13.9.2014 | 01:35
Farsi og fáránleiki á köflum.
Gálgahraunsmálið, sem nú er fyrir dómstóli, hefur verið farsakennt og fáránlegt á köflum. Jafnræði og meðalhóf eru fyrir borð borin.
Níumenningarnir eru ákærðir fyrir að hafa brotið ítrekað gegn fyrirmælum lögreglu. En ég og margir fleiri brutum líka ítrekað gegn fyrirmælum, því að fjórum vikum fyrr kom lögregla að okkur, við vorum girt inni og skipað að fara út fyrir merkinguna. Við óhlýddumst því og síðan aftur því sama 23. október, en erum samt ekki ákærð, heldur aðeins þeir níu sem voru tvívegis fluttir í fangelsi.
Hjón komu tvívegis í hraunið 23. október og settust þar niður. Hún er nett kona og var borin burt, sett inn í bíl og færð öðru sinni í fangelsi.
Hann er þungur og lögreglumenn gáfust upp við það eða nenntu ekki að bera hann inn í lögreglubílinn.
Hún er ákærð en ekki hann, en þó var "brot" þeirra hið sama. Fólk er sem sagt ákært eftir þyngd.
Fyrirskipað var að handtaka Eið Guðnason þegar hann kom á vettvang í hrauninu og þegar hann spurði hvers vegna var svarað að hann væri inni á bannsvæði. Eiður sagðist ekki sjá neinar merkingar og var þá sagt að það væri verið að koma þeim upp og að hann stæði fyrir innan þær merkingar sem ættu eftir að koma !
Þegar þær voru komnar upp stóð Eiður fyrir utan og reyndi þá einn lögreglumaður að stjaka honum inn fyrir svo að hægt væri að handtaka hann!
Minnir það á brandarann gamla um lögguna, sem fann lík í Fishersundi en dró það upp í Garðastræti af því að hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa orðið Fishersund. Eða er það Fischersund?
Ég hef fylgst með vegagerð á Íslandi í 60 ár og hef aldrei áður séð þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru þarna, að stærsta skriðbeltatæki landsins ryddist yfir endilangt hraunið á fyrsta degi og tryggði þar með hámarks óafturkræf náttúruspjöll á sem stystum tíma.
Það var líka fáránleg sýn að sjá þennan hrikalega stóra skriðdreka koma í fylgd 60 lögreglumanna, sem vopnaðir voru gasbrúsum, handjárnum og kylfum, í sókn gegn nokkrum sitjandi konum og gamalmennum til þess að ryðja þeim úr úr vegi.
En var svosem í stíl við það þegar það þurfti sérstaka heræfingu NATO, öflugasta hernaðarbandalags heims, sumarið 1999 til að æfa beitingu F-15 orrustu- og sprengjuþotna, stórtækustu drápstækja veraldar, gegn náttúruverndarfólki á hálendi Íslands, en hugsanleg mótmæli þess gegn náttúruspjöllum voru þá talin hættulegastta ógnin við öryggi landsins, - ekki Osama bin Laden og hans menn, erlendar vígasveitir eða kjarnorkuógnin í vopnabúri Rússa.
![]() |
Hraunavinir bíða eftir dómi Hæstaréttar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.9.2014 | 22:22
Það má lítið bregða út af.
Sums staðar á Íslandi er ekkert grín ef drepst á hreyfli eins hreyfils vélar, til dæmis yfir úfnum hraunum.
En það er þó hatíð miðað við ísbeltið sem er oftast milli Íslands og Grænlands, einkum norðarlega á Grænlandhafi og á Grænlandssundi.
Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en ég flaug mitt eina flug til Grænlands á FRÚnni í nóvember 2000 frá Ísafirði norðvestur að Blosseville ströndinni á Grænlandi og til baka aftur.
Kröfur Dana um búnað voru mjög strangar. Af því að ég var á eins hreyfils vél var skylt að hafa fylgdarflugvél, björgunarbát um borð, HF sendistöð, og björgunarvesti.
Frá Aðalvík á Hornströndum til strandar í Grænlandi eru aðeins 285 kílómetrar eða styttra en frá Aðalvík til Hvolsvallar og flugdrægið átti því að vera nóg.
Fylgdarflugvélin var eins hreyfils flugvél af sömu gerð og FRÚin. Þetta mátti ekki seinna vera, því að við Blosservilleströndina er komið talsvert norður fyrir heimsskautsbaug og dagurinn því orðinn ansi stuttur í nóvember.
Þegar komið var yfir ísbeltið á miðju Grænlandssundi kom í ljós að allur öryggisbúnaðurinn um borð í vélinni væri gagnslaus ef það dræpist á hreyflinum, því að ómögulegt yrði að nauðlenda öðru vísi en að brotlenda illa og drukkna.
Ísinn samanstóð af ísjökum sem voru of litlir til þess að hægt væri á lenda á þeim nema að bruna út af þeim og steypast í íshraflið, sem var á milli þeirra og fá klakastykkin í gegnu framrúðuna.
Engu skárra var að nauðlenda í íshraflinu. Þá komu klakastykkin á fullri ferð í gegnu framrúðuna þegar í stað.
Ef drapst á hreyflinum var maður dauðadæmdur.
Eina gagnið af fylgdarflugvélinni gat orðið það að tilkynna um það sem gerst hefði, ef illa færi.
Ég hef sjaldan verið fegnari að lenda eftir flug en eftir þessa ferð.
Þrátt fyrir þetta fjandsamlega umhverfi við Grænlandsstrendur verða furðu fá slys í ferðum fjölda flugvéla yfir Grænlandshaf.
Því er ekki ástæða til að leggja flug á þessari leið af þótt auðvitað sé ekki 100% útilokað að einhvern tíma fari eitthvað úrskeiðis.
![]() |
Flugvél hvarf á leið frá Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 13.9.2014 kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2014 | 09:44
Enn meiri græðgi og níska.
Græðgi og níska eru varhugaverð en aldrei meira en þegar þau fara saman eins og blasir við í tengslum við helsta atvinnuveg þjóðarinnar og merki sjást nú um í fjárlagafrumvarpinu.
Í sumar hafa fréttir af þjóðarskömm varðandi ástand og umgegni á ferðamannastöðum kvíða um land verið vikulegar og stundum daglegar.
Á sama tíma og ferðafólki fjölgar meira en nokkru sinni fyrr og þar með tekjurnar af þeim, eru fjárveitingar til aðgerða til varnar íslenskum náttúruperlum skornar niður og nema nú minna en einum þúsundasta af gjaldeyristekjum af ferðaþjónustunni eða 0,005 %.
Hvergi í þeim 28 þjóðgörðum, sem ég hef komið í erlendis viðgengst það að rukkað sé um aðgangseyri án þess að merki sjáist um það í hvað aðgangseyririnn fari.
Alls staðar fær ferðamaðurinn vandaðan bækling í hendur, fær aðgang að víðtækri og vandaðri þjónustu og sér smekkleg mannvirki og verndunaraðgerðir sem hann var að borga fyrir.
Í landi einkaframtaksins, Bandaríkjunum, eru helstu þjóðgarðar þjóðareign og hvergi gert það skilyrð'i að reksturinn borgi sig.
Það er vegna þess að um er að ræða stolt og heiður þjóðarinnar en ekki gróðafyrirtæki þar sem níska og græðgi ráða ríkjum.
Bandaríkjamenn gera sér auk þess grein fyrir því að virðing og viðskiptavild, sem meta má til fjár, haldast oft í hendur.
![]() |
Minna til ferðamannastaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.9.2014 | 22:48
Fjárskortur (níska) veldur fjártjóni.
Vegna fjárskorts, sem kalla má nísku öðru nafni, hefur þurft að loka miklu fleiri leiðum og stærri svæðum vegna Bárðarbungueldanna en annars hefði verið nauðsynlegt.
Það þarf mannskap og peninga til að loka leiðum og halda uppi vörslu og til þess að einfalda viðfangsefnið hefur verið hyllst til að finna einföldustu og ódýrustu leiðirnar til lokana, en það hefur oft leitt til þess að lokunarhliðin eru miklu fjær hættusvæðinu en þörf er á.
Fyrir bragðið eru margar fallegar og áhugaverðar hálendisleiðir lokaðar vegna þess eins að hugsanlegt er talið að ferðafólk gæti læðst bakdyramegin um þær, ef svo má að orði komast, of nærri hættusvæðum.
Nefna má að til einföldunar er hálendinu á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum skellt í lás við Kárahnjúkastíflu að austanverðu og við Möðrudal og Hrossaborg að norðanverðu.
Hægt væri að ná sama árangri með því að loka á Dyngjuhálsi við Álftadalsdyngju.
Með slíkum lokunum yrði hægt að halda opnum leiðum, sem hafa notið sín vel í bjartviðrinu, sem hefur ríkt að mestu á norðausturhálendinu síðustu þrjár vikur.
Sem dæmi má nefna Álftadalsleið, Brúardalaleið, Þríhyrningsleið og leiðinni í Grágæsadal.
Til þess að flóð í Jökulsá á Fjöllum gæti komist inn á þessar leiðir eða inn á Sauðárflugvöll, þyrfti flóðvatnið að klifra upp á hálsa og fjöll.
Sauðárflugvöllur er sem sagt að sjálfsögðu ekki á hættusvæði, en til þess að aka frá vellinum til byggða þarf samt að fá leyfi til þess að fara um lokunarhlið út af svæðinu!
Ferðaþjónustan skilar meira en 300 miiljörðum af gjaldeyri í þjóðarbúið í ár og því er ofangreint enn eitt dæmið um það að hrein níska á smápeninga vinni gegn henni.
![]() |
Hættulegasti staður á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.9.2014 | 21:27
Vandræðaleg svör og svipbrigði sögðu mikið.
Augljóst var á svipbrigðum forsætisráðherra þegar Sigmar Guðmundsson spurði hann ágengra spurninga í Kastljósi kvöldsins varðandi mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að honum leið ekki vel, heldur lá við að hann engdist í vandræðunum við að svara þeim.
Þetta var síst til þess að styrkja stöðu hennar ef það var ætlunin með þessari fumkenndu vörn, heldur þvert á móti.
Um "fyrirvarana" og "prinsippin" varðandi matarskattinn má segja það að ef ætlunin er að einfalda skattkerfið með hækkun skattsins má alveg eins búast við því að mótvægisaðgerðirnar, sem gefið var í skyn að yrðu mótaðar í meðferð þingnefndar og þingsins verði til þess að flækja málið enn frekar.
Bæði þessi mál, mál Hönnu Birnu og matarskattshækkkunin virðast ætla að verða stjórnarflokkunum og stjórnarsamstarfinu erfið í skauti.
![]() |
Fyrirvarar fylgdu samþykkinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
11.9.2014 | 08:16
Fáa grunaði þetta fyrir þremur árum.
Þegar uppreisn gegn Assad Sýrlandsforseta var komin á flugstig fyrir þremur árum vakti það ánægju Bandaríkjamanna og Breta, sem vildu gjarna að þessum spillta harðstjóra og óþæga ljá í þúfu þeirra um árabil yrði velt úr sessi.
Uppreisnarmenn fengu því stuðning til að byrja með og ekkert var hlustað á aðvörunarorð Rússa vegna þess að þeir höfðu verið bandamenn og stuðningsmenn Assads um árabil.
Uppreisnin var talin tákn um "arabíska vorið", byltingu lýðræðissinnaðra og nútímalegra Araba, sem færi um Líbíu, Egyptaland og fleiri Arabalönd.
Fljótlega fóru þó að koma fram efasemdir um að þetta væri rétt mat og nú er komið í ljós að það var beinlínis kolrangt.
Öfgafylltu Íslamistar, sem um getur, hafa reynst vera potturinn og pannan í uppreisninni og kenningar þeirra og aðgerðir minna helst á þá ógn sem heiminum stóð af nasistum á sínum tíma.
Það má líka minnast þess, að fagurgali Hitlers og falskur friðarvilji blekkti forystumenn Vesturveldanna á sínum tíma auk þess sem margir töldu það ekkert slæmt að hann yrði mótvægi við Stalín og kommúnistana í Kreml.
Nú sjá menn það sama og þá, að gegn slíkum glæpamönnum sem nasistar voru og hinir hörðu 'Islamistar eru nú, duga engin vettlingatök.
![]() |
Boðar loftárásir á Sýrland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2014 | 23:17
Mini Cooper er 53ja ára, ekki 55.
Mini Cooper og Mini Cooper S komu fyrst fram árið 1961. Þess vegna getur þessi gerð Mini ekki átt 55 ára afmæli núna eins og sagt er ítrekað í tengdri frétt á mbl.is.
Mini Cooper var ávöxtur af samvinnu Alec Issigonis, hönnuðar Mini, þess Mini, sem á 55 ára afmæli í ár, og John Cooper, sem var kappaksturbílasérfræðingur og sá möguleikana sem hinn upprunalegi Mini bjó yfir til þess að geta valdið byltingu í smábílaheiminum hvað snerti snerpu og hraða.
Upprunalega var Mini með 998 cc vél, en sú vél gaf bílnum meira en 130 kílómetra hámarkshraða, sem var 30-40 % meiri hraði en hjá smábílum af svipaðri stærð á þeim tíma.
Mönnum óaðii við þessu og létu því minnka vélina niður í 848cc og hámarkshraðann niður í 116 km/klst.
Eini örbíllinn, sem náði slíkum hraða þá var NSU Prinz 30, sem hafði 120 km hámarkshraða og var vinsæll meðal kappakstursmanna.
John Cooper kappakstursbílafrömuður, tókst að telja Issigonis á að framleiða Mini Cooper og Mini Cooper S, sem hófu sigurgöngu sína árið 1961.
Mini Cooper S var með þá með tvöfalt meira vélarafl en venjulegur Mini, 1275 cc 77 hestaflla vél, sem spyrnti bílnum upp í 100 kílómetra hraða á innan við 9 sekúndum og gat skilað Mini upp í meira en 150 kílómetra hraða.
Framundan næstu ár var einstæð sigurganga þessa bíls í ralli og ökukepppnum af ýmsu tagi.
Finnskir rallökumenn eins og Timo Makinen þróuðu aksturstækni á 130 hestafla Mini Cooper, sem byggðist á því að aka bílnum á hámarksafli í gegnum beygjur en standa samt það mikið á hemlunum með vinstri fæti, að bíllinn dró afturhjólin en vélaraflið yfirvann hemlunina á framhjólunum.
Með þessari aðferð var hægt að láta bílinn "flatreka" út á hlið í gegnum beygjur að vild með samspili hemla og vélarafls þannig að framhjólin drógu bílinn á nær fullu afli í gegnum beygjurnar en afturhjólin skrikuðu nægilega til að bíllinn héldist í "flatreks"-stöðu.
Aðferðina var hægt að nota á öðrum kraftmiklum framdrifsbílum, en mér fannst best að kasta Renault 5 Alpine rallbílnum til með stýrissveiflum til að láta hann flatreka.
![]() |
55 ára afmæli Mini Cooper fagnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2014 | 18:07
Þráðurinn að ofan.
Ein af undistöðum ferðaþjónustunnar, sem gefur nú mest af sér í þjóðarbúið, er samgöngukerfið sem flutningar og ferðalög ferðamanna byggist á.
Keflavíkurflugvöllur nýtur góðs af auknum tekjum af umferð, en innanlandsflugvellirnir ekki. Samt eru þeir nauðsynlegir fyrir ferðaþjónustuna og tekjur af henni.
Það er orðið ansi hart í ári þegar grípa þarf til þess að loka ódýrustu flugvöllunum vegna fjárskorts.
Flugið og mannvirkin sem því tengjast, eru þráðurinn að ofan svo að tekin sé líking af þekktri dæmisögu, í þeim stækkandi vef, sem spunninn er í kringum ferðaþjónustuna.
Sé aðeins hugsað um að ná sem mestum peningum af ferðamönnum án þess að gefa neitt á móti til þess að bæta og auka þjónustuna við þá og vernda jafnframt náttúru landsins, mun það hefna sín.
Við svo búið má ekki standa.
![]() |
Vantar fé til reksturs flugvalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.9.2014 | 00:14
Miklar draumfarir - hegðun dýra.
Í hundruðum flugferða milli Suðvesturlands og Sauðárflugvallar á Brúaröræfum undanfarinn áratug hefur flugleiðin legið oft yfir eða sitt hvorum megin við Bárðarbungu.
Smám saman hefur mikilleiki þessa næst hæsta fjalls Íslands seytlað æ dýpra inn í vitundina.
Staða þess í eldstöðvakerfi landsins er likust stöðu drottningar eða guðmóður í fjölskyldu eða röð eldstöðva, sem spannar allt frá Hrafntinnuskeri í suðri og norður undir Öskju, jafnvel allt norður til Herðubreiðar.
Hún virðist hvað eftir annað senda aðrar eldstöðvar til verka líkt og mafíuforingi og ferillinn undanfarin ár bendir til þess að hún hafi smám saman verið að búa sig og sína til mikilla verka.
Þetta leiddi af sér myndatökur af henni og nágernni hennar skömmu áður en hún fór að hrista sig og skjálfa handa fyrir þremur vikum.
Ekki hefur dregið úr áhrifamætti þessa mikla fjalls, að ég hef fjórum sinnum ekið upp á bunguna og einu sinni lent flugvél á henni. Tilvist hennar sest í sálina.
En fjallið virðist geta haft áhrif á fleiri vegu á fólk. Fólk, sem hefur áður sýnt af sér dulræna hæfileika. spágetu og draumspeki, hefur haft samband við mig að undanförnu og sagt mér frá draumförum, sem boðað gætu mikil tíðindi, miklu meiri en áður hafa gerst.
Einnig fólk, sem hefur tekið eftir óvenjulegri hegðun dýra, til dæmis því að gæsir séu óvenju snemma að hafa sig á brott frá svæðum austan við Bárðarbungu. Það rímar við mína reynslu á Brúaröræfum þar sem ég hef aldrei séð eins fáar gæsir á flugi og nú.
Fréttir kvöldsins um áhyggjur jarðvísindamanna eru ekki draumfarir eða ósjálfráð viðbrögð í ætt við hrædd dýr, heldur blákaldur veruleiki mælinga og talna, sem stinga í augu.
Hvort þetta boðar jafn mikið og það virðist geta gert skal ósagt látið.
En mér finnst rétt að greina frá þessu, hvað sem koma mun í ljós.
P.S. Þess má geta að ekki hafa öll dýr eða fuglar farið af Brúaröræfum. Einn hefur bæst við, sjá mynd á facebook síðu minni af nýjum vini mínum, sem hefur gert sig heimankominn á Sauðárflugvelli nú siðsumars.
![]() |
Líkur á stórtækum breytingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.9.2014 | 09:17
Upphaf myndunar gervigíga?
Hér á síðunni var fyrir þremur dögum fjallað um þann möguleika hvort samspil Jökulsár á Fjöllum og hins nýja Holuhrauns gæti orðið til þess að mynda fyrirbæri, sem kallað er gervigígar.
Einna fægastir slíkra gíga á Íslandi eru Landbrotshólar, sem Jónas Hallgrímsson uppgötvaði fyrstur manna að væru gervigígar, Rauðhólarnir við Reykjavík, myndaðir af samspili mikils hrauns sem rann úr Bláfjöllum niður í Elliðaárvog og þurfti að fara í gegnum Elliðavatn, og Skútustaðagígar við Mývatn, myndaðir úr samspili hrauns sem rann frá eldstöðvum við vatnið í gegnum það og alla leið niður undir sjó við Skjálftandaflóa.
Það sýndist ekki ýkja líklegt að slíkir gígar mynduðust við Holuhraun nema gosið væri kröftugt og hraunrennslið nógu mikið til þess að króa ána af að að einhverju eða öllu leyti.
Nú er að heyra á útvarpsfréttum að upphaf slíkrar myndunar sé að hefjast þarna, hvað sem síðar verður.
Ef það gerist, verður það í fyrsta sinn á okkar tímum sem hægt verður fyrir menn að verða vitni að því.
En reikna verður með því að menn hafi orðið vitni að því í Eldgjárgosinu 930 þegar Landbrotshólarnir urðu til, því að þá hafði landnám staðið í minnst 60 ár.
![]() |
Stöðugur órói í Bárðarbungu í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)