7.12.2014 | 01:35
Í tilefni af frétt af svínum, sem ganga laus.
Eftir Hrun varð mikið maus,
margskyns prettir, röfl og raus.
Yfir því má hengja haus
að hérna ganga´enn svínin laus.
![]() |
Svín gengur laust í Mosfellsbæ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2014 | 23:23
Afar lúmskur sjúkdómur: Bakflæði.
Það var ekki fyrr en fyrir um tuttugu árum sem orðið bakflæði varð skyndilega að einhvers konar tískuorði í umræðunni hér á landi um sjúkdóma og heilsufar.
Hér á landi var talað um brjóstsviða eða nábít ef mönnum varð illt á þann hátt sem fylgir bakflæði.
Tveir nákomnir ættingjar mínir hafa greinst með bakflæði og í bæði skiptin var fyrst farið að leita að einhverju í hálsi sem orsök þess hvernig einkennini birtust í raddböndum og hálsi.
Í fyrra tilfellinu var hafin leit að krabbameini þegar hið sanna uppgötvaðist.
Ástæðan var sú að í láréttri legustöðu í svefni á næturnar rann magasýra upp í kok og brenndi raddbönd og háls.
Ætla má að læknar Bandaríkjaforseta séu í fremstu röð, en svo er að sjá að sjúkdómsgreiningin hafi samt vafist fyrir þeim í fyrstu.
1996 uppgötvaðist að ég væri með þennan fjanda og þá kom í ljós að ég hafði verið með bakflæðið allt frá tíu ára aldri þegar ég var í sveit í Langadalnum og hljóp til að ná í kýrnar eftir kvöldmat.
Þá fékk ég svo slæmar magakveisur að engu lagi var líkt. Bóndinn á bænum, Björg,ömmusystir mín, var systir hins fræga smáskammtalæknis (hómópata) Bjarna Runólfssonar, og kunni ráð við þessu. Hún gaf mér natron og kveisan rénaði.
1986 fékk ég þetta aftur en fékk ekki alveg rétta greiningu. Aftur var ég slæmur um hríð 1993 en hin endanlega sjúkdómsgreining kom ekki fyrr en eftir miklar meltingartruflanir upp úr og niður úr 1996.
Þá var fyrst með speglun á ristli, maga og vélinda hægt að taka á þessu með lyfjagjöf að einhverju gagni.
Bakflæðissjúklingar eiga kost á uppskurði þar sem neðsti hluti vélindans er þrengdur og gefst það flestum afar vel.
Þó eru dæmi þess að þetta hefur ekki tekist og orðið að endurtaka uppskurðinn.
Ég hef látið lyfjanotkun ásamt aðgát í mataræði nægja fram að þessu hvað sem síðar verður.
Við speglun gefst manni færi á að sjá innyfli sín sjálfur, og vélindað var heldur betur eldrautt eins og svöðusár allan hringinn neðst við magaopið.
![]() |
Obama þjáist af bakflæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.12.2014 | 14:48
Gömul saga af strætisvagni og slökkvibíl.
Við það að lesa um tengda frétt á mbl.is um stefnumót brennandi strætisvagns og slökkvibíls kemur upp í hugann gamalt atvik, þar sem strætisvagn og slökkvibíll áttu óvenjulegt stefnumót.
Á síðari hluta sjötta áratugs síðustu aldar stóð nýinnfluttur slökkvibíll alllengi óhreyfður niðri í porti Eimskipafélagsins við Borgartún vegna fjárskorts. Á meðan varð slökkviliðið að notast við gamla og úrelta bíla og var einn af gamanbrögum mínum á þessum tíma svonefndur Brunabragur, sem sá þetta ástand í skoplegu ljósi. Það var efnahagslægð á Íslandi vegna hruns síldarstofnsins og verðfalls á útflutningsafurðum. Loks kom þó að því að slökkvibíllinn góði yrði leystur út og honum ekið í fyrsta sinn.
Strætisvagnabílstjóri var´á leið á vagni sínum eftir Lönguhlíð þegar nýi slökkvibíllinn fer fram úr honum og stendur reykur aftur úr slökkvibílnum.
Strætóbílstjórinn þenur flautuna og sér að bílstjóri slökkvibílsins virðist ekki taka eftir því að kviknað er í bílnum, enda vandséð hvernig búast megi við því að það kvikni eldur í slökkvibílum.
Þegar vagnstjórinn sér að reykurinn magnast og bílstjóri slökkvibílsins verður hans ekki var, eykur hann hraðann á strætisvagninum, fer flautandi fram úr slökkvibílnum bendandi með höndunum og tekst loks að þvinga hann út í kant og leggja strætisvagninum á ská fyrir framan hann til að stöðva hann.
Bílstjóri slökkvibílsins kemur ævareiður út úr bílnum og hleypur með hnefa á lofti að strætisvagninum án þess að líta til baka.
Stætóbílstjórinn opnar framdyrnar í mestu rólegheitum og slökkvibílstjórinn æðir þar inn fokreiður, sem von von er og spyr hvern andskotann þessi frekjuakstur eigi að þýða með strætisvagn fullan af farþegum sem settir séu í hættu sem og allir aðrir vegfarendur.
"Það er kviknað í" svarar vagnstjórinn.
"Kviknað í?" svarar slökkvibílstjórinn sótrauður af bræði. "Hvaða bull er þetta?"
"Líttu til baka" svarar vagnstjórinn með mestu hægð og bendir með hendinni í átt að slökkvibílnum.
Slökkvibílstjórinn lítur til baka og verður svo bilt við að hann er næstum dottinn út úr vagninum.
"Það er kviknað í!" hrópar hann æstur. "Hvað á ég að gera?!"
"Nú, kallaðu á slökkviliðið, - kallaðu á liðsauka, - ertu ekki slökkviðliðsmaður og á slökkvibíl?" svarar vagnstjórinn með ítrustu hægð sem stingur í stúf við æsing slökkvibílstjórans, enda sér vagnstjórinn í baksýnisspeglinum að reykurinn, sem stendur aftur úr slökkvibílnum, er farinn að minnka.
"Já, en það er kviknað í honum!" hrópar slökkviliðsbílstjórinn í örvinglan.
"Svona, engan æsing, taktu þessu rólega, það á að vera handslökkvitæki í vagninum.
"Hvar? Hvar?! æpir slökkvibílstjórinn, skimar aftur í vagninn og rýkur af stað til að leita að því.
"Svona, rólegur!" kallar vagnstjórinn, "það er hérna frammi í, - þú stóðst rétt fyrir framan það!"
Slökkvibílstjórinn snýst á hæli, veður að tækin og byrjar að hamast við að reyna að losa það á svo broslega klaufalegan hátt að farþegar strætisvagnsins veltast um af hlátri.
Á meðan á þessu stendur hefur reykurinn minnkað enn frekar og er alveg horfinn þegar slökkvibílstjórinn getur loksins brotið festingarnar sem halda tækinu og vaðið með það út úr vagninum.
En hann finnur engan eld og kemur sneyptur til baka.
Í ljós kemur að eftir nokkurra ára stöðu slökkvibílsins niðri í porti hafði handbremsan fest og stóð það mikið á sér þegar ekið var af stað, að smám saman sjóðhitnaði hún svo að það rauk úr henni heljarmikill reykur.
En um leið og bíllinn var stöðvaður kólnaði bremsan og hætti að rjúka úr henni.
![]() |
Fundum allt í einu brunalykt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2014 | 01:17
Er vörn fjarlægðarinnar að bresta?
Svonefndar mósasýkingar eru eitt dæmið um það hvernig sýklar verða sífellt ónæmari fyrir sýklalyfjunum, en mósasýklarnir eru einna verstir viðureignar.
Ísland hefur um furðu langt árabil notið þess að vera eyland, langt frá öðrum löndum, og með einbeitni og árvekni hefur að mestu tekist að verja landsmenn gegn þessum verstu sýkingum.
Þó hefur eitt og eitt tilfelli komið upp, og minnist ég í því sambandi þess að dótturdóttir mín fékk slíka sýkingu fyrir nokkrum árum og varð að fara langa og stranga einangrun út af henni.
Það er þess vegna hið versta mál ef þessar varnir eru að bresta, ekki hvað síst ef það er vegna skorts á aðstöðu eða húsnæði.
Fleiri sýklar en mósasýklar eru illvígir og ég varð fyrir barðinu á slíku fyrir sex árum.
Ég var svo óheppinn að fá heiftarlega sýkingu og risastórt graftarkýli í bakið á leiðinni út til Bandaríkjanna. Þar reyndust venjuleg sýklalyf gagnslaus og valið stóð um það að leggjast þar inn á spítala og verða kannski innlyksa þar vikum eða mánuðum saman vegna þess hve allt umhverfið varðandi sýkla og sýkingar er verra þar en hér, - eða að taka þá áhættu að draga aðgerðir í þrjá daga og fara undir hnífinn hér heima.
