19.4.2014 | 22:15
Sparnaður upp á innan við þúsund dollara hefnir sín.
Það er einkennandi fyrir leitir að flökum flugvéla, sem týnst hafa í gegnum tíðina, að leitarmenn hafa orðið að hamast við leitirnar í kapphlaupi við þann knappa tíma sem þeim er skammtaður á meðan svörtu kassarnir senda út merki sín.
Þessi tími hefur um í áratugi verið aðeins 30 dagar þótt komin sé bætt tækni og betri rafhlöður sem ættu að geta minnsta kosti þrefaldað þennan tíma.
Sparnaðurinn af því að viðhalda gamla laginu er hugsanlega ekki meiri en þúsund dollarar á hverja flugvél eða rúmlega 100 þúsund krónur í þotum sem kosta tugi milljarða króna.
Reynslan af flugslysarannsóknum allt frá því er fyrstu Cometþoturnar fórust 1953 er sú, að niðurstöður rannsóknanna hafa leitt til endurbóta í öryggisátt sem hefur sparað tugþúsundir mannslífa og óheyrilegar fjárhæðir.
Þegar um er að ræða jafn dularfullt pg óupplýst slys og hvarf MH370 geta verið milljarðatugir í húfi að finna út orsakirnar svo að hægt sé að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.
![]() |
Hringnum lokað um flug MH370 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.4.2014 | 15:27
Bylting hugarfars allra jarðarbúa.
Það yrði mikil bylting fyrir Búrma ef hugarfari þjóðarinnar yrði bylt. En sú bylting er aðeins örlítið brot af þeirri nauðsyn á 21. öld að bylta hugarfari mannkynsins í heild, en það er eina leiðin til þess að leysa þau viðfangsefni sem blasa við.
Nú, þegar sjöttungur aldarinnar er liðinn, skýrast æ betur þær staðreyndir, sem knýja á um hugarfarsbreytinguna sem verður æ brýnni.
Hún felst fyrst og fremst í því að hverfa frá þeirri rányrkjuhugsun, sem gegnsýrir þjóðir heims og er knúin áfram af skilyrðislausri dýrkun á hinum ótakmarkaða og veldisvaxandi hagvexti sem knýr áfram neysluna, sem er drifkraftur rányrkjunnar.
Helstu auðlindir jarðar fram að þessu, svo sem olía, fosfór og helstu málmar, eru nú fullnýttar og munu fara niður á við á þessari öld, missnemma að vísu en þó allar fyrir víst.
Héðan af finnast ekki olíulindir nema þær sem miklu dýrara og erfiðara er að nýta en þær sem nú eru notaðar.
Hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum bætist ofan á þessi tröllauknu viðfangsefni.
En róðurinn til að breyta hugsuninni er erfiður. Þeir milljarðar jarðarbúa sem líða örbirgð, skort og hungur, eiga ekkert fjármagn til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Það hugsjónafólk víða um heim, sem berjast vill fyrir umbótum í umhverfismálum, stjórnmálum og efnahagsmálum, er rægt miskunnarlaust af þeim sem ráða yfir fjármagni og völdum til að koma fram þröngum hagsmunum sínum.
Orðræðan ber þessa merki. Þannig er búið með síbylju að festa í sessi hugtökin "atvinnumótmælandi" og "öfgafólk" um þá sem fórna öllu sínu til að reyna að andæfa feigðarflani rányrkjunnar.
Það er athyglisvert að hugtakið "atvinnumeðmælandi" er ekki nefnt og virðist ekki vera til.
Eru þó helstu meðmælendur óbreytts hugarfars yfirleitt hálaunafólk, sem hefur fasta atvinnu af því að halda helstefnunni fram.
Þeir sem vilja keyra fram þá framtiðarskipan hér á landi að reistar verði alls um 120 stórar virkjanir um allt land á kostnað einstæðra náttúruverðmæta landsins kalla sig "hófsemdarmenn" og framtiðaráform sín "skynsamlega nýtingu", en þeir, sem vilja ekki feta þennan veg í botn eru kallaðir "öfgamenn."
Þessi stefna og hugarfarið að baki henni náði nýjum hæðum síðasta áratuginn fyrir Hrun og virðist vera að sækja í sig veðrið á ný.
San Suu Kyi berst fyrir lýðræðisumbótum í landi sínu en verður lítið sem ekkert ágengt.
Þrátt fyrir að á okkar landi ríki að lýðræðisfyrirkomulag, sem gerir ástandið í Búrma lítt sambærilegt, er samt verk að vinna hjá okkur til að efla lýðræði og bæta löggjöfina sem til þess þarf.
En ráðandi öfl í þjóðfélaginu gera hvað þau geta til að koma í veg fyrir það og það virðist stefna í það að sá vilji sem kom greinilega fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október árið 2011, verði hunsaður.
![]() |
Boðar byltingu hugarfarsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2014 | 08:09
"Það getur allt gerst í beinni útsendingu."
Ofnagreind orð voru höfð með réttu eða röngu eftir Agnesi Bragadóttur eftir nokkur mögnuð viðtöl, sem voru tekin í þættinum "Á líðandi stundu" 1986. Þátturinn var alger nýjung í íslenskum fjölmiðlum varðandi efni og efnistök og því viðbúið að rennt væri að sumu leyti blint í sjóinn.
Lífið gerist í beinni útsendingu, ef svo má að orði komast, og það gerðist í bæði fyrirséðum og ófyrirséðum uppákomum í þættinum og viðbrögðum þáttagesta eða sjónvarpsáhorfenda.
Ætlunin með þættinum var að þannig yrði hann, sem hann og varð.
Sem dæmi má nefna óvæntar uppákomur með gestunum Davíð Oddssyni, Guðmund Jaka, Buba Morthens, Halldóri Ásgrímssyni, Bryndísi Schram, Ingimari Eydal, Sigga Gúmm og Steingrími Hermannssyni þar sem gerðust ófyrirséð og óvænt atvik og ummæli féllu, sem urðu á allra vörum um hríð en hurfu síðan smám saman inn í móðu tímans eins og gengur.
Sumu var þó haldið lifandi eins og til dæmis í höndum Sigmunds teiknara Morgunblaðsins, sem teiknaði Jón Baldvin Hannibalsson ævinlega eftir þetta með drullusokk í höndum eða hafði þetta áhald einhverns staðar í myndinni.
Að beiðni Hrafns Gunnlaugssonar gerði ég einn sérstakan sjónvarpsþátt með stuttum glefsum úr þáttunum og blaðafyrirsögnum og ummælum eftir þá, sem ef til vill yrði fróðlegt að endursýna einhvern tíma til að rifja upp þessa tíma í þjóðlífinu.
Sem betur fer er þetta eðli beinna útsendinga í sjónvarpi og ég kannast vel við þá tilfinningu, sem Gísli Marteinn hefur eftir þáttinn með forsætisráðherra, sem stendur upp úr hjá honum, hvað þetta varðar.
Af ferli mínum standa uppúr ummælin "það gengur betur næst" í viðtali við sótugan slökkviliðsmann eftir stórbruna, en þau vöktu mikil viðbrögð sem komu mér í fyrstu á óvart og í opna skjöldu en ég hef síðan lært mikið og raunar gert þau að einum af kjörorðum mínum.
Einhvern tímann gefst vonandi tækifæri til að fara nánar í gegnum málið, sem var á dagskrá í þessari beinu útsendingu, því að eftir á er það eitt af þeim erfiðu málum, sem í ljós kom að full ástæða var til að hjóla í af alvöru og festu þótt með því yrði tekin áhætta á því að lenda í ólgusjó um sinn.
Því að þegar rykið settist bar þessi umfjöllun þó þann árangur að gerðar voru ráðstafanir í slökkviliðsmálum sem brýn nauðsyn hafði verið á að gera lengi.
Viðtalið við SDG, sem er Gísla Marteini svo minnisstætt, gerði visst gagn þrátt fyrir allt, því að eftir á sést að það markaði ákveðið hámark í karpi og útúrsnúningum, og hafði þess vegna jákvæð áhrif hvað það varðaði að forsætisráðherra og hans menn fóru að minnka við sig þá stífni og þrjósku í viðtölum, sem voru þeim ekki til almenns framdráttar.
![]() |
Aldrei fengið jafnmikil viðbrögð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2014 | 00:03
Kjarkmaður ef hann fer fram.
Það hefur verið sagt að ef maður sé sokkinn niður á botn i sundlaug sé ekki nema ein leið fyrir sundmanninn, að fara upp.
Framsóknarmenn í Reykjavík eru á botninum hvað fylgi framboðs þeirra í borginni áhrærir. Þeir komast ekki neðar og aðeins tvær leiðir eru til, að vera áfram á botninum eða stefna upp á v.ið
Ástæðan fyrir litlu fylgi Framsóknar er svipuð og fyrir helmings fylgishruni hjá sjálfstæðismönnum: Þessir tveir flokkar tengdust REI-klúðrinu 2007, sem hratt af stað mestu ringulreið í borgarmálum í sögu borgarinnar þegar fjórir borgarstjórar sátu við völd á aðeins einu kjörtímabili.
Þótt sagt sé að kjósendur séu með gullfiskaminni muna þeir eftir þessu af því tilvist Besta flokksins / Bjartrar framtíðar minnir daglega á það.
Guðni Ágústsson nýtur vinsælda langt út fyrir raðir Framsóknarmanna og hefur persónulegan þokka. og kjörþokka. Hvort það sé það sama og kjörþokki í Reykjavík er hins vegar óráðið.
Ef hann fer í oddvitasætið hjá Framsókn, fær með sér fólk á listann sem hefur hvergi komið nærri klúðri síðasta kjörtímabils og leggur hreinni áherslu á flugvallarmálið en önnur framboð er aldrei að vita hvað gerist.
Guðni hefur búið í Reykjavík síðustu ár og eftir að borgin hefur verið hans starfsvettvangur áratugum saman ætti hann að þekkja nógu vel til borgarmálanna og getað skapað sér nógu góðan grundvöll til starfs fyrir borgina með því að nýta sér reynslu af stjórnmálastarfi.
Mér er vel við Guðna og óska honum persónulega alls hins besta. En vissulega er hann kjarkmaður ef hann ætlar að fara í þetta framboð og mér óar við tilhugsuninni um hve tvísýnt það gæti orðið.
Ég held að enginn myndi væna hann um kjarkleysi þótt hann gæfi framboðið frá sér. Hann myndi standa jafnréttur eftir þótt hann hætti við það, og gæti yljað sér við það sem hann hefur þegar vel gert.
![]() |
Hefur rætt við Sigmund um framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.4.2014 | 21:58
Gengur ekki upp.
Gísli Marteinn Baldursson segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hrapað úr rúmum 40% fylgi í borginni niður í um 24% af því að hann hafi tekið upp þá stefnu að Reykjavíkurflugvöllur verði ekki fluttur.
Að vísu kallar þá stefnu, sem flokkurinn boðar núna, bílaborgarstefnu, og spyrðir flugvallarmálið og bílaborgarstefnuna saman með því að halda því fram að íbúðabyggð í staðinn fyrir flugvöll jafngildi bílaborgarstefnu.
Það er röng nálgun, af því að hún er svo einstrengisleg og þröng. Í borgarlandinu gefast mörg fleiri tækifæir fyrir þéttingu byggðar og nýja íbúðabyggð en í Vatnsmýri, og meira að segja nær núverandi þungamiðju íbúðarbyggðar höfuðborgarsvæðisins, sem er austast í Fossvogi.
Gísli Marteinn virðist vera búinn að gleyma því að fylgi flokksins hrundi fyrir fjórum árum með tilkomu Besta flokksins og fylgið hefur ekki náð sér á strik síðan.
Ástæðan var tvíþætt: Annars vegar almennt vantraust á fjólflokknum vegna Hrunsins og hins vegar vegna dæmalauss klúðurs í borgarmálefnum frá REI-klúðrinu haustið 2007 þar til ró komst á 2009.
En það var of seint því að sú staðreynd stóð eftir að fjórir borgarstjórar höfðu setið á einu kjörtímabili í borginni, - nokkuð sem aldrei hafði fyrr gerst í sögu borgarinnar og meira að segja einsdæmi á landsvísu.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu átt aðild að kollsteypunum og guldu þess, jafnvel þótt það tækist vel í stuttri borgarstjóratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að koma á stöðugleika og friði í borgarstjórn.
Allan þennan tíma, sem flokkurinn hefur verið í þessari lægð hafa framboðin í borginni verið nokkuð samstíga um það að flugvallarmálið félli í skuggann af öðrum málum.
Kenning Gísla Marteins um að flugvallarmálið valdi litlu fylgi flokksins gengur því ekki upp.
Það er fyrst nú síðasta misserið sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa byrjað að taka flugvallarmálið upp ásamt Framsóknarmönnum og Dögun, en þó ekki meira en svo, að húsnæðismálin og meginlínurnar í borgarmálum, sem lagðar voru með innkomu Besta flokksins 2010, hafa haldist og haldast enn í umræðunni, hvað sem gerast kann vikurnar fram að kosningum.
Ef flugvallarmálið verður að aðal kosningamálinu ætti Sjálfstæðisflokkurinn ekki að verða í vandræðum með að nýta sér það, að yfir 70% Reykvíkinga vilja flugvöll áfram á Reykjavíkursvæðinu.
![]() |
Tapa á bílaborgarstefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
18.4.2014 | 14:50
Hver græðir á upplausnarástandi í Úkraínu? Enginn.
Hver hefði grætt á því ef Kúbudeilan 1962 hefði stigmagnast og hleypt af stað 3ju heimsstyrjöldinni? Enginn.
Kúbudeilan leystist af því að báðir aðilar hennar sýndu blöndu af staðfestu, sveigjanleika og raunsæi.
Annar aðili deilunnar, Nikita Krústjoff, gerði að vísu ýmis mistök á öðrum sviðum, og ein þeirra hafa kynt undir því ástandi sem nú hefur myndast við norðanvert Svartahaf.
Á okkar tímum eru hefur svonefnd alþjóðavæðing orðið til þess að skapa bæði jákvæð og neikvæð fyrirbæri.
Neikvæðu fyrirbærin felast í ofurvaldi risafyrirtækja til að stunda rányrkju og arðrán og í veikleikum í fjármálakerfi heimsins sem hrinda af stað fyrirbærum eins og fjármálakreppunni 2008.
Jákvæðu fyrirbærin eru til dæmis þau að menning, efnhagslíf og fjármálakerfi ríkja heims eru orðin svo samtvinnuð og samofin að þau ná inn í alla kima hjá hverri þjóð.
Af þeim sökum tapa allir ef upplausnarástand eða stórfelld átök brjótast út.
En ástandið á þessu svæði minnir á ástandið sem skapaðist í Júgóslavíu eftir lát Títós og falls kommúnismans í Austur-Evrópu.
Í ljós kom að gömlum ásteytingarefnum og átökum menningarheima, trúarbragða og þjóða, hafði einungis verið sópað undir teppið en ekki leyst til frambúðar.
Þá brutust út gamlar væringar, sumar margra alda gamlar, sem þrýstu á uppgjör. Vonandi verður svipað uppgjör í Úkraníu ekki eins blóðugt og illvígt eins og þar.
![]() |
Hafa engan áhuga á að senda hermenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
18.4.2014 | 11:48
"...Af því hann er þarna, - bara af því."
Ævinlega þegar slys verða í ferðalögum fólks, ekki hvað síst þegar þau eru á hættulegum slóðum, vaknar spurningin, hvers vegna fólk sé að hætta lífi sínu og limum að því er virðist af óþörfu.
Þessar spurningar hafa verið eðlilegar allt frá upphafi vegferðar mannkynsins.
Hvers vegna sigldu norrænir menn út á að því er virtist endalaust úthafið? Af hverju gátu þeir ekki verið kyrrir á heimaslóðum sínum?
Hve margir skyldu hafa siglt og horfið áður en Naddoður og Hrafna-Flóki færu löndum sínum fregnir af óbyggðri (?) eyju langt vestur í hafi?
Allar svona ferðir hafa skapað þessar spurningar og vettvangur háskaferðanna hefur verið jörðin öll, heimskauta millum.
Lungann af síðustu öld fórust menn í tilraunum sínum til þess að klífa hæsta fjall veraldar og fleiri fjöll, og Everest var ekki sigraður fyrr en árið 1953.
Að sjálfsögðu liggur ævinlega lína á milli þess sem verjandi er að leggja í og þess sem teljast verður hreina og forkastanlega fífldirfsku. Vandinn er bara sá hvað það getur verið erfitt að draga þessa línu, hvort sem um er að ræða göngu upp á fjall eða ferð til tunglsins.
Ég átti þess kost að fara í tvær af brautryðjendaferðum Íslendinga á jöklajeppum, annars vegar fyrstu og einu slíkri ferðinni upp á Hvannadalshnjúk, og hins vegar fyrstu og einu ferðinni fram og til baka yfir Grænlandsjökul.
Fyrri ferðin, upp á Hvannadalshnjúk í maí 1991, skapaði mikil hughrif, enda lenti ég í þeirri sérstöðu að þurfa að yfirgefa leiðangurinn tvívegis á meðan á honum stóð og fara til að skemmta í Reykjavík.
Hnjúkurinn hafði skapað hughrif mín allt frá frumbernsku, því að á heimili afa og ömmu var mynd af Öræfajökli, eins og hann blasti við frá fyrra æskuheimili hennar, Hólmi í Landbroti, en frá sjö ára aldri ólst hún síðan upp á Svínfelli í Öræfum, undir þessu hæsta fjalli Íslands.
Þetta fjall hefur kostað mannslíf. Þar fórust breskir stúdentar, að mig minnir árið 1954 og átti ég þess kost að ræða við Jack D´Ives fyrir nokkrum árum, en hann var á ferð með þessum Bretum en fór sjálfur ekki í þessa örlagaríku fjallgöngu.
Afrakstur ferðarinnar 1991 var lag og ljóð með nafninu "Hnjúkurinn gnæfir", sem Pálmi Gunnarsson söng með undirleik Péturs Hjaltested, svo hljóðandi:
HNJÚKURINN GNÆFIR.
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir, -
hamraþil þverbrýnt, ísað stál.
Ógnfagur rís hann, ögrandi þegir, -
inn í þig smýgur hans seiðandi mál.
Bjartur sem engill andartak er hann, -
alheiður berar sig blámanum í.
Á sömu stundu í fötin sín fer hann;
frostkalda þoku og óveðursský.
Hvers vegna að klirfa´hann?
Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví eru, góði, að gera þig digran?
Gættu þín, vinur. Skortir þig vit?
Hvers vegna finnst þér hans ögrun til ama?
Af hverju´að hætta þér klærnar hans í?
Svarið er einfalt og allta það sama:
Af því hann er þarna, - bara af því.
Hnjúkurinn gnæfir, til himins sig teygir.
Hríslast um makka hans óveðursský.
Af hamrastáli öskrandi´hann fleygir
ísköldum hjarnþiljum fárviðri í.
Sýnist hann reiður, áfram vill ögra.
Á þá hann skorar sem líta hans mynd.
Þolraunin bíður þeirra sem skjögra
þreyttir á Íslalands hæsta tind.
Hvers vegna að klifra´hann?
Hvers vegna að sigra´hann?
Hvers vegna öll þessi armæða´og strit?
Hví varstu, góði, að gera þig digran?
Gastu´ekki stillt þig? Skorti þig vit?
Hvers vegna fannst þér hans ögrun til ama?
Af hverju að hætta sér klærnar hans í?
Svarið er einfalt en alltaf það sama:
Af því hann er þarna,- bara af því.
![]() |
Þurftu að hlaupa frá snjóflóðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2014 | 16:48
Er hægt að auka alin við hæð sína eða verða hundrað ára?
Hún er 100 ára og blöskrar heimtufrekjan enda úr nógu að moða. Allar viðmiðanir í þjóðfélaginu miðast við það að ná aftur sömu stöðu og var 2007. 2006 og 2005 nægja ekki, nei, - allt verður að vera sama blóma og var 2007, allar viðmiðunartölur.
Einhvern tíma var sagt að enginn gæti aukið alin við hæð sína með kröfum og í viðtalinu við hundrað ára konu í dag kemur í ljós að ekki hefur hún getað náð þeim aldri með því að heimta það.
Margir öfunda sjálfsagt hana af því að vera þetta hress og hafa átt svona marga góða daga án þess að sækjast eftir peningum eða öfunda aðra.
Um allan heim er heimtað að hagvöxtur sé svo og svo mikill og að annars fari allt til fjandans.
Þetta gengur á fullu á meðan útblástur gróðurhúsalofttegunda fer sívaxandi og koltvísýringur í andrúmloftinu er á tiltölulega stuttum tíma í jarðsögunni, aðeins nokkrum áratugum, orðinn meiri en þekkst hefur í mörg hundruð þúsund ár.
Nú er talað um það hér á blogginu að tölur sem sýna hlýnun loftslags á jörðinni séu "fúsk" og að allt talið um hlýnun sé runnið af pólitískum rótum.
Eru þeir, sem vara við hlýnun af völdum áhrifa gróðurhúsalofttegunda kallaðir "hlýnunarsinnar" en samkvæmt íslenskri málkennd táknar það menn sem vilji stefna að sem mestri hlýnun!
Þetta er sagt upp í opið geðið á manni þótt maður hafi horft á það sjálfur síðustu áratugi og einkum síðustu áratugi og ár hvernig íslensku jöklarnir fara hraðminnkandi. Það er bara "fúsk" og væntanlega af pólitískum nótum.
Sem og myndir og mælingar helstu jöklavísindamanna af áhrifum hlýnunar og mælingar sem sýna mikla minnkun hafíssins í Norður-Íshafinu og þau sóknarfæri, sem mikið er talað um í því sambandi.
![]() |
100 ára og blöskrar heimtufrekjan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2014 | 13:19
Ekki fyrsti hjálmurinn sem brotnar.
Miklar og eðlilegar kröfur verður að gera til höfuðhjálma. Þótt þeir séu seljanlegri ef þeir eru léttir og meðfærilegir verða þeir fyrst og fremst að gera það, sem mestu skiptir, að standast högg og verja höfuðið.
Þessi einfalda krafa ætti að vera afdráttarlaus, en dæmi sýnna að það er ekki einhlítt.
Ef Michael Schumacher hefði verið með sams konar hjálm á höfði og notaður er í formúlu eitt er afar ólíklegt að sá hjálmur hefði brotnað við högg á borð við það sem hann fékk í skíðaslysinu örlagaríka.
Þegar hjálmur brotnar, getur hann breyst í andhverfu sína, því að brotinn getur hann stungist inn í höfuð hins slasaða og valdið miklum skaða.
Það vill svo til að mér er kunnugt um hliðstætt slys, sem varð í Bretlandi árið 1983, því að ég var einn þeirra sem var kallaður til til þess að bera vitni í skaðabótamáli, sem reis eðlilega vegna þess slyss.
Í þessu hörmulega slysi, réði það mestu um hve illa fór, að hjálmurinn, sem ökumaðurinn var með, brotnaði við áreksturinn og varð að einskonar vopni, sem stakkst inn í höfuð hans og banaði honum.
Málið var rekið fyrir bandarískum dómstóli, af því að hjálmurinn var bandarískur.
Þessi hluti af yfirheyrslunum fór fram á Íslandi, en yfirheyrt var eftir bandarískum hefðum og reglum, og var afar athyglisvert að kynnast yfirheyrsluaðferð hins bandaríska dómstóls.
Gerðar eru miklar kröfur um að spurningarnar séu ekki leiðandi né gildishlaðnar.
Mér var fyrst sýnd mynd af ökumanninum og aðstoðarökumanni hans og bera kennsl á þá.
Ég gerði það og var þessu næst spurður um kynni mín af hinum látna, sem ég lýsti eftir bestu samvisku.
Því næst var ég spurður hvort ég kannaðist við hjálmana, sem ökumennirnr voru með og segja hvað stæði á þeim og ég svaraði því.
Þessu næst var mér sýnt Morgunblaðið með þessari mynd af ökumönnumum, spurt hvaða blað þetta væri og hvað stæði á síðunni.
Ég las dagsetninguna og texta um það, að ökumennirnir hefðu keypt sér fyrir þessa keppni nýja hjálma af bestu gerð sem væru þeir öruggustu, sem fáanlegir væru á markaðnum, og stæðust hver þau högg sem þeir gætu orðið fyrir.
Þar með lauk yfirheyrslunni, og mig minnir að það hafi ekki verið fyrr en eftir þetta sem mér vitnaðist, að hjálmurinn hefði brotnað þegar bíllinn lenti á tré eftir að hafa farið út af veginum í beygju.
Höggið kom þannig, að hefði það lent aðeins feti aftar eða framar á bílnum, hefði það ekki lent á höfði ökumannsins.
En því miður lenti það á höfði hans og hjálmurinn stóðst ekki þær kröfur, sem gerðar voru til hans, heldur brotnaði og banaði honum.
Enn í dag verð ég klökkur þegar ég minnist þessa slyss en geymi ógleymanlegar og góðar minningar um ökumanninn, Hafnstein Hauksson, sem átti að öðrum ólöstuðum, mestan þátt allra í því að skapa þá eftirminnilegu keppni, sem lyfti rallinu á Íslandi upp í þá athygli og vinsældir, sem því hlotnaðist, meðan hans naut við.
![]() |
Mistök í kjölfar slyss Schumachers? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2014 | 01:23
Rétt ákvörðun.
Það er þekkt fyrirbrigði að ýmsir dauðir hlutir og mannvirki geta skapað tilfinningaþrungin viðbrögð fólks, sem ekki eru alltaf rökræn.
Dæmi um þetta er viðkvæmni sem blossað hefur upp í Þýskalandi gagnvart tveimu rússneskum skriðdrekum frá seinni heimsstyrjöldinni sem eru hluti af minnismerki um fallna sovéska hermenn í orrustunnni um borgina í apríl 1945.
Þykja þeir vera óþægilegt tákn um yfirgang Rússa gagnvart Úkraínumönnum.
Þessi tilfinningasemi er skiljanleg en ekki rökrétt.
Í fyrsta lagi er löngu hætt að framleiða T-34 skriðdrekana og allt önnur stríðstól eru notuð núna af Rússum og hafa verið lengst af síðan 1945.
Í öðru lagi sagði Eisenhower, þáverandi yfirhershöfðingi Vesturveldanna, að T-34 væri eitt af fjórum hernaðartækjum bandamanna, sem hefðu átt stærstan þátt í því að bandamönnum tókst að ráða niðurlögum mestu villimennskuógn sem steðjað hefði að mannkyninu.
Að því leyti til er þetta sérstaka hernaðartæki sveipað ákveðnum ljóma.
T-34 var að vísu beitt gegn Þjóðverjum í stríðinu en allar götur síðan hefur það verið opinber stefna Þjóðverja að fordæma nasisma og fasisma og leggja sig fram í einu og öllu við það að koma í veg fyrir að hliðstætt geti endurtekið.
T-34 var aðeins notaður allra fyrstu árin eftir styrjöldina, og þá sem hluti af herafla, sem notaður var til að kúga Austur-Þjóðverja og aðrar Austur-Evrópuþjóðir, en það tilefni minnismerkisins í Berlín ekkert við.
Menn lenda fljótt í ógöngum ef þeir ætla að amast við öllu því sem tengist þeim, sem þeir telja vera að fremja rangt eða hafa gert það.
Þannig er ég þeirrar skoðunar að ekki eigi að fjarlægja merki danska kóngsins af Alþingishúsinu, þótt Danir hafi umgengist okkkur eins og nýlenduþjóð á þeim tíma sem húsið var reist.
Merkið var einfaldlega hluti af húsinu eins og var, þegar það var reist.
Bolsévikar hrófluðu ekki við Kreml við byltinguna og Rússar hafa aftur nefnt Pétursborg sínu gamla nafni, þótt Pétur mikli hafi verið einvaldskeisari.
Stundum er eins og amast hafi verið við stríðsminjum hér á landi á þeim forsendum að vopn og stríð hafi verið og séu af hinu illa. Voru og eru þessar minjar þó notuð í stríði gegn ógn nasismans.
Ef útrýma á því sem tengist stríði og stríðstólum, myndum við auðvitað hafa brotið niður Skansinn í Vestmannaeyjum af því að það var vondur danskur einvaldskonungur sem stóð fyrir gerð þessa hernaðarmannvirkis.
Eitt sinn kom sú hugmynd upp á Austurlandi og var rædd hjá nokkrum mönnum eystra í alvöru, að útrýma öllum Toyotabílum á Austurlandi, af því að "óvinur Austurlands númer eitt" væri á Toyota !
Þegar Þorskastríðin stóðu sem hæst komu fram raddir um að hætta að kaupa breskar vörur og forsmá allt sem breskt væri. Eftir þessu var þó ekki farið, sem betur fór, og enska knattspyrnan, Bitlarnir og breskir bílar voru jafn vinsæl fyrirbæri og áður.
Ég hef áður sagt frá tilfinningaþrungnum viðbrögðum Pólverja nokkurs, sem ég átti reglubundin samskipti við í nokkur ár, þegar ég sýndi gamlan frambyggðan Rússajeppa sem ég á.
Pólverjinn brást ókvæða við og bað mig um að láta sig aldrei aftur sjá þennan fjandans bíl sem minnti hann óþyrmilega á kúgun Rússa á Pólverjum.
Viðbrögð hans voru afar skiljanleg, en ég held nú samt upp á frambyggða Rússann.
![]() |
Skriðdrekarnir fara hvergi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)