Fjárskortur (níska) veldur fjártjóni.

Vegna fjárskorts, sem kalla má nísku öðru nafni, hefur þurft að loka miklu fleiri leiðum og stærri svæðum vegna Bárðarbungueldanna en annars hefði verið nauðsynlegt. 

Það þarf mannskap og peninga til að loka leiðum og halda uppi vörslu og til þess að einfalda viðfangsefnið hefur verið hyllst til að finna einföldustu og ódýrustu leiðirnar til lokana, en það hefur oft leitt til þess að lokunarhliðin eru miklu fjær hættusvæðinu en þörf er á.

Fyrir bragðið eru margar fallegar og áhugaverðar hálendisleiðir lokaðar vegna þess eins að hugsanlegt er talið að ferðafólk gæti læðst bakdyramegin um þær, ef svo má að orði komast, of nærri hættusvæðum.

Nefna má að til einföldunar er hálendinu á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum skellt í lás við Kárahnjúkastíflu að austanverðu og við Möðrudal og Hrossaborg að norðanverðu.

Hægt væri að ná sama árangri með því að loka á Dyngjuhálsi við Álftadalsdyngju.

Með slíkum lokunum yrði hægt að halda opnum leiðum, sem hafa notið sín vel í bjartviðrinu, sem hefur ríkt að mestu á norðausturhálendinu síðustu þrjár vikur.

Sem dæmi má nefna Álftadalsleið, Brúardalaleið, Þríhyrningsleið og leiðinni í Grágæsadal.  

Til þess að flóð í Jökulsá á Fjöllum gæti komist inn á þessar leiðir eða inn á Sauðárflugvöll, þyrfti flóðvatnið að klifra upp á hálsa og fjöll.  

Sauðárflugvöllur er sem sagt að sjálfsögðu ekki á hættusvæði, en til þess að aka frá vellinum til byggða þarf samt að fá leyfi til þess að fara um lokunarhlið út af svæðinu!

Ferðaþjónustan skilar meira en 300 miiljörðum af gjaldeyri í þjóðarbúið í ár og því er ofangreint enn eitt dæmið um það að hrein níska á smápeninga vinni gegn henni. 


mbl.is Hættulegasti staður á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.1.2014:

"Vinna við landvörslu í sumar minnkar um helming frá því í fyrra vegna lægri fjárframlaga til Umhverfisstofnunar.

Landverðir starfa í íslenskum þjóðgörðum og á náttúruverndarsvæðum á sumrin.

Þeir taka á móti gestum, veita upplýsingar og fræðslu, gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt, hafa eftirlit með umferð og umgengni og sjá um framkvæmdir eins og að leggja göngustíga og halda tjaldsvæðum við."

Vinna við landvörslu minnkar um helming frá því í fyrra vegna minni fjárframlaga

Þorsteinn Briem, 11.9.2014 kl. 23:08

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raunverulegur kostnaður ríkisins vegna góðrar landvörslu er enginn.

Landverðir greiða tekjuskatt til ríkisins og virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem þeir kaupa hér á Íslandi.

Og sektir renna í ríkissjóð.

Þorsteinn Briem, 11.9.2014 kl. 23:10

3 identicon

Svo er alltaf svoldið dapurlegt þegar einungis neikvæð sjónarhorn eru notuð.  Þannig eru bönnin endalaust réttlætt en einnig væri hægt að hugsa sér að með því að hleypa inn á svæði undir stjórn bæði á fjölda bíla og tímalengd þá væri alveg hægt að rukka gjald t.d. fyrir hvern bíl og þess vegna gætu hjálparsveitirnar sem eru jú fjárþurfi haft af þessu nokkrar tekjur.

Ekki vil ég gera lítið úr að þetta svæði þarf að vera undir eftirliti en endilega kíkja aðeins út fyrir rammann.  

Já ég var einmitt að hugsa það sama fyrir nokkru um Grágæsadalsleiðina en þar er vegur upp á smá heiði í ca. 20 km. fjarlægð frá gosinu en án minnstu flóðahættu. 

Sturla Þengilsson (IP-tala skráð) 11.9.2014 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband