Nei, nei, nei, - ekki hætta !

Það er ekki oft sem handboltamaður hefur glatt mig eins mikið og Sigurður Eggertsson hefur gert í leikjum sínum í vetur og vor.  Ekki með því að stökkva himinhátt upp og þruma boltanum í skeytin, heldur með því að skjóta neðar, oftast í gegnum varnarveggi, að því er virðist í hvaða hæð sem honum þóknast.

Slík fjölbreytni og útsjónarsemi í skottækni og skotum er einstök og manni koma helst í huga Geir Hallsteinsson og Guðjón Jónsson á sinni tíð. 

Af því að þeir Geir og Guðjón tóku ekki upp á því að hætta einmitt þegar þeir voru að ná flugi, heldur glöddu þjóðina árum saman, þá vil ég leyfa mér að vera svo ósvífinn að biðja þau mæðgin, Sigurð Eggertsson og mömmu hans, að endurskoða ákvörðun sína. 

Hygg ég að ég mæli þar fyrir munn margra. En auðvitað geri ég mér grein fyrir því að það er frekja að vera að blanda sér í einkamál fólks með svona beiðni, og nær að þakka fyrir það að Sigurður hefur lægt þá rækt við íþrótt sína sem bar svo ríkilegan ávöxt síðustu mánuði og vikur. 

 


mbl.is Sigurður: Hættur fyrir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins aftur, eftir 43ja ára hlé!

Tveir handknattleiksþjálfarar settu mest mark á íslenskan handbolta fyrir 50-60 árum, Hallsteinn Hinriksson sem þjálfaði FH og Karl Benediktsson, sem þjálfaði Fram. Hallsteinn var fyrr á ferðinni og hafa sumir kallað hann föður íslensks handbolta, en þess má geta að handbolti var líka spilaður í litla íþróttahúsinu við M.R. og stóð Valdimar Sveinbjörnsson að því. 

Hafa mér fundist furðu gegna hugmyndir um að rífa þennan einstaka íþróttasal, hinn fyrsta, sem reistur var sérstaklega á Íslandi.

FH átti stórstjörnur í kringum á sjöunda áratug síðustu aldar, Geir og Örn Hallsteinssyni, Ragnar Jónsson, Birgi Björnsson, Hjalta Einarsson, Einar Sigurðsson, Pétur Antonsson o.fl., og voru það einkum skytturnar, sem voru rómaðar. 

Karl Benediktsson lét Fram spila öðruvísi handbolta, sem treysti meira á liðsheildina og leikkerfi með öguðum varnarleik og sókn með línuspili, sem hafði mikil áhrif á hinn blómstrandi íslenska handbolta á þessum áratug þegar Íslendingar urðu allt í einu í röð efstu þjóða á HM.

Dæmi um nýja tegund af skyttum var Guðjón Jónsson, sem skoraði yfirleitt með lúmskum lágskotum í gegnum varnarveggi á svo hógværan hátt að maður tók varla eftir því.

Upp úr 1970 kom fram tvíeykið Axel Axelsson og Björgvin Björgvinsson, sem var eitt hið besta tvíeyki sinnar tegundar sem ég minnist, - Axel sem skyttan og Björgvin sem línumaðurinn.

Því miður er ekki til einstætt myndbrot sem tekið var af þeim tveimur í landsleik við Austur-Þjóðverja þar sem Axel lyftir sér upp fyrir framan þéttan varnarvegg steratröllanna og skýtur föstu skoti, ekki yfir veginn, heldur niður á við, þar sem á milli tveggja varnartrölla sjást tvær útglenntar hendur og tvö augu á milli þeirra. 

Þar var Björgvin sem greip hið fasta skot, sneri sér eldsnöggt og skoraði!

Það er ekki tilviljun að Fram vann síðast tvöfalt 1970. Þá stóð sérstakt blómaskeið félagsins sem yljar enn í minningu gamals Fram-hjarta.  


mbl.is Tvöfalt hjá Fram í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Grafningsstjórnin"?

Nú hefur verið upplýst að stjórnarmyndunarviðræðurnar fari fram í landi Ölvesvatns í Grafningi og hefur alls konar heitum verið varpað upp í stíl við það þegar Viðeyjarstjórnin fékk nafn eftir staðnum, þar sem stjórnarmyndunarviðræðurnar fóru fram, og Þingvallastjórnin, sem var mynduð á Þingvöllum. 

"Ölvesvatnsstjórnin" er greinilega bæði langt og óþjált heiti og líka "Þingvallavatnsstjórnin."

"Grafninsstjórnin" er þjálla og skárra en sumt annað samanber þessa vísu, sem ég skaut fram á hagyrðingamóti í Kópavogi í kvöld: 

Að nefna stjórnina´er vandaverk, 

svo verði´hennar staða góð og sterk. 

Að gefa´henni nafnið Grafningssstjórn

mér gest betur að en Vafningsstjórn. 


mbl.is Ræða einföldun á skattkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gert hér á landi en er vandasamt.

Nútíma tækni í læknavísindum gerir það kleift að halda lífi í fólki löngu eftir að það er til neins. Af því leiðir að svonefnd líknardráp gerast hvort sem fólki líkar það betur eða verr, líka í þeim löndum, þar sem slíkt er ekki leyft samkvæmt lagabókstafnum.

Ég hygg að flestir þekki dæmi um svona tilfelli og þar með vaknar spurningin hvort skárra sé að hafa þetta eins og það er eða að setja um það reglur, sem séu það strangar og öruggar að komið sé með öllum ráðum í veg fyrir að eitthvað fari úrskeiðis eða sé ekki rétt metið. 

Ég veit um tilfelli þar sem börn hinnar deyjandi öldruðu manneskju treystu sér ekki til þess að taka ákvörðun um það hvenær hinn óhjákvæmilegi verknaður eða öllu heldur verkleysi að hluta til færi fram. 

Ákveðið var að fela það mat hinu reynslumikla og góða fagfólki sem viðhélt banalegunni vikum saman,  hvort og hvenær þetta yrði látið gerast. 

Í stað þess að aðstandendur ákvæðu dauðadægrið á þann hátt að allir gætu verið viðstaddir, var það niðurstaðan að fagfólkið tæki ákvörðunina um að draga nægilega úr hjálpinni við að halda við lífsmarki sem fjaraði svo óskaplega hægt út. 

Með því móti bæri dauðann að gagnvart hinum nánustu eins og um "eðlilegan dauða" væri að ræða. 


mbl.is Fékk aðstoð við andlátið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að breyta þessum reglum.

Ástæðan fyrir því að ákveðið var að styrkja stjórnmálaflokka, sem bjóða fram til Alþingis, var sú að það væri skárra og gera það þannig en að flokkarnir og framboð þeirra fengju fé frá einstaklingum og fyrirtækjum, sem þar með fengju óæskileg áhrif á stefnur og störf flokkanna í krafti ríkidæmis síns.

En það eru ýmsir gallar á þessum reglum, til dæmis það að úthluta í beinu hlutfalli við atkvæðafjöldann sem framboðin fá. Stór hluti af þeim kostnaði sem til fellur við framboð er nefnilega svipaður hjá þeim öllum. 

Frekar ætti að vera í gangi formúla um ákveðna lágmarksupphæð sem síðan hækkaði í öfugu kvaðratisku hlutfalli, þannig að framboð, sem fær fjórum sinnum meira fylgi en annað framboð, fái ekki fjórum sinnum hærri upphæð, heldur tvisvar sinnum hærri upphæð.

Einnig ætti að miða við þá forsendu að greiðslan miðist við að kjörtímabilið sé fjögur ár og standi yfir í fjögur ár, því að ekkert framboð fer af stað nema miða við það. Kjörtímabilið sem hófst 2007, varð það fyrsta í 30 ár, sem ekki entist nema hálfan þann tíma. 

Þetta hafði engin áhrif á fjórflokkinn, sem spilaði upp á það að öruggt væri um framhaldslíf hans, en litlu framboðin 2007 duttu út eftir tvö ár og fengu aldrei nema helming þess sem þau höfðu miðað fjármál sín við.

Afleiðing af slíku getur orðið sú, að í stað þess að lítið framboð sem sýniir ábyrgð og heldur sig vel innan þeirra marka sem fjögurra ára kjörtímabil gefur, lendir í því  að einstaklingar innan þess verði að burðast með ábyrgðarskuldir árum saman.

Í þriðja lagi ætti að lækka viðmiðunarmarkið fyrir fjárframlagi úr 2,5% niður í 1,7%, en það er atkvæðamagnið sem er á bak við hvern þingmann að meðaltali.  


mbl.is Flokkarnir fengu 1,2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ríflega hálfdrættingur á við fyrra veldi.

Einhver hefði látið segja sér það tvisvar snemma árs 2007 að eftir örfá ár yrði fylgi Sjálfstæðisflokksins eða fyrirrennara hans orðið aðeins ríflega helmingur af því sem það var stanslaust í meira en 80 ár frá um 1920-2006. Enn síður hefði það þótt líklegt að flokkurinn væri á niðurleið í fylgi á lokakafla kjörtímabils í stjórnarandstöðu í borginni.

Sömuleiðis hefðu fáir spáð því að Besti flokkurinn, sem margir töldu vera algerlega óábyrgt grínframboð alls óreynds fólks 2010, yrði á uppleið í fylgi þremur árum síðar eftir að hafa haft borgarstjórann og verið í meirihluta í þrjú ár með fulltrúm Samfylkingarinnar. 

Samkvæmt fylgistölunum núna er núverandi borgarstjórnarmeirihluti öruggur, en ástandið hlýtur að vera mikið áhyggju- og umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðismenn, sem stjórnuðu á sínum tíma borginni í meira en 70 ár samfellt að undanteknum árunum 1978 - 1982 og náðu allt upp undir 60% fylgi þegar mest var og fóru aldrei á þeim tíma niður fyrir tæplega 50%, tvöfalt hærra hlutfall en er núna í kortunum. 


mbl.is Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta lýsingin á Dallas og sápuóperum?

Þegar talið berst að Dallas og sápuóperum kemur mér oft í hug, það sem konan mín Helga Jóhannsdóttir sagði hér um árið þegar Dallas var sem allra vinsælast og mér finnst lýsa slíku sjónvarpsefni betur en flest sem ég hef heyrt.

Hún hafði verið í stuttu ferðalagi í Evrópu og kom heim eftir að hafa séð Dallas-þátt eða -þætti ytra, en í því landi voru þættirnir sýndir fyrr en á Íslandi.

Hún var samt ekki viss um hvað munurinn væri mikill á sýningartímanum þar og hér og spurði því við heimkomuna þegar tekið skyldi til við að horfa á þættina hér heima: "Hvað er Dallas komið langt? Er J.R. ennþá dauður?"

Betri lýsingu á Dallas og sápuóperum minnist ég varla að hafa heyrt.  


mbl.is Stjórnmálin eins og Dallasþáttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mættu líka fara í bíó.

Það er ágæt hugmynd að fara afsíðis í stjórnarmyndunarviðræðum eins og Sigmundur Davíð og Bjarni gera núna. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún fóru til Þingvalla og Davíð og Jón Baldvin út í Viðey.

Ólafur Jóhannesson sagði 1978, að það hefði bjargað því að hægt var að mynda stjórn það sumar, af því að Sjónvarpið var í sumarfríi í júlí !  img_7060.jpg

Nafnið Viðeyjarstjórn var snjallt áróðursbragð, af því að það var svo líkt nafni Viðreisnarstjórnar sömu flokka. Því ætla ég bara að vona að formenn Framsóknar og Sjalla séu ekki að ræðast við í Hrunamannahreppi, ég tala nú ekki um ef bústaðurinn er nálægt Hruna, því að þá er hætta á að stjórnin fái heitið Hrunastjórnin eða Hrunamannastjórnin.  img_7012_1200287.jpg

Ég held það væri líka hollt fyrir þá, ef þeir mættu vera að því, og þá kannski líka fyrir komandi umhverfis-og auðlindaráðherra, að skjótast í klukkustund klukkan sex einhvern daginn niður í Bíó Paradís og sjá myndina "In memoriam?" sem var gerð síðla árs 2003 og dregur áhorfendur inn í andrúmsloftið það ár fyrir réttum tíu árum. 

Í lok myndarinnar er eftirmáli og kíkt á nokkur atriði, sem eru með grafskriftinni "In memoriam" án spurningarmerkis.

Fyrir áratug var margt fullyrt og öðru haldið leyndu varðandi eðli og áhrif Kárahnjúkavirkjunar, og er dauði Lagarfljóts og útlitseyðilegging örlítið dæmi um það. img_7011.jpg

Myndin hér að neðan er af fljótinu fyrir virkjun og Kirkjufossi, sem var þurrkaður upp ásamt tveimur öðrum stórfossum auk tuga smærri fossa.

Einnig er mynd af Töfrafossi, en honum var drekkt í Hálslón. 

Nú stendur svipað fyrir dyrum og þegar eldur var lagður að þjóðarbúinu fyrir tíu árum og þenslu hleypt af stað, fyrst 2002, en síðan ákveðið 2003 með öflun meira en 600 megavatta orku fyrir eitt risaálver.img_7461.jpg

Fyrir liggja yfirlýsingar forráðamanna Norðuráls og annarra álfyrirtækja um að lágmarksstærð álvers til að það geti gefið nægan arð sé um 350 þúsund tonna framleiðsla á ári. 

Nú þarf 625 megavött fyrir risaálver syðra að mati sömu flokka, en það mun kosta á annan tug virkjana frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið, gríðarlegar fórnir náttúruverðmæta, auk þess sem stór hluti virkjananna verður hrein rányrkja, þar sem orkunni er sópað upp á háhitasvæðunum og kláruð á nokkrum áratugum. 

Er virkilega ekki hægt að hugsa sér eitthvað aðeins skaplegra en þessi ósköp? img_7466.jpg

Hvað um það, Það væri vel þegið ef sem flestir sæu sér fært að líta inn í klukkustund í Bíó Paradís klukkan sex þessa daga, sem myndin er sýnd þar. 

Myndin fjallar ekki aðeins um Kárahnjúkavirkjun heldur einnig um hálendið norðan Vatnajökuls og stöðuna varðandi það, eins og hún var 2003.  img_6998_1200291.jpg

Neðsta myndin er af helmingi hins 25 kílómetra langa og 200 metra djúpa Hjalladals sem var sökkt með tæplega 40 ferkílómetrum af gróðurlendi auk einstæðra jarðminja, svo sem sethjalla og litfagurra og fjölbreytilegra kletta og gljúfurs á botninum. 

Bæti síðan við mynd af Herðubreið í miðnætursól, séðri ofan frá Vatnajökli suður af Kverkfjöllum. 

Rétt er að geta þess að þessum myndum er kippt út úr kvikmyndinni á afar frumstæðan hátt og því hvergi nærri í fullum gæðum. 


mbl.is Fóru saman út úr bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir reknir á Íslandi ?

Susannah Colins var rekin fyrir mismæli í íþróttafrétt sem hún flutti í Bandaríkjunum, sagði "sex" í staðinn fyrir "success". 

Það er eins gott að svona harka viðgangist ekki hér á landi. Svo oft þurfa íþróttafréttamenn að segja "sex", að flestir yrðu reknir á fyrsta degi.  


mbl.is Rekin eftir að hafa sagt „kynlíf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "forsendubrestur" bara sums staðar ?

"Forsendubrestur" er orðið sem notað er um það að vegna skyndilegrar lækkunar krónunnar tvöfölduðust skuldir heimilanna.

Það hefði ekki þurft að vera eins hroðalega slæmt og það var nema vegna þess að flokkarnir tveir sem nú eru að semja um stjórn landsins næstu fjögur ár höfðu hrundið af stað ferli, sem fjórfaldaði skuldir heimilanna á örfáum árum, á meðan sett var á tilbúið "gróðæri" af áður óþekktri stærð, sem sprakk síðan auðvitað í höndunum á þeim sem kveikt höfðu eldana.

En það eru til fleiri útgáfur af "forsendubresti". Forsenda þess að fólk greiðir af launum sínum í lífeyrissjóð er sú hugsun að á síðustu árum ævinnar geti það treyst á að geta veitt sér mat og húsaskjól. 

Í tugþúsundum tilfella hrekkur lífeyririnn illa eða alls ekki til hjá þeim sem lægstan hafa hann. 

Þess harkalegra er það þegar látið er sem forsendan fyrir myndun lífeyrissjóðanna sé ekki eða hafi aldrei verið til, heldur sé í góðu lagi að taka þessa peninga til þess að borga annars konar "forsendubrest", sem í mörgum tilfellum var bundin forsendum, sem gátu augljóslega ekki gengið upp og margir af helstu kunnáttumönnum í þessum málum vöruðu sterklega við strax í upphafi að gæti ekki endað með öðru en með ósköpum. 

Engir slíkir vöruðu þá launþega við, sem lögðu fé í sína lífeyrissjóði, við því, að forsendurnar fyrir því að leggja af launum sínum í þá væru rangar, heldur gerðu allir þetta í góðri trú á siðvætt þjóðfélag réttlætis og sanngirni.

Þeir, sem nú vilja seilast í þetta fé umfram það sem þegar hefur verið gert með slæmum afleiðingum fyrir lífeyrisþega velja sér "forsendubrest" að geðþótta á vægast sagt ósiðlegan hátt.  


mbl.is „Slíkt væri stríðsyfirlýsing“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband