Er vörn fjarlægðarinnar að bresta?

Svonefndar mósasýkingar eru eitt dæmið um það hvernig sýklar verða sífellt ónæmari fyrir sýklalyfjunum, en mósasýklarnir eru einna verstir viðureignar.

Ísland hefur um furðu langt árabil notið þess að vera eyland, langt frá öðrum löndum, og með einbeitni og árvekni hefur að mestu tekist að verja landsmenn gegn þessum verstu sýkingum.

Þó hefur eitt og eitt tilfelli komið upp, og minnist ég í því sambandi þess að dótturdóttir mín fékk slíka sýkingu fyrir nokkrum árum og varð að fara langa og stranga einangrun út af henni.

Það er þess vegna hið versta mál ef þessar varnir eru að bresta, ekki hvað síst ef það er vegna skorts á aðstöðu eða húsnæði.

Fleiri sýklar en mósasýklar eru illvígir og ég varð fyrir barðinu á slíku fyrir sex árum.

Ég var svo óheppinn að fá heiftarlega sýkingu og risastórt graftarkýli í bakið á leiðinni út til Bandaríkjanna. Þar reyndust venjuleg sýklalyf gagnslaus og valið stóð um það að leggjast þar inn á spítala og verða kannski innlyksa þar vikum eða mánuðum saman vegna þess hve allt umhverfið varðandi sýkla og sýkingar er verra þar en hér, -  eða að taka þá áhættu að draga aðgerðir í þrjá daga og fara undir hnífinn hér heima.

Ég ákvað að bíða og láta gera þetta hér heima og það munaði litlu að það hefði verið kolröng ákvörðun, því að með ólíkindum var hve mikið kýlið blés út þessa daga, sem töpuðust.

Velja varð svo sterkt sýklalyf að það olli lifrarbresti, stíflugulu og ofsakláða með svefnleysi, sem stóð í þrjá mánuði og veikindin stóðu alls í fjóra mánuði.

Þarna kom í ljós hve lifrin er mikilvægt grunnlífæri mannsins og kannski það upprunalegasta, líkt elstu frumusamfélögunum. Þegar hún brast og varð að miklu leyti óvirk, var ekki hægt að taka nein lyf, svo sem svefnlyf eða verkjalyf, gegn ofsakláðanum.

Ég rifja þetta hér upp vegna þess að um er að ræða eitthvert alvarlegasta og brýnasta verkefnið í heilbrigðiskerfinu, baráttuna við sífellt öflugri og ónæmari sýkla, sem kalla smám saman á svo sterk sýklalyf, að þau út af fyrir sig fara að verða hættuleg í ákveðnum tilfellum.

Þess vegna er það áhyggjuefni ef vörn fjarlægðar eylandsins okkar frá öðrum löndum er að bresta.  


mbl.is Enn ein mósasýkingin á LSH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Lansanum er voðinn vís,
veirur lausar ganga,
mósa sá og myglu SÍS,
mýsnar þar nú hanga.

Þorsteinn Briem, 6.12.2014 kl. 02:38

3 identicon

Það er ekkert nýtt undir sólinni, og þarna vantar aðeins meiri upplýsingar bæði í fréttina og á vísindavefinn.
Þegar Penicillin komst í almenna dreifingu í seinna stríði, og þá svo ýmis undirafbrigði þess (orginalinn er penicillilinkalium) leið ekki á löngu þar til sumar bakteríur þróuðu með sér ónæmi gegn því.
Penicillin virkaði aldrei á alla bakteríustofna, - t.a.m. berkla. Þar var það tetracyklin (1947?) sem virkaði, og var Ísland eitt af fyrstu ríkjum heims til að nota slíkt (Vífilsstaðir)
Það lyf virkar á allt annan hátt en penicillin, og yfirleitt virkar annað ef hitt gerir það ekki.
Veit ekki hvort það virkar á framsóknarhatara.

Jón Logi (IP-tala skráð) 6.12.2014 kl. 14:29

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það vantar meira en lítið í kollinn á þeim sem halda því fram að það sé hatur þegar gert er grín að einhverju.

Langafi undirritaðs var fyrsti formaður Framsóknarflokksins og sonur hans, sem undirritaður heitir í höfuðið á, var ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Þorsteinn Briem, 6.12.2014 kl. 15:31

5 identicon

Það penicillin sem kalla mætti "original" er Penicillin G. Efnasambandið er sýra, eins og allar penicillin afleiður (derivatives) og því auðvelt að búa til sölt, t.d. kalíum eða natríum sölt. Rangt er hinsvegar að kalla kalíum saltið "original", eins og Jón Logi gerir hér fyrir ofan.

Einkennandi fyrir penicillin sameindir (molecules) er thiazolidin 5-hringur og beta-lactam 4-hringur.

IUPAC nafnið á penicillin G er: (2S,5R,6R)-3,3-dimethyl-7-oxo-6-(2-phenylacetamido)-4-thia-1-azabicyclo[3.2.0]heptane-2-carboxylic acid.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 6.12.2014 kl. 18:10

6 identicon

Þær litlu varnir sem verið hafa hurfu endanlega þegar heilbrigðisstarfsmenn fóru í stórum stíl að vinna hluta úr ári eða hverjum mánuði erlendis. Skortur á aðstöðu eða húsnæði og niðurskurður í þrifum síðustu áratugi er svo ekki til að bæta ástandið.

Gústi (IP-tala skráð) 6.12.2014 kl. 19:38

7 identicon

Muni ég rétt var það kalíum sem var mest notað í fjöldaframleiðslu. Og sel þetta ekki dýrara en ég keypti...af dýralækni.
Það eru ekki nema nokkur ár síðan ég sprautaði kú með þessu eftir gamla laginu, - þá er lyfið í duftformi og maður er með ampúlu af sótthreinsuðu/soðnu vatni til að blanda.
Ef að það virkar á annað borð, er ekkert af afbrigðunum sem virkar betur. En vandamálið er orðið óþægilega algent, - þ.e.a.s. ónæmi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 7.12.2014 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband