28.11.2014 | 01:31
Af hverju ekki frekar að færa vinnutímann yfir háveturinn?
Ef þjóðfélag okkar ætti að fara bókstaflega eftir kenningunni um lífklukkuna og sólarganginn, atriði sem hafa erfst í gegnum árþúsundir frá því að maðurinn bjó nálægt miðju jarðar, yrði sólarhringnum skipt í tvennt á þann hátt að svefntíminn með adraganda svefns og tíma fótaferðarinnar yrði um 10 tímar og vökutíminn til vinnu um 14 tímar, en miðja hvors tímabils um sig yrðu miðnætti annars vegar og hádegi hins vegar.
Fólk gengi þá til náða um um klukkan sjö á kvöldin, sofnaði um klukkan átta, vaknaði klukkan sjö á morgnana og hæfi vinnu klukkan sex.
Raunar þekki ég allmarga í svonefndum a-flokki sem vakna um sexleytið á morgnana og eru orðnir syfjaðir um kvöldmatarleytið og passa inn í þessa kenningu.
En hinn gríðarlegi munur á sólargangi um hávetur og hásumar hér á landi ruglar þetta allt. Fótaferð klukkan fimm til sex á morgnana myndi þýða margra klukkustunda vinnu eða nám í skóla í myrkri á hverjum morgni.Enda er allt þjóðlífið kolskakkt ef kenningin er tekin bókstaflega.
Búseta svona norðarlega hlýtur að hafa skekkt grundvöll lífsklukkunnar í gegnum aldirnar, spurningin er bara hversu mikið.
Kosturinn við að hafa klukkuna eins og hún er núna, er sá, að öll samskipti við Evrópu, sem er okkar aðal viðskiptasvæði, verða þægilegri en ef klukkunni verður seinkað.
Ameríka er hvort eð er það margar klukkustundir frá okkur að ein klukkustund til eða frá breytir ekki miklu
Hér áður fyrr var "hringlað með klukkuna" hér á landi á milli sumartíma og vetrartíma eins og dæmi eru um að gert er erlendis, en spurningin er hvort ekki sé alveg eins hægt að færa til vinnu- og námstímann aftur um eina klukkustund frá 10. nóvember til 10. febrúar.
Þessir dagar sem ég nefni miðast við það að klippa af myrkurstímanum á morgnana og taka það með í reikninginn að sólarupprás er seinna á degi hverjum eftir sólstöður en fyrir sólstöður.
Ótalinn er einn kostur þess að halda klukkunni kyrri. Hann er sá að í okkar norðlæga landi með tilheyrandi lágum sólargangi og mörgum dögum með skýjuðu veðri er gott að geta notið sólarinnar eftir vinnu klukkustund lengur en ella, einmitt þá stund sem sólin er ekki búin að lækka of mikið.
![]() |
Mjög brýnt að seinka klukkunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
27.11.2014 | 20:11
Hverjir eru á villigötum ?
Jón Gunnarsson segir að það eigi að fara af stað í Hvammsvirkjun og "láta á það reyna" hvernig mótvægisaðgerðir til verndar laxastofninum reynast.
Við höfum heyrt þetta áður, "að láta á það reyna", svo sem við Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma, sem auðvitað er víðsfjarri því að láta náttúruna njóta vafans en ekki framkvæmdirnar eins og við skuldbundum okkur til að gera, þegar við undirrituðum Ríósáttmálann fyrir 22 árum.
Það á að vaða með virkjanir, stíflur,lón borholur, gufuleiðslur, stöðvarhús, skiljuhús, háspennulínur upp á miðhálendið þótt það hafi verið ein höfuðforsendan í starfi rammaáætlunar að þyrma ósnortnum landslagsheildum, ekki hvað síst á miðhálendinu sem á enga hliðstæðu í víðri veröld.
Einnig að fara inn í Skaftárhrepp í svipuðum dúr og gera líka virkjun við Hagavatn, sem að vísu drekkir foksandi um hríð, en skilur efti sig enn stærra foksandssvæði þegar lónið hefur fyllst af auri og vatnsmiðlunin og virkjunin verða til einskis fyrir afkomendur okkar.
Jón lsegir að gagnrýnin umræða um þetta sé á villigötum en á hvaða leið eru þeir sem standa fyrir þessum áformum öllum?
![]() |
Umræðan á villigötum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.11.2014 | 19:41
Smálútskýring: Flýg ekki yfir gígbarma eða ofan í gjósandi gíga.
Myndir af loftförum nálægt spúandi eldgígum kalla á útskýringar á því hvernig slíku flugi er háttað, því að annars mætti halda að flogið sé beint yfir gígbörmum og jafnvel ofan í gígunum sjálfum.
Þegar loftför eru á ferð utan eða neðan við svonefnd flugstjórnarsvæði sjá flugmenn sjálfir um að tryggja aðskilnað loftfaranna á bylgjunni 118,1.
Holuhraun liggur inni á milli fjallahrings, Dyngjuháls og Trölladyngju í vestri, Dyngjufjalla, Öskju og Vaðöldu í norðri, Fagradalsfjalls, Kverkfjallarana og Kverkfjalla í austri og Dyngjujökuls og Bárðarbungu í suðri.
Þar er aðeins hægt að ná radíósambandi á milli loftfara niðri á svæðinu eða við flugvélar sem fljúga hátt yfir landinu og eru yfirleitt í áætlunarflugi langt fyrir ofan svæðið sem er utan flugstjórnarrýmis Flugstjórnar.
Í fluginu við eldstöðina skiptu flugmennirnir þrír í gær með sér flughæðum, sá lægsti var í 3500 feta hæð eða um 1000 fetum hæð ofar en Baugur, þar fyrir ofan var loftfar í 4000 feta hæð og hið þriðja í 4500 feta hæð eða ofar.
Ragnar Axelsson og Einar Dagbjartsson flugu fyrst í neðstu flughæðinni og um borð í flugvélinni sem ég flaug voru Friðþjófur Helgason og Alma Ómarsdóttir.
Eftir að við vorum búin að taka myndir af flugvél RAX og Einars, sem bíða sýningar, var skipt um hlutverk og RAX tók myndir af okkur með því að hækka sig upp fyrir 4500 fet á meðan ég var í 3500 fetum.
Myndirnar sem teknar voru ofan frá í báðum tilfellum voru teknar með talsverðum aðdrætti þannig að eldstöðin og gígurinn sýnast miklu nær myndatökumönnunum en raunveruleikinn er.
Þar að auki er myndin tekin á ská niður, en með því móti er hægt að láta neðri flugvélina bera við gíginn eins og hún sé yfir gígbarminum eða jafvel ofan í gígnum.
Með því að taka myndina í drjúgri hæð sjást stærðarhlutföll milli flugvélar og eldstöðvar betur en ef mynd er tekin nálægt flugvélinni, sem myndin er af.
Flogið er þeim megin við eldstöðina sem vindurinn kemur frá og bægir heitu uppstreymislofti gígsins frá, en ekki flogið þeim megin sem heita lofti fer yfir.
Í gær var vindur á vestan og nógu mikill til að það myndaðist sandfok á Jökulsárflæðum.
Til þess að geta náð myndum eins og náðust fyrir viku þarf mikinn aðdrátt, en það kallar á að flugvélin fljúgi í gegnum stöðugt en ekki óstöðugt.
Þess vegna hef ég aldrei í þessu eldgosi eða öðrum eldgosum flogið yfir gígbarma, hvað þá ofan í gígana sjálfa þótt það kunni að sýnast svo á myndum sem teknar eru með miklum aðdrætti. Ef svo hefði verið að frá upphafi kvikmyndatökuferða minna yfir eldgos, væri ég ekki að blogga þetta núna heldur hefði ég farist þegar í Heklugosinu 1970 og misst af þeim 24 gosum sem komið hafa síðan.
![]() |
Myndasyrpa RAX úr Holuhrauni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.11.2014 | 09:00
Duldir ógnarkraftar.
Ýmsa mælikvarða má nota þegar lagt er mat á stærð náttúruhamfara og það hve merkilegar eldstöðvar séu. Nefnum nokkra:
1.
Heildarmagn kvikunnar, sem kemst upp á yfirborðið í mismunandi formi ösku eða hrauns, mælt í rúmkílómetrum. Sé þessi mælikvarði notaður eru tvö gos á sögulegum tíma langstærst. Stærst er Eldgjárgosið 934, líkast til með um 20 rúmkílómetra. Í öðru sæti eru Skaftáreldar 1783, með um 16 rúmkílómetra. Fram að þessu er Holuhraunsgosið enn miklu minna en þó komið vel á annan rúmkílómetra.
2.
Flatarmál hrauns. Þar eru Eldgjá og Lakagígar enn efst á blaði, og Eldhraunin úr Lakagígum þekja um 565 ferkílómetra lands. Holuhraunið hið nýja er komið í 74 ferkílómetra og er stærsta hraun sem runnið hefur hér á landi síðan í Skaftáreldum.
3.
Afl og ákafi gossins. Flest gos eru kraftmest í upphafi og þeirra er oftast minnst fyrir það. Hér kemur Grímsvatnagosið 2011 sterkt inn. Á fyrsta degi kom meiri aska upp úr Grímsvötnum en í öll Eyjafjallajökulsgosinu, sem var næstum tíu sinnum minna hvað snertir framleiðslu á ösku. Af þeim 26 eldgosum, sem ég minnist (ég man eftir Heklugosinu 1947 þótt ég væri þá aðeins á sjöunda ári), er Grímsvatnagosið á fyrstu klukkustundum þess það langöflugasta og hrikalegasta. Heklugos eru alltaf öflugust í byrjun og vegna búsifja af þeim naut það eldfjall lengst af meiri frægðar hér á landi og erlendis en nokkur önnur íslensk eldstöð.
4.
Samanlagður áhrifamáttur gossins. Hér tróna Skaftáreldar efst þegar við hraunframleiðsluna og ákafann í gosinu, sem stóð aðeins í fáa mánuði, bætist dráp 25% landsmanna, 70% búfjár og milljóna manna í þremur heimsálfum. Því að í viðbót við öll þessi býsn af hrauni var gasframleiðsla gossins yfirgengilega mikil og hafði ekki aðeins áhrif á lífsskilyrði fólks, dýra og gróðurs, heldur olli veðurfarsbreytingum, sem vöruðu í nokkur ár.
5.
Hve merkileg og einstæð er eldstöðin? Þar skjótast Grímsvötn upp fyrir allar aðrar íslenskar eldstöðvar fyrir sakir einstæðs samspils elds og íss auk þess sem Grímsvötn eru virkasta eldstöð Íslands, mælt í tíðni gosa, gjóskuframleiðslu og hamfarahlaupum. Þau eru eina íslenska eldstöðin sem kemst á lista yfir sjö merkustu eldstöðvar á þurrlendi jarðarinnar.
6.
Samanlögð áhrif eldstöðvarinnar, bæði þegar gýs í henni sjálfri og í eldstöðvakerfi hennarHér og því, sem ég vil nefna "dulda ógnarkrafta", þ. e. alla þá kviku og umbrot sem tengjast eldstöðinni. Hér skýst Bárðarbunga sennilega upp í efsta sætið. Og séu Holuhraunseldar "ofboðslega mikið gos" eru samanlagðar hamfarir þar og undir Bárðarbungu enn ofboðslegri.
7.
Persónuleg upplifun. Hér er það hver og einn sem velur fyrir sig og hvað mig snertir eru a' minningar úr tveimur gosum,sem tróna efst. Annars vegar að standa á barmi gjár syðst í Gjástykki í Kröflugosi í ársbyrjun 1981 og horfa lóðrétt niður gjávegginn, sem var ígildi árbakka, ofan í breiða hraunelfu sem fossaði hljóðlaust framhjá eins og eldrauð Þjórsá. Það var einungis mögulegt að standa þarna á þennan hátt án þess að fuðra upp samstundis vegna þess að snarpur vindur í 10 stiga frosti stóð af gjábarminum inn yfir hraunelfuna. Aðeins eitt skref fram af brúninni og "mjög snöggt bað" í jarðeldinum. Hins vegar er einn einstæðari upplifun, Heimaeyjargosið, flug lágt yfir hafflötinn um hánótt í átt að Heimaey á móti röð af flýjandi bátum þar sem fólkið sást standa á þilförunum, en bjarmi eldveggsins að baki upplýstum húsum bæjarins framundan og skin tungls, sem gægðist augnablik í gegnum skýin, sindruðu á sjónum. Ég var sá eini sem kom fljúgandi til Eyja undir skýjum, - aðrir komu inn í blindaðflugi. Þess vegna á enginn annar slíka minningu, sem eingöngu væri hægt að festa niður með því að mála af því mynd eftir þessari lýsingu og staðsetning og nota tölvutækni.
![]() |
Þetta er ofboðslega mikið gos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2014 | 00:18
"Frelsi frá ótta."
Eitt af fjórum tegundum frelsis sem Roosevelt Bandaríkjaforseti boðaði í ársbyrjun 1941 að Bandaríkin ættu að keppa að á heimsvísu var "frelsi frá ótta."
Eitthvað skortir á að sú sýn verði að veruleika þegar tólf ára barn með leikfangabyssu veldur slíkum ótta, að kallað er á lögreglu í gegnum neyðarlínu og þegar lögreglumennirnir koma að barninu, er rennt upp að því á lögreglubílnum, kallað á það um leið og dyrunum er svipt upp og það skotið umsvifalaust.
Lögregluþjónninn segist hafa óttast svona mikið um líf sitt.
Roosevelt boðaði líka "frelsi frá skorti". Ekki þarf að fjölyrða um það hve mikið hefur miðað í þá átt í 73 ár.
Og í fangelsum Bandaríkjanna sitja 2,3 milljónir manna, miklu fleiri hlutfallslega en í nokkru öðru landi, líka Kína. Þúsundir bíða dauðadóms. Samsvarar því að 2300 mann sætu í fangelsum hér á landi. Ekki mikið frelsi falið í því.
![]() |
Birta upptöku af drápi drengs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.11.2014 | 21:13
Enn ný sjón við Holuhraun í dag.
Það gefur sjaldan til flugs frá Reykjavík austur yfir Holuhraun þessar dimmu vikur, en þá sjaldan þegar farið er þangað, blasir sífellt við ný og ný sjón.
Við vorum þarna á ferð í dag á myndatökuferð á tveimur flugvélum, Ragnar Axelsson og Einar Dagbjartsson á annarri flugvélinni, en ég á hinni vélinni með Friðþjóf Helgason og Ölmu dóttur mína innan borðs.
Í næstum 100 kílómetra fjarlægð sást gosmökkurinn rísa yfir skýjabreiðuna og þegar komið var norður fyrir Vonarskarð blasti við öll vetrardýrð norðurhálendisins, böðuð í lágri vetrarsól undir heiðum himni.
Þótt svipað bjartviðri væri þarna nú og fyrir fimm dögum var birtan samt gerólík og vindurinn stóð úr vestri í stað suðausturs um daginn.
Fyrir bragðið leit gosstaðurinn allt öðru vísi út, það var sandfok af Jökulsárflæðum og víðar og sömuleiðis lagði meiri gufur upp úr hrauninu en um daginn.
Ég ætla að setja inn ljósmynd eða ljósmyndir á facebook síðu mína nú á eftir, en kvikmyndirnar okkar Friðþjófs verða að bíða eitthvað eftir vinnslu og birtingu.
Afrakstur RAX verður hins vegar til sýnis í Morgunblaðinu í fyrramálið.
![]() |
Gosið sést vel á vefmyndavél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2014 | 09:27
Stigmögnun eykur áhættu. "Skipulagt brjálæði".
"Vígbúnaðurinn í Vestur-Evrópu er skipulegt brjálæði" sagði breski stjórnmálamaðurinn Lloyd George á nýjársdag 1914. Það átti eftir að koma betur í ljós síðar það ár.
Leikur Pútíns og Vesturveldanna sem spilaður er í Austur-Evrópu, er leikur að eldinum.
Þrátt fyrir allar framfarir í mannlegum samskiptum í gegnum fjarskipti nútímans og þrátt fyrir það að efnahagur þjóðanna sé margfalt meira samansúrraður nú en fyrir öld, er stigmögnun aðgerða í togstreitunni og átökunum milli vesturs og austur í Evrópu jafn áhættusöm og hún var fyrir réttri öld, sama hver í hlut á.
Það er umhugsunarefni.
![]() |
Bandarískir skriðdrekar til Austur-Evrópu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2014 | 22:06
Hvað um íslensku ævintýrin?
Grænlendingar eru "komnir aftur niður á jörðina" segir í frétt en þeir sáu í hillingum stórkostlegar framkvæmdir vegna námavinnslu, sem nú hafa gufað upp.
En þeir eru bara eitt dæmið af mörgum þar sem menn rjúka upp til handa og fóta í anda gullæðisins sem greip Bandaríkjamenn og kennt er við Klondyke.
Í frétt einni í sjónvarpi fyrir þremur árum var viðtal við bóndann á Hvestu við Arnarfjörð.
Hann lýsti því að hann hefði verið með marga möguleika í huga í sambandi við atvinnumöguleika og ný tækifæri, en væri búinn að fresta þeim öllum og hefði ákveðið að bíða frekar eftir olíuhreinsistöðinni risavöxnu, sem hlyti að fara að koma.
Hér á landi hefur hálgert olíuævintýrisæði runnið á menn. Ekki var fyrr búið að ympra á málinu en menn fóru að eyða stórfé í að skipuleggja og undirbúa stórar olíuhafnir á Norðausturlandi, meira að segja í eyðifirðinum Loðmundarfirði með tilheyrandi jarðgöngum yfir til Fljótsdalshéraðs og hraðbraut nánast beina reglustikuleið til Reykjavíkur yfir hálendi og fjöll.
Nú þegar er búið að slá olíuævintýrinu föstu með því að gera bindandi samning við útlend fyrirtæki um rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu án þess að nokkur bitastæð eða upplýst umræða hafi farið fram um það.
Kostnaður við vinnslu á því dýpi sem olían kann að verða fimmfalt meiri en kostnaðurinn af vinnslu olíu í Suðurlöndum, svo að olíuverðið myndi varla duga fyrir kostnaðinum.
Búið er að negla það niður að Íslendingar gerist olíuvinnsluþjóð, klári olíu Drekasvæðisins á nokkrum áratugum og leggi fram hámarks skerf sinn til mengunar lofthjúpsins og loftslagsbreytinga á sama tíma og íslensku þjóðinni veitt alþjóðleg viðurkenning fyrir sjálfbæra þróun, afrek í umhverfismálum og nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa.
Og þetta gerist á sama tíma og þriðjungur af raforkuframleiðslu landsins fæst með rányrkju á jarðvarma og með mest mengandi fyrirtæki landsins á Hellisheiði, sem mengar meira en nokkurt álver.
Umskipunarhafnaævintýri er þegar byrjað að heilla menn svo mjög að þeir fá ofbirtu í augun.
Talað er um heimshöfn í Finnafirði á borð við Bremerhaven. Liggja þó siglingarleiðirnar um norðvesturleiðina og norðausturleiðina hvorugar um Ísland, heldur norður með vesturströnd Grænlands og norður með strönd Noregs og við blasir að einasta svæðið á Íslandi, sem gæti skapað nauðsynlegt bakland "heimshafnar" er við sunnanverðan Faxaflóa.
![]() |
Komnir aftur niður á jörðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2014 | 09:21
Athyglisverðar tölur í hreingerningamálinu.
Nokkrar tölur hafa verið nefndar í hreingerningamálinu á Landsspítalanum.
1. Þær kosta 100 milljónir á ári núna eftir að verkið var boðið út og 12 Pólverjar vinna það.
2. Þær kostuðu 67 milljónir áður en verkið var boðið út og 35 Íslendingar unnu það.
Sagt var í frétt um málið að verkefnið hefði verið aukið eitthvað þegar skipt var um form á vinnunni við það. Ekki var þó svo að skilja að það hafi verið aukið um 50%, jafnmikið og kostnaðaraukinn varð. Fróðlegt væri samt að fá að vita hve mikil þessi aukning var.
Eftir stendur að 12 Pólverjar vinna verk sem 35 Íslendingar unnu áður, og að verkefnið hafi samt verið aukið.
Gagnlegt gæti verið að kafa betur ofan í þetta þríliðudæmi og tryggja að allar forsendurnar séu réttar, því að í fljótu bragði virðist sem verktakafyrirtækið græði drjúgum á því að píska útlendingum út og brjóta jafnvel á þeim lög.
Kannski finnst mönnum það hið besta mál að íslenskir eigendur verktakafyrirtækja eigi möguleika á því að efnast vel og leggja sitt af mörkum í aukna neyslu og hagvöxt sem fylgir gróða með því að innleiða hálfgert þrælahald útlendinga.
Að hér aukist stéttaskipting í nýlendustíl þar sem herraþjóðin efnist vel en undirþjóðinni sé þrælað út á lægsta tekjuþrepi eða jafnvel fyrir neðan það.
Vissulega hafa útboð og einkavæðing ákveðna kosti, hrista upp í málum og auka á útsjónarsemi til hagræðingar og betri nýtingar vinnuafls og peninga þar sem áður var komin ákveðin stöðnun sem oft fylgir opinberum rekstri.
En á móti kemur, að mörg dæmi eru um það að eftirliti og eftirfylgni hin opinbera með verktökunum er afar víða áfátt enda skorið við nögl sér með það.
Ég hef áður nefnt dæmi um það eins og til dæmis við gatnaframkvæmdir í Reykjavík þar sem verktakar hafa komist upp með að brjóta skilmála og við framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli sem urðu ónýtar með margra tuga milljóna kostnað fyrir skattgreiðendur.
![]() |
Milljarður í Landspítalann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.11.2014 | 08:52
Eðlileg afleiðing af skotvopnadýrkun Bandaríkjamanna.
Hvíti maðurinn ruddi sér braut og valtaði yfir rauða menn í tveimur heimsálfum og þetta vald spratt fram úr byssuhlaupunum sem bogar og örvar indíánanna máttu sín litils gegn.
Sé kýrin heilagt dýr á Indlandi og sauðkindin jafnvel enn hér á landi er byssan dýrkuð sem aldrei fyrr vestra. Bandaríkjamenn bera fyrir sig að í "frontier"landi, landnámssvæði, sé almenn byssueign eðlileg.
Það eru falsrök, því að hvorki Kanadamenn né Ástralíumenn búa við neitt viðlíka böl af völdum mannvíga með skotvopnum og Bandaríkjamenn.
Ungi drengurinn sem tók upp leikfangabyssuna gæti hafa orðið fórnarlamb þeirrar takamarkalausu dýrkunar á byssunni sem er innrætt strax í frumbernsku. Það leit kannski út í hans augum eins og skemmtilegur byssuleikur þegar lögreglumaður skipaði honum að setja hendur upp fyrir höfuð.
Lögreglumaðurinn tilheyrði stétt manna þar sem ítrasta tortryggni var nauðsynleg til að vera ekki skotinn af einhverjum sem beitti lymskulegu bragði.
Báðir voru fórnarlömb óeðlilegs ástand í þjóðfélagi þeirra, ef marka má fréttir af því að lögreglumaðurinn sé niðurbrotinn maður.
Á mörgum sviðum nútímalífs bæði í Bandaríkjunum og annars staðar virðist sem ákveðin valdaöfl hafi kverkatak á þjóðfélögum með því að nýta sér yfirburði fjármagns og aðstöðu.
Þeir sem hagnast á vopnasölunni og eigendur vopnanna vestra koma ævinlega í veg fyrir breytingar og á öðrum sviðum má víða sjá víða um lönd hvernig yfirburðir fjármagns, valda og aðstöðu standa í vegi fyrir umbótum á ýmsum sviðum.
![]() |
Varði framgöngu lögreglumannsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)