4.12.2014 | 00:17
Mjög smækkuð útgáfa af Skaftáreldunum.
Í Skaftáreldum féllu meira en 70 prósent af búsmala landsmanna og 25 prósent íbúa landsins.
Ekki eru til tölur um efnasamsetningu þeirra lofttegunda sem eldarnir sendu frá sér en hraunrennslið var 15 sinnum meira en frá gosinu í Holuhraun og flatarmál Skaftáreldahraunanna átta sinnum meira.
Auk brennisteinslofttegunda kom flúor frá gosstöðvunum. Flúorinn olli svonefndum gaddi í sauðfénu svo að kjálkar og tennur þess urðu ónýt og skepnurnar féllu úr hor.
En auk þess eru til magnaðar lýsingar á dauða jarðargróða og dauðastríði dýra og jafnvel fiska vegna gaseitrunar.
Hegðun smádýra fyrir norðan rímar við þessar frásagnir og gefa smækkaða mynd af þeim hamförum og skaðræði sem Móðuharðindin fólu í sér.
![]() |
Mýs flýja mengun frá eldgosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.12.2014 | 19:57
Án kunnáttufólks eru húsin lítils virði.
Þótt skortur á húsnæði og tækjum og viðhaldi þeirra séu stór hluti af vandanum í heilbrigðiskerfinu yfirskyggir eitt atriði þó allt annað. Það er vaxandi skortur á hæfu fólki til að vinna inni í þessum húsum og nota þessi tæki til að bjarga heilsu og lífi sjúklinganna.
Þessu fólki mun halda áfram að fækka ef launa- og starfskjör verða áfram eins og þau hafa verið.
Sumir kjósa að tala um hótanir af hálfu lækna varðandi það að þeir muni hætta störfum eða flytja til útlanda ef kjör þeirra verði ekki bætt verulega. Og tala um að læknar séu hálaunastétt.
En þá er horft fram hjá því að laun lækna hér á landi eru svo miklu lægri en í nágrannalöndunum og starfskjör þeirra svo mikið verri, að tal um hálaunastétt er út í hött, - í raun eru þeir láglaunastétt miðað við starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum sem eru á sama atvinnusvæði og Ísland og frjálst flæði á milli fyrir launþega.
Í því felst hættuleg afneitun að viðurkenna ekki ástandið eins og það raunverulega er. Svonefndar "hótanir" lækna hafa nefnilega ekki valdið þeim atgervisflótta sem þegar er staðreynd og sést á því að nýliðun er nær engin í greininni, þeir sem starfa eldast og hætta jafnt og þétt vegna aldurs og hundruð íslenskra lækna starfa erlendis.
Læknar eru einfaldlega að benda á merg málsins, að batni kjör þeirra ekki, er ekki hægt að forða heilbrigðiskerfinu frá hruni nema að skellum landinu í lás og setjum íslenska lækna í farbann. Sem er auðvitað fjarstæða.
En það er líka fjarstæða að halda að hægt verði að halda lengur áfram á þeirri braut sem farin hefur verið. Um líf og heilsu landsmanna er að tefla og því er hægt að taka undir þau orð forsætisráðherra að þjóðarsátt þurfi til þess að forgangsraða í kjaramálum.
Því að fyrir lækna er það engin lausn að allt kaupgjald í landinu hækki til samræmis við launakjör þeirra, - þá mun verðbólga éta upp allar launahækkanirnar, þeirra á meðal hækkun launa hjá læknum og allt fara í sama farið og fyrr.
![]() |
Sjúklingar deyja að óþörfu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.12.2014 | 18:02
Slúðrið elskar skilnaðarsögur.
Hversu margar forsíður Séð og heyrt hafa í gegnum tíðina verið með skilnaðarfréttir? Ekki svo fáar enda þótt á forsíðunni stæði "við gerum lífið skemmtilegra". Það er nú meira hvað skilnaður er skemmtilegur !
Ég deili reynslu af skilnaðarsögum með Dorrit, því að ekki vantaði þær eftir að maður kvæntist og sömuleiðis sögurnar um það að móðir mín semdi skemmtiprógrammið mitt.
Sögurnar um textagerð mömmu urðu veikari með árunum, enda setti hún aldrei saman svo mikið sem eina ferskeytlu á ævinni, og þessar ljóðagerðarsögur hurfu endanlega eftir lát hennar.
Svipað fór um skilnaðarsögurnar. Síðast komust þær á kreik 1990 þegar einhver kjaftaskjóðan sá mig laumast inn í háhýsið að Sólheimum 23 að kvöldi, þreytulegan á svip með plastpoka í höndum.
Sagan af þessu var sönn út af fyrir sig, en ekki sá spuni sem strax fór á kreik, að það þótti undir eins ljóst að þar væri ég að laumast til hjákonu, sem ég ætti þar.
