9.5.2014 | 21:45
Hliðstætt leikrit og í Súezdeilunni 1956 ?
Ýmsir aðilar, beinir og óbeinir að óróanum í Úkraínu, reyna að stunda vandasaman línudans í málinu, vegna samtvinnaðra beinna og óbeinna hagsmuna, sem hið alþjóðlega hagkerfi bindur á milli þjóða.
Í þessum línudansi virðist margt vera líkt leikriti, svo sem yfirlýsingar Pútíns þar sem hann er að hvetja sína menn í Úkraínu til að hægja á sér. Samt hafa þeir boðskap þessa erkibiskups sína að engu og Pútín er grunaður um græsku, að segja þetta sem hluta af leikriti sem hann hafi sett upp.
Upp í hugann kemur Súezdeilan 1956. Þá var leikið heilmikið leikrit. Egyptar þjóðnýttu Súezskurðinn og Bretar og Frakkar urðu æfir. Bandaríkjamenn reyndu hins vegar að halda aftur af þeim, en þessi gömlu stórveldi, sem máttu muna sinn fífil fegri, áttu afar erfitt með að sætta sig við ægivald Kananna.
Sett var í gang leikrit, sem leit vel út á yfirborðinu: Ísraelsmenn réðust á Egypta út af litlum sökum, hertóku Sínaískaga og sóttu í átt að Kaíró og Súezskurðinum.
Bretar og Frakkar, sem auðvitað voru búnir að æfa leikritið vel og vígbúast fyrirfram vegna ótryggs ástands, sendu þá öflugt herlið, nefnt "friðargæslusveitir" til að stilla til friðar á milli Egypta og Ísraelsmanna, og fyrir merkilega tilviljun stóð þannig á, að til að komast á milli stríðandi aðlia þurftu Bretar og Frakkar að hertaka Súezskurðinn.
Bandaríkjamenn sáu greinilega í gegnum þetta og nýttu sér aðstöðu sína hjá Sameinuðu þjóðunum og atbeina Sovétmanna til að þær legðust gegn þessari herför og eftir heilmiklar samningaviðræður varð niðurstaðan alger sneypuför fyrir Breta og Frakka.
Súezdeilan, sem átti að sýna að Bretar og Frakkar væru enn öflugar þjóðir í fremstu röð varð þvert á móti til þess að sýna, að tími þeirra sem stórvelda var liðinn og að tvö risaveldi, Bandaríkin og Sovétríkin drottuðu í raun yfir heimsmálunum næstu 35 árin.
Anthony Eden bugaðist í deilunni og sagði af sér embætti forsætisráðherra. Bæði Bretar og Frakkar höfðu tapað nýlendum sínum, Frakkar beðið afhroð í Vietnam 1954 og framundan voru tveir áratugir hjá Bretum sem "the sick man of Europe" sem urðu að sætta sig við það að geta ekki einu sinni beitt herafla sínum af alvöru í þremur Þorskastríðum við örþjóðina Íslendinga, heldur skíttapa þeim öllum.
Það var ekki fyrr en Járnfrúin Thatcher koms til valda að stríð út af smáeyjum hinum megin á hnettinum hressti Breta við tímabundið.
Hvernig spilast úr hugsanlegu leikriti í kringum Úkraínudeiluna er óvíst, en hitt er víst, að það er ekki alltaf allt sem sýnist.
![]() |
Mannfall í Mariupol |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2014 | 21:09
Flestar verðlaunaveitingar orka tvímælis. Bandarískt glerhús.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva orkar tvímælis, er eins og flestar verðlaunaveitingar eða keppni.
Því veldur ekki aðeins það að erfitt er að deila um smekk, heldur einnig umdeilanlegar reglur sem keppt er eftir.
Sum frægustu lögin, sem kynnt voru fyrst í söngvakeppninni, komust til dæmis ekki í efstu sætin árin sem þau kepptu. Og önnur lög, sem urðu efst, hurfu fljótlega af sjónarsviðinu.
Þegar bandarískt blað bendir á þetta varðandi söngvakeppnina er kastað úr glerhúsi varðandi vitið á bak við hana. Sjálfir hafa Bandaríkjamenn verið í fararbroddi varðandi keppni af ýmsu tagi, sem skilar oft mjög umdeilanlegum niðurstöðum, en hefur þó þann viriðingarverða tilgang að veita skemmtun, umræður, deilur og síðast en ekki síst, heilmikið "show".
Óskar, Emmy og hvað þetta heitir nú allt.
Sumir helstu og frægustu jöfrar í kvikmyndaheimsins fengu aldrei Óskarsverðlaun, svo sem sjálfur Hitchcock. Sumar myndirnar, sem sópuðu til sín verðlaunum, voru meira umbúðir en innihald.
Þetta á ekki aðeins við um listir heldur keppni í gerð ýmissa hluta, svo sem bíla.
Sumir bílar, sem hömpuðu titlinum "bíll ársins í Evrópu" reyndust skammlífir. Má nefna Porsche 928, Citroen CX og Rover 3500 sem dæmi.
Aðrir bílar, sem reyndust marka tímamót, svo sem Volkswagen Golf, fengu ekki náð fyrir hinum viðurkenndu álitsgjöfum.
Um allt af þessu tagi má deila, eins og árlegar deilur um "íþróttamann ársins" á Íslandi bera vitni um.
En þetta gefur lífinu og tilverunni lit og eitthvað til að tala um og deila um í samræmi við misjafnt mat manna, sem ýmist skapar hrifningu eða hneykslan.
![]() |
Vita að keppnin er fáránleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2014 | 13:48
Ástin á "Móður Rússlandi" skóp sigurinn yfir Hitler.
Rússland var, er og verður land mótsagna. Stalín hefur verið kennt um dauða að minnsta kosti 20 milljóna manna og mikil mistök í stríðinu við Þjóðverja 1941-45.
Grimmdarleg iðnvæðing landsins, harðneskjuleg þjóðnýting landbúnaðins og miskunnarlaus útrýming og dráp allra, sem þessi ofsóknarbrálæðingur stóð fyrir fyrir stríðið, ollu því að ólíklegt var að slíkur maður gæti þjappað þjóðinn að baki sér gegn stærstu innrás allra tíma.
En Stalín var slóttugur, slakaði á klónni, tók aftur upp heiðursmerki í hernum og höfðaði til föðurlandsástar Rússa, - þess að verja þyrfti "Móður Rússland", hvað sem það kostaði.
Þegar SS-sveitirnar hófu útrýmingarherferðir sínar í kjölfar innarásarinnar sá þjóðin að hún átti um ekkert að velja nema að þjappa sér á bak við Stalín og það gerði hún.
Það kostaði að minnsta kosti 20 milljónir mannlífa og fyrstu tvö ár stríðsins báru Sovétmenn hitann og þungann af striðinu. Herafli Rommels í Norður-Afríku var aðeins 5% af herafla nasista í Rússlandi, þ.e. 20 sinnum fleiri hermenn voru þar.
Sigur Breta við El Alamain markaði ekki straumhvörfin í stríðinu heldur sigrar Rússa í Stalingrad og við Kursk.
Herafli Rommels var meira að segja aðeins hálfdrættingur á við herafla Þjóðverja í Noregi einum.
Bandaríkjamann máttu hafa sig alla við að tapa ekki fyrir Japönum á árinu 1942 en auðvitað munaði samt um þátttöku Vesturveldanna í stríðinu þótt heimsbyggðin eigi það fyrst og fremst Rússum að þakka að Bandamenn réðu niðurlögum Hitlers, Mussolinis og japönsku heimsveldasinnanna.
Það er kaldhæðni og mótsögn fólgin í því, að ef iðnvæðing Stalíns hefði ekki verið svona skefjalaus, hefði stríðið sennilega tapast. Hvort hægt hefði verið að ná þessari iðnvæðingu fram án hinna hrikalegu mannfórna er síðan önnur saga.
Á sama hátt og föðurlandsást réði úrslitum í mesta hildarleik hernaðarsögunnar er það aðeins önnur hliðin á peningnum. Á hinni hliðinni er sú hætta, sem því fylgir að hægt sé að misnota þessa sterku kennd.
Rússland, víðfeðmasta ríki heims, liggur á mörkum Evrópu og Asíu og Rússar hafa alltaf verið tvístígandi og átt erfitt með að vinna úr því.
Þeir eiga mjög slæmar minningar frá ásælni Napóleons og Hitlers í völd og áhrif í nágrannaríkjunum Rússlands, en þessar minningar koma óhjákvæmilega og skiljanlega upp með réttu eða röngu þegar NATO og ESB fá vaxandi hljómgrunn í hlaðvarpa Rússlands.
Rússar hafa alla tíð verið veikir fyrir sterkum stjórnendum, jafnvel grimmum eða spilltum einræðisherrum.
Nöfn eins og Katrín "mikla", Pétur "mikli" segja ákveðna sögu, - og veldi Lenins og Stalíns á sínum tíma sýnir svipað.
Ýmislegt sem Pútín segir og gerir þessar vikurnar vekur vonir um að haldi skynsamlega á sínum spilum svo harmsaga stórfelldra átaka endurtaki sig ekki á aldarafmæli Fyrri heimsstyrjaldarinnar.
![]() |
Pútín hrósar föðurlandsást Rússa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
9.5.2014 | 00:12
Einsdæmi að starfsmannafélag vildi ekki nýtt húsnæði.
Líklega er það einsdæmi, að starfsmannafélag opinberrar stofnunar hafi frekar viljað starfa áfram í óhentugu húsnæði, sem ekki var hannað fyrir stofnunina, heldur en að smíðað yrði nýtt og sérhannað hús yfir starfsemin eins og gerðist með smíði Útvarpshússins á sínum tíma.
Ég var í samráðsnefnd vegna þessa og man nokkuð vel eftir þessu. Ástæðan fyrir andstöðu starfsmanna var einföld: Við sáum blasa við að nýja húsið yrði ekki aðeins of stórt, heldur var það í ofanálag ekki hannað fyrir sameiginlega byggingu yfir útvarp, sjónvarp og tækjageymslu, heldur aðeins fyrir starfsemi hljóðvarpsins og skrifstofuhluta stofnunarinnar !
Sjónvarpið átti að vera í annarri byggingu og tækjahlutinn í þeirri þriðju !
Þegar "nefnd um opinberar framkvæmdir" sá þessi ósköp sem átti að þekja mestallt svæðið á milli fjögurra gatna, hafnaði hún þessari yfirþyrmandi stóru og og fáránlega dýru hugmynd að sjálfsögðu.
Þá hefði verið eðlilegt að sest yrði niður að nýju og hæfilega stórt hús hannað upp á nýtt fyrir allar þrjár deildirnar.
En nei, í staðinn fannst þeim sem að þessari vitleysu stóðu, hugmyndin vera svo heilög, að í staðinn yrði sjónvarpinu og tækjadeildinni troðið inn í það hús, sem upphaflega átti bara að hýsa skrifstofuhlutann og hljóðvarpið !
Ég man að Emil Björnsson, þáverandi fréttastjóri Sjónvarpsins, lagðist strax eindregið gegn þessu, enda blasti við að þessi hrákalausn fáránleikans yrði að mörgu leyti verri en ef við værum áfram í Bílasmiðjuhúsinu við Laugaveg.
Hrafn Gunnlaugsson orðaði þetta vel síðar þegar hann kom til starfa síðar sem dagskrárstjóri Lista- og skemmtideildar Sjónvarpsins: "Útvarpshús á ekki að vera dýrt og hátimbrað minnismerki um glæsi-arkitektúr, heldur einungis hagkvæm bygging verksmiðju þar sem framleitt er menningarefni."
Þrátt fyrir baráttu gegn þessum ósköpum tókst ekki að afstýra þessu stóra menningarslysi, því auðvitað er það stórfellt menningarslys þegar fjármunum er eytt í bruðl og vitleysu áratugum saman í stað þess að nýta það til þess eina, sem menning byggist á, sköpum menningar og listar.
Það var erfitt um vik fyrir okkur, sem andæfðum, að koma sjónarmiðum okkar á framfæri, af því að okkur var málið skylt og "of nálægt okkur, og því viss lömun í gangi.
Sem dæmi má nefna, að til þess að forsóma ekki alveg að Ríkisútvarpið sjálft fjallaði þó um þessar deilur, varð niðurstaðan sú að aðeins yrði flutt ein sjónvarpsfrétt þar sem gagnstæð sjónarmið fengju að vegast á.
Gerð var ein frétt og ég fékk það verkefni að rekja rök andófsmanna og varð að klára það á 40 sekúndum !
Ég man enn hve erfitt það var fyrir mig að pakka þessu stóra máli niður í svo stuttan tíma, enda gæti ég skrifað langt og skrautlegt mál um þetta endemi sem Útvarpshúsið er.
![]() |
Borgin skoðar Efstaleiti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2014 | 23:42
Skjálftar á Suðurlandi, tæp 3 stig og rúm 4 stig.
Fyrir nokkrum mínútum riðu yfir tveir jarðskjálftar á Suðurlandi, annar við vesturenda Hestfjalls en hinn skammt suðvestur af Hveragerði.
Annar var tæp 3 stig en hinn rúm 4 stig en ekki er hægt að sjá á grafinu á vedur.is hvor er stærri.
Man ekki eftir þetta stórum skjálfta síðustu árin á þessu svæði.
P. S. Nú er svo að sjá að stór skjálfti hafi líka orðið við Þjórsá norður af Holtum og röð mkinni skjálfta í suður þar frá. Og í kvöld hefur áfram verið fyrir norðan skjálftahrina í norður-suður- línu um Herðbreiðartögl í átt að Upptyppingum.
Bloggar | Breytt 9.5.2014 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2014 | 21:05
Hver forðaði verkfallinu hvert ?
Orðalagið "að forða einhverju.." er rökrétt og auðskilið, - lýtur svipuðum lögmálum og orðalagið "að "bjarga einhverju."
Það þýðir að "einhverju er forðað eitthvað" eða að einhverju er forðað frá einhverju." Dæmi:
"Móðirin forðaði barninu í skjól undan ofviðrinu".
Björgunarmenn forðuðu konunni frá bráðum bana."
Setningarnar geta líka falið í sér neitun:
"Ekki tókst að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti."
Nú sér maður þessa fyrirsögn: "Ekki tókst að forða verkfalli".
Þá vakna spurningar:
Frá hverju tókst ekki að forða verkfallinu?
Hvert átti að forða verkfallinu?
Hverjum tókst ekki að forða verkfallinu og hvert tókst honum ekki að forða því?
Auðvelt hefði verið að komast hjá rökleysunni með því að segja einfaldlega: "Ekki tókst að forðast verkfallið."
Hnignandi málkennd má stundum afsaka með því að tungumálið verði að fá að þróast í stað þess að staðna um of.
En öðru máli gegnir þegar það, sem sagt er, er rökleysa eða bull.
![]() |
Ekki tókst að koma í veg fyrir verkfall |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2014 | 13:10
Stóriðjutrúin blómstrar sem aldrei fyrr.
"Orkufrekur iðnaður" byggist á mestu hugsanlegri orkunotkun eins og heitið ber með sér.
Þeir sem trúa á eftirsókn eftir sölu á raforku til orkufreks iðnaðar hafa eðli málsins samkvæmt sóst eftir fjárfestingu stóriðjufyrirtækja eða annarra fyrirtækja, sem svelgja í sig sem allra mesta orku og í viðtali við bæjarstjórann á Blönduósi kemur fram að tæpan aldarfjórðung hafi sveitarstjórnarmenn þar um slóðir einmitt hamast við það árangurslaust að laða til sín "orkufrekan iðnað"..
Eftirsóknin eftir stóriðju eða þungaiðnaði hefur verið svo mikil, að fyrir nokkrum árum var varpað fram hugmynd um "litla stóriðju" til að "bjarga þjóðinni". Svona álíka og að tala um "léttan þungaiðnað".
Í aðdraganda kosninganna 2007 varpaði ég fram hugmyndinni um gagnaver, sem höfðu þann kost fram yfir stóriðjuna að gefa af sér miklu fleiri og betri störf en stóriðjan. Áltrúarmenn töldu þetta af og frá og hamast enn við sömu hugmynd og þá, að reisa risaálver í Helguvík.
Gagnaver á Blönduósi getur nýtt sér ýmsa kosti sem sá staður býður upp á. Blönduvirkjun framleiðir tiltöllulega græna orku og svalt loftslag er kostur fyrir gagnaver. Ísland er þjóðfélag með ágætlega menntaða þjóð og fleira jákvætt má tína til.
En ókostirnir vega þungt, svo sem fjarlægðin frá Reykjavík og alþjóðaflugvelli. Það er ekki tilviljun að Reykjnesbær þyki fýsilegur kostur fyrir gagnaver. Og nú fréttist að ívilnanir til gagnavera kunni að verða dregnar til baka og að Ísland skrapi botninn meðal þjóða í nettengingu við önnur lönd.
Fáir landshlutar hafa brennt sig jafn illa á virkjanaframkvæmdatrúnni og Norðurland vestra. Blönduvirkjun átti að "bjarga byggðunum" og skapa mikla möguleika til uppbyggingar á orkufrekum iðnaði.
Reyndin varð sú að ásamt Vestfjörðum sker Norðurland vestra sig úr meðal byggða landins hvað varðar fólksfækkun síðasta aldarfjórðung. Hinir mörgu sem fengu vinnu og verkefni vegna virkjanaframkvæmda urðu atvinnulausir þegar framkvæmdunum lauk eða fluttu í burtu.
Byggðirnar misstu af heilum áratug við það að byggja upp "eitthvað annað" af því virkjanframkvæmdirnar ruddu öllu öðru í burtu. Skjótfenginn gróði fyrir sumar en bakslagið því meira.
Fyrir fimm árum sagði bæjarstjórinn í Vesturbyggð að 99,9% líkur væru á því að reist yrði risaolíhreinsistöð á einum fegursta stað á Vestfjörðum sem myndi "bjarga Vestfjörðum".
Ekkert hefur frést af þessu bjargræði siðan.
Þegar álver tók til starfa í Straumsvík 1970 var því lofað að stórfelldur afleiddur áliðnaður með úrvinnslu úr áli og framleiðslu fjölbreyttra álafurða myndi fylgja í kjölfarið. 44 árum síðar er löngu ljóst að þessar vonir byggðust á hreinum barnaskap og að verið var að selja stóriðjuhugmyndina á fölskum forsendum hvað þetta varðaði.
Framleiðslan á flestum slíkum vörum byggist á hagkvæmni stærðarinnar og örþjóðin Íslendingar á litla möguleika í því efni.
Að sjálfsögðu eiga allar byggðir landsins að viðhalda vöku sinni varðandi afkomu sína og framtíðarmöguleika.
En þegar þess er gætt að aðeins 0,8% af þjóðarinnar vinnur við stóriðju en 99,2% við "eitthvað annað" er augljóslega eitthvað bogið við það ef 99,2% athyglinnar beinist að stóriðjunni en 0,8% að einhverju öðru þegar leitað er að möguleikum til tekna og atvinnusköpunar.
![]() |
Áhugi á gagnaverum enn til staðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.5.2014 | 02:25
Sjö ára árangurslaust blogg um mengandi orku og rányrkju.
Ef ég man rétt, fjallaði fyrsti bloggpistillinn á þessari bloggsíðu fyrir sjö árum um þá staðreynd, að orkan, sem við erum að pranga inn á umheiminn sem hreinni og endurnýjanlegri orku, er hvorugt, en samt við erum enn að hamast við það.
Á þessum sjö árum hafa birst um meira en sex þúsund pistlar hér á síðunni og í þeim þeirra, sem hafa fjallað um þetta fyrsta viðfangsefni síðunnar, hefur myndin af "hreinu og endurnýjanlegu" orkunni fengið á sig æ svartari mynd en samtímis hefur verið hertur síbyljusöngurinn um grænu, hreinu og endurnýjanlegu orkuna, sem Íslendingar hafa kyrjað næstum allir sem einn, allt frá forsetanum og ráðherrunum niður í auman lífeyrisþega eins og mig.
Nýjasta staðreyndin er sú, að aðeins ein virkjun, Heillisheiðarvirkjun, framleiðir meira af mengandi lofttegundum en stærstu álver. Meira en 85% af orkunni, sem leyst er úr læðingi, fer óbeisluð út í loftið.
Orka virkjunarinnar er þegar byrjuð að dvína, enda var ekki gert ráð fyrir því í forsendum hennar að hún entist í meira en 50 ár.
Slíkt er ekki sjálfbær þróun, heldur heitir það rányrkja á íslensku, stunduð á kostnað komandi kynslóða; - í ofanálag er orkan seld á gjafverði til mest bruðlandi orkusvelgja, sem finnanlegir eru, og til að kóróna ruglið, erum við Íslendingar búnir að setja hæsta gæðastimpil og nánast trúarlegan geislabaug í kringum töfraorðið: "orkufrekur iðnaður" !
Þótt sjö ára blekkingaleikur okkar með "græna orku" sé enn í fullum gangi og hundruð bloggpistla minna um þetta efni hríni ekki á síbyljusöngnum, hljóta þau sannindi að koma í ljós og koma okkur í koll, þótt síðar verði, að enda þótt það sé hægt að blekkja suma stundum en ekki hægt að blekkja alla alltaf.
![]() |
Ísland hættir að vera grænt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.5.2014 | 20:20
Það var ekki púað á Vladimir Kuts í Melbourne.
Á Ólympíuleikunum í Melbourne í desember 1956 grúfði dimmt ský yfir heimsstjórnmálunum. Rússar höfðu fyrr um haustið sent herlið inn í Ungverjaland og bælt niður uppreisn þar gegn alráðum og spilltum valdhöfum, leppum Sovétríkjanna, og Bretar og Frakkar höfðu ásamt Ísraelsmönnum ráðist á Egypta til að hrifsa af þeim Súesskurðinn.
Sovétmenn áttu marga afburða íþróttamenn á þessum tíma, sem settu svip á Ólympíuleikana í Melbourne, svo sem Vladimir Kuts, sem hreppti gullið, bæði í 10 kílómetra hlaupinu og 5 kílómetra hlaupinu, Bretum til mikilla vonbrigða, af því að þeir höfðu árin á undan átt bestu millivegalengda- og langhlaupara heims, svo sem Gordon Pirie, Derek Ibbotson, Chris Chataway og Roger Bannister, sem fyrstu manna hljóp mílu á innan við 4 mínútum.
Í Melbourne var leitast við að blanda ekki saman íþróttum og stjórnmálum, og þar baulaði enginn á Kuts, þegar hann vann afrek sín. Né heldur minnist ég þesa að slíkt hafi verið gert gagnvart öðrum keppendum Sovétríkjanna.
Mér fannst rússneska lagið gott í gærkvöldi og afar vel flutt, vonaðist til þess fyrirfram að það kæmist áfram og varð að ósk minni. Ég fæ ekki séð hvað rússnesku tvíburasysturnar gerðu svona mikið af sér til að verðskulda baul áhorfenda.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hefur hingað til verið haldin án þess að stjórnmál og erfiðleikar í samskiptum þjóða og þjóðarbrota hafi verið látin hafa áhrif á hana.
Það hefur gefist illa og leitt til ósamkvæmni, til dæmis varðandi Ólympíuleikana 1980 og 1984 að blanda saman íþróttum og stjórnmálum og hef ég rakið það áður hér á bloggsíðunni.
Útskúfun Suður-Afríku frá leikunum meðan aðskilnaðarstefnan ríkti þar í landi var undantekning, sem stafaði af því að íbúum landsins var gróflega mismunað í þáttöku í leikunum, en það stríðir beint gegn Ólympíuhugsjóninni og reglum leikanna.
Það á að forðast það eins og hægt er að blanda saman annars vegar listum og íþróttum og hins vegar stjórnmálum, enda er það mjög oft vonlaust.
Nasistar reyndu að eigna sér og nota tónlist Wagners, sem auk þess er sagður hafa sýnt einhverja andgyðinglega tilburði, og sumum fannst þvi eftir á nasisminn beið afhroð, að þessi tónlist ætti að fara svipaða leið og hann.
Sem betur fer var hin stórkostlega tónlist Wagners þess eðlis að hún mun um alla framtíð standa af sér alla misnotkun eða árásir.
Sama á við við þjóðsöngva Sovétríkjanna og Þýskalands, sem reynt var að víkja til hliðar og meira að segja gerður nýr þjóðsöngur fyrir Rússland eftir að Sovétríkin féllu.
En það var vonlaust og báðir þjóðsöngvarnir lifa, einfaldlega af því að það er ekki hægt að drepa þá, þeir eru svo góðir!
Að maður nú ekki tali um þann breska og þann franska !
![]() |
Púað á rússnesku tvíburana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.5.2014 | 19:56
Það sama og Eichmann sagði.
Það getur verið göfugt að setja sér það mark að útrýma einhverju, svo sem fátækt. Oftast er það þó þannig, að ómögulegt er að ná takmarkinu.
Mikilvægast er að missa aldrei sjónar á takmarki, sem fólk setur sér, eins og hinn slungni erlendi sölumaður benti á í fyrirlestri sínum, sem vitnað er í á mbl.is í dag.
Tvær setningar þekkja allir Íslendingar sem hafðar eru eftir Jóni Sigurðssyni; "vér mótmælum allir" og "aldrei að víkja" eða öllu heldur "eigi víkja!".
Þá fyrri sagði hann en hina síðari aldrei. Honum var á stórafmæli gefið innsigli með kjörorðinu "eigi víkja!" en notaði áfram sama innsiglið og fyrr.
Hvergi eru til gögn um það að Jón hafi sagt eða skrifað "eigi víkja!"
Var hann þó sjálfstæðishetja okkar Íslendinga, sams konar brautryðjandi og listaverkið á fótstalli styttunnar af honum á Austurvelli táknar.
En Jóni var ljóst að Íslendingar höfðu því miður enga burði á hans tíð til að vera algerlega sjálfstæð þjóð og að slíkt myndi ekki takast fyrr en löngu eftir hans dag.
En jafnvel þótt hann segði aldrei "eigi víkja!" hefur það vafalaust verið honum efst í huga að missa aldrei sjónar á lokatakmarkinu, sama hversu langt það væri framundan.
Á tímabili var talið mögulegt að útrýma berklum og það takmark sett, en það hefur ekki tekist fullkomlega.
Stundum dettur okkur í hug að útrýma meindýrum og ófögnuði úr hýbýlum okkar eins og flugum og rottum, en með ólíkindum er hvernig Hitler líkti Gyðingum við meindýr, sem þyrfti að útrýma og hve margir tóku þátt í því með honum að stefna að útrýmingu þeirra.
Í viðtali sem tekið var einn helsta samstarfsmann Hitlers og Himmlers, Adolf Eichmann, áður en hann var gómaður og færður fyrir dómstól í Ísrael, sagði hann að það versta við Helförina hefði verið að aðeins hefði tekist að drepa 6 milljónir Gyðinga en ekki alla, alls 10,5 milljónir.
Skelfilegt er þegar lifandi manneskjur eins og bandarísku kynþáttahatararnir, sem dæmdir voru í lífstíðarfangelsi, segjast sjá mest eftir því að hafa ekki drepið fleiri.
En um hinn "hinn viti born mann", "homo saphiens" gildir víst það sem faðir minn heitinn sagði oft: "Svo er margt sinnið sem skinnið."
![]() |
Ég vildi að við hefðum drepið fleiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)