15.10.2014 | 07:57
Vindurinn að byrja að hreinsa. Afar lúmsk hætta.
Í gærkvöldi sást fyrst til gosstöðvanna í Holuhrauni úr vefmyndavél milu á Vaðöldu. Þetta eru góðar fréttir því að áttleysan undanfarna daga hefur skapað afar varasamt ástand á stóru svæði í þarna í kring vegna gasmengunar.
Gasið hefur safnast saman yfir landinu í stað þess að fjúka í burtu, en nú er að koma austanátt sem er að byrja að létta ástandið.
Þessi gasmengun getur verið alvarlegra mál en virðist í fljótu bragði og er í raun alveg nýtt fyrirbrigði hér á landi í meira en heila öld, jafnvell allt frá Móðuharðindunum.
Þótt gasið muni nú fara að breiðast til vesturs verður þó hreyfing á því í stað þess að það safnist saman yfir landinu eins og verið hefur undanfarna daga og vindurinn færir það rólega vestur af landinu.
Síðustu daga hefur gas farið yfir heilsuverndarmörk á mun stærra svæði en fyrr og orðið allt að fjórum sinnum yfir mörkum á stöðum, sem áður voru alveg lausir við mengun.
Svona gaseitrun getur verið afar lúmsk, því að gasið er ósýnilegt og sjúkdómseinkenni koma fram fyrr en eftir viku.
Gasið fer í lungun og við það að komast í snertingu við raka í lungunum, myndar það blöðrur í þeim. Það er ekkert grín.
Ég hef enn ekki lokað Sauðárflugvelli fyrir veturinn og hann hefur verið og er mikilvæg bækistöð fyrir mig.
Þegar ég var þar síðast yfir nótt fyrir skemmstu, ók ég í norður frá vellinum upp á hæð til að losna örugglega við megin gasstrauminn og forðast að vera á flatlendi þar sem hið ósýnlega gas getur safnast saman af því að það er þyngra en andrúmsloftið og sígur niður í lægðir.
Allur er varinn góður þegar svona lúmskur óþverri er annars vegar.
Að lokum má minna á hvimleiða viðleitni okkar tíma til að flækja mál með óþarfa málalengingum í eins konar nútíma kansellístíl. "Útlit fyrir lítil loftgæði" er yfirskrift tengdrar fréttar á mbl.is
Í minni sveit í gamla daga hefði verið sagt: "Útlit fyrir óloft". "Óloft" er tvö atkvæði, en "lítil loftgæði" fimm atkvæði.
![]() |
Útlit fyrir lítil loftgæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2014 | 18:56
Grjónagrautur Framsóknar aftur borinn á borð !
1983 neyddist ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar til þess að grípa til strangra aðhaldsaðgerða í efnahagsmálum vegna mestu óðaverðbólgu í sögu landsins.
Forsætisráðherrann, formaður Framsóknarflokksins var gagnrýndur fyrir það hve harkalega væri gengið gegn þeim sem minna mættu sín, svo sem barnafólki og ungu fólki, sem væri að koma sér upp húsnæði, á sama tíma sem lúxus viðgengist hjá ráðamönnum.
Svo væri komið að fyrir marga væri eina leiðin að hafa grjónagraut í allar máltíðir.
Forsætisráðherrann svaraði því til að þegar hann hefði verið í sveit í Skagafirði á æskuárum hefði grjónagrautur verið í flest mál og hann hefði verið góður.
Einföld lausn í boði Framsóknar, sem nú er boðið upp á í annað sinn.
Talskona Framsóknar grípuir aftur til grjónagrautsins góða.
"Hann er góður", sagði Denni á sínum tíma.
Og hann er víst enn jafn góður.
![]() |
Sveinbjörg hyggst lifa á 750 kr. |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.10.2014 | 15:15
Og samt fer kólnandi ?
Í fyrra heyrðist sú rödd hjá kuldatrúarmönnum að ekki væri að marka háa hitatölu ársins af því að ef janúar og febrúar væru ekki teknir með, væri árið aðeins svalara en meðalár það sem af er þessari öld.
Af þessu leiddi að það færi sannanlega kólnandi og allt raus um hlýnandi veðurfar væri tal manna á borð við Al Gore sem græddu á því og hefðu að því atvinnu og tekjur að fjalla um hlýnunina.
Nú má búast við að kuldatrúarmenn vilji draga þá mánuði frá á þessu ári, sem hafa verið hinir hlýjustu í sögu mælinga til þess að geta áfram glaðst við trú sína á kólnunina, jafnvel draga allt þetta ár frá, ef ekki vill betur.
Það hafa kannski einhverjir tekið eftir því hvað ég hef gaman af að skrifa nýja og nýja pistla um vonir og þrár kuldatrúarmanna.
En ástæðan er einföld: Í hvert skipti koma þeir fram með nýjar og nýjar kenningar um kólnunina sína og trúa heitar á hana en nokkru sinni fyrr.
![]() |
Aldrei áður jafnhlýtt í september |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (57)
14.10.2014 | 08:26
Það er lítið sem hundstungan finnur ekki.
Fréttir af því að sögusagnir um áverkar Michael Schumachers hefðu stafað af GoPro vél á höfði hans hefðu valdið áverkanum við það að hann lenti utan í kletti á skíðum og að hlutabréf í GoPro hefðu fallið stórlega í kjölfarið sýna glöggt hve lítið virðist þurfa til að gera eina fjöður að fjórum hænum hvað varðar traust á fyrirtækjum og vörum þeirra.
Í fyrsta lagi hefur fréttin hefur ekki verið staðfest. Í öðru lagi er erfitt að sjá hvernig GoPro vélin ein olli svona miklum áverkum. Í þriðja lagi er spurningin um það, ef þetta er satt, með hvaða rökum það geti valdið verðfalli á fyrirtækinu.
Það sýnist svona álíka rökrétt eins og að hlutabréf hjá öllum gleraugnaframleiðendum heims féllu, af því að sögusagnir væru um að í árekstri hefðu gleraugu brotnað og valdið blindu hjá þeim, sem var með þau þegar óhappið átti sér stað.
Þetta minnir á gamla máltækið: "Það er lítið sem hundstungan finnur ekki."
![]() |
Áverkar Schumachers vegna GoPro-vélar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2014 | 21:26
Smávægileg mistök geta verið dýrkeypt.
Á Vestfjörðum eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu, Látrabjarg, Hælavíkurbjarg og Hornbjarg. Enn höfum við Íslendingar ekki áttað okkur á því hve mikils virði þessi björg eru.
Sjálfum varð mér það ekki ljóst fyrr en í Írlandsferð 1993 þar sem í ljós kom að Írar stórgræða á því að beina erlendum ferðamönnum að fuglabjargi einu, sem er aðeins brot af vestfirsku björgunum, en þeir auglýsa samt sem stærsta fuglabjarg Evrópu.
Þegar ég benti þeim á að þrjú björg væru stærri á Íslandi svöruðu þeir því til að Ísland væri eyja langt frá Evrópu. Ég benti þeim þá á það að Írland væri líka eyja.
Hvað um það, - af íslensku björgunum er Hornbjarg magnaðast og stærst en Látrabjarg er lang ferðamannavænast og með mestu möguleikana.
Vegur liggur alveg að bjarginu, fyrrum var skráð og viðurkennd flugbraut í fjörunni við Hvallátur og sigling þaðan undir bjargið er aldeilis óviðjafnanlegt ævintýri og upplifun.
En helsta ástæða yfirburða aðgengis að bjarginu er sú að það er svo auðvelt uppgöngu fyrir ferðafólk.
Það getur valið um það hvort það gengur smá spöl út úr bílnum fram á um 30 metra háa bjargbrún úti undir Bjargtöngum, gengur aflíðandi brekku upp í 60 metra hæð að Ritugjá og sjái hana og Barðið, eða haldi áfram til austurs á bjargbrúninni sem smá hækkar þangað til hún er orðin 440 metra há og hægt fyrir þá hörðustu að fara niður Saxagjá og út á hinar einstæðu Saxagjárvöllur.
Það er auðvelt að gleyma sér á Látrabjargi, og geta þá átt á hættu að aðeins augnabliks vangá valdi slysi.
Það getur líka verið varasamt að vera orðinn svo vanur bjarginu og hengifluginu að nauðsynleg varkárni dofni.
Þetta kom fyrir mig 1976 þegar ég sá, hvað elstu börnin mín Ninna, Ragnar og Þorfinnur, stóðu á skemmtilegum stað til myndatöku. Ég gekk afturábak til að ná besta sjónarhorninu en fölnaði upp þegar ég varð þess skyndilega var að ég var kominn svo nálægt bjargbrúninni sem var á ská aftan við mig, að aðeins ég var aðeins örfá fet frá henni, án þess að hafa tekið eftir því.
Þarna hefði getað farið illa.
Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slík slys verða. Bjargið er og mun verða lúmskt hættulegur staður fyrir alla sem þangað koma.
Um bjargið gildir svipað og um mörg önnur einstaklega mögnuð ferðamannasvæði á Íslandi, að þau eru svo víðfeðm að engin leið er að setja upp girðingar eða gæslu sem geta komið í veg fyrir það að slys verði. Því miður.
![]() |
Ferðamaðurinn finnst ekki enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2014 | 20:53
Hvernig getur þetta verið, 8:0 í þremur leikjum á stórmóti?
Fyrir klukkustund var ástæða til að gleðjast yfir einstæðri stöðu á stórmóti hjá íslenska knattspyrnulandsliðinu, 8:0 eftir tvo og hálfan leik, vegna þess að það var einhvern veginn útilokað að hægt yrði að halda íslenska markinu hreinu í heilum leik gegn liði, sem var næstum því búið að fara alla leið á HM í að hampa sigri þar.
Þess vegna var um að gera að njóta stöðu sem var svo óvænt að það átti varla að vera mögulegt að halda stöðunni út leikinn.
Leikurinn í kvöld var einn af hátindunum í sögu íslenskrar knattspyrnu, á stalli með leikjunum við heimsmeistara Frakka og leiknum við Austur-Þjóðverja 1975, en þeir voru, eins og Hollendingar nú, hársbreidd frá því að sigra á HM 1974.
![]() |
Íslenskur sigur í Laugardalnum: Myndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2014 | 19:46
Einsdæmi: 8:0 eftir 225 mínútur á stórmóti
Það getur vel verið að Holland vinni Ísland í kvöld enda um að ræða eitt af bestu liðum heims. Til þess þurfa Hollendingar að skora 3 mörk gegn engu í síðari hálfleiknum, en þeir skoruðu reyndar þrjú mörk í síðari hálfleik í síðasta leik sínum.
En eftir tvo og hálfan leik er markatala Íslands 8:0, og ég man ekki eftir neinu líku þessu á stórmóti fyrr hjá íslenska landsliðinu.
Annað mark Gylfa var tær snilld snillings sem nýtti til fullnustu sekúndubrot sem var afrakstur mikillar baráttu íslenska liðsins.
Áfram Ísland! Áfram á þessari braut !
![]() |
Sögulegur sigur á bronsliði HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2014 | 09:21
Leitið og þér munið finna ?
Ógleymanleg er sú minning frá níu ára aldri að heyra fullorðna fólkið bregðast við fréttum af því að Sovétríkin réðu yfir kjarnorkuvopnum eins og Bandaríkin. Þar með var ljóst að enda þótt Kanar ættu meira en 50 sprengjur og gætu hótað Rússum útþurrkun jafn margra borga í Rússlandi, myndu Rússar geta svarað fyrir sig eftir örfá ár.
Áratug síðar kom síðan gleðifréttin um það að fundin væri upp orkugjafi, sem væri hreinn, ódýr, umhverfisvænn og óþrjótandi, sem sagt friðsamleg notkun kjarnorkunnar.
Upp úr 1960 var það ein helsta röksemdin fyrir stóriðju og stórum vatnsaflsvirkjunum hér á landi, að nú væri um að gera að flýta sér í þessum efnum áður en vatnsorkan myndi tapa í samkeppninni fyrir kjarnorkunni og verða úrelt.
Hálfri öld eftir tilkomu kjarnorkunnar til orkuframleiðslu upplýsist síðan, að úraníum er ekki óþrjótandi, og að útilokað sé að láta kjarnorkuna leysa orkuvandann, því að þá klárist þetta hráefni á nokkrum áratugum.
Stórfelld kjarnorkuslys voru aldrei nefnd í kringum 1960. Þetta átti að vera pottþétt og öruggt allt saman.
Annað hefur komið á daginn.
Einnig er ljóst að kjarorkuúrgangurinn stefnir í að verða óleysanlegt vandamál. Sem sagt: Upphrópanirnar "ódýr, umhverfisvænn, óþrjótandi, öruggur!" orkugjafi voru öll á misskilningi eða blekkingum byggðar.
Fyrir nokkrum árum kom það upp að með því að nota þóríum í staðinn fyrir úraníum hyrfu geislavirknisvandamálin og slysahættann að mestu auk þess sem margfalt meira hráefni yrði til slíkrar kjarnorkuvinnslu en með núverandi aðferð.
Síðan hefur verið hljótt um þessa töfralausn enda stór "galli" á henni. Hún skapar ekki möguleika til að búa til kjarnorkuvopn !
Fyriri nokkrum árum kom fram í vísindatímariti sá möguleiki að vinna helium 3 á tunglinu og með því að flytja aðeins 100 tonn til jarðar leystist orkuvandinn í heila öld!
Ekkert hef ég séð minnst á þetta síðan.
Nú eru rafknúin samgöngutæki stóra málið og notkun Litíums í rafhlöður stórbætir möguleikana þar.
Græn orka?
Nei, umhverfisvandamálin vegna vinnslunnar gerir ókleift að skilgreina litíum sem græna orku.
Óþrjótandi hráefni?
Nei. Endist aðeins í nokkra áratugi ef rafknúin samgöngutæki eiga að taka algerlega við hlutverki núverandi mengunarspúandi samgöngutækjum. Þriðjungur litíum heims er í einu landi, Bólivíu.
Hvað um "fracking" og nýjar gas-, olíu- og kolaorkulindir?
Jú, svipað og að pissa í skóinn. Þetta er jarðefnaeldsneyti og þrýtur að mestu á okkar öld með sama áframhaldi.
Metanól og framleiðsla eldsneytis úr jarðargróða?
Jú, en aðeins ef sveltandi heimur hefur efni á að leggja hundruð þúsunda ferkilómetra lands undir ræktun fyrir slíkt.
Nýjasta undrið er "lághitakjarnahvörf". Ódýr, hrein, hagkvæm.
Hefur áður komið upp á yfirborðið í fjölmiðlum en horfið jafnharðan.
Stórt EF. Enn óleyst mál.
Hvað um að hætta þessu vonlitla ströggli ?
Það er einföld "lausn" en tryggir líka 100% stórfelldustu kreppu í sögu mannkynsins.
Hvað er þá til ráða?
Jú, bara þetta gamla, vonin og viðleitnin í anda orðanna "leitið og þér munið finna!"
![]() |
Ótæmandi orkulind fundin ef... |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.10.2014 | 17:47
Í mesta lagi einn svona á öld.
Í hópi 100 mestu snillinga 20. aldarinnar, sem sérfræðingahópur á vegum tímaritsins Time valdi um síðustu aldamót, var aðeins einn íþróttamaður, Muhammad Ali. Og jafnvel þótt aðeins íþróttaferill hans væri tekinn og öllu öðru sleppt, sem hann afrekaði og gaf af sér, hefði hann átt skilið að vera í hópnum.
Enn hefur enginn jafn stór hnefaleikari getað komist nálægt honum þeirri í blöndu af hreyfingum, hraða, snerpu og úthaldi sem hann bjó yfir á árunum 1964-1967, áður en hann var gerður útlægur úr íþróttinni í 3 og hálft ár, en þá var hann á aldrinum 25-28 ára og hefði verið á hátindi getu sinnar, ef hann hefði ekki fórnað öllu fyrir málstað mannréttinda og friðar og risið gegn því sem virtist ofurefli árið 1966 þegar hann var kvaddur til herþjónustu.
Tilsvör hans eru fleyg: "Viet Kong hefur ekki gert neitt á hluta minn. Enginn Viet Kong liði hefur kallað mig "nigger". "Hvers vegna ætti ég, svartur maður, að fara yfir hálfan hnöttinn til að drepa gulan mann fyrir hvítan mann, sem rændi landi af rauðum manni?"
Hann þurfti að berjast hatrammlega í nokkur ár fyrir því að fá að ráða nafni sínu, leggja niður "þrælsnafnið" Cassius Clay og taka upp nafnið Muhammad Ali. Jafnt fjölmiðlar, mótherjar og yfirvöld neituðu að nota nýja nafnið.
Ef einhver vill sjá smá brot af snillinni í hringnum má benda á Youtube með bardaga hans við Brian London í heild, en hann tók aðeins þrjár lotur, að ekki sé minnst á bardagann við Cleveland Williams, sem var álíka stuttur.
Þegar alhæft er um illsku múslima er ágætt að geta nefnt Ali og baráttu hans fyrir mannréttindum og friði sem dæmi um það hve slíkar alhæfingar geta verið hæpnar.
Hetjuleg barátta hans við Parkinson sjúkdóminn hefur verið fordæmi fyrir milljónir manna með þann sjúkdóm og fleiri sjúkdóma.
Ali hafði sína bresti og beitti stundum lúalegum brögðum í sálfræðistríði við hörðustu andstæðinga sína.
Íþróttafréttaritarinn Howard Cosell og Ali bjuggu til einstæð samskipti fréttamanns og íþróttahetju þar sem Cosell var ekkert að hlífa Ali, sem á móti gat oft notað orðheppni sína til að skapa minnisverð samtöl.
Eitt sinn sótti Cosell að Ali og notaði orð, sem best er að hafa hér á ensku :
"Þú ert ásakaður um að vera "truculent" (grimmur, árásargjarn) í garð mótherja þinna. Hverju svararðu því?"
Ali svaraði samstundis: "Ég veit ekki hvað orðið "truculent" þýðir, en ef það á við mig er það gott."
Ali var aðeins skugginn af sjálfum sér í síðustu tveimur bardögum sínum sem hann háði eftir að Parkinson veikin var farin að bíta á hann.
Nú er hann víst aðeins skugginn af þessum skugga, en sannur meistari er aðeins sá sem sýnir það í ósigrum sínum og því, hvernig hann vinnur úr þeim.
![]() |
Muhammed Ali skugginn af sjálfum sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2014 | 08:42
Fyrir hverja er þjónusta og reglur um hana?
Tilgangur opinberrar þjónustu og eðli ættu að liggja í augum uppi en vilja oft gleymast.
Opinberir starfsmenn eru í vinnu hjá almenningi en ekki öfugt. Það virðist oft gleymast. Umfang og vöxtur opinberrar þjónustu á ekki að vera takmark í sjálfu sér, heldur þörfin á henni.
Reglur eru settar af nauðsyn til þess að gera ferli viðkomandi þjónustu eða starfsemi skýrt, skilvirkt, öruggt og hagkvæmt.
Oft liggur mikil vinna að baki reglum, sem reynt er að hafa þannig úr garði gerðar, að þær gildi um öll afbrigði sem upp kunna að koma.
Eðlilegt er að þeir, sem hafa búið til regluverk og lagt í það mikla vinnu, hugkvæmni og útsjónarsemi séu stoltir af þeim.
Í gerð slíkra reglna gleymist það hins vegar oft, að það er ekki alltaf hægt að sjá allt það fyrir, sem kann að koma upp og að ævinlega má búast við því að mannanna verk séu ekki gallalaus.
Í slíkum tilfellum ætti að vera ljós nauðsyn þess að beita almennri skynsemi til að gera undantekningar, veita afbrigði eða breyta reglunum.
En þá er oft eins og óbreyttar reglur séu orðnar að óumbreytanlegum helgidómum eða náttúrulögmálum.
Ástæðan er mannleg: Það getur verið erfitt að viðurkenna galla á regluverki, sem gríðarleg vinna, metnaður og stolt hafa verið lögð í og, -
- það er svo þægilegt fyrir þá, sem hafa samið reglurnar og nota þær, - einfaldast að beita valdi sínu og gleyma því um leið fyrir hverja er verið að vinna og fyrir hverja reglurnar eru samdar.
Stundum getur verið álitamál um galla á regluverki og takmörk fyrir því hve langt eigi að ganga í að flækja málin með endalausum þrætum um einstök atriði þess.
En þegar gallar liggja í augum uppi og skera í augu, eru til trafala og gera mál erfiðari og flóknari, verður stolt hins opinbera að víkja fyrir þeirri staðreynd, að starfsmenn stofnana ríkis og sveitarfélaga eru í vinnu hjá almenningi en ekki öfugt.
![]() |
Tölvan segir nei! |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)