28.9.2014 | 15:30
Ný umgjörð og ný upplifun.
Svartur litur hefur verið yfirþyrmandi á gosstöðvunum í Holuhrauni að undanförnu að undanskildum hinum eldrauðu tungum, sem hafa staðið upp úr gígunum og sindrað í hraunsttaumum þar að næturlagi og í rökkri, sem verður æ lengri hluti sólarhringsins þegar haustar.
Raunar eru dökkir svartir og dökkgráir litir yfirgnæfandi á þessu svæði þegar það er autt, en fyrir bragðið skera aðrir litir, svo sem grænir litir gróðurvinja og bláir litir vatna, sig enn betur úr en ella.
Nú bætist hvítur litur vetrarsnævarins við auk þess sem miklar hvítar gufur standa upp úr þeirri hrauntungu, sem hefur teygt sig lengst í norðaustur og er í mikilli glímu við vatnið í Jökulsá svo að sýður hressilega upp úr.
Það var ný lífsreynsla að eiga svefnstað á Sauðárflugvelli í fyrrinótt vegna þess að þá stóð mökkurinn beint í áttina þangað, og þessi staður var miklu nær gosinu en í byggð.
Það var sérkennileg tilhugsun að geta átt von á þvi að ósýnilegt brennisteinsloftið sigi niður af lágum hæðum fyrir vestan völlunn og safnaðist fyrir á þessum stóra slétta fleti, en í slíkum tilfellum getur eitrunin orðið afar lúmsk.
Ráðið við þessu var að aka upp á hæð og vera þar yfir nóttina.
Þegar ég kem suður úr Akureyrarferð á afmælisskemmtun Ragga Bjarna í Hofi ætla ég að huga að því að velja fleiri myndir úr þessari ferð en hafa birst fram að þessu á facebook síðu minni.
![]() |
Snjóar í Holuhrauni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2014 | 20:38
Eindæma snjór í Snæfelli.
Svæðið norðan Vatnajökuls, nokkurn veginn milli Snæfells í austri og Trölladyngju í vestri, hefur verið sá hluti Íslands, sem er með minnsta úrkomu, svo litla, að jaðrar við þurrt meginlandsloftslag.
Á síðustu árum hefur þetta breyst nokkuð, einkum hvað varðar svæðið í kringum Snæfell frvá Vestur-Öræfum vestur í Krepputungu.
Elstu menn muna ekki eftir eins miklum snjó á þessum slóðum og hlóðst niður síðasta vor og í sumar hefur verið meiri snjór í Snæfelli en menn minnast.
Þótt það kunni að virðast skrýtið, eru þessi miklu snjóalög að hluta til fylgifiskar hlýrra og úrkomusamara veðurfari en fyrir aldamótin.
Áberandi hafa verið öflugar lægðir og úrkomusvæði, sem hafa komið upp að Suðausturlandi með svo miklu vatnsveðri, að það hefur komist vestur yfir Austfjarðafjallgarðinn og Snæfell, og vegna þess að þetta hefur gerst að vetrarlagi, hefur úrkoman fallið sem snjór á fjöllum.
Meiri snjór hefur verið í Kverkfjöllum en oftast áður.
Þrátt fyrir þetta virðist Brúarjökull, stærsti skriðjökull landsins, halda áfram að minnka, bæði með því að lækka og dragast saman.
Hlýnun veðurfars gerist ekki jafnt og þétt, heldur eru algengar sams konar sveiflur á mili ára og árattuga og ævinlega hafa verið.
Frá lokum 19. aldarinnar hefur hins vegar verið áberandi, að hver hlýindatoppur er ögn hærri en næsti á undan, og hver lægðirnar hafa einnig farið smám saman hækkandi.
Síðan hafa ýmis tölvumódel leitt í ljós, að á afmörkuðum svæðum getur orðið kólnun og sýndu sum líkön það í lok síðustu aldar, að orðið gæti svalara í norðvesturhluta Evrópu og einnig úrkomusamara.
![]() |
Vísbending um kólnandi veður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2014 | 18:06
Firring skrifræðisþjóðfélagsins.
Ég er það "gamaldags" að ég komst í gott skap við að aka um sveitir landsins á vorin þegar áburðarlyktin af túnunum fyllir vitin. Enn betra skap við að finna töðuilminn síðsumars.
Mér fannst magnað og gefandi að dvelja í nótt við einfaldan kost uppi á Brúaröræfum og taka á móti hálendisvetrinum í háfjallasólinni eftir snjókomu næturinnar. Ekki hvað síst eftir að hafa verið kvöldið áður í návígi við átök elds, vatns og snævar í Holuhraun Sjá myndir sem ég ætla að segja á facebook frá því í gærkvöldi og í morgun.
Lykt af lífríkinu og sem beinust snerting við náttúruna og tengsl við hana og hin miklu öfl hennar eru ómissandi hluti af þroska lífssýn og lífsnautn okkar.
Skorti þetta tilfinnanlega myndast smám saman firring þess sem lifir aðeins og hrærist daginn út og daginn inn í exel-skjölum og tölvugögnum og verður smám saman að því sem Vilmundur heitinn Gylfason nefndi svo snilldarlega "möppudýr."
Sívaxandi skrifræði veldur því að það er engu líkara en margt fólk umbreytist hreinlega og missi tengsl við eðlilegt og beintengt samband við umhverfi sitt, tilveru og viðfangsefni.
Skrifræðið sjálft og endalaus vöxtur þess er orðið að höfuðhlutverkinu og hið raunverulega viðfangsefni þokar fyrir því.
Margt að því sem möppudýrin taka upp á virðist benda til þess að þau skorti talvert af skynsemi og velvild.
Ég held ekki að þetta sé þannig, heldur að hið ómanneskjulega og tilbúna umhverfi leiði þá, sem þekkja lítið annað en það,, út á þessa braut.
Lögmál Parksinsons, sem hafa aldrei sannast eins hastarlega og á okkar tímum, fjalla ekki um að fólkið, sem lifir og hrærist i samræmi við þau, sé neitt verr af Guði gert en annað fólk, heldur það að ákveðið umhverfi laðar fram ákveðna eiginleika hjá okkur.
Einkum er átakanlegt þegar starfsmenn þjónustufyrirtækja og stofnana virðast orðnir firrtir vitund um það hvert sé eðli þjónustunnar, til hvers hún sé, og hvernig þeim, sem njóta eiga hennar eða leita hennar, sé best þjónað.
![]() |
Fólk kvartar undan sveitalyktinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.9.2014 | 21:37
Eins og að fylgjast með vígstöðvum
Eftir þriggja vikna hlé gafst færi að nýju síðdegis að líta yfir eldstöðvar úr Holuhrauni.
Í umhleypingum að undanförnu hefur verið erfitt að finna færi á að komast í tæri við gosið úr lofti. Þetta nýja hraun minnir á rauðan her sem sækir fram á allri víglínunni misjafnlega hratt þó.
Þetta var stórbrotið svið að líta yfir í ljósakiptunum í kvöld. Sólin var að setjast og sló ásamt móðunni stórbrotnum blæ á vígstöðvarnar sem blöstu við.
Þótt hraunið hafi á tveimur stöðum komist yfir Gæsavatnaleið þar sem hún liggur yfir sandflæmið ætti að vera hægt að færa slóðina til undan hrauninu.
Vonandi gefst færi á morgun að birta myndir af því sem blasti við í kvöld en á þeim ætti að sjást hvernig hraunið er að komast að ármótum Svartár og Jölulsár á fjöllum. Þar fer hraunið hins vegar afar hægt vegna þess hve það er orðið langt og finnur sér frekar framrás til hliðanna, einkum í norður.
Að öðru leyti er tíðindalaust á austurvígstöðvunum.
![]() |
40 skjálftar við Bárðarbungu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.9.2014 | 08:04
Annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðarinnar.
Það ætti ekki að þurfa að vera eins og spáný frétt að Bárðarbunga sitji mitt á heita reitnum undir Íslandi. Það er og hefur verið höfuðatriði varðandi eðli hins eldvirka hluta Íslands að undir honum er annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar og að þessi yfireldstöð landsins, Bárðarbunga, situr beint ofan á miðju hans.
Í því felast afl og áhrif hennar í formi hraunstrauma, stórgosa og hamfaraflóða í fimm vatnasvið, áhrif og sköpunarverk sem ná frá suðurströndinni i Flóanum og á Skeiðarársandi yfir þvert landið norður í Öxarfjörð.
Hinn eldvirki hluti Íslands er eitt af 40 helstu náttúruundrum veraldar. Bara á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum einnar er að finna lang magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims.
Hinn heimsfrægi eldfjallaþjóðgarður Yellowstone í Bandaríkjunum, elsti þjóðgarður heims, kemst ekki á blað sem eitt af helsu náttúruundrum veraldar og jafnoki hins eldvirka hluta Íslands. Samt er Yellowstone, mesta orkubúnt Bandaríkjanna varðandi jarðvarma og vatnsafl "heilög og ósnertanleg jörð" í hugum Bandaríkjamanna.
Hvenær ætlum við Íslendingar að láta okkur skiljast þetta?
![]() |
Undir er heitur reitur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.9.2014 | 07:44
Endurtekning á minknum og erlendu fjárpestunum?
Þrisvar sinnum á síðustu öldum bárust erlendir sjúkdómar í íslenskt sauðfé og ollu stórtjóni. Minkurinn var fluttur inn með þekktum afleiðingum.
Í öll skiptin var fullyrt að engin hætta væri á ferðum. Engir sjúkdómar bærust hingað og engir minkar myndu sleppa út.
Undanfarin ár hefur ítrekað verið fullyrt að engin hætta sé á ferðum þótt eldi á erlendum laxi sé margfaldað á metttíma í fjörðum landins. Enginn lax muni sleppa út.
Í öllum fyrrnefndum tilfellum hefur tilvist lögmáls Murphys verið mönnum hulin eða "áunnin fáfræði" látin ríkja. Miðað við hina löngu áfallasögu virðist líklegt að þannig verði það áfram á Íslandi um aldir alda.
![]() |
Norskur eldislax veiðist í Patreksfirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.9.2014 | 07:22
Já, stóriðjan var hófsemi og skynsemi, "eitthvað annað" brjálæði.
Árum og áratugum saman var það talin skynsemi og hófsemi að reisa eins mörg álver á íslandi og unnt væri, selja orkuna á "lægsta verði í heimi" með "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum" eins og það var auglýst af íslenskum stjórnvöldum í leynilegum betlibæklingi, sem sendur var helstu stóriðjufyrirtækjum heims.
Talið var skynsamlegt og hófsemdarlegt að framleiða 20 sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf til eigin nota og virkja alla virkjanlega orku í þessu skyni og umturna eða eyðileggja öll helstu náttúruverðmæti í þessu skyni.
Þeir sem andæfðu þessu voru kallaðir "ofgamenn" sem væru "á móti atvinnuuppbyggingu, á móti rafmagni og vilja fara aftur inn í torfkofana."
Ekkert annað en stóriðja kæmi til greina "til að bjarga þjóðinni". "Eitthvað annað" væri fánýtt og fjallagrasatínsla gjarnan nefnd sem dæmi.
Vilhjálmur í Möðrudal á Fjðllum var "talinn brjálaður" að láta sér detta "eitthvað annað" í hug.
Fyrir kosningarnar 2007 reyndi Íslandshreyfingin að benda á aðeins eina staðreynd, sem styngi í augun:
Að jafnvel þótt sex risaálver yrðu reist og allri orku og náttúru landsins fórnað fyrif þau, myndu aðeins um 2% vinnuaflsins fá vinnu í álverunum og svonefnd "afleidd störf" yrðu aldrei fleiri en um 5% vinnuaflsins.
Eftir sem áður yrðu langt yfir 90% af vinnuaflinu "eitthvað annað."
En þetta fór þá og fer enn inn um annað eyrað og út um hitt hjá ráðandi öflum í þjóðfélaginu. Að minnsta kosti hefur það verið "einróma" stefna núverandi ríkisstjórnar að reisa risaálver í Helguvík og fórna fyrir það helstu náttúruverðmætum landsins allt frá Reykjanestá austur í Skaftárhrepp og upp á hálendið.
Og enn eru þeir sem andæfa þessu taldir brjálaðir.
![]() |
Vilhjálmur var talinn brjálaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.9.2014 | 20:06
Getur það verið?
Síðustu ár Kísiliðjunnar við Mývatn voru fluttar um það reglulega fréttir að byggðin myndi hrynja ef verksmiðjan fengi ekki að halda áfram.
Umhverfisverndar- og náttúruverndarfólk var sakað um að vilja allt atvinnulíf feigt. Samt reyndi það að benda á möguleika í ferðaþjónustu og fleiru, en var þá í háði spottað fyrir að vilja "eitthvað annað" en stórar virkjanir og stóriðju, og með "einhverju öðru" var venjulega nefnd fjallagrasatínsla og það að "vera á móti rafmagni", "vilja fara aftur inn í torfkofana og vera á móti atvinnuuppbyggingu."
Venjulega var dómsdagsfrétt um yfirvofandi endalok Kíisiliðjunnar fyrsta frétt á ljósvakanum.
Svo hætti Kísiliðjan án þess að hægt væri að kenna náttúruverndarfólki um það. Samt var haldið áfram að núa því um nasir að hafa viljað leggja byggðina í auðn.
Frétt um það ári síðar að byggð héldi áfram þrátt fyrir allt beið lengi eftir birtingu og komst loksins að aftarlega í fréttatíma.
Í ljósi þessa vaknar spurningin um það hvernig það megi vera að enn sé byggð í Mývatnssveit. Hvort það hljóti ekki að vera gabbfrétt að samþykkt hafi verið gerð nýrrar götu í Reykjahlíð og að "mikill uppgangur" sé í Mývatnssveit án þess að reisa nýja Kísiliðju eða stórvirkjun í Bjarnarflagi.
![]() |
Mikill uppgangur er í Mývatnssveit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.9.2014 | 09:54
Hlutum snúið á haus.
Fróðlegt er að sjá viðbrögð sumra við augljósu misrétti kynjanna á vinnumarkaði og í námi sem birtist í ýmsum könnunum.
Hlutum er í umræðu þessara manna snúið á haus og fullyrt, að baráttan fyrir betri hlut kvenna sé til bölvunar, vegna þess að aukin þátttaka kvenna "gjaldfelli" háskólanám og launakjör í þeim störfum sem þær taka aukinn þátt í.
Í stað þess að viðurkenna að þetta séu glögg merki um fordóma og misrétti eru "gjaldfellingin" og karlahlunnindin talin vera merki um að feminismi sé til óþurftar og bölvunar.
Það séu fyllilega eðlileg og sanngjörn viðbrögð við aukinni menntun og atvinnuþátttöku kvenna að lækka laun þeirra stétta og atvinnusviða sem þær halsa sér völl í. Sá "feminismi" kvennanna að dirfast að mennta sig betur og taka meiri þátt í öllu þjóðlífinu en áður sé til ills en hitt af hinu góða að þær haldi til baka "aftur fyrir eldavélina" svo að karlarnir geti áfram að koma í veg fyrir "gjaldfall"menntunar og færni.
Þetta er merkilegt að sjá eftir alla jafnréttisumræðuna og baráttuna sem háð hefur verið í meira en öld.
![]() |
Karlar með meiri hlunnindi en konur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.9.2014 | 23:56
Skylduáhorf: Fuglarnir á Midway.
Orðin "lengi tekur sjórinn við" eru löngu úrelt og veruleikinn verður æ grimmari. Rusl og úrgangur magnast í hafinu með hverju árinu, risastórar plasteyjar myndast í Kyrrahafi og á fjörum Íslands og í hafinu við landið vex þessi óhroði jafnt og þétt.
Aðvörunarbjöllur ætti að hringja hátt og hvellt við það að fara inn á Youtube og sjá myndbönd af ástandi fuglalífsins á Midway í miðju Kyrrahafi. Ætti það að verða skylduáhorf fyrir alla.
Það var vel til fundið og tímabært að veita Tómasi Knútssyni verðlaun Sigríðar í Brattholti á Degi íslenskrar náttúru í síðustu viku fyrir áralangt starf hans við að vekja fólk til umhugsunar um versnandi ástand í þessum efnum, sem kallar á vitundarvakningu og aðgerðir í stað sinnuleysis og ábyrgðarleysis þannig að við förum að líta öll í eigin barm.
Fyrsta skrefið væri að leggja sem mest af notkun einnota plastpoka og fá sér í staðinn vistvæna taupoka, sem hægt er að nota aftur og aftur.
![]() |
Hvað verður um ruslið sem fer í hafið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)