10.12.2014 | 10:00
Veldishlaðin fjölgun og veitir ekki af.
Sú var tíðin að langur tími, jafnvel ár, liðu á milli þess sem nýjar gerðir rafbíla eða eitthvað nýtt gerðist á þeim örlitla markaði.
Síðustu misseri hefur orðið veldishlaðin fjölgun rafbíla bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, bæði hvað snertir framboð á bílum og sölu.
Samt er salan enn ekki nema lítið brot af þeim tugum milljóna bíla, sem eru framleiddir árlega í heiminum.
Ekki þarf annað en líta á það sem hefur verið kynnt allra síðustu dagana, e-Golf, Kia Soul og Renault Zoe, til að sjá hve mikil breyting hefur orðið á þessum bílum frá því sem áður var, bæði tæknilega og ekki síst útlitslega.
Fyrstu árin voru rafbílarnir oft sérkennilegir í útliti og rafgeymarnir og vélbúnaðurinn tóku mikið rými, sem bitnaði bæði á farangursrými og rými fyrir farþega.
Tesla rafbílarnir jörðuðu endanlega þessa ímynd og nýjustu bílarnir líta þannig út að engin leið er nema fyrir sérfræðinga að sjá mun á þeim og venjulegum bílum, og gildir það jafnt um innanrými og útlit.
Þetta á til dæmis við um Kia Soul og e-Golf, en kannski er Renault Zoe besta dæmið um það hve fallegir þessir bílar geta verið. Ætlal að skutla mynd af honum inn á faceboo síðu mína á eftir.
Nú fer fram vinna við stefnumótum í rafbílamálum í kjölfar heimsóknar norsks sérfræðings um þau mál hingað til lands og yfirlýsinga forsætisráðherra á ráðstefnunni, sem þessi norski sérfræðingur talaði á.
![]() |
Með 58% hlutdeild í rafbílamarkaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2014 | 08:47
Stórhríð í Reykjavík um áttaleytið. Beint frá Norðurpólnum.
Sjá má á vedur.is að veður í Reykjavík var orðið mun verra nú klukkan átta en það hafði verið í nótt, rakastigið óð upp í 91% og vaxandi vindur. Þreifandi bylur.
Á "beinu útsendingunni" af veðrinum má sjá að þetta kalda, raka loft, er komið rakleiðis frá Norðurpólnum, stystu leið á hámarks hraða og síðari hluta leiðarinnar yfir rakan sjó, sem er hlýrri en hann var áður.
Það, hve mikill hluti leiðarinnar liggur yfir sjó, stærri en var þegar ísbreiðan var meiri á árum áður, skýrir hvers vegna það er blindþreifandi snjókoma í þessu veðri.
"Kuldatrúarmenn" halda að aukin snjókoma, eins og til dæmis metsnjókoman í Buffalo í Bandaríkjunum, stafi af því að lofthjúpur jarðar fari "hratt kólnandi" á sama tíma og stefnir í það að árið 2014 verði það heitasta að meðaltali á jörðinni frá upphafi mælinga.
En snjókoman er fyrst og fremst merki um meiri úrkomu, ekki meiri kulda, og vaxandi fjöldi fárviðra merki um aukin átök milli heits og kalds lofts vegna hlýnunarinnnar.
Því að í skammdeginu er myrkur á Norðurpólsvæðinu allan sólarhringinn vikum og mánuðum saman og þar með sami efniviður þar í hefðbundinn vetrarkulda og ævinlega.
![]() |
Búið að loka Þrengslunum líka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2014 | 22:45
Fárviðrið komið á mörgum veðurstöðvum.
Fárviðrið, sem spáð var á Vestfjörðum er þegar þetta er skrifað komið á mörgum veðurstöðvum vestra.
Á sumum, eins og í Æðey er samfellt fárviðri eða 33 m/sek eða meira en á veðurstöðvum allt frá Bjargtöngum til Hjallaháls og Gjögurs er fárviðri í hviðunum.
Vindurinn komst í 47 m/sek í hviðum í Æðey klukkan 20:00 og fór yfir 40 m/sek á nokkrum öðrum stöðum. Það hefðu verið talin 14 vindstig í gamla skalanun.
Allt þetta og meira er hægt að sjá á vedur.is.
![]() |
Sjáðu fárviðrið í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2014 | 17:15
Ekki svona slæmt síðan 1995 ?
Á undan snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri fóru alveg dæmalaus slæmar veðurspár, sem gengu eftir.
Vindáttin var að vísu norðvestanstæðari en spáð er nú, ásamt gífurlegri snjókomu, sem varð til þess að snjóflóðin féllu á þessar byggðir og voru miklu stærri en áður hafði þekkst.
Ég minnist þess ekki að hafa séð svona slæma veðurspá fyrir Vestfirði síðan þá.
Það þarf ekki að þýða að önnur eins snjóflóð falli núna og 1995, og þar að auki er búið að gera ráðstafanir með snjóflóðavörnum, rýmingaráætlunum og niðurfellingu vetrarbyggðar þar sem það á við.
Í aðdraganda Súðavíkursnjóflóðsins var spáð versta veðrinu á Norðvesturlandi, og því fór ég kvöldið áður akandi upp á Laxárdalsheiði til þess að vera kominn tímanlega á svæðið.
Víst varð snælduvitlaust veður þar en fyrir bragðið ekki hægt að komast þaðan fyrr en daginn eftir og þá var ljóst að veðrið hafði orðið illvígast á Vestfjörðum.
Þannig er ævinlega nokkur óvissa um það hvar óveður, sem spáð er, verða verst, og einnig hvort þau verða skárri eða jafnvel verri en spáð er.
Vonandi fer þetta betur nú en á horfist þannig að þetta verði verst á Halamiðum, þar sem engin skip ættu að vera núna.
![]() |
Ekki batnar spáin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2014 | 06:56
Gleymda orsökin.
Eldsneytisverð vegur mjög þungt í þjóðarbúskap nútímaþjóða og hefur miklu meiri áhrif á hann en oft er látið í veðri vaka, til dæmis núna.
Jafn mikil lækkun og orðið hefur á eldsneytisverðinu er líkast til aðalástæðan fyrir minnstu verðbólgu í áraraðir og þeim stöðugleika, sem gumað er af.
Ef horft er til baka má sjá hið gagnstæða á árunum í kringum 1980.
Uppreisn klerkanna í Íran og fall Íranskeisara 1979 olli mestu verðhækkun á olíu, sem orðið hafði síðan í kjölfar Yom Kippur stríðsins 1973. Og bæði 1979 og 1973 misstu íslenskar ríkisstjórnir tökin á verðbólgunni.
Þótt margir hafi talið ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980 einhverja þá slökustu í lýðveldissögunni verður að virða henni það til vorkunnar að eldsneytishækkunin, sem dundi yfir nokkurn veginn á sama tíma og ríkisstjórn hans tók við völdum, hafði alveg sérstaklega slæm áhrif á þjóðarbúskap Íslendinga.
Hafa verður í huga að á þessum tíma vorum við enn afar háðir innflutningi á eldsneyti til húshitunar í viðbót við eldsneytið á samgönguflotann á sjó og landi.
Ríkisstjórn Gunnar réðist í miklar framkvæmdir við hitaveitur víða um land og það kostaði fjárútlát. Það var ekki fyrr en síðar sem landsmenn fóru að njóta góðs af þessum framkvæmdum.
Í landinu ríkti kapphlaup milli verðlags og kaupgjalds sem öllum ríkisstjórnum á þessum tíma reyndist óyfirstíganleg hindrun við að reyna að ná verðbólgunni niður.
Fyrri hluta árs 1983 var svo komið að verðbólgan hér á landi sló öll met, komst yfir 100%.
Hafi einhvern tíma orðið "forsendubrestur" á lánamarkaði var það þá.
Svo aftur sé litið til nútímans sýnist skortur á trúnaði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vera helsta ógnunin við það að hægt sé að halda verðbólgunni áfram niðri og koma í veg fyrir að verðbólguskrúfan fari aftur að stað.
Núverandi "stöðugleiki" kann því miður að vera logn á undan storminum þótt vonandi sé að slík hrakspá rætist ekki.
![]() |
Bensínið hefur lækkað um 33 kr. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2014 | 22:49
Fengu að ráða 1999. Af hverju ekki nú?
Hornfirðingar fengu að ráða því þegar mörk voru dregin milli nýrra og stærri kjördæma við síðustu kjördæmabreytingu hvort þeir vildu vera í Suðurkjördæmi eða Norðausturkjördæmi, en þeir höfðu tilheyrt Austurlandskjördæmi fram að því.
Þeir vildu frekar flytja sig um set yfir í Suðurkjördæmi, en spurningin er hvort þeir hefðu nokkuð verið spurðir um þetta á okkar dögum í ljósi nýjustu tíðinda um hliðstætt mál.
Samt voru völd þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar einhver mestu völd tveggja manna hér á landi á okkar tímum, og Hornafjörður var heimabyggð Halldórs og fram að því hluti af kjördæminu, sem hann var fyrsti þingmaður í Austurlandskjördæmi.
Þrátt fyrir þetta voru Hornfirðingar látnir ráða því sjálfir að þeir yrðu fluttir yfir í annað kjördæmi.
Þess vegna vaknar sú spurning hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,forsætisráðherra,fyrrverandi dómsmálaráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturausturkjördæmis,sé ráðríkari en Halldór og Davíð voru á sinni tíð, fyrst bæjarstjórn Hornarfjarðar skorar á dómsmálaráðherra að afturkalla þá ákvörðun Sigmundar Davíðs að Hornafjörður skuli tilheyra Norðausturkjördæmi.
Hluti af skýringunni kann að vera sú, að kjördæmabreytingin 1999 var gerð með samþykki allra þáverandi þingflokka á grundvelli starfs sérstakrar stjórnarskrárnefndar, og þeir Halldór og Davíð gátu því kannski ekki beitt sér eins í þessu máli Hornfirðinga og Sigmundur Davíð getur nú með því að nota sér völd sín til að ákveða þessi mörk lögregluumdæma að eigin geðþótta.
![]() |
Breyti reglugerð um lögregluumdæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2014 | 17:58
Flýtið ykkur að taka myndir áður en þessu verður fórnað!
Hryggjarstykkið í myndbandi, sem birt er af Íslandi á Youtube um helgina er Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti.
Hann er einn af tugum fossa og hundruðum náttúrufyrirbæra sem til stendur að fórna fyrir "orkufrekan iðnað".
Búið er að stofna sérstakt félag með þáttöku Orkuveitu Reykjavíkur og fjárfesta að norðan til þess að byggja stíflu til þess að sökkva 25 kílómetra löngum dal fyrir innan Hrafnabjörg, grónum að stórum hluta enda er þessi skjólsæli dalur vin í norðurjaðri hálendisins.
En við fólk er sagt að verið sé að sökkva urð og auðn uppi á hálendinu og fegra landið með "snyrtilegum miðlunarlónum."
Auk Aldeyjarfoss á að þurrka upp nokkra fallega fossa fyrir ofan hann, þeirra á meðal Hrafnabjargarfoss.
Þetta er bara eitt dæmið af mörgum þar sem hingað til hefur ekki komið til greina að friða þessi náttúrudjásn, heldur stefna ótrautt að því að virkja.
Nú þegar hafa nokkrir af stærstu fossum landsins verið þurrkaðir upp eða lemstraðir fyrir stóriðjuna, svo sem Töfrafoss, Kirkjufoss og Faxi fyrir austan, og fyrir skemmstu flaug ég niður eftir efri hluta Þjórsár og sá hvernig Hvanngiljafoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss voru ekki nema ræflar miðað við það sem þeir voru áður en svonefnd Kvíslaveita tók 40% af vatnsmagni þeirra fyrir stóriðjuna.
Dynkur og Gljúfurleitarfoss voru ósnortnir jafnokar Gullfoss að hæð og vatnsmagni og að mínum dómi er Dynkur í fullu rennsli flottasti stórfoss landsins.
Fyrir tveimur vikum var þessi foss, sem er samansafn um það bil fimmtán fossa í sama fossstæðinu aðeins þrír ræfilsfossar öðru megin í því, en að öðru leyti var stæðið þurrt.
Dynkur nær sér að vísu aðeins á strik í nokkrar vikur seinni parts sumar í góðum vatnsárum en hjá ráðamönnum þjóðarinnar er einbeittur vilji til þess að drepa hann og hina fossana alveg með Norðlingaölduveitu, þótt eitthverju smárennsli sé lofað í stuttan tíma síðsumars.
Auk sóknarinnar í virkjanir fyrir stóriðjuna ("orkufrekur iðnaður er sama og stóriðja, - orkubruðl) er ásókn í gerð sæstrengs til Skotlands sem mun valda þvílíku virkjanaæði hér á landi að engu verður eirt.
Ég vek athygli á því að myndirnar af Aldeyjarfossi eru teknar þegar snjóföl er á jörðu og það er stór hluti af áhrifamætti þeirra.
Það er sameiginlegt öllum hugmyndum um virkjun fossa landsins að ekkert rennsli verður í þeim á veturna, sama hvað útfærsla er notuð og allar vetrarmyndir því út í hött.
Þess vegna er full ástæða til þess að segja við útlendingana: Flýtið ykkur að koma til þess að taka af þessu myndir áður en því verður fórnað!
![]() |
Ótrúlega fallegt myndband af Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.12.2014 | 00:41
Skynsamlegustu og sígildustu orð Íslendingasagnanna?
Ég var að horfa á snerru Guðna Ágústssonar og Kolbrúnar Bergþórsdóttur í sjónvarpsþættinum Eyjunni út af Hallgerði langbrók. Bæði eru stórskemmtileg á skjánum og alltaf gaman að heyra í þeim.
Þótt Kolbrún hefði kannski eitthvað til síns máls varðandi galla Hallgerðar hef ég lengi verið á þeirri skoðun að rétta þurfi hlut Hallgerðar varðandi álit þjóðarinnar á henni.
Alveg sérstaklega er ég ósammála því að neitun hennar við hjálparbeiðni Gunnars á ögurstundu hafi verið hennar versta verk, sem eigi að verða henni til ævarandi skammar og nægi eitt til þess að henni verði eilíflega hallmælt.
Þvert á móti dreg ég taum Hallgerðar algerlega varðandi þetta atriði.
Þegar Gunnar sló hana kinnhestinn í viðurvist allra á bænum sýndi hann henni alveg sérstaklega mikla óvirðingu samkvæmt þeirra tíma viðhorfum. Hann niðurlægði hana fyrir framan alla á þeim vettvangi, heimilinu, þar sem reisn konunnar og virðing átti að vera óskoruð.
En samt er þetta ofbeldisverk Gunnars ekki aðalatriði í málinu, þótt það sé Hallgerði til málsbóta, heldur hin magnaða setning sem höfð er eftir henni þegar Gunnar segir við hana að óvinir hans muni ekki getað drepið hann meðan hann komi boganum við, og því muni hann þurfa hárlokk hennar í bogastreng.
Hallgerður sér hins vegar firringuna og ofmat hans á sjálfum sér birtast í þessum orðum hans, því að augljóslega er við ofurefli að etja og morgunljóst að honum muni ekki verða eirt lifandií landinu ef hann hlítir ekki útlegðardómnum og lögum og rétti þess tíma.
Hún mælir því orð, sem eru sígild og eiga við hvar sem er í heiminum, þegar karlrembur standa fyrir stríði og manndrápum af einskærri hernaðarhyggju:
"Hirði ég eigi um hvort þú verð þig lengur eða skemur."
Hallgerður veit að spurningin snýst ekki um það hvort Gunnar geti drepið alla, sem eru í þessari aðför að honum, heldur eingöngu um það hve margir verði drepnir áður en hann sjálfur verður drepinn.
Val hans stendur greinilega að hennar dómi raunverulega um tvennt:
1. Hið ómögulega, að hann mun drepa alla sem sækja að honum í væntanlegri útlegð hans á meðan hann dvelur heima. Engin von var til þess. Grettir og Gísli Súrsson fóru í felur og voru þó báðir drepnir. Gunnar er hins vegar svo barnalegur og haldinn slíkku ofmati að halda að hann geti bara verið heima eins og ekkert sé til að njóta þess að horfa yfir "bleika akra og slegin tún.
2. Hið óhjákvæmilega að Gunnari takist að drepa ákveðinn fjölda manna áður en hann er sjálfur drepinn.
Með því að neita Gunnari um tilgangslausa og vonlausa aðstoð bjargar Hallgerður mörgum mannslífum.
Og hin fleygu orð Hallgerðar, hugsanlega flottustu og skynsamlegustu orð Íslendingasagnanna, má herma upp á ótal átök, manndráp og stríð, sem blind hernaðarhyggja hefur leit yfir þjóðir heims með ómældum hörmungum.
Ég hef ævinlega litið á þetta augnablik í sögu Hallgerðar sem hennar stærstu stund en ekki hina verstu.
Gaman væri að heyra skoðanir fleiri á þessu atriði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
7.12.2014 | 19:22
Fótanuddtæki hvers tíma.
Sú var tíðin að varla þótti neitt íslenskt heimili með heimilum nema þar væri fótanuddtæki, sem voru víst einhver vinsælasta jólagjöf allra tíma hér á landi.
Á okkar tímum eru flatskjáir og spjaldtölvur svipuð fyrirbæri sem öllum finnst þeir verða að eiga.
Einnig eru svonefndir "jeppar", "sportjeppar" og "smájeppar" eftirsóttir og gildir einu þótt þótt það varla vatni undir þá þegar þeir eru hlaðnir og að jafnvel sé ekki hægt að fá sumar gerðir þeirra með fjórhjóladrifi!
Í pistlinum á undan þessum hér á bloggsíðunni er fjallað um það mótsagnakennda fyrirbæri að hér hafi verið efnahagslægð hvað varðar þjóðarframleiðsluna á fyrri hluta þessa árs á sama tíma og sagt er að hér sé kominn "uppgangstími" og sala á dýrum hlutum af ýmsu tagi hafi stóraukist.
Við gerum enn grín að fótanuddtækjunum hér um árið, en áttum okkur kannski ekki á því að svipuð fyrirbæri virðast ætíð vera á sveimi og ekki hvað síst þegar allir tala hver upp í annan um "uppgangstímana" sem séu komnir.
![]() |
Gerviþarfir ráða kaupunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.12.2014 | 11:14
Stórlækkun olíuverðs er aðalmálið. Dæmið um ráðskonuna.
Misvísandi tölur birtast nú um efnahagsástandið hér á landi. Undanfarna mánuði hefur verið sungið mikið um gott ástand, minnstu verðbólgu í fjölmörg ár, vaxandi kaupmátt, mesta hagvöxt í Evrópu, aukna neyslu og velmegun. Á þetta allt að hafa verið að þakka stjórnvöldum landsins.
Síðan birtast allt í einu tölur um að fyrri hluta þessa árs hafi þjóðarframleiðslan minnkað og hér verið efnahagslægð að því leytinu til.
En allt getur þetta staðist og er aðeins háð forsendunum fyrir tölunum. Hægt er að nefna einfalt dæmi og giska á hvers vegna það gæti staðist.
Ráðskona, sem hefur verið í vinnu hjá einhleypum bónda einum og séð um börn hans og heimili tekur upp ástarsamband við hann og stendur það í nokkur ár, en að öðru leyti eru hagir þeirra eins og fyrr, hann borgar henni kaup fyrir vinnu sína við húshaldið og þau eru gefin upp til skatts.
Síðan ákveða þau að gifta sig en að öðru leyti breytist ekkert, þetta er bara formsatriði.
Og þó hefur þetta sérkennileg áhrif á efnhagsreikning þjóðarinnar.
Nú gefa þau tekjurnar af búrekstrinum upp til skatts sem sameiginlegar tekjur.
Þetta hefur þau áhrif á þjóðarbókhaldið að tekjur þjóðarbúsins minnka og hagvöxturinn minnkar.
Ástæða þess að hér er aukin neysla um þessar mundir er fyrst og fremst sú að olíuverð í heiminum hefur stórlækkað og útgjöld þjóðarbúsins vegna innkaupa á eldsneyti hafa minnkað mög mikið.
Sú minnkun kanna að vera meiri en minnkun þjóðarframleiðslunnar og þar með hefur myndast möguleiki á betri afkomu, þrátt fyrir minni þjóðarframleiðslu.
Síðan er hægt að möndla með hagvöxtinn með þvi að þjóðin láni stórum hluta af sjálfum sér peninga í formi skuldaleiðréttingar til þeirra sem hafa mesta möguleika á að nota féð til að auka neyslu sína.
Bílar seljast til dæmis mun betur en fyrr og mikill vöxtur er í sölu dýrra bíla.
En peningarnir, sem komast með þessu í umferð, detta ekki af himnum ofan eða byggjast á aukinni þjóðarframleiðslu, heldur munu þeir að mestu leyti koma í gegnum sameiginlega sjóði landsmanna og frá bankakerfinu að hluta.
![]() |
Morgan Stanley: Olíuverð mun lækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)