Næstu vikurnar voru ýmsar konur bendlaðar við mig sem viðhöld og varð það svo glæsilegur hópur þjóðþekktra kvenna að eins og Dorrit núna var ég lúmskt montinn yfir þessari óvæntu hylli hjá hinu kyninu.
Ég kvað þessar sögur niður á tvennan hátt: Með því að flytja gamankvæði um hjákvennafansinn á útvarpsstöðinni Aðalstöðinni og með því einfaldlega að halda áfram að koma þreyttur seint heim á kvöldin með plastpoka í höndum og fara upp á sjöundu hæð til hennar Helgu minnar og barnanna, en þangað höfðum við flutt okkur með fjölskylduna rétt áður en sögurnar fóru á kreik.
![]() |
Dorrit slær á skilnaðarsögur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2014 | 00:58
Var feigðarflug MH370 "stjórnað sjálfsmorðsflug"?
Það er jafnan áhugavert að leysa flóknar spurningar um möguleika í ferðalögum.
Af því tagi eru vangaveltur í tengdri frétt á mbl.is um möguleikana á að ferðast, til afskekktra staða í sólkerfinu eins og Títans við Júpíter eða Evrópu við Satúrnus.
Hliðstætt þessu viðfangsefni en talsvert nærtækara og jarðbundnara, er tilraun til lausnar ráðgátunnar vegna hvarfs malasísku þotunnar MH370. sem stefnir í að verða dularfyllsta og óleysanlegasta ráðgáta flugsögunnar. Og kenningin veltir því upp að hugsanlega hafi sú verið ætlun einhvers, sem stefndi einmitt að slíku.
Nú hefur nefnilega komið fram kenning um að líklegast sé að einhver kunnáttumaður, flugstjórinn eða annar um borð, hafi vísvitandi föndrað þannig við sjálfstýringu þotunnar, að hægt var að "fara í felur" með hana, þ. e. fljúga henni þannig af leið að hún sæist ekki á ratsjám og stefna henni langt suðvestur á Indlandshaf, þar sem henni var lent á sjónum á þann hátt að hún sykki til botns á meira en sex kílómetra dýpi og lægi þar í heilu lagi falin öllum mönnum um aldur og ævi í votri gröf.
Flugstjórinn, sem setur þessa kenningu fram, gerir það í krafti reynslu sinnar og sérþekkingar á Boeing 777 og búnaði véla Malaysian Airlines.
Hann lýsir því hvernig kunnáttumaður gat kúplað út þreföldu tölvukerfi sjálfstýringarinnar og stýrt þotunni í vinstri beygju og flogið henni þannig áfram að hún kæmi ekki inn á ratsjár ríkjanna fyrir vestan Malasíu.
Þetta hafi verið einhvers konar stjórnað sjálfsmorðflug og skipulagt þannig, að úr yrði dularfyllsta og óleysanlegasta ráðgáta flugsögunnar.
Nú er það svo, að flugsagan geymir hundruð atvika, þar sem orsök þeirra var þannig, að það var handan mannlegs ímyndunarafls að áætla fyrirfram hvað raunverulega gerðist, og þegar gátan var leyst var orsökin kannski sú, sem hafði sýnst fjarstæðust eða jafnvel óhugsandi í upphafi rannsóknar.
En kenningin um stjórnað sjálfsmorðsflug MH370 er svosem ekkert verri en hver önnur, - jafnvel hugsanlega sú sennilegasta.
En hafi þeim sem hugsanlega vildi stýra þotunni þessa helför þannig, að hvorki fyndist af henni tangur né tetur né atburðarásin upplýst, tekist ætlunarverk sitt, var varla hægt að gera það á "fullkomnari" hátt.
Á facebook síðu minni er að finna tengil í erlendu greinina um þetta mál, sem Guðlaugur Hermannsson sendi mér.
![]() |
Menn gætu flogið á Títan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.12.2014 | 23:07
Fljótin hafa beðið of lengi.
Fljótin í Skagafirði hafa beðið mjög lengi, allt of lengi, eftir því að möguleikar þessarar byggðar séu uppgötvaðir og nýttir.
Eldhuginn Trausti Sveinsson að Bjarnagili hefur áratugum saman reynt að opna augu manna fyrir möguleikum þessa svæðis sem útivistarlands allt árið en ævinlega talað fyrir daufum eyrum.
Hann barðist árangurslaust fyrir svonefndri Fljótaleið fyrir jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar en það hefði tryggt að Héðinsfjörður yrði áfram eini eyðifjörðurinn á öllu svæðinu frá Ófeigsfirði á Ströndum til Loðmundarfjarðar á Austfjörðum.
Fjörðurnar svonefndu, Þorgeirsfjörður og Hvalvatnsfjörður, eru frekar víkur en firðir.
Fljótaleiðin hefði líka leyst endanlega samgönguvanda Siglufjarðar vestur um og suður í stað þess að nú er suðað um göngin milli Siglufjarðar og Fljóta sem hefðu verið komin ef kjördæmapot þingmanna hefði ekki ráðið för.
Aðdráttarafl og gildi Héðinsfjarðar sem eyðifjarðar fyrir ferðafólk hefði verið margfalt meira en það er nú eftir að þangað er greiðfært á bíl.
Það hefur löngum verið talinn Akkilesarhæll Fljótanna að vera snjóþyngsta byggðarlagið á norðanverðu landinu, en þetta er þveröfugt, því að hinn mikli snjór skapar mikla möguleika fyrir skíðafólk og útivist sem tengist snævi þöktu landi og fjöllum.
Töfrar hins stórbrotna bláfjallageims Tröllaskaga eru ekki hvað síst hrífandi á útmánuðum, og flug framhjá hinum hrikalegu Hvanndalabjörgum mögnuð upplifun.
![]() |
Íburðurinn verður mikill |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.12.2014 | 20:52
Neyðin kennir naktri konu að spinna ?
Það eru ekki mörg ár síðan fátt virtist vera á döfinni sem gæti leyst orkuvanda mannkyns, sem mun aukast með vaxandi hraða á þessari öld, verði ekkert að gert.
Eftir kjarnorkuslysið í Fukushima sló verulega allar vonir um aukna kjarnorkuframleiðslu enda ljóst, að úraníum er álíka takmörkuð og jarðefnaeldsneytið og kjarnorkuúrgangurinn vaxandi vandamál.
Geymsla rafmagns í rafknúnum tækjum virtist geta stöðvað möguleika á að rafvæða samgönguflotann. Lithium er takmarkað á jörðinni og klárast á nokkrum áratugum ef rafvæðingin verður mikil.
Lífrænt eldsneyti krefst mikilla akra sem þar af leiðandi nýtast ekki til fæðuframleiðslu fyrir soltið mannkyn.
Nýting vetnis sem orkubera virtist ekki á döfinni.
Fundur nýrra olíulinda á norðurslóðum varð til þess að menn fengu glýju i augun.
Fyrir nokkrum árum virtust menn ætla að fljóta sofandi að feigðarósi í stað þess að virkja vísindi og fjármagn til að finna lausnir.
Þeir sem framleiddu og dreifðu olíuvörum og jarðefnaeldsneyti litu skiljanlega á aðra orkugjafa sem ógn við hagsmuni sína.
En nú virðist alþjóðasamfélagið vera að taka við sér. Ástæðan er sú að menn sjá staðreyndir sem ekki er lengur hægt að leyna og að það verður að gera eitthvað í málunum.
Nú sjá menn möguleika á að nota þóríum í stað úraníums til framleiðslu kjarnorku, en það er miklu hreinni og hættuminni framleiðsla og
Vinnsla nýrra olíulinda verður æ dýrari og jafnvel þótt "bergbrot" (fracking) létti á ástandinu er það aðeins tímabundið.
Nú sjá menn möguleika á að nota þóríum í stað úraníums til framleiðslu kjarnorku, en framleiðsla með þóríum mun vera miklu hreinni og hættuminni framleiðsluaðgerð auk þess sem þóríum mun endast margfalt lengur.
Nýjar aðferðir við gerð rafgeyma eru handan við hornið. Og undraefnið grafín vekur miklar vonir auk mikilla framfara í gerð sólarsella sem margfalda orkunýtinguna.
Já, neyðin kennir naktri konu að spinna og kennir vonandi mannkyninu að nota hugvit sitt og kjark til að leysa orku- og fæðuvanda mannkynsins.
![]() |
Grafín gæti framleitt hreina orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.12.2014 | 15:16
Dæmalaus hegðun og óútreiknanleg.
Það er ekki vitað til að í nokkurri eldstöð á Íslandi hafi orðið margra mánaða langa skjálftahrina af því tagi sem Bárðarbunga hefur boðið upp á frá því í ágúst.
Að vísu skortir mælingar frá fyrri tíð hvað snertir Bárðarbungu sjálfa en það er einn hlutinn af þeim skorti upplýsinga sem hamlar því að hægt sé að spá um framhald umbrotanna þar.
Engum datt Holuhraun í hug þegar skjálftahrinan hófst, enda hölluðust menn þá frekar að því að Holuhraun væri hluti af eldstöðvakerfi Öskju.
Þess vegna veltu menn vöngum yfir fjölmörgum öðrum möguleikum, svo sem gosum í Bárðarbungu, á Dyngjuhálsi, í Gjálp, eða í eldstöðvakerfinu sem liggu í suður frá Bárðarbungu allt suður í Hrafntinnusker.
Og allir þessir möguleikar með möguleikum á stórhlaupum á fimm vatnasviðum eða hraunrennsli í tvær höfuðáttir eru enn inni í myndinni.
![]() |
Ekki hægt að útiloka gos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2014 | 10:32
Óljós mörk lífs og dauða?
Óljós mörk lífs og dauða hafa verið umhugsunarefni margra hugsuða í gegnum tíðina, eins og til dæmis skáldsins Einars Benediktssonar.
Það er ekkert langt síðan skammmstöfunin DNA birtist í orðaforðanum og enginn veit hvort eða hvenær eitthvað enn nýrra kemur fram á sjónarsviðið sem umbyltir sýn manna á eðli lífsins og tilverunnar.
Lífsmáttur DNA erfðaefnisins virðist opna möguleika á því að hinn "dauði" geimur sé ekki sú hindrun fyrir lífið sem ætla mætti.
Hallgrímur Pétursson sagðist ekki óttast afl dauðans né valdið gilt og Einar lét sig dreyma um eina alveldissál þar sem afl andans væri meira og víðtækara en okkur grunaði.
Ég hef reynt að orða þetta í lok sálms um ljúfan Drottin og hinn jarðneska dauða með þessum orðum:
Vítt um geim um lífsins lendur
lofuð séu´hans verk.
Felum okkur í hans hendur
æðrulaus og sterk.
![]() |
DNA lifði af ferð í gegnum lofthjúpinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2014 | 20:16
Hvað um að "bjarga fullveldisdeginum"?
1. desember 1918 er hugsanlega merkasti dagurinn í sögu Íslands í rúm 750 ár, eða allt frá því er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd.
Með sambandslagasamningnum var Íslendingu tryggður réttur til þess að stofna lýðveldi eftir 1. desember 1943 ef þeir kysu að gera svo. Þetta voru mestu vatnaskilin í sjálfstæðisbaráttu okkar.
Lýðveldisstofnunin 17. júní var því bein afleiðing af þessu ákvæði og vafasamt að það hefði fengist án þess.
Í mínu ungdæmi var fullveldisdagurinn 1. desember einn helsti hátíðisdagur ársins. En síðan þá hefur hægt og bítandi fjarað undan þessum degi þótt hann sé einn af örfáum alíslenskum hátíðisdögum sem eru bókfærðir í almanaki Háskólans, grunnalmanaki okkar.
Vissulega er lýðveldisdagurinn 17. júní þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga.
En við megum samt ekki gleyma fullveldisdeginum 1. desember, deginum þar sem okkur var í fyrsta sinn trygggt með alþjóðasamningi að fá að velja okkur annað fyrirkomulag en konungssamband við Danmörku.
Einmitt um þessar mundir er verið að sýna dönsku sjónvarpsmyndaröðina um stríð Dana og Prússa árið 1864.
Þetta stríð snerti okkur Íslendinga óbeint því að vegna beisklegs ósigurs Dana og missis syðsta hluta Jótlands, urðu þeir að reyna að endurheimta eitthvað af hinu tapaða landi með því að krefjast þess í stríðslok að íbúar Slésvíkur og Holsteins fengju sjálfir að kjósa um hvaða ríki þeir tilheyrðu.
En til þess að vera samkvæmir sjálfum sér urðu þeir að fallast á að Íslendingar fengju á sama hátt að velja sér framtíðarskipan sjálfstæðismála sinna.
Að þessu leyti var það Íslendingum í hag 1918 að Danir ofmetnuðust 1864 og ögruðu rísandi veldi Prússa. Hefðu Danir verið raunsærri þá og samið þannig við Prússa að þeir hefðu ekki misst svona mikið land, er ekki víst að möguleikinn hefði opnast fyrir okkur árið 1918 til að fá fullveldi.
![]() |
Kallar eftir hugmyndum til að bjarga jólunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 2.12.2014 kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.12.2014 | 16:31
Einarðlegt hjá Einurunum.
Einar segir við Einar
einarðlega og meinar
að Einar eigi að leyna
engu fyrir Einurunum tveim.
Svo einhenda sér Einararnir þrír,
einbeittir að því sem að þeim snýr
í einstaklega einhæft tal
sem einsdæmi teljast skal:
"Yfir til þín Einar
og yfir til þín Einar
og aftur yfir til þín Einar."
Og einn veit Guð hvað þýðir þeirra tal.
![]() |
Einar: Takk fyrir þetta Einar, en Einar, íþróttirnar, hvað er helst? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)