Ég ákvað að bíða og láta gera þetta hér heima og það munaði litlu að það hefði verið kolröng ákvörðun, því að með ólíkindum var hve mikið kýlið blés út þessa daga, sem töpuðust.
Velja varð svo sterkt sýklalyf að það olli lifrarbresti, stíflugulu og ofsakláða með svefnleysi, sem stóð í þrjá mánuði og veikindin stóðu alls í fjóra mánuði.
Þarna kom í ljós hve lifrin er mikilvægt grunnlífæri mannsins og kannski það upprunalegasta, líkt elstu frumusamfélögunum. Þegar hún brast og varð að miklu leyti óvirk, var ekki hægt að taka nein lyf, svo sem svefnlyf eða verkjalyf, gegn ofsakláðanum.
Ég rifja þetta hér upp vegna þess að um er að ræða eitthvert alvarlegasta og brýnasta verkefnið í heilbrigðiskerfinu, baráttuna við sífellt öflugri og ónæmari sýkla, sem kalla smám saman á svo sterk sýklalyf, að þau út af fyrir sig fara að verða hættuleg í ákveðnum tilfellum.
Þess vegna er það áhyggjuefni ef vörn fjarlægðar eylandsins okkar frá öðrum löndum er að bresta.
![]() |
Enn ein mósasýkingin á LSH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.12.2014 | 21:45
Tvö fíkniefni í einni vöru: Hvítasykur og koffein.
Það eru til matvörur eða drykkir sem innihalda fleiri hitaeiningar en gosdrykkir og ætti því að vega þyngra í fitandi mataræði en þeir. En gosdrykkirnir eru svo lúmskir vegna þess að um þá má oft segja tvennt og þá stundum að hvort tveggja fari saman:
1. Magn neyslu þeirra sé svo mikið þegar allt er lagt saman að það vegur þyngst sem orsakavaldur offitu.
2. Í neyslunni séu gosdrykkirnir dropinn sem fylli mælinn, þ. e. að án þeirra myndi fituvandamálið verða mun minna eða jafnvel ekkert.
Sérlega lúmsksir eru kóladrykkirnir því að þeir eru svo ávanabindandi sem fíkniefni.
Þegar litið er á listann yfir innhaldið eru tölurnar yfir hitaeiningar og kolvetni ekkert óskaplega háar miðað við margt annað. Aðrar tölur eru núll í stað þess að oft eru lygilegar fitutölur, svo sem í súkkulaðivörum. En dropinn holar steininn segir máltækið og þegar maður skoðar hve mikið magnið er í raun yfir daginn, sem innbyrt er í kóladrykkjum, koma óþægilegar tölur í ljós.
Ég var að prófa að drekka svoneft Kókakóla life núna áðan, en það er selt í grænum dósum.
Sá að aðeins 6,7 grömm af kolvetni og 27 hitaeiningar eru í hverjum 100 ml.
Greinilega viðleitni hjá framleiðandanum til að framleiða drykk með það litlu af kolvetnum, að það gæti ekki talist skaðlegt að drekka þetta að staðaldri.
Ég hélt sjálfur að það væri kannski nóg til að uppfylla fíknina eftir hvítasykri, svo að ég prófaði að drekka úr einni dós.
En svo var ekki, mér fannst ekkert varið í drykkinn og fylltist strax löngun til að drekka "the real thing".
Sem kannski er trixið, því að þegar ég drakk "ósvikið" "the real thing" kók á eftir fannst mér munurinn koma heldur betur í ljós og ég fá það sem líkaminn kallaði á, því að "kikkið" felst í því að fá lágmarksmagn af fíkniefnunum tveimur, hvítasykri og koffeini, 50% meira af kolvetni og hitaeiningum en í Kók life.
Málið snýst um fíkn og fíkla.
Þetta vita framleiðendurnir, - annars væru þeir ekki með slagorðið "the real thing", - fíklarnir heimta sitt magn og engar refjar.
Fyrir aldarfjórðungi prófuðu Kókakólaverksmiðjurnar að hafa koffeinlaust kók á boðstólum.
Koffein á að heita bragðlaust og því hefði mátt ætla að þetta gæti selst eins vel og "alvöru" drykkurinn, neytendurnir myndu ekki finna muninn.
En tilraunin misheppnaðist gersamlega. Fíklar eins og ég fundu muninn og létu ekki plata sig.
Það sem stendur utan á flöskunum um innihaldið er dálítið blekkjandi. 10,6 grömm eða 42 hitaeiningar sýnast hættulitlar tölur, einkum kalóríutalan, sem er átta sinnu lægri en í sama magni af súkkulaði. En uppgefnar tölur miðast við 100 millilítra og það drekkur enginn lifandi maður svo lítið, eða einn þriðja af algengustu flöskunum.
Það gæfi betri mynd ef greint væri frá því hve mikið sé í einum lítra, þúsund millilítrum, en það magn þykir svo sem ekki mikið daglegt magn hjá kólafíklum, samsvarar innihaldi í þremur litlum plastflöskum.
Þá er sykurinn 106 grömm og hitaeiningarnar eru hvorki meira né minna en 420.
Ég þekki marga sem drekka talsvert meira en einn lítra af kóladrykkjum á dag og þá eru kalóríurnar orðnar meira en 600 sem eru hættulega há tala, þriðjungur af þeim 2000 hitaeiningum sem meðalmaður þarf á dag, og þetta veldur því að hitaeiningarnar samtals fara fram samtals fram úr daglegum þörfum og afleiðingin er fitusöfnun.
Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að dropinn fylli mælinn og magnið sé of mikið.
![]() |
Óhófleg gosdrykkjaneysla vandamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.12.2014 | 13:55
Sem betur fer er til mynd af atvikinu.
Konan, sem hrækti svo útúrdrukkin, að hún stóð varla í fæturna, á lögreglumann, og hlaut að sjálfsögðu dóm fyrir, var ekkert tilefni til þess að lögreglumaðurinn beitti hana svipuðum brögðum og tökum og hann væri í hringnum með Gunnari Nelson.
Sem betur fer er til kvikmynd af atvikinu sem sýnir að því miður lét lögreglumaðurinn skap sitt hlaupa með sig í gönur og fór langt fram úr lögskipuðu meðalhófi í athöfnum sínum.
Íslenskir lögreglumenn eru upp til hópa stillingarmenn og seinþreyttir til átaka og þetta atvik var sem betur fer undantekning, eins og blasir við öllum, sem horfa á það á mynd.
![]() |
Engu óþarfa ofbeldi beitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.12.2014 | 07:52
Sem sagt: Lón gæti myndast.
Sé líklegasta framvinda gossins í Holuhrauni sú sem viðruð var á síðasta fundi Vísindaráðs Almannavarna, að hraunflæðið haldi þar áfram enn í nokkra mánuði, er hugsanlegt að upp komi sú staða að lón myndist við það að hrauni nái að stífla Jökulsá á Fjöllum líkt og sýnt var á korti á facebook síðu minni fyrir nokkrum vikum og ég bregð aftur upp á síðunni núna.
Eins og er hækkar Baugur rólega og hleður hrauninu upp í kringum útfallið til þriggja átta í stað þess að hið sjóðheita og þunnfljótandi hraun æddi allt norður undir Vaðöldu fyrstu vikurnar.
Enn er talsvert rými fyrir nýtt hraun á sléttunni norðaustur af Jökulsárflæðum, en það er ekki óendanlegt og það eru takmörk fyrir því hve lengi hraunið getur hlaðist upp.
Þess vegna er óvissan um framvinduna enn ansi mikil, að ekki sé talað um það sem enn getur gerst í Bárðarbungu sjálfri eða undir jöklinum.
En hvort sem lón myndast eða ekki er Jökulsá það stórt og aurugt vatnsfall á sumrin, að um síðir myndi hún ævinlega hafa vinninginn og ryðjast þannig fram í nýjum farvegi að lónið eða lónin tæmdust.
![]() |
Þriðja stærsta hraun jarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2014 | 23:08
Skásti leikurinn í stöðunni hjá Bjarna, en þó ekki nýjung.
Bjarni Benediktsson stóð frammi fyrir erfiðu vali á ráðherra í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Í þingflokknum stóð valdið á milli nokkurra sterkra kandídata og líklegt mátti telja var að þeir þeirra, sem ekki fengju djobbið, yrðu ekki ánægðir með það og því síður fylgismenn þeirra.
Konur yrðu óánægðar með það ef slagsíða á milli karla og kvenna í ríkisstjórninni ykist og ekki yrði ánægja með það að enginn ráðherra kæmi úr Reykjavík úr því að Hanna Birna hafði komið þaðan.
Í bollaleggingum manna um málið datt engum í hug að Bjarni myndi leita út fyrir þingflokkinn.
Samt var fordæmi fyrir hliðstæðu þegar Davíð Oddsson leitaði út fyrir borgarstjórnaflokk Sjálfstæðismanna 1991 til að velja sem eftirmann sinn á borgarstjórnarstóli.
Valið núna var hliðstætt valinu 1991 að í bæði skiptin var leitað til manneskju, sem hafði áður verið framarlega í forystu flokksins en þó ekki gegnt embættinu sem í boði var.
Markús Örn Antonsson hafði verið forseti borgarstjórnar en farið úr borgarpólitíkinn yfir í starf útvarpsstjóra. Innan borgarstjórnarflokksins stóð valið einkum á milli Árna Sigfússonar og Katrínar Fjeldsted, gott ef Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kom ekki líka til greina, en Davíð átti erfitt með valið og virðist hafa óttast, að ef hann gerði upp á milli þeirra kynni það að valda sárindum.
Ef ekkert þeirra var valið gat gamla máltækið gilt að "sætt er sameiginlegt skipbrot."
Og það er ekki langt síðan Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður auk þess sem hún hafði setið í þingnefndum þar sem málefni innanríkisráðuneytisins komu inn á borðið. Einnig starfað um hríð í samgönguráðuneytinu.
Hún er lögfræðingur og heppileg til þess að skila dómsmálaráðuneytinu á tryggan hátt að nýju í hendur Sjálfstæðismanna.
Sem sagt: Öflugur stjórnmálamaður.
Auðveldara var að ná algerri samstöðu í þingflokknum ef komist var hjá því að gera upp á milli þingmanna.
Þótt aðferðin nú sé svipuð og hjá Davíð 1991 er ekki víst að það spilist eins úr henni nú og þá.
1991 spilaðist ekki vel úr stöðunni því að þá sá enginn það fyrir, að fyrsta sameiginlega framboð minnihlutaflokkanna myndi verða til og gerbreyta hinu pólitíska landslagi í Reykjavík svo mjög til frambúðar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei borið sitt bar þar eftir það í höfuðborginni.
Ekki ætti að vera ástæða til þess nú að óttast neitt hliðstætt nú þótt auðvitað sé ævinlega erfitt að spá fyrir framvindu í stjórnmálum.
![]() |
Ólöf: Ákvörðunin lá fyrir í gær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2014 | 13:45
Kunnugleg sýn rússnesks ráðamanns.
Vladímír Pútín telur sig upplifa ákveðna sýn á heimsstjórnmálin sem knýi hann til þeirra aðgerða og réttlætingar þeirrar utanríkisstefnu sem hann fylgir.
Hver er þessi upplifun? Á hún við rök að styðjast eða ekki? Og hverju er um að kenna? Aðgerðum hans sjálfs eða annarra? Eða beggja aðila?
Setjum okkur á sjónarhól hans til að reyna að skilja þessa sýn.
Jú, hann viðraði kunnuglega sýn rússnesks ráðamanns úr sögu landsins í ræðu sinni á þingi landsins í morgun, sem sé þá, að óvinir landsins væru í óða önn að umkringja landið og sækja að því.
Þetta er í þriðja sinn í 70 ár sem forystumaður landsins sér hlutina með þessum augum.
Hið fyrsta sinn var sú sýn sem Stalín hafði á stöðu landsins á árunum fyrir innrás Þjóðverja í landið 1941. Þá horfði hann upp á hvert landið af öðru í austurhluta Evrópu ýmist hertekið af þjóðverjum eða gert að stuðningsríki þeirra.
Hin herteknu voru Tékkóslóvakía og Pólland 1939 og Júgóslavía og Grikkland 1940 en bandalagsríki Þjóðverja voru Búlgaría, Rúmenía og Ungverjaland.
Þótt Hitler og Stalín hefðu gert griðasamning rauf Hitler griðin og 20 milljónir Rússa voru drepnir auk gríðarlegra hervirkja í landinu. Þessu geta Rússar aldrei gleymt.
Aftur fannst Stalín hann upplifa umkringingu landsins í upphafi Kalda stríðsins þegar NATO var stofnað og grundvöllur stefnu John Foster Dulles, utanríkisráðherra Eisenhowers á sjötta áratugnum, var að stofna hliðstæð hernaðarbandalög við þjóðir í Asíu, allt austur til Japans.
Hernaðarbandalagið í Suðaustur-Asíu, SEATO, var hliðstæða NATO.
NATO var stofnað vegna þess að Rússar höfðu gengið harðar fram í því en Vesturveldin höfðu gert ráð fyrir að þeir myndu gera í krafti hervalds, að gera lönd Austur-Evrópu að kúguðum leppríkjum sínum og töldu að það ógnaði allri Vestur-Evrópu.
Stalín gerði þetta hins vegar í skjóli umsamdrar uppskiptingar álfunnar í áhrifasvæði þeirra í austanverðri álfunni og áhrifasvæði Vesturveldanna í vestanverðri álfunni og eftir á að hyggja er spurningin hvort nokkurn tíma var raunveruleg hætta á að Sovétmenn hefðu látið til skarar skríða gegn Vestur-Evrópu.
Að minnsta kosti héldu þeir sig til hlés 1946 þegar grískir kommúnistar reyndu valdatöku í Grikklandi, af því að Stalín og Churchill höfðu samið um það að Grikkland væri á áhrifasvæði Breta.
Í innrásum Rússa í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968 kom í ljós að þessi skipting Evrópu var grundvöllur þessara afskipta þeirra.
Þegar verið er að kanna ákveðnar aðstæður, sem koma upp í samskiptum manna og þjóða, getur verið upplýsandi að setja sig í spor þeirra, sem eiga aðild að málum, til að reyna að skilja af hverju hún er slík sem raun ber vitni, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Putin telur sig upplifa umkringingu landins og aðför að því með sókn NATO og ESB til austurs í Evrópu og þeirri pólitík, sem Bandaríkjamenn og NATO reka gagnvart grannríkjum Rússlands í suðri, þ.á.m. hernaði NATO í Afganistan.
Meðal þeirra sem hafa varað við afleiðingunum af því, að þessi sviðsmynd hefur komið upp, eru Mikhail Gorbatsjov og Henry Kissinger.
![]() |
Pútín varar við erfiðum tímum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.12.2014 | 11:32
Ótrúlega algengur galli á byggingum.
Það á að vera hægt að reisa byggingar á Íslandi sem halda vatni, jafnvel þótt veðráttan sé rysjótt. Tæknin og þekkingin eru fyrir hendi en hinn ótrúlegi fjöldi bygginga sem lekur og liggur undir skemmdum bendir til þess að það skorti á að menn fari rétt að.
Á miklum nýbyggingatímum á síðari hluta 20. aldar voru reist hús í þúsunda tali hér á landi sem héldu ekki vatni. Tískufyrirbrigði áttu meðal annars hlut að þessu.
Má sem dæmi nefna hina vinsælu hornglugga á íbúðarhúsum, sem komust í tísku í kringum 1940 og reyndust afar dýrir í viðhaldi og einnig flötu þökin sem mörg hver voru beinlínis hriplek.
Ég gerði eitt sinn Kastljósþátt í Sjónvarpi um eitt af þessum þökum þar sem lekinn var yfirgengilegur á nýju húsi.
Sérfræðingur á þessu sviði hefur lýst því fyrir mér hvernig þessi leki var eingöngu vegna vanþekkingar eða tæknilegra mistaka, sem gerð voru í smíði húsþaka á þessum árum.
Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson skrifaði stórkostlega skemmtilega ádeilugrein um þetta á sínum tíma þar sem hann sagði meðal annars að enda þótt Bakkabræður hefðu verið svo vitlausir að reyna að bera ljós inn í hús sín í höfuðfötum sínum hefði þeim aldrei dottið í hug að gera flöt húsþök.
Margt mætti upp telja.
Í kringum aldamótin voru reist hér kanadísk hús sem aðeins munu endast í fáa áratugi, vegna þess að þau eru hönnuð fyrir allt annað veðurlag en hér er.
Selfosskaupstaður, sem er á þekktu jarðskjálftasvæði, stendur ofan á mold að mestu leyti, sem er arfa slæmt fyrir byggð, sem á að þola jarðskjálfta sem best.
Á okkar misviðrasama landi á að vera til þekking og geta til að smíða hús sem halda vatni og vindi og endast sæmilega og misbrestur á þessu hefur þegar kostað okkur tugi milljarða og mun eiga eftir að kosta okkur hundruð milljarða króna að óþörfu áður en yfir lýkur.
![]() |
Kirkjan lekur og sóknin ráðþrota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)