17.4.2013 | 14:07
"Hvernig gat ég verið svona blindur?"
Bóndi einn stóð upp á opnum fundi um síðustu aldamót og lýsti því, að hann hefði áratug fyrr verið svo illur út í mig fyrir umfjöllun mína í sjónvarpi um ástand gróðurs í Þórsmörk og á Almenningum tíu árum fyrr, að hefði hann haft byssu og séð mig þar á þeim tíma, þá hefði hann verið í því hugarástandi að skjóta mig á færi.
"En nú er ég nýlega", sagði bóndinn, "búinn að fara þarna inn eftir og sjá, hvernig ástandið er núna, og ég sagði við sjálfan mig þegar ég kom þangað í sumar: "Hvernig gat ég verið svona blindur?"
Þessi lýsing bóndanst á við allar tegundir afneitunar á raunverulegu ástandi, svo sem ofneyslu áfengis, afneitun sem oft er þannig, að viðkomandi trúa því sjálfir að hún feli í sér sannleikann.
Set hér kannski inn myndir af Þórsmörk og Almenningum ef færi gefst.
Þegar ég var að gera þætti og fréttir um þessi mál á níunda áratugnum heyrði ég oftast það viðkvæði hjá heimamönnum, að ég væri aðkomumaður og hefði ekki vit á þessum málum. Heimamenn vissu hins vegar að ástandið hefði alltaf verið svona.
Ég var að byrja að trúa þessu þegar ég tvennt opnaði augu mín. Á nokkrum árum í rallakstri um Kjalveg hafði ég tekið eftir því að stórar gróðurtorfur hurfu á örfáum árum svo ótrúlega hratt.
Og þegar ég kom í Kaldárrétt og fékk þessi svör, gat ég svarað á móti: "Þetta er ekki rétt hjá ykkur. Ég var hér í sumardvöl þrjú heil sumur 1947 til 1949 og veit, að gróðri hefur hrakað hér síðan."
Fáar þjóðir eiga eins færa vísindamenn og kunnáttumenn um þessi mál og við Íslendingar. Einn þeirra, Ólafur Arnalds, er eini Íslendingurinn sem hefur fengið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
Það verður því að skipa nefnd manna sem ekki eiga hagsmuna að gæta eða tengjast hagsmunaaðilum til að fjalla um það, hvort beita eigi fé á Almenninga og stefna þar í hættu uppgræðslu, sem er og verður á viðkvæmu stigi næstu ár og áratugi.
![]() |
Segja úrskurðinn ekki standast lög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.4.2013 | 08:51
Drægið reynist aðalatriðið.
Það liðu ekki mörg ár frá því að bílaöld hófst í raun á Íslandi fyrir réttum hundrað árum þangað til búið var að setja upp bensínstöðvar úti á landi. Síðan þá hefur notendur bílanna getað gengið að því vísu að geta lagt af stað upp í akstur án þess að þurfa að hafa sérstakar áhyggjur að verða eldsneytislausir.
Eftir hátt í aldar reynslu af þessu er skiljanlegt að notendur rafbíla setji fyrir sig takmarkað drægi þeirra.
Eldsneytislaus rafbíll er í raun á sama stigi og bilaður bíll.
Jafnvel þótt hægt sé að stinga honum í rafsamband á staðnum jafngildir hann biluðum bíll meðan beðið er eftir því að hægt sé að aka honum aftur af stað.
Þegar fyrstu rafbílarnir komu hingað fyrir um 15 árum lét ég mér detta í hug að hægt væri að leysa þetta með rafbílum, sem væru þannig útbúnir, að hægt væri á afar fljótlegan og einfaldan hátt að skipta út tómum rafgeymum og hlöðnum á álíka löngum tíma á þjónustustöðvum og nú tekur að fylla bensíngeymi.
Þetta varndamál hefur hins vegar ekki tekist að leysa, heldur er reynt að framleiða blendingsbíla, þar sem eldsneyti á bílnum getur tekið við af raforkunni sjálfkrafa þegar raforkuna þrýtur.
Þessi bílar eru flóknari og dýrari smíð en annaðhvort rafbílar eða bensín/dísilbílar og þar hefur hnífurinn staðið í kúnni.
