21.4.2014 | 20:09
Ekkert að marka útlendingana ?
Eftirminnileg eru ummæli gamla Austfirðingsins sem sagði að ekkert væri varið í víðáttur, fjöll, hraun og eyðisanda, engir ferðamenn vildu sjá svo ömurlegt landslag sem væri einskis virði. "Ég hef átt heima fyrir austan í hálfa öld og veit nákvæmlega hvað er mest er virði að skoða. Það er Hallormsstaðaskógur!" sagði sá gamli um leið hann strunsaði út af ráðstefnu um náttúrverðmæti landsins og gildi þeirra fyrir ferðamennsku og sagðist ekki nenna að sitja undir svona kjaftæði.
Hann miðaði auðvitað við verðmætamat samlanda sinna af hans kynslóð og stóð í þeirri trú að fólk, sem byggir þéttbýl og að miklu leyti skógi þakin erlend lönd, myndi þyrpast í hundruða þúsunda tali til Íslands til að sjá íslensku skógana.
Þrátt fyrir öll mín ferðalög um land okkar gangandi, akandi, hjólandi, ríðandi og fljúgandi í meira en 60 ár, hafa útlendingar, sem ég hef ferðast með undanfarin ár, opnað augu mín mun betur fyrir landinu en allt mitt flakk.
Allt fram undir síðustu aldamót hafði skoðun mín á náttúru Íslands mótast fyrst og fremst af ferðum hér heima án þess að hafa gert neinn marktækan samanburð við önnur lönd.
Þetta breyttist allt með ferðum til annarra landa og samskiptum við víðförult fólk, þekkta ljósmyndara, kvikmyndagerðarmenn, sjónvarpsmenn og vísindamenn, þar sem loksins kom til sögunnar nauðsynlegur samanburður við aðra heimshluta og lönd til þess að hægt væri að átta sig á raunverulegri sérstöðu náttúru Íslands.
![]() |
Ísland er mögnuð upplifun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
21.4.2014 | 16:19
Athyglisvert súlurit.
Athyglisvert súlurit birtist í frétt á mbl.is sem sýnir hagnað og tap fyrirtækja á Íslandi á þessari öld.
Á því sýna bláar súlur vaxandi gróða fyrirtækja á síðari helmingi slímsetu Sjálfstæðisflokksins í 16 ár frá 1991 til 2009 og nær gróðinn hámarki árið 2007, á árinu sem meirihluti landsmanna vildi í síðustu kosningum fá aftur undir stjórn sömu flokka og stjórnuðu landinu í 12 ár í aðdraganda Hrunsins.
En árið 2008 blasir við svo stór rauð tapsúla, að sennilega verður að leggja saman marga áratugi blárra súlna til að jafnast á við hana eina.
Þessi rauða tapsúla sýnir fyrirbrigði sem mörgum hugnast vel um þessar mundir að nefna "hið svokallaða hrun".
Úr þessum rauðu rústum byrja síðan að rísa úr brunarústum Hrunsins vaxandi bláar súlur hagnaðar fyrirtækja þegar við völd er rústabjörgunarstjórn sem margir nefna nú "verstu ríkisstjórn í sögu þjóðarinnar", hvorki meira né minna.
Ekki dettur mér í hug að halda því fram að sú ríkisstjórn hafi, frekar en aðrar ríkisstjórnir, verið óskeikul í hvívetna og aldrei gert nein mistök.
En bendir þetta athyglisverða súlurit til þess að ríkisstjórnirnar á undan og eftir henni verði í framtíðinni stimplaðar sem bestu ríkisstjórnir í sögu þjóðarinnar?
![]() |
Hagnaður fyrirtækja aldrei meiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.4.2014 | 14:19
Áhættan nálgast áhættu hermanna í stríðinu.
Stærsta slysið í sögu Everestferða hlýtur að marka einhver tímamót. Svo er að sjá af slysatölum síðustu missera að áhættan af ferðum upp á fjallið sé að nálgast áhættuna, sem tekin var á stríðsárunum við að senda flugmenn til loftárása á Þýskaland.
Varla er hægt að una við slíkt.
Fyrir rúmum 60 árum las ég bók með nafninu "Undur veraldar" og var stór kafli í bókinni um Everestferðir, afar grípandi kafli og það minnisstæðasta í bókinni.
Þá hafði fjallið ekki verið klifið og menn höfðu ýmist orðið frá að hverfa eða horfið og farist.
Slysin síðustu ár hljóta að kalla á nýja rannsókn og greiningu á áhættunni og jafnframt því, hvort og hvernig sé hægt að minnka hana.
Slysið kemur á tíma þegar Baltasar Kormákur er einmitt að gera myndina Everest. Það er kaldranalegt að hugsanlega geti þetta slys orðið til þess að myndin verði tímabærari en ella og því betri söluvara.
En vonandi verður hægt að líta á það i því ljósi að myndin geti orðið þarfari og gagnlegri en ella.
![]() |
Hóta að hætta ferðum á Everest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.4.2014 | 08:35
Samúðarkveðjur geta verið viðkvæmt og umdeilanlegt mál.
Samúðarkveðjur vegna fráfalls eða harmleikja, sem snertir heilar þjóðir, eru yfirleitt þess eðlis að það þykir hið eðlilegast og sjálfsagt að senda þær.
Þjóðhöfðingjar eða æðstu ráðamenn landa sjá um að senda slíkar kveðjur og það er yfirleitt gert, þegar æðstu ráðamenn þjóðanna eða miklar þjóðhetjur falla frá.
Það, að Norður-Kóreumenn endurgjaldi ekki samúðarkveðjur granna sinna og bræðraþjóðar í suðri og taki sig með því út úr hópi nágrannaþjóða, verður því að teljast óvenjulegt.
En það er líka margt óvenjulegt varðandi ráðamenn í Norður-Kóreu og ástandið þar.
Það er þó ekki einsdæmi að umdeilanlegt þyki, hvort samúðarkveðjur séu sendar eða ekki og afar óvenjulegt heimsástand getur ráðið miklu um það.
Þegar Roosevelt Bandaríkjaforseti dó 12. apríl 1945 sendi Hitler til dæmis engar samúðarkveðjur til Bandaríkjamanna. Raunar stökk Göbbels fagnandi á fætur þegar fréttirnar bárust til byrgis Foringjans í Berlín og hrópaði: "Þetta eru tímamótin, umskiptin"( í stríðinu) !" og átti þá við það, að nú yrði ósætti meðal Bandamanna í stríðsrekstrinum og að stríðsgæfan myndi snúast nasistum í vil.
Sýnir það vel þá vaxandi firringu, sem ríkti meðal ráðamanna Þriðja ríkisins síðustu mánuði og daga þess.
Þegar Hitler síðan dó 18 dögum síðar og tilkynnt var að hann hefði fallið í bardaga við stjórnstöð, streymdu samúðarkveðjur ekki til Þýskalands og heldur ekki til Ítalíu tveimur dögum fyrr þegar Mussolini var drepinn.
Ein undantekning þótti umdeilanleg, en það var að ráðamenn Portúgala og Íra sendu samúðarkveðjur til þýsku þjóðarinnar.
Af því hlutust samt engin eftirmál að því er séð verður í gögnum frá þessum mjög svo óvenjulegu vordögum 1945.
Stórir hlutar, jafnvel meirihluta ýmissa þjóða, hafa syrgt harðstjóra sína þegar þeir féllu frá.
Dæmi um það er fráfall Norður-Kóreskra harðstjóra og fráfall Stalíns 1953. Mig minnir að þjóðarleiðtogar heims hafi farið eftir siðvenjum og sent Sovétmönnum samúðarkveðjur við fráfall Stalíns og staðreynd er að stór hópur fólks á Íslandi, sem taldi sig ekki vita betur þá en að hann hefði verið eitt helsta stórmenni og velgjörðarmaður mannkyns, syrgði hann mjög.
![]() |
Engin samúð frá Norður-Kóreu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2014 | 22:37
1914, 1939, 1956, 1968 og 2014, - hvað er líkt, hvað ólíkt?
Um þessar undir hreyfir það við mönnum að ófriðarblikur á árinu 2014 minnir á það að rétt öld er liðin á þessu ári síðan Fyrri heimsstyrjöldin hófst. Meðal annars er talað um að hegðun stórvelda sé önnur og aumingjalegri nú en þá og velt vöngum yfir því að það sé óeðlilegt.
Til dæmis hafi Þjóðverjar aðeins farið fram á það við Belga 1914 að fá að flytja herlið í gegnum landið án þess að hernema það, en Bretar hafi talið það brot á samningi frá 1839 um landamæri Belgíu og því sagt Þjóðverjum stríð á hendur.
Nú hafi hins vegar engin hótun um stríð verið gefin þótt Rússar hafi einhliða breytt landamærum Úkraínu þrátt fyrir 20 ára samning um þessi landamæri og farið með her inn á skagann og hertekið hann.
Hér gleymist grundvallarmunur á ástandinu 1914 og því sem síðar varð og einnig gleymist hvað menn töldu sig hafa lært eftir hörmugnarnar 1914.
1914 óraði engan þátttakanda í stríðinu fyrir því að stríð yrði jan yfirgripsmikið og langt eins og raun varð á. Menn áttuðu sig engan veginn á því að vegna hreyfanleika varnar- og varaliðs og öflugra varna yrði hætta á kyrrstæðum skotgrafahernaði sem stæði í fjögur ár.
Allir stríðsaðilar héldu að þetta yrði stutt og snarpt stríð, sem kláraðist jafnvel fyrir jól 1914.
Minningin um þetta skóp síðan óvart seinna stríðið, af því að í viðleitni til að komast hjá hörmulegu stríði, gleymdist það hvaða eindæma skepnur Hitler og glæpahyski hans höfðu að geyma og að seinna stríðið var óhjákvæmilegt, hvað sem gert hefði verið, - Hitler stefndi vísvitandi að því.
1956 fóru Sovétmenn með her inn í Ungverjaland til að steypa stjórninni þar af stóli og Vesturveldin aðhöfðust ekkert, af því að nú var komin til sögunnar kjarnorkuógn, sem skóp alveg nýjar aðstæður.
1968 fóru Sovétmenn og fylgiríki þeirra í Varsjárbandalaginu með her inn í Tékkóslóvakíu í sama tilgangi og aftur höfðust Vesturveldin ekkert að.
2014 fara Rússar og taka Krím með hervaldi, en í þetta sinn hafa þeir flesta íbúana með sér í stað þess að hafa þá á móti sér í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu 1956 og 1968. Voru auk þess að taka til baka svæði, sem þeir höfðu gefið Ukraínu fyrir hálfri öld.
Tökum aftur árin 1914 og síðan 1943 varðandi það að fara með her í gegn um hlutlaust ríki.
1943 sömdu Þjóðverjar nefnilega við Svía um að fá leyfi þeirra til að fara með þýskan her í járnbrautarlestum frá Noregi í gegnum Svíþjóð til Finnlands. Herflutningarnir voru þó ekki meiri né örari en það að lokaðar járnbrautarlestir nægðu.
Hvorki Bandamenn né Þjóðverjar hrófluðu við þeirri skilgreiningu að Svíþjóð væri þrátt fyrir þetta hlutlaust ríki.
Hvers vegna? Vegna þess að það var engum í hag að efna til stríðsástands út af þessu.
Miðað við umfang herflutninga Þjóðverja 1914 og þann hraða og umfang, sem þurfti að hafa, þar sem meginherinn var sendur gegnum Luxemborg og Belgíu til að fara í sveig vestur og suður fyrir París til að króa franska herinn inni með því að umkringja hann við París, hefði verið illmögulegt að takmarka herflutningana við lokaðar járnbrautarlestir.
Nú eru uppi raddir um það að Bretar og Belgar hefðu samt getað séð í gegnum fingur sér varðandi þessa herflutninga úr því að Þjóðverjar hétu því að hernema ekki Belgíu.
Það er afar hæpið og þar að auki voru Bretar bundnir skuldbindingum og samningum við bæði Frakka Rússa og Belga varðandi það að koma þeim til hjálpar ef Miðveldin réðust á þá.
Nú hallast margir fræðimenn að því að jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu haldið hægri armi hers síns jafn sterkum og Von Schlieffen lagði upp með, hefði samt ekki tekist að framkvæma áætlun hans.
Ástæðan var einfaldlega sú að hraði fótgönguliðsins átti að verða svo mikill og vegalengdin sem það átti að fara var svo löng, að það hefði ekki haft úthald í það, enda hefði það sjálft þurft að berjast samfellt alla leiðina við erfiðan andstæðing, sem átti auðvelt með að flytja til varnar- og varalið sitt nógu tímanlega til að verjast alls staðar á sama tíma og sóknarherinn varð að notast við seinfara birgða- og skotfæraflutninga.
Þetta breyttist í Seinna stríðinu því að þá sáu öflugar og hraðskreiðar vélaherdeildir, flugvélar og vélvæddir flutningar á birgðum og hergögnum um að sópa hindrunum í burtu, vaða áfram og umkringja lið Breta, og þýska fótgönguliðið þurfti ekki annað en að sleikja upp á eftir þeim og marséra nær átakalaust áfram.
![]() |
Óska eftir rússneskum friðargæsluliðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.4.2014 | 21:26
Flest samt líkt með skyldum.
Það er skiljanlegt að Nanda Maria Maack flaggaði í hálfa stöng við kirkjuna í Vogsey á föstudeginum langa, því að útfærslan á guðsþjónustuum í Noregi er sérstaklega lík því sem gerist hér á landi.
Fyrir um áratug áttum við Helga leið um bæinn Kongsberg í Noregi rétt fyrir hádegi á sunnudegi og heyrðum þá útvarpað frá messunni þar á þann hátt, að maður fylltist heimþrá til Íslands, svo líkt hljómaði þetta.
![]() |
Flaggaði óvart í hálfa stöng |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2014 | 18:14
Andlát heimsfrægra útlendinga á Íslandi.
Pathé-myndirnar, sem birtar hafa verið á Youtube frá Íslandi, leiða hugann að því, að þrír heimsfrægir útlendingar hafa borið hér beinin, því að enda þótt Bobby Fisher hafi verið íslenskur ríkisborgari, þegar hann dó hér, var hann í augum heimbyggðarinnar Bandaríkjamaður.
Ein Pathé-myndin er sögð vera af fjölmennri miningarathöfn hér á stríðsárunum, og þar hlýtur að vera um að ræða athöfn vegna fráfalls Frank M Andrews, yfirhershöfðingja alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu.
Hann fórst við 14 mann í flugslysi á Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga 3. maí 1943. Þetta var ein af þremur flugvélum sem fórust á þessu fjalli á stríðsárunum, og hefur ekkert íslenskt fjall tekið eins mörg mannslíf, eða 28 alls.
Fráfall hans hafði þau áhrif, að í stað þess að hann hefði stjórnað innrásinni í Normandy 1944 og sókninni inn í Þýskaland, sem yfirmaður alls herafla Vesturveldanna í Evrópu, kom það í hlut Dwigth D. Eisenhowers, sem í framhaldinu varð yfirhershöfðingi NATO og forseti Bandaríkjanna 1953 til 1961.
16. september 1936 fórst hinn heimskunni franski vísindamaður og landkönnuður Jean-Babtiste Charcot á skipi sínu Pourqui pas? við Mýrar við 39. mann.
Það slys vakti heimsathygli sem og minningarathöfnin mikla, sem fram fór í Reykjavík í kjölfarið og var útvarpað beint til Frakklands.
Þriðji heimsfrægi útlendingurinn sem lést hér var síðan Bobby Fisher, fyrrum heimsmeistari í skák.
![]() |
Gamla Ísland birtist á Youtube |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2014 | 14:38
Jafnaldri, eins og góðkunningi.
Ég hef alltaf haft dálæti á Cliff Richard og reynt að fylgjast sem best með því sem hann er að gera.
Enda fylgist maður óvart betur með jafnöldrum sínum en öðrum, því innan við mánuður er í milli fæðingardaga okkar Cliffs og einnig John heitins Lennons. Þegar ég átti stórafmæli áttu þeir það líka.
Sem sagt, þrír jafnaldrar sem alast að vísu upp hver á sínum stað en fást við svipuð viðfangsefni.
Mér finnst Cliff vera það sem kalla má upp á ensku "no nonsense"- maður, hæfilega yfirlætislaus, jarðbundinn og yfirvegaður.
Mér likar vel við það sem hann segir núna og leggur til málanna. Vandaður og íhugull mannvinur.
![]() |
Hvað myndi breytast ef ég væri samkynhneigður? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2014 | 09:35
Þurfum á þekkingu að halda.
Margt af því sem illa tekst til með í stjórnmálum stafar af því að viðeigandi þekking er ekki til staðar. Uppi vaða alls konar fullyrðingar sem stangast á við þau atriði sem máli skipta. Það er til dæmis rangt að borgar- og sveitarstjórnarmálefni séu margfalt einfaldari en landsstjórnmál, af því að um minni svæði sé að ræða.
Í litlu borgarsamfélagi geta viðfangsefnin verið jafn flókin og í stórum borgarsamfélögum af því að í megin atriðum gildir sama regluverkið um þau bæði.
Sem dæmi um fullyrðingar, sem vaða uppi, er sú, að fjöldi borgarfulltrúa og þingmanna eigi að vera í réttu hlutfalli við fjölda íbúa.
Í undirbúningsstarfi stjórnlagaráðs var leitað eftir ítarlegustu erlendu rannsóknum og staðreyndum varðandi þetta efni og þá kom í ljós þetta er alrangt.
Niðurstöður vönduðustu erlendu rannsóknanna á þessu efni leiddu af sér nokkurs konar formúlu, sem tók mið af því að í litlum samfélögum eins og Íslandi eru viðfangsefni stjórnsýslunnar að mestu leyti jafn flókin og í margfalt stærri samfélögum.
Dæmi um það eru reglugerðir í sambandi við EES sem eru jafn flóknar og margar á Íslandi og í Noregi.
Það sparar því ekkert þótt því fólki sé fækkað stórlega sem á að kynna sér þessar reglugerðir og taka afstöðu til þeirra, heldur er hættulegt þegar þekkingarleysið á þeim er látið afskiptalaust.
Samkvæmt bestu erlendu könnunum á heppilegum fjölda stjórnsýslufulltrúa á borð við borgarstjórnir, þyrftu borgarfulltrúar í Reykjavík að vera á bilinu 20-30 og 63 þingmenn telst vera lágmark fyrir 320 þúsund manna samfélag.
Enda hefur komið í ljós, að hinn mikli fjöldi óreyndra sveitarstjórnarfulltrúa sem kom til starfa í síðustu kosningum kvartar sáran yfir því að starfið hafi reynst miklu tímafrekara og erfiðara en því hafði verið talin trú um í yfirborðskenndum áróðri og alhæfingu um "bitlinga" og "ofurlaun" á þessu sviði.
Í Reykjavík hefur reynslan orðið sú að borgarfulltrúarnir eru of fáir og verkefni hlaðast á varaborgarfulltrúana. Þeir bera hins vegar ekki sömu ábyrgð og aðalfulltrúarnir og í raun sparast ekkert, heldur er meiri hætta á ákvörðunum, sem eru ýmist ekki nógu vandaðar eða erfitt er að rekja hvernig voru til komnar.
Dæmi um það er sú risastóra ákvörðun um Landsspítalann, sem ég reyndi að rekja til baka þegar ég var starfandi fréttamaður en enginn virtist muna nákvæmlega hvernig hefði raunverulega orðið til.
Mér koma í hug tveir frambjóðendur sem reynt hafa fyrir sér við þessar borgarstjórnarkosningar, Guðrúnu Bryndísi Karlsdóttur og Ólaf Guðmundsson.
Ólafur býr yfir líkast til einni mestu sérþekkingu á umferðarmálum og öryggis- og hagkvæmnisatriðum þeirra en nokkur annar hér á landi.
Hann fékk ekki nægt brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðismanna og sérþekking hans fellur því óbætt hjá garði. Nú er Gísli Marteinn Baldursson á leið í háskólanám erlendis sem vonandi mun nýtast hér heima þegar hann kemur til baka og yrði það vel.
Hinn frambjóðandinn er Guðrún Bryndís Karlsdóttir sem virðist eiga erindi í borgarmálefnin, ef miðað er við sérþekkingu hennar. En vegna þess hve borgarfulltrúar eru fáir, benda fylgistölur ekki til þess að listinn, sem hún er á, fái kjörinn fulltrúa, heldur muni fylgið detta niður dautt.
Hún vitnar í norskar niðurstöður í spítalamálum. Það vill svo til að á sínum tíma fór ég í sérstaka ferð um Noreg til að kynna mér spítalamálin þar í landi og skoðaði þau tvö sjúkarhús, sem þar voru talin lærdómsríkust, sjúkrahúsið í Osló og sjúkrahúsið í Þrándheimi.
Þeir Norsku læknar og íslensku þar í landi, sem ég ræddi við, töldu Oslóarsjúkrahúsið hafa yfirburði en Þrándheimssjúkrahúsið vera víti til varnaðar, skaðlegan "bútasaum".
En hvað var gert hér á landi? Ákveðið var að gera það sama og í Þrándheimi og öll fjölmiðlun og upplýsingar um þetta mál hefur verið keyrð einhliða í þá átt í tvo áratugi !
Á ráðstefnu lækna um málið var fenginn bandarískur sérfræðingur í "bútasaumi" sjúkrahúsa til að fjalla um málið og koma fram í öllum fjölmiðlum.
Og eini erlendi sérfræðingurinn, sem fenginn var síðar í sjónvarp til að fjalla um málið, var sá sem hafði séð um "bútasauminn" og "vítið til varnaðar" í Þrándheimi !
Nú varpar Guðrún Bryndís Karlsdóttir fram efasemdum um framgang málsins, sem hún byggir á sérþekkingu sinni. En fær enga athygli af því að gamall þungavigtar flokkshestur bankar á dyrnar.
Ef hann kemur og gerir kraftaverk á Guðrún Bryndís þó eina von: Að henni skoli inn eins og þegar Hannibal Valdimarsson skolaði Karvel Pálmasyni inn á þing hér um árið.
![]() |
Skorast ekki undan ábyrgð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
20.4.2014 | 00:29
Bauð ástandið á Íslandi upp á þetta?
Arkitektinnn á bak við ólöglegar pyndingaraðferðir sem CIA notaði í kjölfar árasarinnar á Tvíburaturnana og Pentagon 11. september 2001 réttlætir þær nú með því að vísa til þess að ástandið í landinu, hugarfar ráðamanna og almennings, hafi ekki aðeins boðið upp á notkun þeirra, heldur beinlínis krafist þeirra.
Það eina sem vantar í þessa vörn er það sem sumir segja enn hér á landi þegar reynt er að réttlæta meðferðina á sakborningunum í Geirfinnsmálinu: "Þetta voru svosem engir kórdrengir".
En þessum tveimur málum svipar mjög saman. ´
Á tímum mannshvarfanna á árunum 1973-75, sem voru fleiri en hvörf Guðmundar og Geirfinns, reis vaxandi óánægjualda almennings og fjölmiðla með það hve illa lögreglunni gengi að upplýsa þau.
Ofan á þetta bættist óvenjulega mikill órói í þjóðfélaginu í kjölfar þess að uppreisnargjarnar og jafnvel byltingarkenndar hugmyndir hippabyltingarinnar bárust til landsins, til dæmis áður óþekkt útbreiðsla á neyslu nýrra vímu- og fíkniefna með tilheyrandi vandamálum.
Þetta voru ár óvenjulegra umbrota í þjóðlífinu, og þarf ekki annað en að skoða stórfelldar breytingar á fatatísku og tónlist til að sjá merki um þau. Lítið dæmi um áhrifin á ytra borði var það að á aðeins örfáum árum var þéringum algerlega útrýmt.
Þau öfl í þjóðfélaginu sem höfðu komið sér vel fyrir og vildu öryggi og óbreytt ástand, voru uggandi og kröfðust viðbragða gegn lausung og uppivöðslu nýrra þjóðfélagsafla, sem sagt var að væru að sumu leyti í slagtogi við glæpalýð og undirheima landsins og jafnvel skuggalegra anga stjórnmálaaflanna.
Miklar tröllasögur gengu um ískyggilegstu fyrirbrigði. Nýtilkomin samkeppni á fjölmiðlasviðinu um krassandi stórfyrirsagnir ýtti undir þær. ´
Í þessu andrúmslofti skapaðist andrúmsloft nornaveiða, kannski ekki svo mjög ólíkt galdrafárinu á 17. öld og í þeirri herferð gegn hryðjuverkamönnum, sem mestu herveldi heims hófu á fyrsta áratug þessarar aldar.
Að minnsta kosti var í öllum þremur tilfellunum uppi krafan um að finna hina seku og refsa þeim hart.
Aðferðirnar sem nota þyrfti til að ná árangri, skiptu ekki öllu máli. Tilgangurinn helgaði meðalið og í öllum þessum herferðum áttu hinir sakfelldu ekkert gott skilið, "þetta voru engir kórdrengir".
Nú eru Bandaríkjamenn að reyna að ná áttum í þessu efni, en okkur Íslendingum hefur gengið seint að gera upp málin frá áttunda áratugnum.
Því hefur sést haldið fram á netinu að það þjóni engum tilgangi að vera með uppgjör við fortíðina.
En þá er grunnt hugsað, því að ef við lærum ekki af sögunni og gerum upp við hana, getur hún endurtekið sig.
![]() |
Heilinn á bak við pyntingar tjáir sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)