4.8.2014 | 13:03
Misskilningur hjá jöklinum?
Þrátt fyrir flóð upplýsinga frá kuldatrúarmönnum um að loftslag hafi ekki hlýnað neitt í 14 ár, sé ekki að hlýna og allra síst af mannavöldum styttast jöklar landsins jafnt og þétt, enda kunna þeir ekki að lesa skrifin um kuldann.
Nú er kvartað yfir því að engar aðvörunarmerkingar séu við sporð Sólheimajökuls, sem hefur hörfað og lækkað stórlega, og þess vegna eru jökulstykki farin að falla í lónið.
En ef loftslag er frekar að kólna en hlýna eins og fullyrt er í ítarlegum skrifum um það, er engin ástæða til þess vera að gera ráð fyrir neinum breytingum á jöklinum, sem stafað gætu af hlýnun, heldur treysta því að jökullinn og jöklarnir hætti að haga sér svona heimskulega.
Verst er að ekki skuli vera hægt að kenna jöklunum að lesa svo að þeir taki mark á þeim, sem best vita um loftslagsmálin.
![]() |
Óvissustig við Sólheimajökul |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
3.8.2014 | 23:48
Villuljós hernaðarsigurvissunnar.
Á aldarafmæli yfirlýsingar um stríð milli Bretlands og Þýskalands er hollt að skoða nokkur dæmi um það, þegar menn sáu dýrlega hernaðarsigra í hillingum og ljóma.
Þannig gengur þátttökuþjóðirnar í Heimsstyrjöldinni fyrri út í það stríð, hver um sig viss um dýrlegan sigur á nokkrum mánuðum. Í staðinn fóru í hönd fjögur ár þar sem ungir menn í blóma lífsins voru murkaðir niður milljónum samans í einhverju tilgangslausasta stríði allra tíma.
Sumarið 1940 eyddi Adolf Hitler tveimur vikum í að njóta "dýrlegasta hernaðarsigurs allra tíma" yfir erkifjendunum Frökkum. Áhrifamiklir Bandaríkjamenn töldu óhjákvæmlegt fyrir Breta að leita eftir friðarsamningum við Öxulveldin í ljósi vonlausrar stöðu Breta.
En Churchill stappaði í þá stálinu og þrjóskaðist við.
Þegar Hitler réðst inn í Sovétríkin 22. júní 1941 var svipað uppi á teningnum og í upphafi stríðsins 1914. Herförinni yrði lokið fyrir jól og á næstu mánuðum óðu Þjóðverjar yfir Rauða herinn, framkvæmdu mestu umkringingu hernaðarsögunnar í Úkraínu og Hitler lýsti því yfir að búið væri að eyða óvininum í mestu innrás allra tíma, þar sem stefnt væri að því að ná bæði Leningrad og Moskvu fyrir veturinn.
11. desember 1941 sagði Hitler Bandaríkjunum stríð á hendur, enda var þýski herinn þá við borgarhlið Moskvu, stór hluti opinberra stofnana flúinn úr borginni og helstu iðnaðarhéruð og landbúnaðarhéruð landsins í þýskum höndum. Bandaríkjamenn strax komnir á undanhald undan Japönum og ekki fyrirsjáanlegt að þeir gætu beitt sér að neinu ráði gegn Þjóðverjum fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár.
En þá yrði staða þeirra vonlaus.
Aðeins nokkrum dögum síðar hafði staðan gerbreyst þegar Rauði herinn hóf gagnsókn og hrakti þann þýska til baka frá Moskvu, svo að borginni var aldrei ógnað aftur.
Í nóvemberbyrjun 1942 lýsti Hitler því sigurreifur yfir að orrustunni um Stalingrad væri lokið því að borgin væri öll á valdi Þjóðverja að undanteknum örfáum smáblettum.
Daginn eftir réðust Bandamenn inn í Norður-Afríku og hröktu Þjóðverja og Ítali út úr álfunni fyrir vorið og tveimur mánuðum síðar gafst 6. her von Paulusar upp í Stalingrad.
Í Víetnamstríðinu beitti annað risaveldanna yfirburðum í striðstóluma og getu til loftárása gegn skæruliðum. Ekki hvarflaði annað að bandarískum ráðamönnum en að meira sprengjuregn en í Seinni heimssyrjöldinni myndi buga andstæðingana.
En niðurstaða stríðsins varð fyrsti hernaðarósigur Bandaríkjamanna.
Sovétmenn voru sigurvissir þegar þeir sendu her inn í Afganistan 1979 með yfirburði vopna. En niðurstaðan varð alger ósigur og niðurlæging Rauða hersins.
Argentínskir ráðamenn töldu að vegna gríðarlegrar fjarlægðar Falklandseyja frá Bretlandi og nálægðar eyjanna við Argentínu myndi verða auðvelt að halda yfirráðum yfir eyjunum eftir að þær höfðu verið unnar af Bretum.
Annað kom í ljós og ári síðar höfðu argentínsku valdhafarnir hrökklast frá völdum.
Ótal dæmi í hernaðarsögunni sýna að það, sem átti að verða auðveldur sigur með tiltölulega litlu mannfalli varð að stórfelldum harmleik og hörmungum milljóna og tugmilljóna fólks, sem fórnað var á altari ofríkis og valdabrölts.
![]() |
Missti fimm bræður í stríðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.8.2014 | 22:26
"Júlísveinn" Sumargleðinnar fær uppreisn æru. "
Ein af óteljandi hugmyndum, sem kviknuðu í Sumargleðinni sálugu var að jólasveinn í fullum skrúða kæmi fram á skemmtuninni, færi út í sal og gæfi krökkunum nammi.
Var ákveðið að sveinki væri kallaður "júlísveinn" en að hann hefði sérstakt nafn á hverjum stað.
Þetta var fyrsta sumarið sem Magnús Ólafsson var með Sumargleðinni og var hann skikkaður í hlutverkið.
Ragnar Bjarnason hafði séð Magnús fara á kostum í titilhlutverkinu í leikritinu Þorláki þreytta og því varð að ráði að ráða hann í Sumargleðina.
En hvað átti Magnús að gera? "Komdu bara fram sem Þorlákur þreytti" sagði Ragnar.
"En hvað á ég að segja og gera?" spurði Magnús.
"Vertu bara þreyttur" svaraði Ragnar.
Þetta mistókst alveg fyrstu helgina og þá datt mér í hug að Magnús léki jólasvein.
"Og hvað á ég að segja og gera?" spurði Magnús.
"Farðu út í salinn og segðu bara eitthvað og gefði krökkunum eitthvert nammi" var svarið.
Magnús gerði þetta á næstu skemmtun á Sauðárkróki og kvaðst aðspurður vera tvíburi Ketkróks og heita Sauðárkrókur.
Þetta féll í góðan jarðveg, en á næstu skemmtunum mislukkaðist atriðið herfilega.
Fólk keypti það greinilega ekki að jólasveinn væri á ferli í júlí, jafnvel þótt hann kvæðist vera júlísveinn.
Nú er svo að heyra að jólasveinar hafi slegið í gegn á Mýraboltanum.
34 árum eftir að júlísveinn Sumargleðinnar bergði bikar algerrar niðurlægingar hefur hann nú fengið uppreisn æru og var tími til kominn.
Loksins kemur í ljós að þetta var góð hugmynd.
![]() |
Jólasveinar kepptu í mýrarbolta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.8.2014 | 06:28
Undraefnin koltrefjar og plast.
Það gefur auga leið, að fyrst æ stærri hluti nýjustu og stærstu farþegaþotna eru úr koltrefjaefnum og þau efni ryðji sér líka til rúms í bílum, séu möguleikar á að nota þau á fleiri sviðum.
Efnin rygða ekki né tærast og ekki er sama hætta á að þau láti á sjá vegna titrings eða hreyfingar eins og getur átt sér stað um málma á borð við ál.
Þarnar er greinilega framleiðsla, sem þarf að gefa auknar gætur og skoða niður í kjölinn eðli hennar, kosti og galla.
![]() |
Smíða burðarþolsmiklar en léttar brýr úr plasti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.8.2014 | 20:56
"Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn".
"Öllum skal tryggður til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna."
Þannig hljóðar 8. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár Íslands.
Þetta eru fá orð og skýr í greininni um mannlega reisn, sem kemur á eftir fyrstu tveimur greinum kaflans um mannréttindi og náttúru, en þær kveða á um jafnræði og rétt til lífs.
Merkilegt má telja hve seint gengur að innleiða jafn sjálfsögð atriði nútíma mannréttinda og felast í þessum kafla.
Þrátt fyrir eindreginn stuðning kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í október 2011 eru lappirnar dregnar í þessu margfalda hagsmunamáli fyrir þjóðfélag sem vill kenna sig við frelsi, lýðræði og mannréttindi.
Tregðan leiðir til þess að einstaklingar og hópar komast upp með að niðurlægja þá, sem þeim er af einhverjum ástæðum í nöp við, bara fyrir það eitt að vera á einhvern hátt ekki alveg eins og aðrir, hluti af "margbreytileika mannlífsins"
Dæmin sem nefnd eru í tengdri frétt varðandi niðurlægjandi steggjun eða gæsun í Gleðigöngunni myndu vera skýlaust brot á stjórnarskrárvörnum réttindum ef nýja stjórnarskráin hefði tekið gildi.
Þannig er um ótal fleiri réttinda- og réttlætismál í frumvarpinu, mál, sem einhvern veginn gengur svo illa að veita brautargengi.
![]() |
Ekki steggja í gleðigöngunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Fjölnismenn og fleiri börðust við svonefndan "kannsellístíl" í málfari sem danska stjórnsýslan innleiddi svo rækilega á fyrri hluta 19. aldar, að við glímum enn við þennnan draug sem nú er orðinn íslenskur.
Eitt af einkennum þessa stíls er að flækja orðalag sem mest og lengja textanna sem mest með því að hlaða upp sem flestum löngum og flóknum nafnorðum og heitum en útrýma sagnorðum.
Það þykir fínt, er "in" og sýnir menntun og miklar gáfur í stað þess að orða hlutina á mannamáli.
"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum" sagði þingmaður einn og notaði 16 atkvæði í stað þess að orða þetta í 10 atkvæðum: "Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum".
Lítið dæmi um þetta mátti heyra undir lok frétta á Ríkisútvarpinu nú í hádeginu. "Bilvelta varð" sagði fréttamaðurinn.
Um leið og fréttunum lauk kom pistill frá Samgöngustofu sem hófst á því að sagt var strax í fyrstu setningunni "það varð bílvelta."
Svo mikið virtist liggja við á vegum menntamálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, að sama örfréttin var sögð með stuttu millibil með því að nota fjögur atkvæði í stað tveggja og segja einfaldlega: "Bíll valt."
Baráttan í þessu máli gegn nafnorðasýkinni er augljóslega töpuð. Gegn yfirþyrmandi valdi tveggja ráðuneyta, arftaka danska kansellísins, auk kranablaðamennsku frjálsra fjölmiðla dugar engin vörn.
Næst fáum við að heyra: "Fíkniefnafundur varð", "hnífsstunga varð","nauðgun varð" og "rigning varð", sannið þið til.
![]() |
Fimmtán fíkniefnamál í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.8.2014 | 07:39
Hugsanleg síðdegisskúr = Morgunskýfall.
"Er ekki bíllinn opinn hjá þér?" spurði Helga mig á sjöunda tímanum í morgun.
"Jú, og hvað með það? spurði ég á móti og sneri mér á hina hliðina, svekktur yfir því að vera vakinn úr fastasvefni upp úr þurru.
"Það rignir" svaraði hún.
"Getur ekki verið", umlaði ég í svefnrofunum. "Ég var að gá út fyrir korteri og það er þurrt og spáð þurru næstu daga".
"Hlustaðu" sagði hún.
Ég hlustaði. Hvert þó í þreifandi! Það buldi regn á rúðunum! Billinn galopinn! Að sjálsögðu. Spáin hafði verið "fínasta veður um helgina."
Ég hentist í buxur og yfirhöfn utan yfir náttfötin á mettímaog þau út í skýfallið fyrir utan. Rigningin dansaði á malbikinu svo að stórir droparnir hentust upp í loftið eins og bílaplanið væri sjóðandi hverasvæði.
Sjá myndir á facebook síðu minni.
Ég varð gegnvotur við að setja seglið yfir bílinn og vatt margar tuskur af vatni af sætunum í bílnum til að reyna að þurrka þau.
Veðurfræðingar eiga bágt þegar loftið er svalt um hásumar eins og nú.
Líka þeir sem treysta á þurrviðri og halda að það rigni bara 17. júní.
En móðureyra konunnar bregst aldrei þótt börnin séu farin að heiman fyrir 30 árum, ekki einu sinni í fastasvefni.
![]() |
Fínasta veður um helgina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2014 | 02:31
Því minna "gistirými", því betra?
Það getur verið vandasamt að fá góðan svefn í tjaldi, hjólhýsi eða bíl, þar sem ekki er um að ræða neinn hita frá gististaðnum sjálfum. Mestu skiptir að vera í ullarfatnaði næst sér, jafnvel tvöföldum, og vefja sig inn í sem flest lög af fatnaði og ábreiðum.
Einföld húfa sem er hægt er að binda vel eða festa eða jafnvel lambhúshetta er mjög stórt atriði, því að halda þarf kulda frá höfðinu öllu og þó sérstaklega hnakkagrófinni.
Þegar maður sofnar fast, eins og nauðsynlegt er ef halda á fullu þreki alla útileguna, hægir á líkamsstarfseminni og þá getur manni orðið það kalt, að maður vakni upp hríðskjálfandi um miðja nótt.
Fyrr á árum gat ég alls ekki sofið nema láréttur og engan veginn sofið í bílsæti. Síðan fékk ég bakflæði og samfall í neðstu hryggjarliðum og þá er stellingin í afturhallandi bílsæti sú besta fyrir mig að ráði læknanna, þannig að með árunum sef ég ekki vel nema þannig.
Í áranna rás hefur safnast reynsla af því að sofa í bílum, og næsta óvænt niðurstaða hennar er sú, að því minni sem bíllinn er, því betur sefur maður.
Ég hef sofið best í allra minnstu bílunum, sem eru í umferð hér á landi.
Ástæðan er sú, að þegar rýmið er orðið svona lítið, helst hiti manns sjálfs betur inni í svo litlu rými en í stóru. Maður er jafnvel farinn að hita þetta litla innanrými upp og níðþröngur bíll að nálgast ígildi svefnpoka !
Í björtu veðri er hitasveiflan milli dags og nætur mikil og það þarf að hafa í huga.
Að svo mæltu býð ég góða nótt.
![]() |
Gæti orðið kalt að gista í tjaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.8.2014 | 20:59
Óhjákvæmilegur fylgifiskur mannkynsins.
Svonefndar drepsóttir hafa verið förunautar eða fylgifiskar mannkynsins frá upphafi. Um miðja síðustu öld greip mikil bjartsýni um sig varðandi það að fyrir atbeina læknavísindanna myndi mannkynið geta losað sig að mestu við þetta böl.
Súlfalyf og penesillín gerðu kraftaverk og þegar bólusetningar bættust við virtust berklar, mænusótt, mislingar, syfilis og margir fleiri sjúkdómar vera úr sögunni.
En undir lok aldainnar byrjaði þessi tálsýn að molna og þeir sem höfðu verið ungir og áhyggjulitlir á sjötta og sjöunda áratugnum, gátu tekið undir lýsingu Sæma rokks á þessum dýrðartímum, þegar hann var spurður, hvers vegna allt hefði verið svona frjálst, fjörugt og dýrlega á bestu árum hans:
"Þetta var eftir syfilis og fyrir AIDS", svaraði Sæmi.
Nú stendur yfir mikið kapphlaup ónæmra sýkla við ný sýklalyf, sem stefna í það að þurfa að vera svo öflug til að ráða við skæðustu veirurnar og sýklana, að þau sjálf hálfdrepa sjúklingana.
Sjálfur lenti ég í slíku fyrir sex árum.
Öll náttúra jarðar er undirorpin því lögmáli að hver lífvera lifir á öðrum lífverum, ýmist smáum eða stórum.
Svonefnd sníkjudýr eða hýslar lifa á stærri lífverum en þau sjálf, en þau skæðustu ganga oft svo hart fram að hýsillinn sjálfur drepst og þar með sníkjudýrið.
Og hugsanlega er maðurinn sjálfur að verða afkastamesta sníkjudýr jarðarinnar með því að ógna lífiinu á jörðinni með svo mikilli aðgangshörku, að hætta er á að hýsillinn, sjálft lífríki jarðar, líði undir lok eða stórskaðist.
Allt fellur þetta undir lögmál samkeppninnar í náttúrunnni, sem oft er háð upp á líf og dauða.
Í hugann kemur staka eftir Bjarna Ásgeirsson, sem hann orti á skömmtunarárunum eftir stríðið, þegar matvara á uppsprengdu verði var seld svörtum markaði á skömmtuðum vörum:
"Þar sem einn á öðrum lifir
efnihyggja verður rík.
Þess vegna kemst enginn yfir
ódýrt læri´í Reykjavík."
![]() |
Krefst þess að konan fái lyfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.8.2014 | 16:55
Þetta er fyrir löngu búið að jafnast út.
Áratugum saman var klifað á því að verslunarmannahelgin væri langmesta ferðahelgi sumarsins og ekki bara það, heldur alveg sér á parti.
Eina helgin, sem einstaka sinnum átti möguleika á að nálgast þessa helgi allra helga var hvítasunnuhelgin, en þá var stundum reynt að halda útisamkomur.
Síðan fór fyrsta helgin í júlí að komast á koppinn sem mikil ferðahelgi, og þá sem fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins.
En smám saman hefur allt þjóðlífið breyst og má nefna margt í því sambandi.
Fólk fer meira til útlanda en áður var.
Bílaeign hefur stóraukist. Það er hægt að fara inn á bland og kaupa bíl fyrir 100 til 200 þúsund krónur og það á greiðslukorti.
Sífellt fleiri eiga tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla.
Æ fleiri eiga sumarbústaði.
Bæja- og byggðahátíðir eru um allt land allt sumarið og tugir þúsunda koma á sumar þeirra.
Allt þetta og ýmislegt fleira hefur dreift umferðinni yfir allt sumarið.
Þess vegna liggur við að fjölmiðlarnir þurfi að kreista upp einhverja örtraðarumferð á vegunum þegar umferðin er jafnvel ekkert meiri en aðra daga sumarsins.
Æsingurinn er svo mikill í hástemmdum auglýsingarunum ljósvakamiðlanna að maður verður hreinlega þreyttur við að hlusta á það, einkum um þessa helgi allra helga.
Það fer að koma tími til að hætta því að blása verslunarmannahelgina upp í þeim mæli sem enn er tíðkað.
![]() |
Það er bara engin umferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)