En það er framþróun í þessum málum, og vegna þeirrar sérstöðu Íslands að hafa yfir hreinni raforku að ráða hljótum við að stefna að því að vera í fararbroddi í þessum efnum.
![]() |
Verðum í fararbroddi rafbílavæðingarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.4.2013 | 23:48
Tvö gerólík lönd þessar vikurnar.
Stundum er sagt að tvær þjóðir búi í landinu þegar kjörum er misskipt á milli þjóðfélagshópa.
En þetta getur líka átt við um landshagi, veðurfar og umhverfi.
Þannig er litla Ísland er eins og tvö gerólík lönd eða heimsálfur þessar vikurnar. Ég var að koma ofan frá Akranesi í kvöld í opnum bíl í 8-9 stiga hita á sama tíma snjóflóð falla á norðanverðu landinu og þar er allt á kafi í snjó og frera.
Þetta gerist helst á vorin og sem betur fer getur myndin stundum snúist við á sumrin þegar svöl og hryssingsleg suðvestan áttin með skúrum lemur syðri hluta landsins, en heitur og þurr hnjúkaþeyr með meira en 20 stiga hita steypist ofan af hálendinu fyrir norðan og austan í sólskini um sumardýrð.
![]() |
Minna slasaður en talið var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2013 | 14:13
Hver dagur er gjöf.
Hver dagur lífsins er gjöf. Stundum er munurinn á milli þess að lifa þann daginn og að hann verði hinn síðasti afar lítill og mínúta getur til dæmis skipt máli eins og kemur fram í frétt á mbl.is.
Ég er til dæmis þakkláttur fyrir mörg skipti, þar sem litlu mátti muna og rakst á eitt þeirra þegar ég var að þýða myndina "In memoriam?" sem ég gerði fyrir tíu árum um Kárahnjúkavirkjun fyrir erlendan markað og ætla að frumsýna hér á landi á næstunni, ef Guð lofar.
Set hér inn stillimyndir úr kvikmyndarskeiði úr myndinni og rétt er að taka fram, að vegna þess hvernig þær eru teknar út, eru þær óskýrar, og að fyrir slysni er ljósmynd úr lokum atburðarásarinnar efst.
Á næstefstu ljósmyndinni stend ég eins og lítill dökkur depill neðst í horninu vinstra megin upp við tvö stór ísbjörg undir munna íshellis í Kverkfjöllum og er að gera viðvörunarfrétt vegna hættu á íshruni.
Segi frá því að u.þ.b. einu sinni á hverju ári hrynji jafnvel allt hellisþakið niður þarna yst.
Síðan hleyp ég burtu og byrja aftur að taka mynd fjær, en þá, um það bil mínútu eftir að ég stóð upp við ísbjörgin, hrynur ca þúsund tonna ísstál niður.
Á fjórðu mynd ofan frá sjást ísbjörgin, sem staðið var við, ennþá en eru á næstu mynd, næsta sekúndubroti, horfin sekúndubroti síðar inn í griðarlega flóðbylgju, sem þeytist meir en tíu metra upp í loftið, blönduð stórum íshnullungum, skellur yfir staðinn þar sem ég stóð rétt áður.
Líkurnar á að ná þessu kvikmyndarskeiði á þann hátt sem það var tekið, með inn"súmmi" og útsúmmi, var um einn á móti 30 milljónum !
Já, maður má þakka fyrir hvern dag, hverja stund og hverja mínútu.
![]() |
Mínúta sem skilur á milli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 17.4.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2013 | 10:39
Koltrefjarnar enn í sókn. "Eitthvað annað".
Það eru nokkrir áratugir síðan koltrefjar (composite) komu til sögunnar í flugvélagerð og fyrstu flugvélarnar, smíðaðar nær eingöngu úr þessu efni, komu til sögunnar.
Þetta voru yfirleytt litlar flugvélar, oft heimasmíðaðar. En síðan hafa þessi efni rutt sér til rúm, hægt og bítandi, og nýjasta Dreamlinerþotan hjá Boeing er að stórum hluta úr þessu efni, stærri hluta en nokkur önnur slík vél núna.
Þegar vélinni var hleypt af stokkunum sagði forstjórinn að þetta efni væri framtíðin og að hugsanlega sæu menn fram á stóra þotu þar sem ytra byrðið að minnsta kosti væri allt úr þessum efnum.
Af hverju?
Jú, vegna þess að í hverri þotu úr áli eru þúsundir svokallaðra hnoða, það er hnoðnagla, sem festa einstakar álplötur saman. Til þess að hnoða þessi hnoð þarf mörg hundruð starfsmenn, sem kostar fé að hafa í vinnu.
Orkan, sem þarf til að framleiða koltrefjar, er brot af þeirri orku sem þarf til að framleiða jafn mikið magn af áli.
Þess vegna er framrás koltrefjannna vondar fréttir fyrir áltrúarmenn á Íslandi, sem eru eins og nátttröll frá liðinni öld, þar sem sú trú var lögfest á Íslandi að því meiri orku sem hægt væri að selja "orkufrekum iðnaði", þ. e. stóriðju, á sem allra lægstu verði, því betra.
Koltrefjarnar eru í þeirra huga eitt af því vonda, sem fellur undir hugtakið og skammaryrðið "eitthvað annað."
Nú er runnin upp öld, þar sem orðið og takmarkið "orkumildur iðnaður" er ekið við af eftirsókninni eftir orkubruðlinu því að annars mun mannkynið ekki komast í gegnum 21. öldina.
En áltrúarmenn mega ekki heyra slíkt nefnt. Þeir lifa aðeins fyrir líðandi stund og gefa skít í líf og kjör komandi kynslóða.
![]() |
Undirbúningur á fullu í koltrefjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.4.2013 | 01:18
Hundruð frambjóðenda hafa ekki getað kosið sig sjálfa.
Síðan núverandi kjördæmaskipan var tekin í meginatriðum1959, hafa Alþingiskosningar verið haldnar 17 sinnum og frambjóðendur hafa samtals verið vel á annan tug þúsunda. Algengt hefur verið að fólk hafi boðið sig fram í öðru kjördæmi en það hefur átt lögheimili í og er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gott dæmi um það.
Í kosningunum 2007 var ég til dæmis í framboði í öðru kjördæmi en ég á heima í og þetta er mjög algengt.
Þessi vegna finnst mér það varla fréttnæmt þótt svona sé háttað um Sturlu Jónsson en öllu fréttnæmara verður hvernig framboðinu reiðir af í höndum landskjörstjórnar á morgun.
![]() |
Sturla getur ekki kosið Sturlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2013 | 19:41
Eini óumbreytanlegi þingmeirihlutinn.
Þrátt fyrir kröfu þjóðfundar og þjóðaratkvæðagreiðslu um jafnt vægi atkvæða og aukið persónukjör, sem frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár endurspegaði, virðist einhver ósýnilegur þingmeirihluti þvælast fyrir umbótum í þessum málum.
Það leiðir hugann að því að allt frá október 1959 hefur verið einn og sami þingmeirihlutinn allan þennan tíma:
Það er sá meirihluti þingmanna sem er fyrir hverjar kosningar í "öruggum sætum" og getur setið rólegur á kosninganótt með sitt glas og fagnað því óhjákvæmilega, að vera kosnir á þing.
Þetta myndi breytast ef val þingmanna yrði alfarið fært inn í kjörklefana. Nú eru svo miklar sviptingar á atkvæðafylginu að hugsanlega gæti þetta breyst 27. apríl.
Þess má geta, að í síðustu kosningunum með gamla laginu, í júní 1959, féll Emil Jónsson forsætisráðherra í kjördæmi sínu í Hafnarfirði, og Jón Pálmason, forseti sameinaðs Alþingis, féll í Austur-Húnavatnssýslu.
![]() |
82% munur á atkvæðavægi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2013 | 12:15
Dregur enn í sundur með Framsókn og Sjöllum.
Þótt Sjálfstæðisflokkurinn bæti við sig 1,7 prósentustigum bætir Framsókn við sig 2,5, þannig að það dregur enn í sundur með þeim. Ef Sjallar eru ánægðir með þetta gildir hið fornkveðna, að "litlu verður Vöggur feginn."
Rétt eins og í byggðakosningunum 2010 skín í gegn óánægjan með núverandi stjórnmálaöfl og hegðun stjórnmálamanna, til dæmis á Alþingi, að undanskildum Framsóknarflokknum að sjálfsögðu.
Einhver hefði látið segja sér það tvisvar að tveir nýir flokkar, Björt framtíð og Píratar, væru komnir í svipað fylgi og Samfylkingin, að Vinstri grænir stefndu í að fá aðeins um þriðjung þess fylgis, sem þeir fengu í kosningunum 2009 og að meira en 30% kjósenda ætluðu að kjósa einhver önnur framboð en fjórflokkinn.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.4.2013 | 23:06
Höfnin of frek? 83% þjóðarinnar líka of frek?
Sú var tíðin að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skynjuðu og skildu þann uppruna og hlutverk borgarinnar að vaxa og dafna á forsendum þess að vera helsta miðstöð samgangna og þjóðustu sem höfuðborg og stóðu vörð um þetta hlutverk.
Þeir sáu að forsenda tilvistar borgarinnar frá upphafi hafði verið hve vel hún lægi á krossgötum samgangna, sem þá voru við gömlu Reykjavíkurhöfn þar sem sjóleiðin frá útlöndum og ofan af Akranesi og Borgarnesi mætti landleiðinni austur fyrir fjall og suður með sjó.
Nú hafa stærstu krossgötur landsins hins vegar færst austur að Elliðaám, en þetta virðast borgarfulltrúar Sjalla alls ekki skilja, haldur tönnlast á að miðja borgarinnar sé enn í Kvosinni og hafa nú tekið að sér forystu andstöðunnar við flugvöllinn ef marka má útspil þeirra varðandi flugvöllinn, sem þeir segja vera og "frekan" til rýmis.
Flugvallarsvæðið er um 7% af svæðinu vestan Elliðaáa eða álíka stórt svæði og Reykjavíkurhöfn tekur.
Nú má búast við að næsta skref hjá Sjallafulltrúunum verði að leggja höfnina niður af því að hún sé "of frek í umhverfi sínu" og að betra sé að reisa íbúðabyggð þar í staðinn.
Miklabrautin ein er hálfdrættingur á við flugvöllinn í "frekju" og verður kannski þar næsta verkefni að leggja hana niður.
Síðan vill svo til að 83% tóku afstöðu með flugvellinum í síðustu skoðanakönnun um hann og greinilegt að Sjallafulltrúarnir telja það fólk "of frekt í umhverfi sínu."
Æ, hvaða vesen er það að allt þetta fólk skuli hafa svona óæskilega skoðun og vera svona frekt.
![]() |
Flugvöllurinn of frekur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
14.4.2013 | 17:44
Mikil gróska og fjölbreytni hjá unga tónlistarfólkinu.
Hlutverk tónlistarskólanna í þjóðlífinu verður seint ofmetin. Unga hæfileikafólkið, sem þar er alið upp og menntað, hrífur mann þegar tækifæri gefst til að heyra það sem það hefur fram að færa.
Sérstaklega er gaman að því heyra, hvað unga fólkið er opin og fordómalaust gagnvart tónlistarstefnum.
Þannig hefði maður haldið að gamla harmonikkutónlistin og það hljóðfæri yfirleitt þætti unga fólkinu einstaklega hallærislegt og gamaldags.
Þess vegna kom það þægilega á óvart að heyra Harmonikkukvintett Reykjavíkur, skipaðan æskufólki, sem hlaut verðlaun á Nótunni í fyrra, flytja alveg einstaklega áhugaverðar og góðar útsetningar á lögum, sem fyrirfram hefðu kannski þótt líkleg til að henta vel fyrir harmonikkuleik.
Þetta er dæmi um það, að það sem einu sinni var gott en hefur ýmist fallið í gleymsku eða dottið úr tísku, verður alltaf gott og getur þess vegna komist í tísku á ný.
![]() |
Guðföðurnum fagnað í Hörpu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)