Leitirnar endalausu?

Árangurslausar leitir vekja ávallt athygli og óhugnað, einkum mannshvörf. Það var kannski eðilegt fyrr á tið þegar tækni nútímans naut ekki við, að hvörf væru óupplýst, svo sem hvarf séra Odds í Miklabæ.

Sama átti við þegar um óravíðáttur var að ræða eins og þegar Amalíu Erhardt hvarf 1937. 

Þegar þess er gætt hve löng nýleg leit í Bleiksárgljúfri var verður skiljanlegra að þeir Geirfinnur og Guðmundur og fleiri fundust aldrei.  

En á okkar tímum hinnar smásmugulegustu tækni má með ólíkindum heita hve oft það gerist að leitir að fólki og farartækjum reynast árangurslausar, svo sem leitin að malasísku farþegaþotunni og nú síðast óþekktum kafbáti í sænska skerjagarðinum.  

Slíkt magnar upp margs konar samsæriskenningar svo sem þá að nú séu Rússar komnir í eins konar Kaldastríðsham við að sýna Svíum og öðrum þjóðum hvers þeir eru megnugir við að komast í gegnum hvers kyns hindranir með stríðstól sín og njósnir.

Nýlega var haft eftir fyrrum kafbátsmanni í rússneskum kafbáti hve vel hann og félagar hans urðu að sér í íslenskum dægurlögum á tímum Kalda stríðsins  við að hlusta á gömlu Gufuna á meðan þeir leyndust skammt undan landi á felustöðum sínum, að ekki sé nú talað um tónlistina í Kananum. 

Aldrei fundu Kanarnir þessa meintu njósnakafbáta þrátt fyrir mikla hlustunartækni og annan leitarbúnað.

Hermt er að Pútín hafi sagt að hann geti tekið Kænugarð í Úkraínu á tveimur vikum og Varsjá í Póllandi á nokkrum dögum.

Í því ljósi er auðvelt að magna þann kvitt að nú sé hann að sýna Svíum að máttur Rússa og megin séu síst minni en í Kalda stríðinu.  


mbl.is Ekki merki um yfirvofandi árás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið árlega upphlaup.

Því er spáð að hugsanlega kunni að verða að það komi snjóföl á höfuðborgarsvæðinu á morgun. Síðan kemur að minnsta kosti heil vika þar hugsanlega dettta einhver snjókorn á miðvikudaginn og síðan ekki söguna meir eins einn einasta dag eins langt og séð verður. 

Samt fer allt á annan endann á dekkjaverkstæðunum og upp eru rekin ramakvein á netinu um það að færa tímann, sem aka má á negldum dekkjum, fram til 1. október.

Sem hefði þýtt það, ef í gildi væri, að í næstum þrjár vikur myndu tugþúsundir bíla vera búnir að berja götum og vegum gersamlega að óþörfu og halda áfram að gera það næstu vikurnar.  

 


mbl.is 10 til 15 bílar í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að beisla óttann og hatrið.

Hvernig gat einhver mesta menningarþjóð heims leyft illmenni og fjöldamorðingja á borð til Adolf Hitler leika lausum hala?  

Hvernig gátu tvær öflugustu þjóðir heims búið til það módel í fullri alvöru að búa til gereyðingavopnabúr sem réttlætanlegt kynni að verða að beita á hvor aðra og eyða með því öllu mannkyni?

Hvernig má það vera að enn séu til nægar kjarnorkuvopnabirgðir hjá Rússum og Bandaríkjamönnum til þess að hrinda þessu brjálæði í framkvæmd með því að endurvekja ógnarstefnuna MAD ( Mutual Assured Destruction), - á íslensku GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) ?

Hvernig viðgengst sem siðleg og viðurkennd hernaðaraðfeð að senda mannlausar fjarstýrðar sprengjuflugvélar til drápsferða þar sem almennir borgarar eru oft á tíðum stráfelldir?

Hvernig er hægt að fá unga menn til þess að fórna lífi sínu með hryðjuverkaárás, þar sem drepnar eru þúsundir saklauss fólks?

Hvernig er hægt að fá jafnt vestræn ungmenni sem asísk til þess að fremja hræðileg voðaverk í nafni Guðs (Allah) ?

Allt eru þetta þekkt fyrirbæri og hægt að benda á ýmsar aðferðir til þess að fá venjulegt fólk til slíkra illvirkja, en í viðbót við það sem lýst er í tengdri frétt á mbl.is má nefna tvö sterk sálræn atriði: Ótta og hatur.

Auðvelt reyndist að magna upp hatur á Gyðingum í Evrópu sem ógnar við hinn aríska kynþátt sakir samheldni þeirra og því hvernig þeir komu ár sinni fyrir borð betur en margir aðrir. Það voru þeir taldir gera á kostnað annarra.  

Ungum hermönnum var og er innprentaður ótti við andstæðinginn og hinn ungi hermaður látinn standa frammi fyrir tveimur kostum: Að drepa eða vera sjálfur drepinn, að sýna grimmd og miskunnarleysi eða vera drepinn eða pyntaður af enn meiri grimmd og miskunnarleysi.  

Á þennan hátt var hægt að láta milljónir ungra manna drepa milljónir ungra manna í Fyrri heimsstyrjöldinni. Rétt öld síðan þeir marséruðu fagnandi við gleðihróp mannfjöldans áleiðis til vígvallanna.  

Íbúum risaveldanna í Kalda stríðinu var innprentuð ógnin frá hinu risaveldinu, Bandaríkjamönnum að óttast "heimsveldi hins illa" og Rússum að óttast heimsveldastefnu og árásarstefnu Bandaríkjamanna.

Áróðursmenn villimannlegrar og kolrangrar túlkunar á Kóraninum mikla fyrir liðsmönnum sínum hin illu verk andstæðinganna, einkum kristinna þjóða sem fólust meðal annars í tveimur heimsstyrjöldum sem kostuðu alls upp undir hundrað milljón manna lífið.

 

 


mbl.is Að breyta strákum í skrímsli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill og áleitinn "persónuleiki".

Nú er komið á annan mánuð síðan Bárðarbunga tók að minna okkur á það hver er yfireldstöð Íslands. 

Ég hafði áður en skjálftahrinan mikla og umbrotin hófust fylgst með henni af vaxandi áhuga vegna þess að hún virtist smám saman vera að komast í hægt vaxandi skjálftaham og mér fannst því vissara að taka af henni sérstakar myndir.

Viku síðar hófust lætin og þá kom sér vel að eiga þessar myndir, svona nýteknar.

Allan tímann síðan hefur hún verið leyndardómsfull, bæði seiðandi og ógnvekjandi í senn, og þessi stórbrotni "persónuleiki" hennar sest smám saman á mann og síðast inn í vitundina eftir því sem hún blasir oftar við og er til alls líkleg, jafnvel með hamfaraflóðum sem geta farið í fimm vatnasvið og geyst niður í sjó við Skjálfanda, Öxarfjörð, Þjórsárósa, Skaftárósa og ósa ánna sem renna niður á Skeiðarársand.

Að ekki sé minnst á allar eldstöðvarnar, gamlar og nýjar, sem hún getur kveikt í, nú siðast Tungnafellsjökli, þó án goss þar í bil. Bara til þess að auka á óvissunar og spennuna.  

Á flugi framhjá henni í gær var engu líkara en hún hefði sett upp risavaxna ullarhúfu til að dyljast undir á meðan hún væri að bralla sín stórbrotnu ráð af einstakri undirferli og dulhyggju.

Set mynd af henni á facebook síðu mína sem fylgihlut þessa pistils.

Viðeigandi gætu verið ljóðlínur úr laginu "Jezebel" og hljóðað svona:

"Like a demon you posess me,

you obsess me constantly

forsaken dreams and all

for the siren call

of your arms. "  


mbl.is Askjan sígur um 40 cm á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í hrun. Þarf langtímasamning.

"Mene, mene, tekel", skriftin á vegg heilbrigðiskerfisins á Íslandi, blasir við. Sérfræðingum fækkar jafnt og þétt og í raun hraðar en sýnist á yfirborðinu, því að þeir sem hanga hér enn, verða sífellt eldri. Sama er að segja um heimilislækna. 

Hrunið í fjármálakerfinu 2008 var slæmt en snerist þó að mestu um efnisleg gæði. Hrunið, sem nú er í gangi í heilbrigðiskerfinu, er allt annað og verra, því að þar er um að ræða líf og heilsu þjóðarinnar.  

Þegar horft er á ástandið sést, að smíði risavaxins hátæknisjúkrahúss fyrir tugi eða jafnvel hundruð milljarða króna verður gagnslaus ef engir fást til að vinna þar.

Spurningin er einföld: Ætlum við að vera samkeppnisfær við nágrannalöndin varðandi lífsnauðsynlegan starfskraft eða ætlum við að láta heilbrigðiskerfi okkar drabbast niður í það að hér verði senn svipað ástand og í vanþróuðu löndunum með þjónustuskorti af áður óþekktri stærð.

Fram að þessu hafa fjármálaráðherrar mismunandi flokka staðið einir í slagsmálum stund og stund í einu um kjör heilbrigðisséttanna án nokkurrar framtíðarsýnar eða lausnar, sem breytir einu eða neinu.

Slík stefna skammsýni, ófriðar og óánægju mun óhjákvæmilega stefna heilbrigðiskerfinu í hrun.

Við vitum að það er erfitt að bæta þannig kjör heilbrigðisstéttanna í einu vetfangi að hruninu verði aftrað og það hefur verið meinið, - enginn einn fjármálaráðherra hefur megnað þetta.

Nú þarf að koma til langtímaáætlun, studd af þverpólitískri samstöðu, þar sem læknum og hjúkrunarleiði verði tryggð nógu kjör til frambúðar til að stöðva landflóttann og komast hjá hruni.

Rétt eins og menn sáu á sínum tíma að gera þyrfti vegaáætlanir til allt að tíu ára, þarf að gera hið sama í heilbrigðiskerfinu. Annar blasir við hrun þess, sem ekkert þjóðfélag getur verið án á okkar tímum: Hrun heilsunnar.

Afleiðing þess eru ótímabær veikindi og dauði þúsunda manna og landflótti þeirra sem til þess hafa heilsu og atgerfi.

 


mbl.is Liðlega 110 færri læknar en 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er sem öllu líður er liðið breytt.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að margir erlendir handboltaleikmenn dáist að því hvernig íslensku landsliðsmennirnir fórni sér fyrir liðið og leggi sig fram í ljósi þess hve miklu lakari kjör sé hægt að bjóða þeim en landsliðsmönnum margfalt stærri þjóða. 

Smám saman hefur þessi liðsandi orðið þekktur og árangur liðsins á þessari öld talinn kraftaverki líkastur.

Stærðarmunur íslensku þjóðarinnar og annarra þjóða er í bilinu 15 faldur til 300 faldur.

Þetta á við jafnt um knattspyrnu og handbolta, jafnvel þótt miklu fleiri iðki knattspyrnu en handbolta. 

Þess vegna á það ekki að vera svo mikið erfiðara að komast inn á stórmót í fótboltanum en í handboltanum.

Vitað er hve mikið skipulagsstarf og yfirlega liggur að baki þjálfun handboltalandliðsins fyrir leiki og mót og hve mikið er lagt á leikmennina við það.

Þess vegna ætti vel að vera hæg að ná fram sama aga hjá landsliðunum í báðum greinum.

Hvort sem talið um takmarkaðan aga fyrr á tíð er ýkt eða ekki leynist hitt ekki, að eftir að Lars Lagerback tók við liðinu hefur það breyst smám saman til mikils batnaðar.

Liðið nýtur þess að vísu að vera þróað upp úr yngra landsliðinu, sem kom fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum, en sú skýring hrekkur ekki til.  

Það býr áreiðanlega meira að baki, og sé svo, er það vel.  


mbl.is Snerist um að djamma með strákunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugtakið "jeppi" að verða ónýtt.

Í sókn sinni eftir stærsta markhópi bílakaupenda, þeim sem vilja láta sjá sig á einhvers konar "jeppa", hefur íslensku bílaumboðunum senn tekist að gjöreyðileggja hugtakið "jeppi". 

Allt frá því er fyrstu Willy´s jepparnir komu til Íslands var hugtakið "jeppi" skýrt:  

1. Drif á öllum hjólum.

2. Minnst 20 cm hæð undir bílinn, jafnt hlaðinn sem óhlaðinn.

3. Lágur lægsti gír í krafti þess að hafa hátt og lágt drif.

4. Hærra "aðhorn", "fráhorn" og "undirhorn" (ramp brake over angel) en á fólksbílum til að minnka líkur á að bíllinn tæki niðri fremst, aftast og undir kviðinn, á ósléttu landi.  

Þegar fyrstu Subaru fjórhjóladrifnu fólksbílarnir komu til Íslands, var veghæð þeirra að vísu 18 sm á óhlöðnum bíl en engum datt í hug að kalla þá jeppa.  

Lada Sport 1977 markaði upphaf eyðileggingar "jeppa"-hugtaksins vegna þess að hann var sjálfstæða fjöðrun að framan, sem olli því að þegar bíllinn fjaðraði upp og niður, gat veghæðin minnkað sem snöggast niður í 15 sentimetra.

En að öllu öðru leyti stóðst hann kröfurnar um jeppa.

Hinn fjórhjóladrifni AMC Eagle um 1980 var aldrei kallaður jeppi, en í kjölfar RAV 4 og sífjölgandi bíla, svipuðum honum á tíunda áratugnum, komst heitið "jepplingur" á kreik og slíkir bílar urðu að stöðutákni um allan heim og þeir gefa framleiðendunum mest í aðra hönd vegna þess að kaupendurnir eru í millistéttum, sem hafa meira á milli handanna en lágtekjufólk og því hægt að græða meira á þessum bílum en ódýrustu bílunum.

Smám saman varð ljóst að torfærueiginleikar þessara bíla skiptu æ minna máli en útlitið og aukið rými voru aðalatriðið í huga stærsta markhóps kaupenda á bílamarkaðnum. 

Heitið "sportjeppi" fór að ryðja sér til rúms, en nú er svo komið að bílaumboðin hika ekki við að kalla þessa bíla jeppa, hvorki meira né minna, þótt til dæmis veghæð þeirra sé orðin lítið sem ekkert meiri en á venjulegum fólksbílum, einkum þegar þeir eru hlaðnir. 

Dæmi eru Honda CRV og hinn nýi Korando, sem mynd er af á tengdri mbl.is frétt sem sýnir vel að veghæðin er orðin býsna lítil á þessum bílum.   

Þar að auki færist það í vöxt að þessir "jeppar" séu boðnir án þess að vera með drif á öllum hjólum og þessir framhjóladrifnu bílar seljast mun betur, enda ódýrari og sparneytnari en líta samt alveg eins út og hinir fjórhjóladrifnu bræður þeirra og nýtast sem stöðutákn. 

Nú er svo komi að sumir þeirra eru einungis fáanlegir með framdrifi og ekki fáanlegir með drifi á öllum hjólum !

Gott og vel, en lýsingar bílaumboðanna á þeim halda áfram í öfuga átt og nú eru því fleiri þeirra kallaðir jeppar sem þeir fjarlægjast jeppahugtakið !   

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Renault Captur sé vinsælasti sportjeppinn. Engin furða, því að þessi bíll er alveg einstaklega fallegur og flottur.  Talsmaður umboðsins talaði um hann í bílablaði um helgina sem "smájeppa". 

En enginn Captur er fáanlegur með fjórhjóladrifi !  

 

 


mbl.is Jeppinn orðinn öflugur jepplingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul saga og ný: Hver lak? Ekki hverju.

Það er gömul saga og ný, að þegar upplýst er um eitthvað misjafnt, sem leynt á að fara, er málinu oft snúið upp í það að gera það að aðalatriði, hver lak til þess að breiða yfir hið raunverulega stóra mál. 

Og síðan endar það oft með því að sendiboða vondra tíðinda er refsað, en hið raunverulega aðalmál hverfur í skuggann.  


mbl.is Eimskip kærir meintan leka á gögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta myndin af jörðinni: Utan úr geimnum.

Í fróðlegum sjónvarpsheimildarþáttum um mannkynið, jörðina og tilveruna að undanförnu, er það ein af niðurstöðunum, að fátt hafi lyft anda mannsins jafn mikið og verið jafn mikið stökk fyrir þroska hans og tilfinninguna fyrir jörðinni, heimili okkar allra, en þegar geimfarar fóru út í geim og sáu jörðina úr miklu meiri fjarlægð og frá allt öðru og víðara sjónarhorni en nokkur mannvera hafði séð hana fram að þvi. 

Þetta er ein kvekjan af fleygum orðum Kennedys Bandaríkjaforseta í ræðu í kjölfar Kúbudeilunnar þar sem hann benti á mótsögnina í því að Bandaríkjamenn og Sovétmenn hótuðu hvorir öðrum tortimingu kjarnorkuvopna:

"Við lifum öll á sömu jörðinni, öndum öll að okkur sama loftinu, eigum öll afkomendur, sem okkur er annt um og erum öll dauðleg."

Nokkrum mánuðum síðar var hann myrtur.  

Besta myndin af jörðinni var tekin utan úr geimnum og í gær benti Haraldur Sigurðsson á það í bloggpistli sínum að besta myndin af Holuhrauni væri tekin utan úr geimnum.  

Kannski var besta myndin af íslensku moldroki og sandstormi líka tekin utan úr geimnum, þar sem sást í sjónhendingu það sem Ríó-tríóið söng undir lagi Gunnars Þórðarsonar við ljóð Jónasar Friðriks: "Landið fýkur burt."  

En síðan geta miklar nærmyndir líka geymt minnisverð augnablik og sjónarhorn, sem maður setur inn á facebook síðu sína.

Mögnuðust þeirra frá því í gær var lifandi mynd, sem ég ætla að geyma aðeins betur áður en hún fer á flakk.  


mbl.is „Besta myndin af Holuhrauni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir hún í að springa sjálf ?

Jarðvísindamenn hafa klórað sér í höfðinu yfir atburðarásinni á óróasvæðinu, sem kennt er við Bárðarbungu. 

Haraldur Sigurðsson og fleiri velta vöngum yfir því hvort sigið í Bárðarbungu, skjálftarnir þar og gosið sjálft muni smám saman fjara út seinna í vetur eftir því sem hraun vellur norður úr berggangingum undir Holuhrauni.

Talað er um að komin sé upp ný mynd af þessu eldstöðvakerfi, sem nái svona langt norður eftir.

Ekkert lát er hins vegar enn að sjá á Bárðarbungu og sumir tala um að útstreymið í gegnum gosið í Holuhrauni sé of lítið til þess að það geti tappað nógu af hinu ógnarmikla kvikustreymi sem er á ferli á svæðinu.  

Þar að auki hef ég heyrt haft eftir einum af eldfjallafræðingunum að hann telji allt eins líklegt Holuhraunseldarnir og umbrotin í Bárðarbungu séu ekki eins beintengd og sýnist, heldur sé Bárðarbunga að hamast ein og sér og muni allt eins getað endað á því að springa sjálf.

Og það jafnvel, þótt hraunið í Holuhrauni sé frá henni komið.  

Og það getur orðið hvellur hjá sjálfri yfireldstöð Íslands.  

 

P. S. Hún reis dulúðug í dag í móðu og mistri yfir flugleið okkar Jóns Karls Snorrasonar á tveimur flugvélum yfir Holuhraunseldana. Sjá myndir og stöðu á facebook síðu minni.  


mbl.is Aukinn fjöldi skjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband