21.11.2014 | 22:08
Af hverju ekki útskiptanlegir rafgeymar?
Þegar rafbílsútgáfa af Peugeot 106 var kynntur hér á landi fyrir 17 árum var tæknin skammt á veg komin miðað við það sem núna er að gerast. Bíllinn var mjög þungur og drægnin eða drægið lítið, en það atriði var augljóslega alger dragbítur á gengi svona bíla.
Þá strax kom mér það í hug að framtíðarrafbilarnir yrðu þannig hannaðir, að þegar maður kæmi inn á hleðslustöð, sem væri hliðstæð við bensínstöð fyrir bíla, sem knúnir væru jarðefnaeldsneyti, tæki afgreiðslumaður rafgeymana úr bílnum og setti aðra hlaðna geyma í staðinn.
Jafnvel væri hönnunin þannig að ökumaðurinn gæti sjálfur skipt um geyma með þar til hannaðri tækni, líkt og á sjálfsafgreiðsludælum núverandi bensínstöðva.
Kosturinn við þetta væri auðsjáanlegur: Það væri margfalt fljótlegra að skipta geymunum út heldur en að bíða eftir því að hlaða tóma rafgeyma bílsin, jafnvel þótt um svonefnda hraðhleðslu yrði að ræða.
Einhverra hluta vegna hefur þessi hugmynd um útskiptanlega geyma ekki birst fyrr en nú, og þá í Dakarrallinu.
Afl rafvéla miðað við brunavélar er feykinóg nú orðið. Þannig er kraftmesti Tesla bíllinn tæplega 600 hestöfl og vegna þess að togið byrjar frá strax á fyrstu snúningum, nýtist það mun betur en í brunavélum.
Rafbílarnir koma, á því er varla nokkur vafi. Ný tækni við efnið í rafgeymum sem kemur í stað lithiums og ný tækni við hraðhleðslu og hagkvæmni vegna vaxandi fjöldframleiðslu mun gera rafbíla sérlega áhugaverða fyrir okkur Íslendinga.
Ef 17 ára gamall draumur minn um útskiptanlega geyma gæti ræst yrði stærstu tæknilegu hindruninni fyrir rafbílum rutt úr vegi.
![]() |
Rafbíll í Dakarrallið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
21.11.2014 | 15:16
Er hægt að giska á magn eiturefnanna í Skaftáreldunum?
Gosið í Holuhrauni leiðir hugann að Skaftáreldunum 1783 sem drápu 70% búfjár, 25% landsmanna og milljónir manna í þremur heimsálfum.
Þótt erfitt sé um vik við samanburð á þeim ósköpum og eldgosinu í Holuhrauni nú held ég að það væri fyrirhafnarinnar virði að vísindamenn reyndu að finna út hve mikið magn af eiturefnum fóru þá út í loftið.
Vitað er að hraunið var átta sinnum stærra að flatarmáli og magnið eða rúmmálið 16 sinnum meira. Fróðlegt gæti verið að giska út frá því á magn eiturefnanna, sem þá fóru út í andrúmsloftið.
![]() |
Áhrif af gosinu geta orðið hrikaleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
21.11.2014 | 14:50
"Stjórnmál snúast um traust."
"Stjórnmál snúast um traust." Þetta svar gaf þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir rúmum áratug þegar hann var spurður um hvort einn af þingmönnum flokksins ætti að segja af sér þingmennsku vegna þess að hann væri í slæmum málum. Þingmaðurinn sagði af sér.
Sama gildir nú. Það heyrist sagt að í gangi sé "ljótur pólitískur leikur" og "herferð og einelti" vondra fjölmiðla.
Þeir sem þannig tala líta fram hjá því að enda þótt margir héldu að lekamálinu væri lokið við dómsuppkvaðningu í því nú á dögunum héldu aðilar málsins áfram að bæta gráu ofan á svart með því að halda áfram að verða margsaga og með undanbrögð um málið og nýjar upplýsingar, sem komu fram í því.
Nú hefur núverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu bæst við sem málsaðili með veiklulegan framburð og fyrrum aðstoðarmaður ráðherra heldur áfram að vera margsaga í því.
Ráðherrann er sá aðili sem réði tvo þessa embætismenn.
Og í miðjum fersli málsins sagði lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins af sér embætti og fékk annað starf og fékk annað starf utan ráðuneytisins
Þetta mál hefði aldrei orðið að því sem það er orðið ef aðilar þess hefðu komið hreint fram í upphafi og upplýst það allt og hreinsað þá þegar.
Og það hefði heldur ekki haldið áfram að malla,ef samviskusamir og hugrakkir blaðamenn hefðu látið bugast undan þrýstingi um að hætta að fjalla um það.
Að því leyti til minnir þetta mál á margfalt stærra mál í Bandaríkjunum 1972-73, sem varð svo stórt sem raun bar vitni af því yfirhilming, undanbrögð og margsaga aðilar þess ollu því í lokum að forseti landsins varð að segja af sér.
Það mál hefði annars aldrei orðið annað en smáfrétt.
Nú hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir sagt af sér ráðherradómi og það minnir okkur á það að hún er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn hér á landi í sögunnar rás, sem hefði betur gert slíkt.
Allt of oft hafa pólitíkusar komist upp með það að sitja sem fastast.
Hún sagði sjálf í viðtali að sjálfsagt hefði hún gert mörg mistök í þessu máli og með afsögn sinni nú hefur hún ákveðið að axla ábyrgð af þessum mistökum.
Öll gerum við mistök og getum verið breysk. "Dæmið ekki því að þér munuð sjálfir dæmdir verða" sagði meistarinn frá Nazaret. Þess vegna er afsögn Hönnu Birnu ekki niðurlæging fyrir hana heldur henni til sóma, svo einkennilega sem það kann að hljóma í eyrum dómharðra manna.
![]() |
Hanna Birna hættir sem ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.11.2014 | 00:50
Undrun í sextíu ár útaf sömu kynslóðinni.
Hér á landi hafa menn alla tíð verið afar seinir til að átta sig á því hve mikil áhrif samsetning íbúanna eftir aldri hefur á þjóðlíf og efnahag.
Á uppgangsárum stríðsáranna stórfjölgaði barnsfæðingum eftir mun minni fjölgun á kreppuárunum milli 1930 og 1940.
Tæpum tíu árum síðar virtist það koma mönnum mjög á óvart að skyndilega glímdu grunnskólar landsins við mikinn húsnæðisvanda. Á tímabili voru til dæmis tæplega 1852 nemendur í Laugarnesskólanum.
Nokkrum árum eftir það urðu menn enn meira hissa á óvæntri stórfjölgun nemenda í framhaldsskólum. Í M.R. var til dæmis kennt bæði fyrir hádegi og eftir hádegi til þess að anna stórfjölgun, sem samt var reynt að hamla gegn með því að sía úr þeim stóraukna fjölda, sem kom í skólann úr landsprófi.
Svona gekk þetta áfram því að ekki liðu mörg ár þangað til mikla undrun vakti hin óvænta stórfjölgun í háskólanámi sem virtist koma mönnum algerlega á óvart og í opna skjöldu.
"Barnabólan" (baby boom) á stríðsárunum er enn ekki hætt að hafa áhrif þótt allir virðist vera svo undrandi á stórvaxandi útgjöldum til heilbrigðismála.
Barnabólubörnin eru nefnilega enn á ferð og eru nú að flykkjast á eftirlaun og í alls konar aðgerðir á sjúkrahúsum sem leiða af öldrun.
Og enn einu sinni eru menn ekki aðeins hissa, heldur viðast koma alveg af fjöllum.
Dæmi um það er þegar fjármálaráðherra segir að aldrei hafi jafnmiklu fé verið varið til heilbrigðismála og nú og að þess vegna þurfi ekki frekari fjárútlát í þann málaflokk.
Þetta sýnir að hann er alveg blindur á það að stórfjölgun aldraðra veldur því að miklu meiri fjármuni þarf í heilbrigðisþjónustuna en áður, bara vegna þessarar fjölgunar.
Satt að segja er ástæða til að verða hissa á því hve menn eru enn hissa á afleiðingum barnabólunnar í stríðinu og svipaðrar fjölgunar síðar á þeim tímabilum þegar vel hefur árað síðar í þjóðarbúskapnum.
Á sama tíma hefur fæðingum fækkað síðustu áratugi þannig að sífellt verða þeir færri, sem eru á besta aldri og verða að vinna fyrir útgjöldum vegna stórfjölgunar þeirra eldri.
Þetta virðist alveg fara fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar.
Með sama áframhaldi þarf varla að efast um það að menn eigi eftir að verða hissa í enn eitt sinn hér á landi þegar stríðsárabörnin fara að valda stórauknum útgjöldum vegna fjölgunar dauðsfalla og aukinnar þörf á rými í kirkjugörðum.
![]() |
Hin óhugnanlega mannfjöldaþróun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.11.2014 | 20:28
"Hratt kólnandi veðurfar..."!
Þessa dagana hafa verið að birtast pistlar á netinu pistlar manna, sem ég hef kosið að kalla "kuldatrúarmenn" þess efnis að óyggjandi rannsóknargögn og staðreyndir sýnir að loftslag á jörðinni fari alls ekki hlýnandi heldur kólnandi.
Með því einu að breyta hlýnun,sem er eindregin niðurstaða hjá Sameinuðu þjóðunum, í kólnun virðast kuldatrúarmenn telja nauðsynlegt að snúa vörn í sókn. Hafa greinilega ekki talið nógu sterk rök, sem þeir héldu fram í fyrra, að ef janúar og febrúar hefðu verið teknir út úr útreikningi á meðaltalshita ársins 2013 á Íslandi hefði það ár verið kaldasta árið á þessari öld.
Nei, nú er greinilegt að þeir láta ekki þar við sitja enda þyrftu þeir að krefjast þess að margir mánuðir þessa árs yrðu teknir út úr útreikningi meðalhitans til þess að þetta ár á Íslandi yrði viðurkennt sem ár kólnunar .
Þeir fullyrða nú að veðurfar á jörðinni fari ekki einasta kólnandi heldur segja þeir fullum fetum: "Það kólnar hratt"!
Eitt af því sem þeir nefna eru vetrarhörkur í Norður-Ameríku í fyrravetur og má nærri geta hve núverandi vetrarríki þar er þeim kært, ekki hvað síst hið gríðarlega fannfergi í Buffalo.
Í veðurfréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld var sýnt hvernig það eru óvenjulega harðvítug átök kalds heimskautalofts, sem streymir fyrirstöðulaust suður yfir sléttlendi meginlands Norður-Ameríku, við rakt og hlýrra loft yfir Vötnunum miklu, sem veldur hinni miklu snjókomu.
Í öllum skýrslum vísindasamfélagsins um loftslagsbreytingar er þess getið að hlýnun lofthjúps jarðar valdi auknum átökum og öfgum í veðurfari.
Þótt þessi átök geti valdið tímabundnum eða staðbundnum "vetrarhörkum" er það meðaltal hita lofthjúps allrar jarðarinnar sem skiptir máli en ekki staðbundnar sveiflur og öfgar.
Þetta virðast kuldatrúarmenn alls ekki geta skilið eða þá að þrjóskan í málflutningi þeirra er svo mikil að þeir loka augunum fyrir því.
Þeir skauta einnig fram hjá því að mikil snjókoma þarf ekki að vera dæmi um mikinn kulda.
Sem dæmi má nefna svæði, þar sem meðalfrost yfir háveturinn er 6-10 stig. Þar getur snjóað gríðarlega mikið í miklu hlýrra veðri, eða í 0-3ja stiga frosti.
Dæmi um þetta eru mikil og aukin snjóalög á Harðangursheiði yfir háveturinn eftir að meðalhitastig ársins hækkaði.
En það voraði fyrr en áður, sumrin voru hlýrri og votviðrasamari og það haustaði síðar, og þetta varð til þess að jöklarnir í Noregi svo sem Folgefonn, Harðangursjökull, Jóstadalsjökull og Svartisen, uxu ekki, heldur minnkuðu.
Það finnst mér undravert, hvernig jafn vel menntaðir og fróðir, sem margir kuldatrúarmannanna eru, flestir miklir ágætismenn, hvernig þeir geta barið hausnum við steininn í þessu máli.
Með fullyrðingum sínum um að loftslag fari hratt kólnandi eru þeir reyndar orðnir að fágætum heittrúarmönnum.
![]() |
Hlýnunin gæti valdið kuldakasti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
20.11.2014 | 16:28
Áherslan loks á heitasta svæði landsins.
Skipulag nýrrar Vogabyggðar getur orðið umdeilt eins og allar framkvæmdir, þar sem menn hafa mismunandi sjónarmið og mismunandi smekk.
En eitt atriði ætti að vera óumdeilt. Skammt sunnan við hið nýja hverfi eru langstærstu krossgötur landsins.
Annars vegar liggja um þessar krossgötur leiðirnar frá Vestfjörðum og Norðurlandi í gegnum höfuðborgarsvæðið til Suðurnesja - og öfugt, - og hins vegar leiðin frá Austur- Suðausturlandi og Suðurlandi í gegnum sömu krossgötur allt út á Seltjarnarnes.
Allar raunverulegar krossgötur soga til sín byggð með verslun og þjónustu og mynda "heitt svæði" sem í þessu tilfelli nær frá Ártúnshöfða um Mjódd og Smárahverfið í Kópavogi.
Ný Vogabyggð yrði hluti af þessu komandi miðjusvæði.
Mikilvægt er að standa vel að frárennsli frá hinni óhjákvæmilegu vaxandi byggð við Elliðavog svo að tryggt sé að lífríki Elliðaánna sé ekki ógnað.
Aðrar spurningar um eðli hverfisins og skipulag munu væntanlega verða efni í umfjöllun og skoðanaskipti sem nauðsynlegt er að leiði til farsællar lausnar.
Austan við voginn bíður síðan enn mikilvægara svæði þess að vera tekið til rækilegrar meðferðar, en það er Ártúnshöfðahverfið, sem býður upp á gríðarlega möguleika til endurskipulagningar og uppbyggingar.
Það hlýtur að koma að því að stórfellt malarnám og steypustöð víki á svona dýrmætu svæði nálægt raunverulegum þyngdarpunkti höfuðborgarsvæðisins.
Malarnámið og steypustöðin hafa vafalaust risið á afar heppilegu svæði til slíkrar starfsemi sem erfitt kann að vera að endurnýja á jafn góðum stað.
En sjáið þið fyrir ykkur slíkt nálægt helstu krossgötum í umferð Lundúnaborgar, Kaupmannahafnar eða annarra erlendra borga, sem risið hafa á krossgötum?
![]() |
100 milljarðar í nýtt hverfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2014 | 01:47
Ekki bara að þeir leiti annað, - þeir eldast og hætta samt.
Þegar rætt er um að vaxandi hætta sé á að íslenskir læknar, sem útskrifast hér heima eða vinna hér heima, gleymist að geta þess, að alla nýliðun skortir, þannig að jafnvel þótt enginn núverandi starfandi læknir leiti til útlanda, eldast þeir um einu ári eldri á hverju ári og falla síðan vegna öldrunar úr vinnu.
Ef rétt er, að meðalaldur lækna sé um 55 ár, eiga þeir að meðaltali ekki eftir nema í mesta lagi 13-15 ár eftir í starfi.
Það þýðir að innan tiltölulega fárra ára verður fækkun þeirra orðin ígildi hruns.
Það er bara einfaldlega þannig.
![]() |
Hrýs hugur við ástandinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.11.2014 | 21:56
Þarf að taka þrjú núll af krónunni.
Íslenska krónan hefur rýrnað svo mikið á tæpri öld, að ein króna fyrir 94 árum jafngildir víst um 4000 krónum nú.
1981 voru tvö núll tekin af henni, þannig að hundrað krónur urðu að einni krónu.
Því miður ruglaði þetta flest í ríminu því að miklu skýrara hefði verið að taka þrjú núll af.
Þá hefði milljón orðið að þúsundi og milljarður að milljón.
Nú er krónan orðin talsvert verðminni en hún var fyrir myntbreytinguna 1981 svo að það er komið tilefni til nýrrar myntbreytingar, enda hvort eð er komið tilefni til að breyta seðlum í mynt og leggja myntir niður.
Eitt af því sem ruglaði fólk í Hruninu var hve upphæðirnar sem það snerist um, voru fáránlega háar. Fólk varð hreinlega dofið og slævt.
Ég hygg að lægri tölur en samt í auðskiljanlegu hlutfalli við núverandi tölur, yrðu til bóta.
![]() |
500 krónu mynt í stað seðils |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2014 | 19:54
Hvað þýðir talan "rúmlega hálft prósent"?
Í frétt í blaði var þess getið að NA-SV brautin, svonefnd "neyðarbraut" á Reykjavíkurflugvelli aðeins verið notuð í "rúmlega hálft prósent" lendinga á vellinum á síðasta ári.
Með því að flagga svona lágri tölu er augljóslega verið að draga nytsemi vallarins stórlega niður.
En hvað þýðir þessi tala? Jú, "rúmlega hálft prósent" notkun brautarinnar samsvarar því að vegna þess að ófært var til lendinga á öðrum brautum vallarins í hátt í þrjá sólarhringa hafi neyðarbrautin verið í notkun þessa daga þetta ár.
Vel getur verið að brautin hafi verið notuð meira önnur ár í hvimleiðum óveðraköflum með hvassri suðvestanátt með dimmum éljum.
Nú er það svo að það, að enda þótt önnur af tveimur aðalflugbrautum vallarins sé notuð umfram hina þýðir það ekki sjálfkrafa að ófært sé til lendinga á hinni.
En reglurnar um neyðarbrautina eru þess eðlis að heitið "neyðarbraut" lýsir best notkun hennar.
Hún er langstysta brautin og hindranir í framhaldi af norðausturenda hennar eru nógu háar til þess að flugtök til norðausturs eru bannaðar.
Vegna þessara hindrana, sem væru ansi háar í aðflugi í logni, er brautin aðeins notuð þegar ófært er til lendinga á hinum brautunum tveimur.
Þá er aðflugið flogið mun brattar og hægar miðað við jörð, vegna þess hve mótvindurinn er mikill.
Það munar um það ef bæði Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur eru lokaðir í hvassri suðvestanátt fyrir innanlandsflugið, því að NA/SV braut Keflavíkurflugvallar hefur verið lokuð í mörg ár.
Dagarnir, sem neyðarbrautin í Reykjavík er notuð, eru yfirleitt dagar erfiðleika í samgöngum á landi og í lofti að vetrarlagi.
Sé neyðarbrautin lokuð eru allir aðrir innanlandsflugvellir landsins sjálfkrafa lokaðir líka í þjá daga á ári eða meira, því að Reykjavíkurflugvöllur er endastöð allra flugleiðanna.
Fyrir landshlutana, sem þessir flugvellir eru í, munar um þrjá aukadaga, sem lokað er þangað til flugs einmitt þegar mest liggur við.
Það er hreinn óþarfi að loka neyðarbrautinni eins og ég hef áður bent á hér á blogginu. Aðeins þarf að breyta þannig skipulaginu á Hlíðarendareitnum, að auðu svæðin, sem nú stendur til að verði fjær brautarendanum, verði í staðinn við brautarendann, en byggingar, sem nú stendur til að verði við brautarendann, verði fjær brautarendanum.
![]() |
Viljandi gerður að verri kosti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.11.2014 | 11:56
Eftir því sem við vitum meira vitum við minna.
Afstæðiskenning Einsteins er þekktasta heiti kenningar um stjörnurnar og alheiminn.
Vitneskja vísindamanna um geiminn eða alheiminn vex hröðum skrefum en þessi vitneskja er afstæð, því að menn fá það á tilfinninguna og komast í það hugarástand að finnast, að þeir viti minna og minna eftir því sem þeir vita meira og meira og þannig hefur það einmitt verið síðustu aldirnar og þó einkum síðustu árin.
Hver ný uppgötvun fæðir af sér ný viðfangsefni og viðfangsefnin verða sífellt stærri og stærri.
Af því má ráða, að hið raunverulega stóra lögmál, sem við eigum svo erfitt með að skilja og upplifa, sé óendanleikinn eða eilífðin þar sem tíminn byrjaði aldrei og mun aldrei enda og alheimurinn á sér ekkert upphaf og engan endi, því að eitthvað enn stærra var til fyrir Miklahvell og eitthvað enn stærra hefur alltaf verið til og verður alltaf til.
Hugsanlega urðu óendanlega margir Miklahvellir á undan þeim síðasta og óendanlega margir Miklahvellir munu fylgja í kjölfarið.
Sé svona hugsun lögð til grundvallar verður allt það stærsta, sem við þekkjum, svo óendanlega smátt í samanburðinum að öll vitneskja mannanna er í raun varla nokkur skapaður hlutur miðað við það sem eftir er að rannsaka og uppgötva.
![]() |
Samsíða yfir milljarða ljósára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)