboðsmanns komandi kynslóða, sem hefði það hlutverk að tryggja hlut þeirra.

Væri svo, myndi hann beita sér fyrir því að frestað yrði að vinna olíu á Drekasvæðinu, ef hún er á annað borð vinnanleg, eða að minnsta kosti að gera áætlun um að dreifa vinnslu hennar yfir á minnst 200 ár, en það var viðmið "frumstæðra" indíánaþjóðflokka í Ameríku varðandi góðyrkju og sjálfbæra þróun í stað rányrkju.

Athyglisvert er, að á tveimur ráðstefnum í röð hafa ráðamenn kosið að svara ekki fyrirspurnum okkar Ara Trausta Guðmundssonar eða að svara þeim út í hött.

Mín fyrirspurn var varðandi það, hvort við Íslendingar skulduðum ekki sjálfum okkur og umheiminum það að sjá svo um að vera raunverulega í fararbroddi við að nýta "endurnýjanlegar orkulindir"í stað þess að fela hinn óþægilega sannleika, og spurning Ara Trausta á ráðstefnunni í gær var í raun um það sama, en um annað svið orkunýtingar.

Það er umhugsunarefni fyrir fleiri en okkur, að spurningar okkar, sem eru grundvallarspurningar á heimsvísu, teljist ekki svaraverðar.

Í gangi er síbylja rangra fullyrðinga og þöggun varðandi annað en það, sem passar fyrir þessa síbylju. Sömuleiðis þöggun gagnvart þeim  sem spyrja óþægilegra spurninga.  


mbl.is Íslendingar hætti við olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjulestarhraði á stóryfirlýsingum ráðherra.

Daginn sem ríkisstjórnin tók við völdum bloggaði ég um að það væri oft gott að fá nýtt fólk með ferskrar hugmyndir til að taka að sér verk og að ástæða væri að óska ríkisstjórninni velgengni í störfum.

Hún hefði háð kosningabaráttu út á eitt afmarkað mál, lausn á skuldavanda heimilanna, og nú væri framundan starfið við að efna loforðin.

Kyrfilega hafði af hálfu flokkanna verið komist hjá því að ræða um það mál, sem mér fannst langstærsta málið, stóriðju- og virkjanamálin, sem vörðuðu hagsmuni komandi kynslóða um alla framtíð.  

Ekki óraði mig fyrir því að á fyrsta vinnudegi sínum daginn eftir kæmi í ljós hvert væri hið raunverulega forgangsmál valdsherranna og yrði strax í kjölfarið áréttað og ítrekað af alls fjórum ráðherrum, jafnvel oft á dag á hverjum af fyrstu þremur valdadögum  stjórnarinnar.

IMG_8686

Því síður átti ég von á athöfn líkri þeirri sem fór fram við Stjórnarráðshúsið síðdegis i dag og þarf minnst þrjár ljósmyndir, teknar í þrjár áttir, til að fanga.

Á þeirri neðstu afhendir Guðmundur Hörður Guðmjundsson, formaður Landverndar, aðstoðarmanni forsætisráðherra, 225 fjölbreyttar umsagnir sem bárust til iðnaðarráðuneytisins vegna rammaáætlunar.  

IMG_8684

En nú liggur það ljóst fyrir, án nokkurrar samræðna eða nýrra vinnubragða við ákvarðanir, sem lofað var í stjórnarsáttmála:

Forgangsmál ríkisstjórnarinnar númer eitt, tvö og þrjú er að reisa bæði risaálver og kísilver í Helguvík, sem munu þurfa 800 megavött eða um hundrað megavöttum meira en álverið á Reyðarfirði fékk með Kárahnjúkavirkjun.

Hálft landið njörvað í mannvirki á annnars tugs virkjana, og stór hluti þeirra fólgin í rányrkju og eiturlofti.  

Skuldavandi heimilanna verður hins vegar settur í nefnd.

Það hefur verið stóriðjulestarhraði á stóryrðum ráðherra, meðal annars þeim að ekkert væri að marka umsagnir, sem bárust um virkjanakosti rammaáætlunar af því að þær hefðu nær allar verið ein og sama athugasemdin, fjölfölduð í 400 eintökum.

IMG_8683

Ég minnist þess ekki að nýrri ríkisstjórn hafi á jafn skömmum tíma í upphafi ferils síns löðrungað jafn marga þeirra, sem hún talaði samt um í byrjun að ætti að sameina til verka í uppbyggilegum og málefnalegum farvegi.  

Glæsileg nær 2000 manna athöfn við Stjórnarráðshúsið síðdegis í dag var haldin með aðeins dags fyrirvara, en hraðinn helgaðist af þeim stóriðjulestarhraða sem hefur verið á yfirlýsinga ráðamanna.

IMG_8681

Ekki grunaði neinn, að innan við mánuð frá 5000 manna grænni göngu, þyrfti aftur að grípa til grænu fánanna.  

Tengd frétt á mbl.is greinir nánar frá fundinum, en ávörp tveggja ungmenna í lokin snart þann streng, sem mikilvægastur er í þessu máli, að núverandi kynslóð vaði ekki yfir rétt og hagsmuni komandi kynslóða í græðgisæði.

Skutla inn nokkrum ljósmyndum sem ég tók af fundinum, en ég tók líka upp kvikmyndir til að safna í sjóð minninga um baráttuglatt hugsjónafólk.  


mbl.is Leiðrétta misskilning ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlegt "skrifæði" á fuglaveiðum.

Í þessari fyrirsögn er nýyrði: "Skrifæði". Hingað til hefur verið látið nægja að nota orðið "skrifræði" en "skrifæði" er hástig þess, þegar það er komið út fyrir öll skynsamleg mörk.

Líkast til hefur þeim litlum flugvélum og svifflugum, sem hafa lofthæfi hverju sinni, fækkað um helming hér á landi á fáum misserum. Það er verið að drepa þetta flug niður eins og kemur fram í tengdri frétt  um svifflugur á mbl.is

Ástæðan er skrifæði sem veldur því að nú felast allt að 70% vinnu við viðhald og skoðanir flugvélanna í pappírsvinnu en 30% í raunverulegri viðhaldsvinnu. 

Þetta er alþjóðlegt vandamál, en það verður enn verra þegar teknar eru upp sérreglur á einstökum svæðum. Þannig eru sumar reglurnar í Evópu þannig, að í þeirri álfu eru gerðar meiri kröfur en í Ameríku þar sem flestar flugvélarnar eru þó smíðaðar. 

Síðan eru sumar reglurnar þannig að þær eiga alls ekki við í okkar dreifbýla landi langt frá öðrum löndum þótt þær kunni að eiga við á svæðum, þar sem hægt er á klukkustund að fljúga yfir fimm lönd með fjölda milljónaborga.  img_4792_1203098.jpg

Nýjasta dæmið: Ég varð að endurnýja hreyfilinn á TF-FRÚ fyrir sjö árum og var ráðlagt að kaupa nýja loftskrúfu með honum þótt sú gamla hefði hentað betur persónulega fyrir mig varðandi nauðsynlegustu eiginleika vélarinnar, að vera sem duglegust að komast á loft á erfiðum lendingarstöðum. 

Ég ákvað að geyma gömlu skrúfuna, svo ég gæti notað hana til vara ef eitthvað kæmi upp á með þá nýju.  Báðar skrúfurnar eru af einföldustu gerð, fastar skrúfur, sem hafa enst bæði hér á landi og í framleiðslulandinu, Bandaríkjum, áratugum saman án vandræða, ef rétt er staðið að meðferð þeirra. 

En nú bregður svo við að í Evrópu eru settar reglur þess efnis, að á sjö ára fresti verði að setja allar svona skrúfur í gagngera yfirhalningu eða endurstillingu, jafnvel þótt þær séu ekkert notaðar! 

Þar með urðu báðar skrúfurnar mínar, sú sem hefur staðið ónotuð í sjö ár, og hin, sem aðeins hefur flogið í nokkur hundruð klukkustundir, ónothæfar, jafnvel þótt framleiðandinn bandaríski telji að allt í lagi sé að nota þær ! 

Í ofanálag má ekki senda skrúfuna til framleiðslulandsins til þess að láta skoða hana þar, heldur verður að senda hana til Evrópu í hendur á viðurkenndu "CAMO" verkstæði í þeirri álfu. 

Jafnvel framleiðandanum sjálfum væri ekki treyst til að framkvæma þetta skrifæði. 

Þetta vesen getur tekið nokkra mánuði, og nær daglega horfi ég svekktur á skrúfuna, sem ég hef geymt ónotaða í sjö ár og sendur upp á endann í horninu á vinnuherbergi mínu í Útvarpshúsinu.

Stundum sé ég í anda möppudýrin, sem fyrir þessu fargani standa, sem fuglaveiðimenn, sem hafi yndi af því að skjóta niður litla vélfugla í stað venjulegra fugla. 

Ég hef af því fregnir að þeir fari jafnvel saman í veiðiferðir til einstakra landa.

 Ég hef því, að því að ég sjálfur tel og líka bandaríski framleiðandinn,verið FRÚarlaus að óþörfu undanfarna mánuði og sé ekki fram úr því hvernig ég á að takast á við þann aukakostnað, sem fylgir því og gera skrúfuna nothæfa í samræmi við skrifæðisreglurnar. img_8285_1203099.jpg

Af þessum sökum fór ég á afar smárri flugvél Jóns Karls Snorrasonar, TF-REX, í myndatökuferð yfir Hálslón um daginn, en sú flugvél hefur bjargað mér í svona tilfellum þótt hún sé svo lítil, að ég komist aðeins einn fyrir í henni og geti ekki notað nema litlar ljósmyndavélar eða minnstu kvikmyndatökuvélar. img_8394.jpg

Set inn eina mynd úr þeirri ferð. Á henni sést Hálslón þakið ísi og snjó vinstra megin eins og mjó læna, en svæðið frá bakkanum upp að vegi yst hægra megin, er á þurru, og lónið kemst ekki upp að honum fyrr en síðsumars. 

Í baksýn eru Kárahnjúkastífla, Fremri-Kárahnjúkur og Desjarárdalsstífla. 

Ég hef einnig notað TF-TAL Sverris Þóroddssonar í styttri myndatökuferðum, sem er þrisvar sinnum kraftmeiri, stærri og öflugri flugvél, en það er auðvitað að sama skapi dýrari. img_8258.jpg

TF-REX fer í ársskoðun um mánaðamótin og TF-TAL síðar í sumar svo að missir TF-FRÚ verður æ bagalegri, einkum vegna þess að ég hef þegar lagt í kostnað, sem verður að greiða, jafnvel þótt flugvélin komist ekki í loftið. 

En við þessu er ekkert að gera. Þann sama dag og við Íslendingar myndum segja okkur frá alþjóðlegu samstarfi í flugmálum myndi þjóðfélag okkar einfaldlega stöðvast. 

Ég veit, að tveir flugmálastjórar, sá franski og sá íslenski, gagnrýndu þetta ástand kröftuglega á fundi EASA í fyrra, en alþjóðlega skrifræðið og skrifæðið, þegar svo ber undir, er einfaldlega þess eðlis, að ekkert virðist geta komið viti inn í  þann risavaxna möppudýragarð.   


mbl.is Dani skoðar svifflugurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Damoklesarsverð betra orð ?

"Snjóhengjan" svonefnda var strax komin til sögunnar síðustu árin fyrir Hrun þótt menn kysu að láta sem hún væri meinlaus og raunar afar jákvætt fyrirbæri að erlendir menn vildu fjárfesta í íslenskum krónum. 

Ég minnist þess að hafa notað orðið "Damoklesarsverð" sem líkingu, ógn, sem hengi yfir okkur og yrði erfitt að fjarlægja, því hættan á mistökum væri sú að það félli í höfuð okkar.

Líkingin á svo vel við, því að Damokles skipti um sæti við Dýonisus af því að hann hélt það fylgdi sæti hans svo mikil gæfa og heppni. 

Hann komst að öðru, því að í einu hrosshári yfir sætinu hékk hárbeitt sverð. 

Líklegra var þetta réttari líking en snjóhengjan hvað snertir það að ekki væri gefið, að sverðið þyrfti að falla, ef rétt væri og nógu snemma brugðist við, en það gerði Damokles með því að fara aftur í sitt fyrra sæti.

Snjóhengjulíkingin er hins vegar réttari hvað varðar það að snjóhengjur stækka oft.

Kannski væri réttast að tala um stækkandi Damoklesarsverð? 

 


mbl.is Snjóhengja ekki rétta orðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vér einir vitum".

Þetta voru orð einvaldskonunganna forðum tíð þegar þeir tóku ákvarðanir. Þeir töldu sig hafa fengið völd sín frá Guði almáttugum og áttu land og þjóð.  "Ríkið, það er ég" sagði Frakkakonungur. 

Hér á landi hljóma svipuð ummæli hjá landeigendum og þeirra fólki. "Landið, það er ég." "Öll rök hníga að því sem ég segi." Engin mótrök eru til.  "Vér einir vitum".  


mbl.is Öll rök hníga að virkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af sem áður var.

Í árgangnum, sem útskrifaðist sem stúdentar frá M.R. 1960 voru innan við hundrað manns og stúdentar á öllu landinu innan við 200. Við vorum síðasti kreppuárgangurinn, þ.e. þeir sem komu undir fyrir breska hernámið 10. maí 1940. Á árunum fyrir stríð voru árgangarnir mun minni en síðar varð og sennilega ekki tilviljun að ömmur mínar og afar í báðum ættum áttu aðeins tvö born hvort par. 

Stúdentarnir voru lítið hlutfall af 1940 árganginum, vel innan við 10%. 

Næsti stúdentaárgangur á eftir var að mig minnir 50% fjölmennari sem og allir árgangar þar á eftir, sem á Íslandi myndu líklega falla undir hugtakið "the baby boom generation", kynslóð sem kom mun seinna í öðrum löndum þegar hagkerfi heimsins rétti úr kútnum tveimur áratugum síðar. 

Það hefur oft verið sagt að íslenskt þjóðfélag hafi verið minna stéttskipt en önnur á síðustu öld, en samt er ekki laust við að þessi tiltölulega litli hluti hvers árgangs fram eftir öldinni hafi að sumu leyti verið eins konar forréttindahópur af því að hann var ekki stærri en þetta. 

Stúdentsprófið opnaði dyrnar að háskólanámi, sem hlutfallslega miklu færri stunduð þá en nú, þannig að sérstaðan hélst áfram. Nú er þetta, sem betur fer, breytt.

Á þessum tíma var verktæknin það skammt á veg komin að mjög stór hluti þjóðarinnar vann störf sem enga sérstaka framhaldsmenntun þurfti til. Þjóðfélagið komast sem sé af án þess að stór hluti hennar þyrfti að mennta sig neitt sérstaklega. 

Verkalýðshreyfingin starfaði í samræmi við þetta og höfuðáherslan hjá henni var að tryggja kjör verkafólks og ófaglærðra.

Nú er þetta gjörbreytt en verkalýðshreyfingin er enn svolítið föst í hinu gamla horfi. 

Þannig er það nú básúnað að miklar virkjanaframkvæmdir verði að vera í gangi til að skapa þúsundir starfa hverju sinni, en gleymist að síðast, þegar slíkt komst í hámark, voru 80% vinnuaflsins fengin frá útlöndum, og að slíkar framkvæmdir, sem þarfnast margra ófaglærðra, geta verið dragbítur en ekki akkur. 

Því að þegar framkvæmdunum lýkur verða þessar fjögur þúsundir, sem fengu tímabundin störf, atvinnulausir, útlendingarnir fara úr landi, og stór hluti Íslendinganna sem fengu vinnu, hefur kannski hætt við að mennta sig, en það er einmitt slíkt sem verður að forðast eins og hægt er í nútímaþjóðfélagi, sem vill vera samkeppnisfært við aðrar þjóðir. 

Fyrr eða síðar munu menn standa frammi fyrir því að ekki verður hægt að virkja meira, og hvað gera menn þá? 

"Það verður verkefni þeirrar kynslóðar, sem þá er uppi" var svar Finns Ingólfssonar við þessari spurningu minni fyrir rúmum árarug. 

Sem sagt, veltum sem mestu af "skómigu"-hegðun okkar yfir á afkomendur okkar. 

 


mbl.is Aldrei fleiri stúdentar og doktorar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fólk er fífl 3". Vonandi hægt að skipta um rafhlöðu.

Í fróðlegum erlendum sjónvarpsþætti var greint frá mörgum dæmum um það hvernig framleiðendur freistast til þess að útbúa vörur sínar þannig að þær endist örugglega ekki of lengi, til dæmis í aðeins eitt og hálft ár.

Meira að segja samkomulag framleiðenda ljósapera í heiminum 1920 um að engar perur entust meira en í 1000-1500 klukkustundir.  

Meðal annars var greint frá því að í fyrsta snjallsíma risaframleiðenda hefði rafhlaðan verið höfð þannig, að ekki væri hægt að skipta um hana og að hún entist ekki nema takmarkaðan tíma, þannig að þegar hún yrði ónýt, væri búið að læsa eigandann inni í nokkurs konar búri, þar sem hann þyrfti annað hvort að eyða hátt í verð nýs síma til að láta gera við hann eða kaupa sér annan síma.

Athugull kaupandi fór í mál við fyrirtækið í Bandaríkjunum út af þessu.

Sjálfur á ég nokkurra ára gamlan snjallsíma. Eftir að hafa átt hann í um eitt og hálft ár brá svo við að rafhlöðunni hrakaði hratt og varð síminn ónothæfur. Ég ætlaði þá að kaupa aðra rrafhlöðu en var sagt frá því, að það væri ekki hægt að skipta um rafhlöðu í þessum síma.

Nú var úr vöndu að ráða. Annað hvort að henda símanum, sem ég hafði keypt fyrir sjötíu þúsund krónur eða að taka boði um að láta gera við hann.  

Í bandaríska tilfellinu, sem greint var frá í sjónvarpsþættinum, var upplýst að rafhlöðurnar entust aðeins rétt fram fyrir þann tíma, sem síminn væri í ábyrgð, svo að kostnaðurinn lenti allur á kaupandanum.

Í mínu tilfelli kom í ljós að ég var svo ljónheppinn að sleppa rétt innan þess tíma sem ábyrgðin gilti, eða réttara sagt, vegna fjarvista að heiman og oft uppi í óbyggðum, varð ég að gera ráðstafanir strax. 

Ég komst svosem af, því að til vara átti ég 5000 króna síma frá sama framleiðanda 

Og hvernig fór þetta svo?  Jú, ég þurfti að vera án símans í næstum tvo mánuði, því að það þurfti að senda hann til Svíþjóðar til viðgerðar!  

Og síðan kom reikningur: 15 þúsund krónur! Ég fór að velta því fyrir mér hvað þetta hefði kostað ef síminn hefði ekki verið í ábyrgð.

Nú er ábyrgðin runnin út og það kemur væntanlega í ljós þegar rafhlaðan deyr næst hvernig ég fer út úr þessu þá. Mig er farið að gruna og er viðbúinn því að það muni gerast og veit, að það að eiga þennan síma áfram muni ekki  aðeins kosta mig 15 þúsund aukakrónur á hálfs annars árs fresti, heldur miklu meira. 

Þetta voru slæmu fréttirnar.

Góðar fréttir?

Já, með svona kerfi er hægt að skapa fjölda fólks vinnu við viðgerðir og vesen, sem grunnhyggnir neytendur borga, eða að lokka hina svekktu kaupendur til að kaupa nýja síma.

"Þú áttir að kynna þér símann og sjá í smáa letrinu að ekki væri hægt að skipta um rafhlöðu", var sagt við mig.

"Já, en ég var búinn að eiga fjölda farsíma í aldarfjórðung og þetta var sá fyrsti þar sem ekki var hægt að skipta um rafhlöðu," andmælti ég. Hvernig átti ég að vita það að þessu væri allt í einu búið að breyta?"

"Með því að kynna þér upplysingarnar um símann," var svarið.

Já, maður verður víst að sætta sig við það að um mann sjálfan gildi hið "fornkveðna":  "Fólk er fífl." 

Ég veit að Galaxy síminn, sem er undanfari Galaxy S4 er með sér rafhlöðu. Vonandi er sá nýi einnig þannig.  


mbl.is Hafa selt 10 milljónir Galaxy S4 síma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjónarhólarnir eru margir.

Styrjaldir leiða fram allt það besta og versta í manninum og seinni heimsstyrjöldin var engin undantekning. Vafalaust er mikið til í því sem nú er leitt upp á yfirborðið í sambandi við þá gyllilngu sem ungir bandarískir hermenn fengu varðandi "franska kossa" og franskt ástalíf þegar þeir voru sendir til herþjónustu í Frakklandi. 

Ég er nógu gamall til að muna eftir þeirri mynd sem skemmtanaiðnaðurinn gef af París og frönskum konum og get því skilið að framkoma bandarískra hermanna hafi ekki alltaf verið til fyrirmyndar þegar þeir fóru sigurför um Frakkland 1944.

En ég upplifði líka þveröfuga mynd á milljón manna flugsýningu í Oskosh í Banaríkjunum 1997 þegar haldið var upp á 40 ára afmæli bandaríska flughersins, sem var stofnaður í núverandi mynd 1947.

Við hlið mér stóðu nokkrir gamlir menn sem táruðust og grétu við stærstu minningarathöfnina.

Ég spurði einn þeirra hvar þeir hefðu verið í stríðinu. "Í innrásinni í Normandy" svaraði hann, "og ég tárast meðal annars yfir því hvaða móttökur ég fékk þegar ég kom til Frakklands aldarfjórðungi síðar."

Ég uppskar víða andúð og kalt viðmót og mér sárnaði það afar mikið, eftir að hafa upplifað þá fórn, sem ég og margir vinir mínir í blóma lífsins höfðum fært og sumir okkar látið lífið fyrir. Þeir fórnuðu ungir lífi sínu fyrir það að Bandaríkjamenn björguðu Frakklandi í annað sinn á sama aldarhelmingnum og þetta voru þakkirnar."    

Þetta sýnir hvað sjónarhólarnir í stríði geta verið margir og einni það, að að mörgu er að hyggja.  


mbl.is Bandaríkjamenn ekki bara frelsarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veginn og léttvægur fundinn og allir hinir líka.

Ég hef fylgst eftir megni með íslenskum virkjunum og náttúruverðmætum af ástríðu í meira en 60 ár, lengst af sem fjölmiðlamaður, sem hefur gert þetta að meginviðfangsefni sínu  og helsta ævistarfi.  

Vísindalegar skýrslur um þetta efni sem liggja að baki vinnu minni nema mörgum þúsundum blaðsíðna og margra áratuga vettvangskönnunum. 

Síðustu fjögur ár hef ég unnið sérstaklega að heimildamynd í fullri lengd um virkjanaáform og virkjanakosti í Mývatnssveit og með sérstökum myndatökuferðum og ferðum allt frá Öxarfirði í norðri til Reykjanestáar í suðvestri.

Ég fór í eins yfirgripsmikla vinnu og mér var unnt 2011 til þess að skila inn sérstökum umsögnum um Gjástykki, Kröfluvirkjun, Hrafnabjargavirkjun, Eldvarpavirkjun, Trölladyngjuvirkjun og virkjanir í Hólmsá og Skaftá fyrir hönd Framtíðarlandsins.´

Ég leitaði til sérfróðra manna við gerð þessara athugasemda og byggði þær á fjölmörgum skýrslum vísindamanna og sendi inn myndir, sem ég hef tekið á þessum virkjanasvæðum og náttúruverðmætum, - í mörgum tilfellum einu myndunum, sem til eru af þeim, enda látið í veðri vaka um sum þeirra að þau séu ekki til.  

En af hverju er ég að tiltaka þetta núna?  

Af því að ég neyðist til að grípa til varna fyrir mína hönd og annarra, sem eyddu mikilli vinnu í að senda inn umsagnir vegna rammaáætlunar. 

Nú heyri ég nefnilega að forsætisráðherra lætur í veðri vaka að hann hafi farið yfir þær ca 200 umsagnir, sem bárust haustið 2011 til iðnaðarráðuneytsins, en segir samt að þær séu 400 og allar sama athugasemdin og því ekki marktækar. 

Tekur þá sennilega með athugasemdir sem bárust þingmönnum og þingnefndum. Eða las hann hinar rúmlega 200 umsagnir sem iðnaðarráðuneytið fékk formlega?  

Ef svo er, passar það ekki við það sem ég fékk út úr því að kynna mér þær eftir föngum og gat ég ekki séð af hverju væri hægt að segja þær væru nær allar sama athugasemdin.

En alhæfing hans stendur.  

Þá veit maður það. Hæstráðandi til sjós og land hefur kveðið upp úrskurð sinn: Það er ekkert að marka þessar ahugasemdir mínar né aðrar, sem unnar voru af kostgæfni af fjölmörgu hæfu kunnáttufólki haustið 2011.

Nei, allt sama bullið.

Ég ,vinna mín og ævistarf mitt ásamt margra annarra er vegið og léttvægt fundið. Sömuleiðis niðurstöður skoðanakannana um stóriðju og heilan stóran þjóðgarð á miðhálendinu.  Fólk er fífl og ég þá sennilega mesta fíflið. 

Ég veit ekki til hvers maður hefur verið að þessu.  

 


mbl.is Stefna á breyttan ramma í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanirnar, ekki heimilin í fyrsta forgang?

Athyglisverð frétt var á Stöð 2 í kvöld og tilheyrandi viðtali við Bjarna Benediktsson. Upplýst var að færa ætti 18 virkjanakosti í áttina að því að virkja, ýmist úr verndarflokki í biðflokk eða úr biðflokki í virkjanflokk eftir atvikum.

Á fyrsta vinnudegi ríkisstjórnarinnar virðist þetta vera kristaltært. Það er ekki amalegt að komin sé almennileg ríkisstjórn sem kemur nauðsynlegustu málunum strax í verk á fyrsta degi en lætur önnur minni mál, eins og skuldamál heimilanna,  í hendurnar á ótal nefndum og starfshópum.

Samkvæmt fréttinni á að færa Bitru og Grændal, virkjanir með brennisteinsmengun, náttúruspjöllum og rányrkju við bæjardyr Hvergerðinga, úr verndarflokki í biðflokk  og þar með er stefnt að því að 18 af 19 virkjanaáætlunum á Reykjanesskaga fari á endanum í framkvæmd og að tryggt verði að ekkert verði friðað nema Brennisteinsfjöll. 

Gjástykki, svæði, sem á engan sinn líka í heiminum, er á listanum, og Norðlingaalda með uppþurrkun stórfossa Þjórsár og innrás í Þjórsárver. Og nú dúkkar Bjallavirkjun upp, með stíflu og miðlunarlóni við innganginn í Landmannalaugar.  Og aðrar 14 virkjanir. 

Á ráðstefnu um orkumál í gær sýndi bandarískur fyrirlesari á korti hvernig Yellowstone býr yfir langmestri orku í Bandaríkjunum í formi jarðvarma og vatnsorku. 

Verður þá ekki þessi gríðarlega "hreina og endurnýjanlega orka" virkjuð?

Nei. Þetta svæði er "heilög jörð" í augum Bandaríkjamanna" sagði fyrirlesarinn. Samt kemst Yellowstone ekki í flokk 40 merkilegustu náttúruundra jarðar eins og hinn eldvirki hluti Íslands gerir.

Bjarni Benediktsson fór með síbyljuna um "hreina og endurnýjanlega orku" og "forystu Íslands í umhverfismálum sem heimsbyggðin öll dáir okkur fyrir" og var hallelújasöngur ráðstefnunnar í gær frá upphafi til enda. 

Ég spurði forseta Íslands hvort Íslendingar skulduðu ekki sjálfum sér og umheiminum að hætta þeirri rányrkju að klára orku jarðvarmasvæðanna á 50 árum og vitnaði í kröfur "frumstæðra" indíánaþjóðflokka í Ameríku til sjálfra sín um sjálfbæra þróun eða endingu auðlinda í minnst sjö kynslóðir. 

Forsetinn svaraði með því að segja söguna af Sitting Bull, sem var eini indíánahöfðinginn, sem neitaði að semja um eitt eða neitt við hvíta menn.

Í kaffihléi töldu viðmælendur mínir að mér hefði ekki verið svarað.

Eftir næstum fimm klukkustunda hallelújasöng til dýrðar okkur spurði einn fundarmanna síðasta ræðumann álits á því að Íslendingar seldu orku fyrir 20 mills, helmingi minna fé en næmi kostnaðarverði, sem væri 40 mills.

Ræðumaðurinn sagðist ekki þurfa að fjalla neitt sérstaklega um þetta. "Þetta er rétt", sagði hann.

Fundi slitið og allir ánægðir. Amen og hallelúja!

Minnti mig á það á dögum vandaræðamála Bill Clintons þegar ungur blaðamaður ætlaði að slá um sig á blaðamannafundi með Mitterand Frakklandsforseta og spurði hann: "Er það rétt að þú hafir átt hjákonu í mörg ár?"

"Já", svaraði forsetinn. "Næsta spurning, gerið svo vel." Málið dautt. 


mbl.is Skattar lækki strax í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband