Undarleg frétt og að hluta röng um Skódann góða.

1964 urðu tímamót í sögu hinna virtu Skoda verksmiðja í Tékkóslóvakíu. Verksmiðjurnar höfðu smíðað marga góða hluti bæði til hernaðarþarfa og almennra þarfa.

Stór hluti skriðdrekanna, sem Hitler notaði við innrás í Niðurlönd og Frakkland vorið 1940 voru Skoda-skriðdrekar, en Hitler hafði hernumið Tékkóslóvakíu ári fyrr.

Verksmiðjurnar fjöldaframleiddu bíla eftir stríðið og fluttu meira að segja út,  og voru til dæmis keyptir bæði fólksbílar af gerðinni 1101 og strætisvagnar til Íslands á árunum 1946-47.

Það er því rangt í tengdri frétt á mbl.is að Skoda 1000 MB hafi verið fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn hjá verksmiðjunum þótt framleiðslan hafi aukist hjá þeim á áratugunum eftir stríð eins og hjá öðrum bílaframleiðendum.

Hitt er rétt að endurbætur urðu í framleiðsluferlinu með tilkomu 1000MB.

Á sjötta áratugnum hófst aftur innflutningur á Skoda til Íslands á tveimur gerðum, "Blöðru"Skodanum, sem var svipaður í útliti og Kaiser-Frazier og fleiri nýtískulegir bílar fyrstu eftirstríðsáranna, og síðan voru fluttir inn Skoda 440 og 445, sem komu fram 1955 og voru nýtískulegustu Austur-Evrópubílarnir þá.

Þótt Skoda hefði rofið tengsl og samvinnu við vestræna bílaframleiðendur eftir stríðið og landið orðið að kommúnistaríki þótti Skoda einna skásti bíllinn frá þeim löndum hvað gæði snerti.

Hann var allan þennan tíma með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, sem var óvenjulegt, en leið fyrir það að vera með þverfjaðrir í stað gorma.

Alla síðustu öld fram til 1987 framleiddi Skoda eingöngu bíla með drifi á afturhjólunum þannig að fullyrðing um að Skoda 1000MB hafi verið fyrsti Skódinn með drifi á afturhjólunum er algerlega rangt.

Fram á sjöunda áratuginn höfðu gæði Skoda verið viðunandi miðað við lágt verð bílanna, en með tilkomu Skoda 1000MB fór að síga á ógæfuhliðina, ekki endinlega varðandi tæknina sem slíka heldur gæðin, og það svo mjög að í virtum bílabókum er talað um að gæðunum hafi hrakað svo mjög fram undir 1990 að Skodabílar hafi verið "international joke".

Í frétt mbl.is er sagt að það hafi verið mikil nýjung í bílasmíði að Skoda 1000MB hafi verið með vélina aftur í.

Þetta er líka rangt.

1964 voru 26 ár síðan Volkswagen Bjallan kom fram í Þýskalandi og síðan NSU Prinz og BMW 600 1958. 

Í Frakklandi hafði Renault framleitt Renault 4CV, Dauphine og Renault 8 í 18 ár og Simca 1000 var kominn á markað.

Á Ítalíu komu Fiat 600 og 500 fram á árunum 1956 og 57 og í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu höfðu bílar með vélina afturí verið langmest seldu bílarnir í mörg ár áður en Skoda 1000MB kom fram.

Í Bretlandi kom Hillman Imp fram 1963 og í Bandaríkjunum Chevrolet Corvair 1959.

Það er rétt, að miðað við Austur-Evrópu ríkin var Skoda 1000MB nýtískulegasti bíllinn en þó hafði Zhaporotez komið fram í Sovétríkjunum á svipuðum tíma.

Hönnunar- og tæknilega séð gaf hinn "goðsagnakenndi" Skoda 1000MB vestrænum keppinautum sínum lítið eftir. Hann eyddi litlu, var með góða sjálfstæða gormafjöðrun á öllum hjólum, léttbyggða og nægilega kraftmikla vél, ágætt rými og farangurspláss.

Rassvélin tryggði gott veggrip og dugnað í hálku og snjó, en "pendúl"fjöðrunin að aftan gerði hann hættulega yfirstýrðan í kröppum beygjum.

"Rall-Skódinn", Skoda Rapid, stóð sig bara býsna vel í rallakstri og skrifaði nafn sitt í sögu upphafsára rallsins hér á landi. Var kallaður "Porsche fátæka mannsins."

Síðast en ekki síst var Skódinn ódýr.

Skoda 1000MB og arftakar hans, 110 og 120 seldust vel á Íslandi og víðar alveg fram undir 1990.

Ég notaði Skoda 120 1984 módelið í þrjú ár við kvikmyndagerð á austurhálendinu og hann var duglegur og skemmtilegur á sinn hátt á vondum vegum og slóðum þótt á endanum færi svo, að þegar ég ætlaði að láta gera við hann fyrir skoðun og bað um að fá að vita, hvað þyrfti að gera fyrir hann, fékk ég svarið á einu blaði með einu orði: "ALLT!"  

Vélin vildi ofhitna þarna afturí í Skoda 1000MB og arftökunum,  og til að lagfæra það var vatnskassinn fluttur fram í nef á bílnum síðustu árin, svipað eins og gert var á Porsche 911 síðar.

En Skoda var ekki Porsche. Vatnsleiðslurnar í Skodanum voru langar, óaðgengilegar og lélegar og þegar þær byrjuðu að leka eins og á mínum bíl, var komið að endalokum.

Ég skrönglaðist á honum vestur í Ystafell og þar er hann nú á safninu þar við hliðina á Skoda stórvinar míns sáluga, Ingimars Eydals.

Þetta er eini bíllinn, sem ég hef átt, sem er á safni. Ég hneigi mig djúpt fyrir honum og Skoda Ingimars þegar ég kem þarna og á ekkert nema góðar og skemmtilegar minningar um þennan "sérvitring" í líki bíls og um minn nána vin og samstarfsmann, Ingimar Eydal.

Þegar VW keypti Skoda tók þeir Skoda Favorit og gerðu á honum 528 breytingar til að geta haldið áfram að selja hann undir nafninu Skoda Felicia.

Síðustu 20 ár hefur Skoda risið úr öskustó og er nú orðin ein af virtustu bílaverksmiðjum heims.

Bilanatíðnin er meira að segja minni en hjá móðurfyrirtækinu Volkswagen. Tatra_77A_dutch_licence_registration_AM-44-01_pic10[1]

 

P. S. Skelli inn mynd af Tatra 77, 34 módelinu, tékkneskum snilldarbíl, sem á áttræðisafmæli á þessu ári og kemur við sögu í athugasemdum hér á eftir og bloggpistli, skrifuðum á eftir þessum.    


mbl.is Goðsagnakenndur Skoda fimmtugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...að slíta á viðræðurnar", - "...rétt eins og hann hafði lofað."

Eiður Svanberg Guðnason hefur oft í pistlum sínum undrast lélega málkennd fjölmiðlafólks. Hafi hann hlustað á fréttir Bylgjunnar í hádeginu hefur hann áreiðanlega orðið jafn hissa og ég.

Ég heyrði aðeins lestur einnar fréttar í um það bil hálfa mínútu en á þeim örstutta tíma bunuðu minnst tvær málvillur út úr viðkomandi fréttamanni.

Hann var að fjalla um samskipti NATO og Rússa og sagði um samvinnu og viðræður millli þessara aðila:

"...þeir ætla að slíta á viðræðurnar."

Þetta er svo mikil rökvilla að jafnvel nýbúi, sem er að byrja að læra íslensku myndi varla segja þetta.

Í næstu setningu sagði fréttamaðurinn:

"Talsmaður NATO sagði, að ekki sæust nein merki um það að Rússar hefðu fækkað í liðsafnaði sínum við landamærin, rétt eins og Pútín hafði lofað."

Þarna er orðinu "rétt" algerlega ofaukið, og það nægir til að gera þessa setningu að bulli.

Hér um árið hefði Bibbu á Brávallagötunni hefði varla getað látið sér detta svona í hug

Ein skýring á því að færni fjðlmiðlafólks hafi hrakað er sú að Hrunið hafi bitnað illa á fjölmiðlum og mannafla þeirra og að það geti í einhverjum tilfellum valdið því að erfitt sé að ráða fært fólk til starfa. 

En viðunandi meðferð móðurmáls er að sjálfsögðu grundvallaratriði í kröfum til fjölmiðlafólks hvar sem er í heiminum.   

 


Yfirleitt miklu hærri tala fyrst.

Reynslan af nýjum framboðum á Íslandi er sú, að í allra fyrstu skoðanakönnunum um þau er oftast miklu meiri stuðningur við þau en kemur síðan upp úr kjörkössunum.

Þegar tilkynnt var um að Albert Guðmundsson væri að stofna stjórnmálaflokk vorið 1987 töldu 27% aðspurðra líklegt að þeir myndu styðja það framboð.

Borgaraflokkurinn fékk langt innan við helming af því fylgi í kosningunum. 

Svipað gilti um Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir kosningarnar 1995 og var raunar með hreinum ólíkindum hve mjög Alþýðuflokkurinn rétti úr kútnum á lokadögum kosningabaráttunnar á kostnað Þjóðvaka.

Hjá Gallup er svörunum skipt í flokka eftir því hvort fólki finnist mjög líklegt að það kjósi viðkomandi framboð eða hvort því finnist það frekar líklegt.

Reynslan sýnir oftast að þeir sem finnst það frekar líklegt reytist af í lokin og að útkoman verði jafnvel lægri í hópi þeirra sem finnst það mjög líklegt en skoðanakönnunin gaf til kynna.

En engu að síður er talan sem kemur fram í skoðanakönnun MMR mjög há og hærri en flestir hefðú átt von á.


mbl.is Framboð nyti mögulega 38% stuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir af 200 þúsund. Gjafartilboð.

Tesla_Model_S_Indoors_trimmed[1]Bíll eða öllu heldur bílar forsetaembættis hafa sérstöðu í bílaflota hvers lands. 1961_Lincoln_Continental[1]

Forsetabílarnir eru ekki aðeins rós í hnappagat framleiðandanna heldur einnig táknrænir fyrir þjóð forsetans.

Á sama tíma og Ford-verksmiðjunum bandarísku hnignaði og þær sigu niður í þriðja sæti bílaframleiðenda þar í landi á árunum milli 1935 og 1952 tókst þeim að halda flaggskipi verksmiðjanna, Lincoln, að forsetaembættinu þar í landi langt fram á sjöunda áratuginn.

Bíllinn sem Kennedy var myrtur í var af þeirri gerð og á þeim tíma var Lincoln Continental dæmi um góðan smekk. Packard_Clipper_ca_1947_in_Belgium[1]

Það var vegna ýmissa nýjunga og framfara í bílasmíði sem ný gerð hans árið 1961 fólu í sér.

Þegar Roosevelt Bandaríkjaforseti sendi fyrsta forseta Íslands bíl að gjöf 1944 varð hins vegar Packard Clipper fyrir valinu.

Hann var að sjálfsögðu svartur en eina myndin sem ég fann á netinu af þeim bíl er af gráum bíl.

Á þeim tíma tóku Bandaríkjamenn sér orðin "standard of the world" í munn um Packard og hann var vinsælasti þjóðhöfðingjabíll heims. 50packard2[1]

Gjafabíll Roosevelts fórst með Goðafossi í nóvember 1944 en Forsetaembættið átti Packard fyrir sem entist fram til ársins 1948, en þá tók glænýr Packard við, svipaður þeim sem myndin er af fyrir neðan Clipperinn og er árgerð 1950.

Þessi bíll er sá sem ég man einna best eftir af forsetabílunum.

Síðasti Packardinn í eigu forsetaembættisins var Packard 1957 og var hann dæmi um íhaldssemi og lélega þekkingu kaupendanna á bílum. 1958_Packard[1]

Packard verksmiðjurnar höfðu tapað fyrir Cadillac í keppninni um hylli vel stæðra kaupenda.

Þá gerðu þau arfa mistök með því að sameinast Studebakerverksmiðjunum, sem glímdu við óviðráðanlegan en mjög dulinn rekstrarvanda.

1957 voru Packardverksmiðjunar síðan í raun lagðar niður, og reynt að púkka upp á stærsta Studebakerinn og setja á hann Packardmerki árin 1957 og 58. 

Kölluðu gárungarnir hann "Packardbaker."Lexus LS600,hL

Hann leit svo sem ekki sem verst út og var gæðabíll, en myndin af Packard 58 hér við hliðina sýnir, að viðleitnin til að fylgjast með í tískunni varð framleiðendunum dýrkeypt.

Hnoðað var fjórum framljósum á bílinn og uggum og ósmekklegum bólgum í hliðunum, sem gerðu sjálfhætt með framleiðslu Packard, af því að þessir bílar seldust ekkert.

Forsetabíllinn er tákn um gildi þess að gera sér dagamun. 

Þjóð sem á hátt í 200 þúsund bíla hefur alveg ráð á því að eiga einn góðan bíl sameiginlega.

Á hinn bóginn finnst mér að í eigu forsetaembættisins eigi að vera bílar, sem séu siðferðilega táknrænir og umhugsunarefni um stærstu viðfangsefni 21. aldarinnar. Tesla_Model_S_Indoors_trimmed[1]

Núverandi bíll er af gerðinni Lexus 600 hybrid.

Ætlunin með því er sú, að þetta sé tvinnbíll er að sögn forsetans sá að hann sé fordæmi um að minnka eyðslu og útblástur.

Frá upphafi embættistíðar sinnar hefur forsetinn verið áhugasamur um loftslagsvanda heimsins og er það vel.

Tvinnbíll er gott P.R. eins og forsetinn orðaði það við mig og þess vegna vinsælir hjá þjóðhöfðingjum og áhrifafólki.

En gallinn á þessu er bara sá, að hægt er að kaupa jafn stóra, rúmgóða, vandaða og öfluga dísilbíla af gerðunum Mercedes-Benz eða BMW.

Þeir hafa jafngott viðbragð og hámarkshraða en eyða ekki meira eða menga meira en tvinnbíllinn, sem er mun flóknari smíð og líklega ekki eins umhverfisvænn þegar upp er staðið og umhverfisáhrif af framleiðslu hans og úreldingu tekin með í reikninginn. NSU PrinzRenault Twizy

Að því leyti er núverandi forsetabíll tákn um tvískinnung og blekkingar þessarar aldar.

Svartur forsetabíll af gerðinni Tesla myndi vera táknrænn fyrir sérstöðu Íslands í orkumálum.

Ég fann ekki mynd af svörtum Tesla á netinu og læt mynd af rauðum nægja.  

Síðan ætti embættið líka að eiga svartan rafbíl af gerðinni Nissan Leaf og auk þess svartan rafsmábíl af gerðinni Renault Twizy, sem forsetinn gæti skottast á í bæjarferðum.

Og sem fornbíl mætti fyrir lítinn pening gera í gott stand svartan NSU-Prinz smábíl, sem ég myndi glaður gefa embættinu, en slíkur bíll var umhverfisvænsti bíll landsins á árunum 1959-65.  

Embættið á nú þegar fyrsta bílinn, sem notaður var fyrir það 1944, Packard 1941, og að sjálfsögðu á að varðveita hann vel sem forngrip í góðu standi. 

Biðst að lokum velvirðingar á tæknilegum mistökum varðandi tvítekningu á mynd af Tesla S og rugli í röðun á Prins og Twizy.   1941_Packard_180_Formal_Sedan[1]

   


mbl.is Á eftirlaun með Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler - Pútín, Súdetar - Krímverjar, hvað er líkt? Hvað er ólíkt ?

Það er ótækt í rökræðum um hluti þegar það eitt að nefna nafn Hitlers eða Göbbels eyðileggur umræðuna.

Það eitt, til dæmis, að Göbbels hafi sagt, að ef lygin sé endurtekin nógu oft fari hún að virka sem sannleikur, á ekki að kom í veg fyrir að íhuga hvort einhver annar sé að gera svipað hvað varðar meðferð á lygi og sannleika.

Það, að Shauble fjármálaráðherra Þýskalands hafi líkt aðgerðum Pútíns við aðgerðir Hitlers er ekki það sama og að líkja Pútín við Hitler. Það er einungis verið að líkja saman aðstæðum og aðgerðum en ekki mönnunum, sem við sögu koma.

Hitt er annað mál, að Þjóðverjar eru í alveg einstaklega slæmri aðstöðu til þess að nefna nafn Hitlers og lenda yfirleitt í vandræðum, sem þeir ættu að forðast, ef þeir henda nafni hans á loft, því að það virkar eins og sprengju sé hent inn í tilfinningaþrungna og að sumu leyti órökrétta umræðu.

Skoðum snöggvast samanburð á Hitler og Pútín sem persónum og berum síðan saman aðgerðir þeirra og aðstæður, annars vegar vegna Súdetahéraðanna 1938 og hins vegar vegna Krím 2014.

Hitler hafði í meginatriðum þrjú takmörk.  1. Að útrýma algerlega kynþætti 10,5 milljóna manna. 2. Að gera Austur-Evrópuþjóðir að þrælum sem óæðri kynþátt, hálfmenni, undirokaðan af "arískum ofurmennum". 3. Að stefna að heimsyfirráðum. Lofaði að vísu að láta breska heimsveldið ósnert en krafðist samt nýlendna fyrir Þjóðverja.   Tvennt hið fyrstnefnda af þessu á sér enga hliðstæðu í nútímasögu.

Ekki er vitað að Pútín hafi sem takmark neitt sem líkist fyrstnefndu atriðunum tveimur í stefnu Hitlers, þótt hann dreymi kannski um að reisa Rússland til meiri valda og áhrifa sem stórveldi og beita þrýstingi á nágrannaþjóðir Rússlands.

Þegar við erum búin að hreinsa upp þetta getum við vikið þessum tveimur persónum og eðli þeirra til hliðar og skoðað aðstæður og aðferðir, án þess að láta persónurnar Hitler og Pútin trufla okkur.

1. Þýskaland 1938 og Rússland 2014 eiga það sameiginlegt að hafa verið stórveldi, sem töpuðu styrjöldum, Þýskaland Fyrri heimsstyrjöldinni, en Rússland Kalda stríðinu.

2. Bæði Þýskaland 1938 og Rússland 2014 höfðu tapað yfirráðum og áhrifum á stórum svæðum, sem þeir vildu endurheimta.

3. Að landamærum Þýskalands 1938 lágu héruð þýskumælandi fólks í aðliggjandi minna ríki, og þetta fólk virtist vilja skipta um ríkisfang og sameinast stærra ríkinu.

Að landamærum Rússlands lá hérað rússneskumælandi fólks í aðliggjandi ríki, og þetta fólk virtist vilja skipta um ríkisfang og sameinast stærra ríkinu.

4. Þjóðhöfðingi Þýskalands 1938 sendi her inn í hin umdeildu héruð, og virtist hernum og yfirtökunni vera vel fagnað af flestum íbúum héraðanna.

Þjóðhöfðingi Rússa 2014 sendi her inn í hið umdeilda hérað, og virtist hernum og yfirtökunni vera vel fagnað af flestum íbúum héraðsins.

5. Vesturveldin streittust á móti 1938 en sættu sig við óumflýjanlega innlimun með samningum um hana, gegn loforðum þjóðhöfðingja Þýskalands um að eftir þessa innlimun gerði hann ekki fleiri landakröfur svo að "friður geti ríkt í Evrópu um okkar daga" eins og Chamberlain orðaði það. Vesturveldin áttu annan kost, að láta heimsstyrjöld skella á, en Chamberlain spurði í ræðu: "Hví skyldum við fara í stríð og setja á okkur gasgrímur vegna fólks í fjarlægu landi, sem við þekkjum ekki neitt?"

Vesturveldin streittust á móti 2014 en verða að horfast í augu við innlimunina  sem orðinn hlut án þess einu sinni að hafa fengið færi á að semja um hana eins og gert var 1938, og hafa fengið loforð Pútíns um að hann hann geri ekki frekari landakröfur og vilji frið og stöðugleika.

Hér getum við endað grófan samanburð og vitum ekki um framhaldið hvað Pútín varðar.

Hitler sveik loforð sín eftir aðeins fimm og hálfan mánuð og innlimaði hið minna nágrannaríki. Í innreið hans í Austurríki og Súdetahéruðin hafði honum verið fagnað en í innreið hans í Prag grét fólk af harmi. Hitler hélt síðan áfram miskunnarlausum herförum sínum um meginhluta Evrópu og drap eins marga Gyðinga og honum var unnt.  

Við vitum ekki enn fyrir víst hvort eða að hve miklu leyti Pútín muni standa við sín loforð. Við vitum bara að ekkert liggur fyrir um það að hann vilji útrýma gersamlega kynþætti eða þjóð eins og Hitler stefndi að og að hann hefur ekki viðrað hugmyndir um æðri ofurmenni sem eigi að undiroka í þrældómi óæðri kynþætti.

En við vitum að Pútín hefur í raun verið við samfelld völd í Rússlandi í tæp 14 ár og vitum líka að allt vald spillir og að því meira og langvinnara sem valdið er, því meiri verður spillingin.  

 


mbl.is Líkti aðgerðum Pútíns við árásir Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg tilfærsla.

Það skapar ávalt vandamál þegar bílaumboð er með mjög marga bíla á sínum snærum frá framleiðendum, sem berjast á markaðnum með bíla í svipuðum verðflokkum og af svipaðri gerð og stærð.

Þetta hefur ágerst hér á landi eftir Hrunið. Opel_Adam_1.4_Glam_–_Frontansicht,_15._Januar_2014,_Düsseldorf[1]

Einn af þeim bílaframleiðendum, sem hefur haft greinilega minni hlutdeild á íslenskum bílamarkaði síðustu árin en í öðrum Evrópulöndum er hið gróna fyrirtæki Opel.

Hér á síðuna set ég tvær myndir af nýrri gerð Opel, Adam, sem gaman verður að sjá hvort verði flutt til landsins. Opel_Adam_1.4_Glam_–_Heckansicht,_15._Januar_2014,_Düsseldorf[1]

Hjá B og L hefur Opel þurft að keppa við Nissan, Renault, Subaru, BMW og Landrover og öll þessi merki bjóða upp á bíla, sem keppa við Opel í öllum stærðar- og verðflokkum.

Opel hefur allt síðan smábíllinn Opel Kadett sló í gegn rétt fyrir stríð og var síðar framleiddur sem Moskwitch eftir strið, verið einn af þeim "þremur stóru" og síðar "fjóru stóru" í Þýskalandi.

Opel Kadett var merkilegur bíll 1936-40, einkum vegna útlitsins, sem þótti svo flott, að aðrir bílaframleiðendur stældu það, svo sem í Renault Juvaquatre (Hagamús á Íslandi) og fleiri bílum. Opel Kadett 37

Í Þýskalandi var Ford hluti af þeim verksmiðjum á heimsvísu og Opel í eigu GM .  

Þrátt fyrir gott gengi  hafa allar tilraunir Opel í meira en 60 ár til að ná góðri fótfestu í flokki dýrustu bílanna misheppnast og má það merkilegt heita, því að í fyrstu var það aðeins Mercedes Benz sem þurfti að keppa við, en síðan komust BMW og Audi inn á þann markað án þess að Opel tækist það.Opel Record

En Opel hefur oft átt býsna góðu gengi að fagna hér á landi sem erlendis. Opel Record, þó aðallega skutbíls útgerð hans, Opel Caravan urðu mjög vinsælir hér á landi frá og með árinu 1955 en Opel Admiral og öðrum bílum í dýrari verðflokkunum mistókst að ná almennilegri fótfestu.

Nýr Opel Kadett var framlag verksmiðjanna til smábíla á sjöunda áratugnum, og á tíunda áratugnum seldist nokkuð af smábílnum Opel Corsa og af Opel Astra í stærðarflokki, sem kenndur hefur verið við Golf en hér á landi kannski alveg eins við Toyota Corolla.

Opel Corsa var skemmtilega hannaður bíll og réðu konur ferðinni í þeim efnum.  

Fjölnotabíllinn Opel Zafira var tímamótabíll um síðustu aldamót og seldist nokkuð vel hér á landi, en keppinautarnir flýttu sér að teikniborðunum til að koma með samkeppnishæfa bíla.

Síðan þá hefur sól Opel sigið hér á landi, enda þótt boðið sé upp á áhugaverða bíla.

Sá nýjasti er Opel Adam, sem fær nafn sitt af stofnanda verksmiðjanna, spennandi smábíll á milli minnstu bílanna, Toyota Aygo/Peugeot 102/Citroen 1, Kia Picanto, Volkswagen Up!/Skoda Citigo og nýjasta Hyondai i10 og bílanna þar fyrir ofan í Yarisflokknum.

Árum saman var mikil samlegð með verksmiðjum GM í Evrópu, Opel og Vauxhall, en á síðustu árum hefur öll framleiðslan víða um heim verið byggð á sameiginlegum grunnum bíla fyrirtækisins í Ameríku, Evrópu og fleiri heimsálfum.

Þetta á eftir að koma sér vel þegar tvær gerðir, svo ákaflega líkar, eru hjá sama umboðinu í stað þess að vera á boðstólum hjá sitt hvoru umboðinu.

Þannig eru jepplingarnir Chevrolet Captiva og Opel Antara nánast sami bíllinn.  

Innrás Chevrolet inn á markaðinn í Evrópu hefur gengið misvel. Minnsti bíllinn, Chevrolet Spark, seldist vel í Danmörku og fleiri löndum, en keppinautarnir hafa verið fljótir að svara með Kia Picanto, Volkswagen Up!/Skota Citigo og Hyondai i10 og samkeppnin hefur harðnar.

Stærri gerðirnar af Chevrolet hafa átt erfiðara uppdráttar í Evrópu en selst sæmilega vel hér á landi. Nú gæti farið svo að Chevrolet muni draga að sér hendina nema kannski varðandi minnasta bílinn, Chevrolet Spark.

Fyrir GM og Bílabúð Benna er það góð tíðindi að sameina Opel og General Motors umboðin á Íslandi undir einum hatti og nýta vel hve mikið bílar undir þessum merkjum eiga sameiginlegt.

Hinn nýi Opel Adam er til dæmis mjög áhugaverður bíll, og sportgerðirnar af honum og fleiri gerðum af Opel eru spennandi..  

 

 

 


mbl.is Bílabúð Benna tekur við Opel umboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það kólnar samt!"

Agndofa er hægt að fylgjast með viðbrögðum stórs hóps manna við skýrslum sem hrannast upp um áhrif loftlagsbreytinga af mannavöldum. Þessir "kuldatrúarmenn" hamast við að véfengja hverja skýrsluna af annarri og halda því meira að segja fram að loftslag sé að kólna. "Það kólnar samt!" hrópa þeir og skrifa.

Ég nota orðið agndofa vegna þess að áður fyrr þegar maður las um viðbrögð af þessu tagi, afneitun og kæruleysi á fyrri öldum, afgreiddi maður það sem eðlilega afleiðingu af því að það skorti gögn og upplýsingar um váboðana á þeim tímum.  

Nú er hægt að sjá að þetta var bláeygur barnaskapur hjá manni, því að viðbrögð á borð við afneitanir "kuldatrúarmanna" á hverri skýrslu vísindamanna af annarri um loftslagsbreytingar byggjast ekki á  skorti á upplýsingum af fyrirliggjandi gögnum á upplýsingaöld heldur hlýtur hér að vera um hagsmuni að ræða, sem er svo sterkir að allt annað verður að víkja.

Þessir hagsmunir eru níðþröngir stundarhagsmunir varðandi óbreytt ástand skefjalausrar rányrkju á auðlindum jarðar í þágu tímabundinnar velmegunar hámarks neyslu.

Þegar minnst er á komandi kynslóðir við suma þessa menn yppta þeir öxlum og segja: "Komandi kynslóðir hafa ekkert gert fyrir okkur, og hvers vegna ættum við að vera að gera eitthvað fyrir þær?"

Þetta eru stundum sömu mennirnir og eru í þjónustuklúbbum, sem safna fyrir lækningatækjum og fleiri góðgerðarmálum, til dæmis fyrir barnaspítala, og ættu því með sömu rökum að leggjast á móti slíkum og segja: "Þessi veiku börn eða veika fólk hefur ekkert gert fyrir okkur og hvers vegna ættum við að vera að gera eitthvað fyrir það? "

Það er áberandi hve margir hugsa aðeins um eigið skinn núlifandi kynslóðar og víkja komandi kynslóðum frá sér eins og þær séu ekki eða verði ekki til.

Barnabarn mitt og barnabörn jafnaldra minna, sem við þekkjum vel persónulega, verða hugsanlega á lífi um næstu aldamót og eiga þá sjálf barnabörn sem verða sum á lífi árið 2180.  

Þá verður með sama áframhaldi á rányrkju og meðferð jarðar liðin sú öld mannkynssögunar, 21. öldin, þegar mesta kreppa allra tíma með tilheyrandi hörmungum hefur dunið yfir mannkynið.

Getum við horft framan í barnabörnin okkar og látið sem ekkert sé, meira að segja hamast við að afneita því sem blasir við oig sagt: "Þessi börn hafa ekkert gert fyrir okkur og hvers vegna skyldum við vera að gera eitthvað fyrir þau ?

Myndum við hafa í hávegum minninguna um afa okkar og ömmur sem hefðu hegðað sér svona gagnvart okkur ?   

   


mbl.is Hrikaleg áhrif hlýnunar jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosdrykkjan er erfðabundin.

Ég er einn þeirra sem drekkur Coladrykki á hverjum degi og fæ fráhvarfseinkenni ef ég fæ ekki koffeinið.

Mér finnst kaffi hins vegar vont og drekk það helst aldrei.(Kaffi Gísla á Uppsölum var eitt af þessum "once in a lifetime" fyrirbrigðum.  

Helgu, konunni mínni, finnst Coladrykkir vondir, og fær sér kaffi, ef hún vill hressa sig og drekkur appelsín ef hún drekkur gosdrykki.

Tvær dætur okkar hafa erft þetta frá henni en hin börnin eru eins og ég.

Þegar ég fékk lifrarbrest, stíflugulu og ofsakláða fyrir sex árum brá svo við að mig klígjaði við Coladrykkjum en allt í einu fannst mér Mix vera gott, og það var eini gosdrykkurinn sem ég gat drukkið.

NIðurstaða: Þetta virðist vera misjafnt eftir einstaklingum og því, hvað þeir hafa erft frá foreldrum sínum.


mbl.is Fjórðungur drekkur ekki gos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Finnlandisering" Úkraínu?

Rússar höfðu ráðið yfir Finnlandi í meira en öld þegar þeir urðu að gefa Finnum frelsi í kjölfar ósigurs síns fyrir Þjóðverjum 1917. Rússar höfðu líka tekið þátt í að sundurlima Pólland seint á átjándu öld, og það land fékk ekki aftur sjálfstæði fyrr en eftir lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Bæði Finnum og Pólverjum var í nöp við Rússa og Rússar tortryggðu báðar þjóðirnar. Þeir lögðu hálft Pólland undir sig 1939 og gerðu landakröfur til Finna sem átti að tryggja það að þeir héldu Finnum vel frá sér vestan við Leningrad, fengju herstöð vestar í Finnaflóa og skæru aðgang Finna að Norður-Atlantshafi í burtu.

Finnar neituðu en Rússar fóru þá í vetrarstríð við þá sem reyndist báðum þjóðum dýrkeypt.

Þeir hernámu þó ekki landið en Finnar réðust síðan á Rússa í slagtogi við Þjóðverja sumarið 1941.

Eftir stríðið þurftu Finnar að greiða himinháar skaðabætur, vera í náninni hernaðarsamvinnu og vöruviðskiptum við Rússa og stunda utanríkisstefnu, sem var svo háð tilliti til Rússa, að til varð hugtakið "Finnlandisering". 

Hinn grimmi einvaldur og harðstjóri Stalín gat hins vegar verið býsna raunsær í utanríkisstefnu sinni þegar sá var gállinn á honum og lhann og eftirmenn hans eyfðu Finnum að viðhalda vestrænu lýðræði og samvinnu við Norðurlandarþjóðirnar ef tryggt var að hlutleysi þeirra væri á þann veg sem þeir sættu sig við.

Mikið slaknaði á þessu eftir lok Kalda stríðsins og má til dæmis merkilegt heita að finnski flugherinn haldi uppi loftrýmiseftirliti yfir Íslandi í samvinnu við NATO-þjóðir án afskipta Rússa.

Rússar hafa núna Hvíta-Rússland sem stuðpúða milli sín og NATO-ríkisins Póllands en mun aldrei sætta sig við að Úkraína gangi í NATÓ.

Í þeirra augum er það svipað því og Bandaríkjamenn hefðu litið á það ef Kanada hefði gengið í Varsjárbandalagið á sínum tíma.

Hugmyndir Rússa um að Úkraína verði hlutlaust ríki minna svolítið á Finnlandiseringuna á sínum tíma.

Í Finnlandi komust fasísk öfl og öfga hægrimenn aldrei til markverðra áhrifa eftir 1945, heldur voru finnsku ríkisstjórnirnar svipaðar öðrum ríkisstjórnum á Norðurlöndum, hófsamar lýðræðisstjórnir með félagslegu ívafi.

Rússar kunna að hugsa sér "Finnlandiseringu" Úkraínu á svipuðum nótum og mesta hættan, sem núna er uppi kann að vera sú að hörð og fasísk hægriöfl komist þar til valda.   


mbl.is Úkraína verði hlutlaust sambandsríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ikarus fórst, en andi hans lifir í "mannflugi".

Fræg er fornaldarsagan af Ikarusi, sem setti á sig vængi til að fljúga, en í sólarhitanum bráðnuðu þeir svo hann féll til jarðar og fórst.

Þessi saga hefur endurtekið sig allt frá því að fyrstu loftbelgirnir fóru að fljúga á seinni öldum og margir hafa farist, bæði í flugi á þeim og einnig varð mikið manntjón hjá fyrstu ofurhugunum sem voru brautryðjendur í nútíma svifflugi, vélflugi og fallhlífarstökki, og geimflugi.

Ein af nýjustu tegundum flugs má kalla steypisvifflug, eða "mannflug", þar sem menn líkja nær algerlega eftir flugi fugla eins og sjá má af þeim myndum, sem fylga frétt um tvöfalt banaslys í svona flugi í Sviss.

Ljóst er að mikla nákvæmni og aðgát þarf í þessu flugi, og ekki minnkar það áhættuna, að greinilega er mikil eftirsókn í það að ná sem allra glæfralegustum og mögnuðustum myndskeiðum þegar menn steypa sér niður þröng gil, rétt sleikja fram hjá hamraveggjum og flúga jafnvel í gegnum klettagöt með smámyndavélar á sér sem taka allt flugið upp, séð í allar áttir.

Síðan er það greinilega orðin listgrein að fljúga í "mynsturflugi" (formation) þar sem tveir eða fleiri fljúga nálægt hver öðrum.

Þegar við bætast varasamir sviptivindar eru menn farnir að nálgast Ikarus ansi mikið, nema að nú eru það vindar og nálægð við jörð eða samflugsmenn en ekki sólbráð, sem ógna.

Af lagi vængbúninganna má sjá að loftfræðilega svipar þessu flugi til flugs á hraðskreiðum orrustuþotum með "delta"vængjum, sem skrokkurinn og fæturnir mynda afturhelming lyftikraftsins og svonefndum "canard" vængjum sem handleggirnir mynda að framanverðu.

Í fljótu bragði sýnist mér að vænghleðslan sé ekki minni en á þeim flugvélum, þar sem hún er allra hæst, en það þýðir að hraði flugsins verður að vera mjög mikill, varla minni en 200-250 kílómetrar á klukkustund,  og hlutfallið á milli lyftikrafts og loftmótstöðu er greinilega mjög óhagstætt, en það hefur í för með sér afar bratt fall, vel yfir 50 til 60 gráður til þess að missa ekki allan lyftikraft.

Ljóst er að þeir færustu í þessari grein hafa náð ævintýralegri færni í stjórnun flugsins og að spennan og hraðinn eru óviðjafnanleg.

Enn verður að bíða og sjá, hverju fram vindur í þessu sporti áður en endanlegur dómur er felldur.

Fyrir 20 árum var talað um að banna "glæfraíþróttir" á skíðabrettum og einnig skíðafimi eða skíðafimleika vegna þess hve hættulegar þessar íþróttir væru.

Nú eru þetta einhverjar skemmtilegustu kepppnisgreinar á hverjum Vetrar-Ólympíuleikum og með réttum og markvissum þjálfunaraðferðum virðist vera hægt að minnka svo slysatíðnina að hún verði nógu lág.

Svipað gæti gerst með steypi-svifflugið eða "mannflugið", sem kannski er besta heitið, því að í engu flugi sýnist vera líkt jafn mikið eftir flugi fugla og þessu nýja og æsandi flugi.   

 

 


mbl.is Létust eftir misheppnað stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband