17.9.2014 | 09:57
Hundruð milljarða "hurfu" hér.
Það þykir talsverð frétt og sú mest lesna á mbl.is í augnablikinu aö forstjóri erlends fyrirtækis sé horfinn með 13 milljarða króna, alla peningana, sem voru á lausu í fyrirtækinu.
Þetta þótti nú ekki mikið hér á landi fyrir sex árum. Í heimildamynd Helga Felixsonar um Hrunið er einn "útrásarvíkingurinn"spurður hvað hafi orðið um hundruð milljarða króna fjárhæðir, sem hefðu verið dásamaðar og gulltryggðar eignir og staðið undir miklum framkvæmdum og fjárfestingum og hann svarar bltátt áfram: "Þær bara hurfu".
Já, þær bara hurfu, gufuðu upp, urðu að engu enda lýsti Hannes Smárason því mjög vel í tímaritsviðtali hvernig tugir milljarða "yrðu til" í hvert sinn við notkun viðurkenndra bókhaldsaðferða þegar fyrirtæki voru keypt og seld eða runnu saman og búin var til viðskiptavild upp á stjarnfræðilegar upphæðir og hvert sinn.
Hann sagði að Mesti gróði hans fælist í því að kaupa sem allra skuldsettust fyrirtæki, slá lán til að borga skuldirnar og braska síðan með þessi fyrirtæki á alla kanta í kennitölufallki, allt saman löglegt, svo að tuga og hundruða milljarða króna gróða skapaðist. Gróðinn væri líka algerlega skattfrjáls ef hann léti þetta ganga nógu hratt.
Og í lok viðtalsins lýsti hann meginatriðum fjármálatöfra hans og annarra slíkra snillinga með þessari dásamlegu setningu: "Það myndi engum detta í hug að gera það sem við erum að gera nema fólki, sem veit engan veginn hvað það er að fara út í."
Lítð sem ekkert hefur breyst í því alþjóðlega fjármálaumhverfi sem skóp Hrunið og íslenskir ráðamenn þess tíma stukku á og spóluðu hér upp í einkavinavæðingu ríkiseigna og tilbúnnni þenslu og hágengi krónunnar með afleiddu neyslusukki og fjórföldun skulda heimila og fyrirtæka.
Allt var þetta fyllilega löglegt hjá fjármálasnillingunum nema þegar fjölmiðlamaður einn glæptist til þess að segja að peningar eins snillinganna hefðu "gufað upp" eða horfið. Þá var höfðað mál til að dæma fjölmiðlamanninn.
![]() |
Forstjórinn er horfinn og peningarnir líka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.9.2014 | 21:02
Gos í dyngjum enn betri?
Ef gos á söndum eru æskilegri en gos undir jökli á þeirri línu, sem jarðskjálftar og gliðnun liggja núna, eru gos í dyngjum líklega enn betri.
Hraun, sem renna úr dyngjum, renna víst yfirleitt hægt og lengi og breiða rólega úr sér, þannig að þau eru meinlítil og endast lengi sem aðdráttarafli fyrir ferðamenn.
En seint munu menn geta stjórnað þessu með óskum einum, samanber Heimaeyjargosið, sem svo sannarlega kom ekki upp á góðum stað.
Og því miður er Heimaey stærst Vestmannaeyja vegna þess einfaldlega að þar hafa flest gosin orðið á einu afmörkuðu svæði og því líklegasti staðurinn fyrir síðari gos.
![]() |
Vonandi gýs áfram á söndunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2014 | 09:55
Hvaða rugl er þetta nú?
Ég á þrjá örlitla fornbíla með stýrið hægra megin. Ég ek jöfnum höndum bílum með stýrin vinstra megin og hægra megin án nokkurra vandræða.
Ef Íslendingar fara með Norrænu til Bretlandseyja er þeim að sjálfsögðu heimilt að aka þeim í vinstri umferð þar í landi með stýrið "öfugu" megin.
2005-2007 þegar enginn vildi eiga svona "ræfla" flutti ég ég þessa "öfugu" örbíla inn fyrir skít og ekki neitt, enda komust tveir saman í einn gám.
Tilvist þeirra í íslenskri umferð hefur ekki verið hið minnsta vandamál.
Í umferðinni hér á landi eru hundruð bíla með stýrið hægra megin, sem erlendir ferðamenn koma á hingað frá Bretlandseyjum.
Meðan hér var vinstri umferð var meira en 90% íslenska bílaflotans með stýrið "öfugu megin" miðað við ríkjandi ástand.
Og hvað með það? Var það eitthvert stórvandamál þá? Datt einhverjum í hug að banna þá alla eða banna innflutning á bílum með stýrið vinstra megin?
Hvað á þetta bull að þýða að banna suma bíla hér sem eru með stýrið "öfugu megin" en ekki aðra?
Eða stendur kannski til að banna þá alla, snúa þeim erlendu ferðamönnum við á Seyðisfirði, sem koma með bíla með stýrið hægra megin og senda þá öfuga til heimalandsins ?
![]() |
Neitað um skráningu með hægra stýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.9.2014 | 23:39
Sum gos standa í mörg ár.
Sum eldgos standa í mörg ár, svosem ýmis dyngjugos. Surtseyjargosið stóð í þrjú og hálft ár og í sumum tilfellum er um að ræða röða af eldgosum, sem kalla má "elda".
Af því tagi eru Mývatnseldar 1724 - 29 og Kröflueldar 1975-84.
Skaftáreldar voru svo feikilega öflugir 1983, að núverandi gos í Holuhrauni sem og Kröflueldar eru aðeins nokkur prósent af þeim, og þess vegna entust Skaftáreldar ekki í mörg ár eins og þeir hefðu getað gert ef kvikustreymið hefði verið minna og jafnara.
Létting Vatnajökuls virðist ætla að hafa svipuð áhrif og vísindamenn spáðu og þess vegna megum við búast við "eldfjörugri" 21. öld heldur en 20. öldin var.
Og kannski erum við að sigla inn í "Bárðarbunguelda".
![]() |
Gliðnunarhrinan heldur áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.9.2014 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2014 | 15:29
Minnir á O. J. Simpson: "In dubio pro reo."
Ein helsta réttarreglal á Vesturlöndum er sú, að allur vafi í sakamálum skuli túlkaður sakborningum í vil.
Á latnesku lagamáli orðast þetta svona: "in dubio pro reo." Reglan þykir nauðsynleg til þess að hamla gegn því að framin séu dómsmorð.
Þótt þetta sé meginreglan er það misjafnt hvernig málarekstur þróast og hvernig mat dómara eða kviðdómenda er.
Þegar slyngir verjendur eiga í hlut, oft þeir bestu og dýrustu sem völ er á, tekst þeim oft að snúa málulm þannig að sýknudómur fáist.
Málalokin í máli Pistoriusar minna um sumt á mál bandaríska ruðningsmannsins og sjónvarpsstjörnunnar O. J. Simpsons.
Hér á landi voru kveðnir upp tveir dómar í morðmálum með nokkurra ára millibili í morðmálum, þar sem sýkna í fyrra skiptið en sakfellingi í því síðara.
Í fyrra málinu, morðinu á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra, voru helstu gögnin lík, morðvopn undir höndum hins ákærða og hugsanleg ástæða. Það eina sem vantaði var játning, en hún fékkst ekki og hinn ákærði var sýknaður.
Í síðara málinu, Guðmundar- og Geirfinnsmálum fundust engin lík né heldur morðvopn og engin ástæða heldur til ætlaðra morða.
Það eina, sem í höndum var, voru margbreyttar og ruglingslegar játningar fengnar með harðræðisaðferðum sem eru fordæmdar á okkar tímum.
Reglan "In dubio pro reo" var greinilega í heiðri höfð í fyrra málinu en ekki að sama skapi í hinu síðara.
Í fyrra skiptið var engin pressa á lögreglu eða dómskerfi að sakfella.
Í hinu síðara var gífurleg pressa á lögreglu og dómskerfi að sakfella og þáverandi dómsmálaráðherra lýsti því yfir við dómsuppkvaðningu að "miklu fargi væri létt af þjóðinni."
![]() |
Hann komst upp með morð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2014 | 23:58
Núlifandi Íslendingar þekkja ekki raunverulegar stórhamfarir.
Þótt sum eldgos síðustu 100 ár hafi verið býsna stór þekkja núlifandi Íslendingar ekki þær stórhamfarir sem fyrr á tíð ollu hörmungum og stórfelldum mannfelli og fjárfelli.
Þrátt fyrir langan hraumstraum frá gosinu í Holuhrauni er flæðið aðeins örlítið brot af því sem var í Skaftáreldum 1783 og eiturgufur í lofti sömuleiðis.
Eldfjallamóðan í því gosi barst í kringum jörðina og olli dauða milljóna í Afríku og Asíu.
Vegna rökkvunar af völdum gosefna í lofthjúpnum kólnaði í veðri um stóran hluta jarðarinnar og uppskerubrestur í Frakklandi í kjölfarið var ein af orsökum Frönsku byltingarinnar.
Meira en 70% af búsmala Íslendinga féll í harðindunum af völdum gossins. Flúormengun eyðilagði kjálka og tennur búsmalans, svonefndur gaddur, svo að hann gat ekki nærst og féll úr hungri.
Brennisteinsgufur, hin mikla móða, drap og veiklaði dýr og fólk.
Af því leiddi stórfelldur fæðuskortur sem olli hungurdauða þúsunda Íslendinga og alls fækkaði landsmönnum um fjórðung.
Á okkar tímum myndu viðlíka hamfarir að vísu valda stórfelldum búsifjum, en á móti kemur að nútíma samfélag hefur miklu meiri sveigjanleika til þess að takast á við slíkt.
Fyrr á tímum lifði alþýða öll frá hendinni til munnsins eins og það er orðað. Ef grasbrestur varð, gat ekkert komið í staðinn til þess að viðhalda bústofninum, og án hans var fólkið dauðadæmt í frumstæðu landbúnaðarsamfélagi.
Við það getum við huggað okkur en einnig verið meðvituð um það, að taka mögulegum skakkaföllum af völdum náttúruhamfara af fullri alvöru og efla varnir gegn þeirri vá, sem reginöfl íslenskrar náttúru geta valdið.
![]() |
Gæti orðið hár á Norðausturlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2014 | 19:58
Besti staðurinn, - undir framsætunum.
Ford T var hvorki með bensíndælu né vatnsdælu. Það var í samræmi við kjörorð Henry Ford: "Það, sem er ekki í bílnumm bilar aldrei".
Þegar vélin hitaði upp vatnið í kælikerfinu, steig heita vatnið upp en það kalda, sem var þyngra, sökk niður. Kerfið var hannað þannig, að þetta myndaði hringrás. En hún var ófullnægjandi og þegar vélarafl var aukið í arftökunum, varð ekki komist hjá því að hafa vatnsdælu.
Benzíngeymirinn var rétt fyrir aftan og ofan vélina, beint fyrir framan framrúðuna, í Ford T, og bensínið rann því niður í vélina fyrir þyngdaraflinu, svo að bensíndæla var óþörf, Svipað var þetta löngu síðar í Trabant.
En þettta var hættulegur staður vegna eldhættu, og því var geymirinn fluttur aftast í Fordbíla síðari tíma. Á síðari hluta 20. aldarinnar reyndist afturendinn líka vera varasamur staður á ýmsum bílum, svo sem fyrstu gerðinni af Ford Escort, Opel Kadett og Ford Pinto.
Á Youtube má finna mynd af prófun, þar sem ekið er aftan á Ford Pinto svo að kviknar í honum.
Sjálfur kom ég að dauðaslysi á Reykjanesbraut á þessum árum, þar sem Ford Escort snerist í hálku svo að bíll, sem kom úr gagnstæðri átt, ók á afturenda Escortsins, sem stóð þar með í ljósum logum, svo að ökumaðurinn brann inni í bílnum.
Fyrir 75 árum var Willysjeppinn hannaður þannig að bensíngeymirinn var undir öðru framsætinu.
Kostir þess voru margir. 1. Geymirinn var nálægt þungamiðju bílsins og neðan við hana og jók því stöðugleika hans. 2. Geymirinn var eins langt frá útjöðrum bílsins og unnt var að hafa hann og íkveikjhætta við árekstur því í lágmarki. 3. Geymirinn losaði um rými í afturhluta bílsins.
Næstum 70 árum síðar komu Honda-verksmiðjurnar með þá snilldarlausn varðandi rýmisnýtingu í Honda Jazz bílnum að hafa geyminn undir framsætum eins og hafði verið á Willys.
Fyrsta gerðin af Jazz var aðeins 3,85 metra löng en bauð samt upp á 350 lítra farangursrými, sem var miklu meira en á bílum af þessari stærð og jafnvel talsvert meira en á bílum sem voru hálfum metra lengri.
Ókostur þessarar staðsetningar getur verið sú að stela rými fyrir fætur aftursætisfarþega undir framsætunum, en hönnuðum Jazz tókst að lágmarka það óhagræði.
Nú kemur HR-V með geyminn þarna og er það vel. Þar á hann að vera.
![]() |
Honda með nýjan H-RV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.9.2014 | 13:08
Íslendingar gáfu Finnum milljarða tekjur af jólasveininum.
Þröngsýni er helsti galli okkar Íslendinga. Hún stafar sennilega af því hve langt land okkar er frá öðrum löndum og hve seint nútíminn gekk i garð hjá okkur.
Þannig komu almennilegir vegir, iðnbylting og frjálsræði í viðskiptum við umheiminn ekki til sögu hér á landi fyrr en á síðari hluta 20. aldar.
Orðið heimska er dregið af því að sá, sem ávinnur sér hana, miði allt út frá næsta heimaumhverfi sínu, óttist allt sem kemur utan frá og telji sig vita allt betur en aðkomumenn eða útlendingar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson fann upp hið frábæra orð "sjálfviti" yfir erlenda orðið "besserwisser" og finnst mér nýyrði Simma betra en erlenda orðið.
Þegar evrópsk börn fóru að skrifa bréf í þúsunda tali til jólasveinsins á Íslandi um miðja síðustu öld, þóttii það hið mesta vandræðamál og af hinu illa.
Tókst okkur að koma því af okkur að jólasveinninn ætti heima hér og gáfum hann Finnum, sem stórgræða á því að jólasveinninn eigi heima í Rovaniemi í Finnlandi í formi mikils ferðamannastraums þangað.
Hér á landi, einkum á Austurlandi, er allt sem til þarf til þess að bjóða útlendingum upp á margfalt magnaðra heimili jólasveinsins en er í Rovaniemi.
Þar er boðið upp á einn jólsvein, hreindýr og snævi þakið skóglendi.
Á Fljótsdalsheiði væri hægt að bjóða upp á 13 jólasveina, Grýlu, Leppalúða, álfa og tröll auk hreindýra, snævi þakins lands og eldfjalla.
En enginn áhugi er fyrir því heldur er aðal keppikeflið að umturna einstæðri náttúru landsins í þágu risaverksmiðja sem eyða eins mikilli orku og unnt er fyrir sem allra lægst orkuverð og með sem allra fæstu og dýrustu störfum, sem unnt er að skapa miðað við orkumagnið.
![]() |
Féll fyrir íslensku jólasveinunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.9.2014 | 01:01
Mikilvægasta orrusta síðustu aldar?
Þessa dagana eru rétt hundrað ár síðan Frökkum tókst að stöðva þýska herinn við ána Marne norðaustur af París og bjarga borginni frá því að falla í hendur Þjóðverja, en það hefði orðið til þess að stríðið á vestuvígstöðvunum hefði tapast og Þjóðverjar í framhaldinu unnið Rússa enn fyrr en ella og staðið uppi sem sigurvegarar í styrjöldinni, sem hefði tekið aðeins eitt til tvö ár.
Í ýmsum sagnfræði- og herfræðiritum hefur tveimur mönnum, franska hershöfðingjanum Joseph Joffre og þýska hershöfðingjanum Von Moltke verið stillt upp sem þeim einstaklingum, sem réðu hvað mest úrslitum um það að í stað þýsks sigurs á undraskömmum tíma varð stríðið að meira en fjögurra ára löngu blóðbaði sem endaði með sigri Bandamanna en ósigri Miðveldanna.
Joffre tók réttar ákvarðanir á ögurstundum og hélt haus allan tímann, einkum vegna mikillar yfirvegunar og æðruleysis, sem meðal annars birtist í því að hann gætti þess að ofkeyra sig ekki, heldur halda fullri orku með því að hvílast og sofa nóg.
Von Moltke fór hins vegar á taugum og keyrði sig svefnlítinn út og var í kjölfarið settur af.
Joffre hélt sig miklu nær víglínunni en Von Moltke og boðleiðir voru því greiðari og styttri hjá yfirstjórn franska hersins en hins þýska.
Von Moltke hafði brotið gegn hinstu ósk Schlieffens, þess sem gerði innrásaráætlunina, þess efnis að halda hægri væng hersins nógu sterkum og veikja hann alls ekki.
Á þessum tíma voru varnir mun sterkari en sóknir í hernaði, og gat vel búinn og skipulagður her varist allt að tvöföldu ofurefli í mannafla í víggirtum skotgröfum og með beitingu vélbyssna.
Schlieffen áætlunin byggðist á því að verjast og halda í horfinu á syðri hluta víglínunnar með eins fámennu liði og unnt væri, - en efla í þess stað hægri vænginn á nyrðri hlutanum svo mjög að liðsmunurinn gæti orðið þrefaldur eða jafnvel fjórfaldur þar og herinn brunað í gegnum Belgiu og í stórum sveig vestur fyrir París til þess að umkringja hana og knýja Frakka með því til uppgjafar.
Von Molkte og yfirherstjórnin óttuðust að taka áhættu varðandi vinstri vænginn, styrktu hann og veiktu í raun hægri vænginn með því.
En þetta útskýrir ekki allt. Í nýrri ritum er áætlun Schlieffen gagnrýnd fyrir það að í henni var ofmetin geta hers með fótgönguliði og riddaraliði á þessum tíma til þess að sækja fram langar vegalengdir á stuttum tíma, berjast við óvinina og hafa með sér vistir og hergögn.
Bent er á að hestar Þjóðverja hefðu þegar verið farnir að örmagnast og hægja á sér áður en komið var inn í Frakkland og að fótgönguliðið hafði ekki úthald til þess að fara hina löngu bogadregnu leið um Belgíu og Norður-Frakkland til þess að komast vestur fyrir París.
Aðdrættir til hersins voru einfaldlega ekki nógu öflugir til að standa undir svona sókn. Fyrir bragðið sveigði herinn til vinstri til þess að fara styttri leið og komast hjá því að bil myndaðist á milli einstakra herdeilda.
Í Seinni heimsstyrjöldinni breyttist þetta. Þá sáu brynvarðar vélaherdeildir Þjóðverja (Panzer) um að sækja hratt fram, vera frontur sóknarinnar og brjóta varnir andstæðinganna á bak aftur, og fótgönguliðið slapp við mikinn hluta bardagaálagsins fyrir bragðið og hreinsaði upp eftir vélaherdeildirnar.
Auk þess voru flutningar og aðdrættir framkvæmdir að stærstum hluta með vélknúnum flutningatækjum.
Sigur Miðveldanna á meginlandi Evrópu á öðrum áratug síðustu aldar hefði breytt sögunni út alla öldina og hugsanlega hefði ekki orðið nein Seinni heimsstyrjöld, að minnsta kosti ekki í Evrópu.
En að vísu er svo flókið að áætla alla þætti framvindu heimsstjórnmálanna með þessari breytingu í stríðinu 1914, að best er að láta það ógert.
Orrustur Seinni heimsstyrjaldarinnar, svo sem við Moskvu, Stalingrad, Kursk og El Alamein voru að vísu mikilvægar en voru að því leyti til ekki eins mikilvægar og orrustan við Marne, vegna þess að í seinna stríðinu var það ekki spurning um einstakar orrustur hvernig það fór, heldur um einföldustu atriði hernaðar á öllum tímum, magn vopna og fjölda hermanna.
Þar höfðu Bandamenn yfirburði í Seinni heimsstyrjöldinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2014 | 12:17
Misskilningur Skota?
Í sjónvarpsviðtali við talsmann sjálfstæðissinna í Skotlandi sagði hann að Skotar gætu tekið sér þrjú Norðurlandanna sem fyrirmyndir: Norðmenn varðandi nýtingu olíunnar, Svía varðandi velferðarkerfiið og Íslendinga varðandi það að búa til nýja stjórnarskrá.
Ljóst er að vesalings maðurinn heldur að á Íslandi sé tekið mark á þjóðaratkvæðagreiðslum, meðal annars yfirgnæfandi fylgi í slíkri atkvæðagreiðslu hér á landi árið 2012 við nýja stjórnarskrá frá 2011 og helstu atriði hennar.
En í stað þess að fara að þeim vilja, var skipuð enn ein stjórnarskrárnefndin i viðbót við allar stjórnarskrárnefndirnar sem skipaðar hafa verið síðastliðin 70 og hafa ekki klárað það loforð landsfeðranna 1943-44 að setja landinu nýja stjórnarskrá.
Í formennsku nefndarinnar var auðvitað settur sá mæti lagaprófessor, sem minnsta þörf taldi á að hrófla við núverandii stjórnarskrá og nokkuð sáttur við framgang málsins síðustu 70 árin.
Og nú hefur hann sagt af sér, enda fyrirséð að með sama verkhraða og undanfarin 70 ár, verði hann orðinn 153ja ára eftir önnur 70 ár.
Miðað við hrifningu talsmanns sjálfstæðissinna í Skotlandi er þó kannski sá möguleiki í stöðunni, að verði Skotland sjálfstætt ríki geti hin nýja íslenska stjórnarskrá gagnast Skotum sem grunnur að nýrri stjórnarskrá þeirra.
![]() |
Í lagi með gildandi stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)