Dæmi um ógöngur varðandi íslenskan eignarétt.

Aldrei hafa hrannast upp jafnmörg vandræðamál varðandi eignarrétt hér á landi og sumar. Á þetta sérstaklega við um íslenskar náttúruperlur sem eru undirstaða þess atvinnuvegar sem nú er orðinn stærstur hér á landi. 

Ástandið við Jökulsárlón er nýjasta dæmið um þetta, en við Mývatn, Kerið og á fleiri stöðum blasa við þær ógöngur sem gildandi lög um eignarétt hafa leitt okkur út í.

Dæmin eru raunar miklu fjölbreyttari en virðist í fljótu bragði. Sveitarfélög með örfáa íbúa hafa mikinn hluta af valdinu til þess að ráðstafa ómetanlegum náttúruverðmætum á heimsvísu þannig, að þau séu eyðilögð í þágu mikilla skammgróða og einkagróðahagsmuna.

Oft eru þessi fámennu byggðarlög í engri aðstöðu til að fást við ofurvald erlendra stórfyrirtækja sem eruu því vön í þriðja heiminum að hlunnfara heimamenn.

Nokkur hundruð manns í einu sveitarfélagi hafa vald til að koma í veg fyrir hagkvæmustu vegaframkvæmd á Íslandi með því að neita að setja veginn í gegnum sveitarfélagið þar sem þjóðleiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttist um 14 kílómetra.

Sem þýðir það að það kostar 3000 krónum meira en ella fyrir hvert ökutæki að aka fram og til baka í gegnum sveitarfélagið.    


mbl.is Gert að fjarlægja eignir frá lóninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundar- og Geirfinnsmál Norður-Karólínu?

Dómsmorð, sem framið var í Norður-Karólínu fyrir 30 árum, byggðist á því að fyrir hendi var lík, ummerki og líffsýni, hugsanleg ástæða til morðs og játningar hinna sakfelldu. Nú kemur í ljós að þeir voru saklausir. 

Dómar yfir sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum fyrir 37 árum byggðust ekki á nema einu atriði af þeim fjórum sem nefnd eru hér að ofan.

Í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum fundust aldrei lík, engin ummerki eða lífssýni, engin ástæða til morðsins, engin sönnun um að sakborningar hefðu verið á morðstöðunum og ekkert morðvopn, aðeins margþvældar og mótsagnakenndar játningar sem fengnar voru fram með margfalt lengri og aðgangaharðari þvingunum og harðræði en í málinu í Norður-Karólínu og voru í raun ólöglegar pyntingar, sem ekki eiga að líðast í siðuðu vestrænu samfélagi.

Samt vefst það enn fyrir okkur að hreinsa þetta mál út af borðinu svo að afmáður verður sá blettur á íslensku samfélagi, sem það er.  


mbl.is Sátu saklausir inni í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastríð eru oft flókin.

Í borgarastyrjöldum er ástand mála oft mun flóknara en í hefðbundnum styrjöldum, þar sem ríkin, sem takast á, hafa gefið út gagnkvæmar stríðsyfirlýsingar.

Ýmislegt af því, sem nú má sjá í Austur-Úkraínu, minnir á sumt af því sem einkenndi Spænsku borgarastyrjöldina 1936-1939.

Þó er þar munur á hvað varðar það, að í spænsku styrjöldinni var hvorugur stríðsaðilinn aðskllnaðarsinni, heldur var gerð uppreisn innanlands gegn rétt kjörinni ríkisstjórn í landinu. 

En frá mörgum öðrum löndum fóru "sjálfboðaliðar" til að taka þátt í styrjöldinni.

Þjóðverjar og Ítalir studdu Falangistaher Francos en Sovétmenn studdu einkum Lýðveldisherinn og allar þessar þjóðir sendu hergögn til landsins auk "leiðbeinenda".

Á þessum árum vildi enginn stofna til átaka sem gætu leitt til Evrópustyrjaldar eða heimsstyrjaldar, og Bretar og Frakkar reyndu að halda sig til hlés.

Hitler og Mussolini telfdu hins vegar djarft og fóru eins langt og þeir gátu, án þess að um beina stríðsþáttöku væri að ræða. Illrænd var hersveit Þjóðverja, sem meðal annars gerði hina grimmilegu loftárás á þorpið Guernica.

Í styrjöldinni fengu Þjóðverjar tækifæri til að þróa hergögn sín, tól og róttækar nýjungar í hernaðarlist sem lögðu grunninn að "leifturhernaðir" ("blitzkrieg") sem var grunnurinn að sigurgöngu þeirra 1939-41.

Þátttaka Hitlers og Mussolini í Spánarstyrjöldinni reyndi á þanþol Vesturveldanna en þeir gengu eins langt og unnt var án þess að Evrópustyrjöld brytist út.  

Stalín dró sína menn út úr átökunum á Spáni þegar sigur Falangista var fyrirsjáanlegur.

Átökin í Úkraínu eru hernaðarlega "öfugu megin" í landinu fyrir NATO og Vesturveldin, þ. e. í austurhlutanum og vígstaðan því töpuð nema með því að taka allt of mikla áhættu.

Pútín gætir þess að fara ekki lengra í stuðningnum en sem nemur því minnsta sem hægt er að komast af með til að hafa örugglega vinninginn.

Það virðist stefna í það að aðskilnaðarsinnar hafi sitt fram.

Nú eru uppi raddir um það í Vestur-Evrópu að læra af mistökunum, sem fólust í eftirgjöf fyrir landakröfum Hitlers á Munchenarfundinum 1938.

En hér á Vesturlöndum vill það oft gleymast að í Rússlandi eru líka uppi raddir um að læra af þeim mistökum á árunum fyrir innrás Þjóðverja í Sovétríkin að leyfa hinu vestræna herveldi þess tíma að skapa sér leppstjórnir og bandamenn í löndum Austur-Evrópu sem ógnuðu öryggi Rússlands þá, rétt eins og Pútín finnst að NATO geri nú í sömu löndum.    


mbl.is Telur Úkraínuher sigraðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm frétt ef þetta gos hættir?

Það kann að sýnast öfugmæli en má þó til sanns vegar færa, að ef gosið í Holuhrauni hætti, muni hættan á svæðinu vaxa, vegna þess að gos á öðrum stöðum geti valdið mikilli hættu á flóðum eða illvígum sprengigosum.  

Meðan hraun streymir þarna upp með lítilli fyrirstöðu tappar það af þrýstingnum neðanjarðar eins og þegar lok lyftist á potti með sjóðandi vatni og gufan sleppur út.

Á næstu dögum og jafnvel vikum eða mánuðum verður spennandi að fylgjast með því hvort jafnvægi náist á milli þeirrar kviku, sem sleppur út, og þeirrar sem leitar inn í sprungur og kvikuhólf.

Nýja hraunið, sem rennur úr gígunum á sléttunni, hefur nægt svæði til þess að breiða úr sér og getur ekki valdið neinum teljandi vandræðum nema þeim, að komist það alla leið yfir að Öskju, verður jeppaleiðin um Flæðurnar mun torfærari en nú er, enda liggur hún núna um sléttan sand og er greiðfær og fljótfarin.

Var að henda inn á facebook síðu mína einni af þeim ljósmyndum sem ég smellti á nýja hraunið í dag.  

 


mbl.is Enn getur gosið undir jökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var svo slæmt að lifa hér 2004?

Það er þekkt fyrirbæri að þegar hápunkti er náð á einhverju sviði og afturkippur verður, miðast allt ástand við hápunktinn. 

Ég man þá tíma á samdráttartímum eftir stríðsárin að allt var miðað við kaupmátt og efnhagagetuna á stríðsárkunum og fyrstu tveimur árum eftir þau meðan Íslendingar voru á fullu að eyða striðsgróðanum.

Krafan var að endurlifa hápunktinn, sem augljóslega var ómögulegt að ná.

Svipað hefur verið uppi á teningnum eftir Hrunið 2008. Gef oss aftur 2007! Það virðist vera krafa síðustu missera, ekki að gefa oss aftur 2004 eða 2005. 

En kannski er okkur hollt að íhuga hvernig við höfðum það árin 2004 og 2005. Var svo slæmt að lifa hér þá að við teljum það alls ekki nóg að komast á svipað ról að nýju?  

Mótbáran við því að láta sér ekkert minna nægja en 2007 er oft sú, að nú séu skuldirnar svo miklu meiri en 2004 eða 2005.  

En var fjórfölduin skulda heimilanna og fyrirtækjanna á árunum 2003 til 2008 eðlilegt og eftirsóknarvert ástand?  


mbl.is Í sömu sporum og 2004
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur fullkomnari mælitækni aukið spágetuna?

Það hefur verið mjög mismunandi í íslenskri eldfjallasögu hvernig eldgos hafa þróast frá upphafi goss til enda þess. 

Oft hafa gosin verið fleiri en eitt en allur gangur á því hvort öflugustu gosin voru fyrst eða síðast í goshrinunni.

Í Öskjugosinu 1875 fylgdu smærri gos norðar á gossbeltinu í kjölfar hins mikla sprengigoss, sem spjó gríðarlegri ösku yfir Norðausturland.

Í Eyjafjallajökulsgosinu urðu fyrst tvö smágos á Fimmvörðuhálsi, sem voru í raun fyrri og seinni hálfleikur af sama gosinu, en síðan fór allt af stað í stóra eldfjallinu sjálfu.

Atburðarásin núna minnir svolítið á þetta þótt ömögulegt sé að segja hvað muni gerast.

Í norðurenda gosbeltis Bárðarbungu stendur yfir lítið flæðigos svipað gosinu á Fimmvörðuhálsi, en stóra mamma bíður ógnandi að baki með öflugum skjálftum, sem gætu endað með mun stærra gosi líkt og gerðist í Eyjafjallajökli. 

Aldrei áður hefur verið hægt að vinna úr jafn mörgum gögnum um það sem er að gerast og nú og spá og spekúlera í leyndardómum kvikuganga og hreyfingum í iðurm jarðar, giska á rúmmál og flæði kviku og finna út að mun meira streymir upp og inn í þetta völundarhús en fer út úr því í gosinu í Holuhrauni.

Þetta ætti að geta aukið getu vísindamanna til að spá fram í tímann um það hvort og þá hvenær gjósa muni á nýjum stað svo að kvikuflæðið fái útrás.  


mbl.is Haft lítil áhrif á kvikuganginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifasvæðið er stórt.

Það er kunnugt að áhrifasvæði Bárðarbungu er furðu stórt eins og komið hefur í ljós bæði í Gjálpargosinu 1996 og nú í Holuhrauni. Um stórgos fyrri alda allt suður í Veiðivötn og Friðland að Fjallabaki er líka kunnugt. 

Þegar litið er á jarðskjálftayfirlitið á vedur.is hefur verið athyglisvert að sjá undanfarin misseri hve viðloðandi jarðskjálftavirkni hefur verið við Herðubreiðartögl og er þar áberandi enn.

Skjálftavirknin, sem var í Krepputungu 2007-2008 færði sig smám saman þangað og er með líflegasta móti nú.

Vísindamenn segja að þetta sé þekkt skjálftasvæði og ekki líkur á miklum tíðindum þar, en þess ber að gæta að það þóttu heldur ekki mikil líkindi á tíðindum við jaðar Dyngjujökuls í upphafi óróans í Bárðarbungu fyrir hálfum mánuði og vangaveltur hér á síðunni um það viku fyrir gosið í Holuhrauni virtust ekki hringja bjöllum.

Ef umbrot í Bárðarbungu og norðan Vatnajökuls verða langvarandi ætti því að vera full ástæða til að þrengja ekki heildarmyndina um of. Gosið í Sveinagjá í kjölfar Öskjugossins 1875 sýndi að áhrifasvæði þeirrar eldstöðvar náði talsvert langt í norðurátt.  


mbl.is Áfram gýs en dregur úr skjálftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fínn foksandur og laus mold eru víðar en inni við Vatnajökul.

Á korti á vedur.is sást áberandi sjón í dag, stór rauð merki um moldrok og sandfok á Grímsstöðum á Fjöllum í austan hvassviðri. 

Það er víða laus jarðvegur og sandur á öllu Norðausturlandi og því eðlilegt að hann fjúki hressilega í stormi.

Upplýsingar á vedur.is og í símsvara Veðurstofunnar í dag sýna, að foksandur á svæðinu milli Dyngjujökuls og Öskju, svonefndum flæðum, sem oft fylla loft af mold og sandi þar norðaustur af í hvössum og þurrum suðvestanáttu, hefur í þetta sinn fokið til norðvestur í átt til innsta hluta Skagafjarðardala og botna Eyjafjarðardala, en varla til Akureyrar og alls ekki til Mývatnssveitar, eins og verið var að velta vöngum yfir í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar í dag.

Af nógri lausri mold og sandi er að taka norðar á hálendinu til þess að það berist til byggða í óveðri eins og því sem geysað hefur í dag.  


mbl.is Moldrok sést á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dregst gosið saman í einn megingíg?

Í spjalli í Sjónvarpinu fyrst eftir gosið í fyrradag minntist ég á það, að gígaröðin í Holuhrauni eins og hún var þá, væri ólík gígaröðum sem mynduðust í upphafi Heimaeyjagossins og í Kröflueldunum að því leyti, að hún samanstæði af nokkurn veginn jafn stórum gígum.

Gosið, sem nú er hafið að nýju í Holuhrauni, minnir hins vegar á Kröflueldana að því leyti, að það fer vaxandi og gæti þess vegna tekið upp á því að dragast saman að mestu í einn gíganna, sem þá yrði langstærstur og kannski svipaður stóra rauða gígnum, sem myndaðist syðst í Holuhrauni í eldgosinu 1797, sjá mynd á facebook síðu minni.

Fari þetta svona gæti landslagið á söndunum milli Dyngjujökuls og Öskju breyst talsvert við tilkomu stórs gígs á miðjum sandinum.  


mbl.is Gosið hagar sér eins og Kröflueldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ferðamannagos" eða ekki ?

Þegar jarðskjálftahrina byrjaði við fjallið Upptyppinga sumarið 2007 og færðist síðan í norðurátt inn í Krepputungu og Álftadalsdyngju næsta árið, var velt vöngum yfir helstu möguleikum á gosi hér á bloggsíðunni.

Þá, eins og nú, voru þeir all margir, en sá skásti gat verið gos íÁlftadalsdyngju, því að gos í dyngjum eru oft frekar hægt og róleg og geta jafnvel enst í nokkur ár. 

Slíkt gos myndi valda lítilli röskun en verða afar "ferðamannavænt" ef svo mætti að orði komast.

Hið litla og hæga gos í Holuhrauni virðist hingað til svipa til goss af þessu tagi, hvað sem síðar verður. 

Það virðist lýsa sér svipað því þegar hiti í potti á eldavél fullri af vatni er orðinn það mikill að lokið á pottinum lyftist og bullar út með því.  

Gosið í Skjólkvíum við Heklu sumarið 1970 var af þessu tagi. Ferðafólk gat gengið stutta gönguleið að hraunstraumnum frá Landmannaleið við Sölvahraun og komist í návígi við hann.  

Minnisvert er þegar Lúðvík Karlsson heitinn stjáklaði berfættur á inniskóm, einungis klæddur í neðri hluta bikini, á storknandi hraunstraumnum, viðstöddum til mikillar skelfingar sem von var.

Á þeim árum voru engin boð eða bönn í gildi við tugi eldgosa á landi, svosem vegna níu eldgosa við Kröflu, en nú er öldin önnur.

Aðalástæða bannsvæða á landi er sú, að ekki er hægt að útiloka gos undir Dyngjujökli eða í Bárðarbungu sjálfri sem valdið getur flóðum, einkum vegna þess hve öflug og áköf skjálftahrinan þarna er enn. 

Hraunið, sem vellur upp í Holuhrauni er svo litið að magni til, að það nægir hvergi nærri til að létta að neinu marki á þrýstingnum sem kvikuflæðið inn á Bárðarbungusvæðið veldur.  

Erfiðara var að sjá ástæðu fyrir flugbanni eins og í fyrradag yfir stað, þar sem einu minnsta og stysta gosi okkar tíma var lokið.

Gosin nú í Holuhrauni ríma vel við það hvernig gígaröðin, sem þar var fyrir, hefur myndast árið 1797, og virðist vera svipaðs eðlis, rólegt og lítið flæðigos án öskufalls. 

Þó ber þess að geta að syðst í Holuhraun, alveg upp við jaðar Dyngjujökuls, er stærri gígur úr rauðamöl með myndarlegri hraun og því ekki hægt að útiloka að svipaður gígur geti myndast.

Vísa í mynd á facebook síðu minni og myndband á vefnum ruv.is

P. S. Þess má geta að fréttaflutningur í hádegisfréttum Bylgjunnar af því að öskufall frá gígunum hafi borist norður í Mývatnssveit, er hæpinn, því að vindátt yfir landinu stendur úr suðaustri og með því að skoða kortin á vedur.is sést að hugsanlega aska myndi berast niður i byggð í Skagafirði og syðst í Eyjafjarðardölum en ekki 100 kílómetra vegalengd beint norður í Mývatnssveit. Á vedur.is má sjá, að sérstaklega mikið moldrok úr austri er á Grímsstöðum á Fjðllum og leggur það til vesturs í átt að Mývatnssveit. Vitni að gosinu segja einnig að ekkert öskufall sé frá því. 

 


mbl.is Gýs á ný í Holuhrauni - myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband