23.12.2013 | 10:38
Þegar fyrirsögnin getur gefið skakka mynd.
Fyrirsagnir á viðtölum og fréttum eru vandmeðfarnar. Þær þurfa að vera lýsandi fyrir heildarinnihald fréttar eða viðtals en jafnframt áhugaverðar og laða lesendur eða áhorfendur að.
Hið síðastnefnda vill stundum bera hið fyrra ofurliði. Indriði G. Þorsteinsson, ritstjóri Tímans,sagði: "Góð frétt má aldrei líða fyrir sannleikann."
Hefði kannski getað bætt við: "...má aldrei líða fyrir hálfsannleikann."
Fyrirsögnin á yndislegu viðtali við Ragnheiði Elínu Clausen er þess eðlis, að þessi fyrirsögn getur gefið ranga mynd af heildarinnilhaldi viðtalsins. Faðir hennar og föðurbróðir höfðu dásamlegan og stundum hæðinn og hálfkæringslegan húmor sem kemur fram í tilvitnun Ragnheiðar Elínar í lok viðtalsins.
En sá sem aðeins les fyrirsögnina gæti fengið þá hugmynd að allt viðtalið sé af Ragnheiðar Elínar hálfu í einhverri fýlu eða ólund en það er alveg þveröfugt.
Allt annað kemur í ljós með því að lesa viðtalið allt og ég sendi Ragnheiði Elínu og hennar fólk mínar bestu jólakveðjur.
![]() |
Ég vil ekkert í jólagjöf, ég vil bara spark í rassinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.12.2013 | 22:42
Hálf öld frá hröðustu og stærstu kuldasveiflunni.
Síðastliðið vor var liðin rétt hálf öld síðan slíkt norðanáhlaup reið yfir landið að vori til að ekkert viðlíka hefur komið síðan.
Áhlaupið í apríl 1963 var svo slæmt vegna þess að það höfðu verið það mikil hlýindi á undan, að komið var brum á tré og gras farið að grænka, jafnvel að springa út blóm og gróður þar sem skjól var.
Á örfáum klukkustundum féll hitinn um meira en 20 stig, úr nokkurra stiga hita í hörkufrost ! Áhlaupið stóð í nokkra daga og olli meiri skemmdum á gróðri að vori til en orðið hafa í líkast til heila öld.
Jólaáhlaupið nú getur ekki orðið eins slæmt og vorhretið 1963 að því leyti til að enginn nýgræðingur getur farið illa út úr því á þessum árstíma. Vonandi falla ekki skæð snjóflóð eins og gerðist í tvígang árið 1995.
![]() |
Gæti orðið dýpsta lægð 21. aldar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.12.2013 | 14:23
Heimilisjól.
Jólin í ár verða líklega mestu "heimilisjól" í langan tíma ef verðurspár ganga eftir, að minnsta kosti á norðanverðu landinu og undir fjöllum á sunnanverðu landinu.
Það kostar að vísu minni ferðalög í heimsóknir en þeim mun drýgri tíma til að njóta jólanna í friðsæld heima hjá sér, en friðsældin og rólegheitin eru aðall jólanna.
"Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott."
![]() |
Versta norðankast um jól í hálfa öld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.12.2013 | 04:55
Hve lengi getur þetta gengið?
Þjóðskipulag Norðurlandanna, lýðræði og minni ójöfnuður milli fólks en víðast annars staðar hefur lengið vakið aðdáun víða um heim. Þess vegna stingur það einhvern veginn í stúf að í þremur þeirra skuli vera konungdæmi, sem getur engan veginn talist lýðræðislegt fyrirkomulag.
Ef aðeins rúmlega 40% þeirra Svía, sem taka afstöðu í skoðanakönnun, vilja að núverandi konungur verði áfram þjóðhöfðingi væri eðlilegast að fara að vilja fólksins og skömminni skárra að kjósa um bæði konungdæmið og þjóðhöfðingjann eftir ákveðnum reglum.
Spurningin er hve lengi núverandi fyrirkomulag geti gengið hjá jafn grónum lýðræðisþjóðum og Norðurlandaþjóðirnar eru.
![]() |
48% Svía vilja að konungurinn segi af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.12.2013 | 20:40
Sérstök fræðigrein með "Gríðarvöl" í hendi.
Það má kalla það sérstaka fræðigrein að þekkja straumvötn og finna bestu vöðin yfir þau og slíkt lærist ekki nena með langri reynslu eins og Gísli Ólafur Pétursson er gott dæmi um.
Í sumar lauk ég við að gera sérstaka mynd sem ber heitið "Akstur í óbyggðum" og var frumsýnd á Degi íslenskrar náttúru. Hún ætti að geta verið komið í gagnið næsta sumar í upphafi ferðamannatímans um hálendið.
Í myndinni bregður fyrir köflum úr svipaðri sjónvarpsmynd sem ég gerði fyrir 35 árum með þjóðsagnapersónunni Guðmundi Jónassyni.
Þar förum við inn í Þórsmörk og að Krossá, þar sem bíll hafði lent í hremmingum viku fyrr. Þá hafði straumþunginn verið mikill og við það að lenda með annað framhjólið uppi á steini í ánni nægði það til að halla honum nægilega mikið til þess að velta bílnum.
Í þessu ferðalagi eða öðru,´sem ég fór síðar með Guðmundi sagði hann mér frá stafnum eða stönginni sem hann notaði við að vaða varasamar ár. Nafnið á verkfærinu var "Gríðarvölur".
Guðmundur óð út í Krossá í myndinni, fann steininn og fjarlægði hann.
Hann óð einnig yfir Jökulsá til að finna besta vaðið fyrir fólksbíl yfir hana.
Jón bróðir minn var í tíu sumur í Öræfasveit þegar þar voru allar ár óbrúaðar og lærði þessa kúnst svo vel, að enda þótt ég reyndi að læra af honum, var það hann sem ég treysti á í röllunum, sem við fórum í.
Í því erfiðasta, ralli fyrir alvöru jeppa á stórum dekkjum, fórum við á Subaru yfir ár, sem jepparnir flöskuðu á og í gríðarlegu flóði í Gilsá austast í Fljótshlíð sigldum við Subarunum niður ána undan straumnum !
Af því og afrekum Subarusins bæði í því ralli og í alþjóðarallinu, sem skilaði Helgu minni og Ninnu dóttur minni fyrstum kvenna í mark í alþjóðlegri rallkeppni daginn áður en við bræðurin tókum hann í jepparallið mætti segja ítarlegri sögu, en í akstrinum á honum yfir árnar kom vel í ljós hve mikilvæg löng og fjölbreytileg reynsla er í svona ferðalögum.
En myndin hér á síðunni er af Subaru ´81 í minni eigu, þar sem hann er í leiðangri í Gjástykki fyrir nokkrum árum. Hann brillerar í myndinni "Akstur í óbyggðum" og ég er nú að leggja af stað á honum frá áritunum á Akureyri til Reykjavíkur.
![]() |
Veður árnar og finnur vöðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2013 | 10:23
Þetta og fleira var ekki á blaði 2001.
Aðeins lítill hluti af þeim óheyrilegu náttúruspjöllum, sem Kárahnjúkavirkjun hafði í för með sér, er að koma í ljós, kannski örfá prósent. Eitt af því er ógnarhröð færsla óss Lagarfljóts.
Það verður varla seinna en í lok þessarar aldar sem miðlunargeta Hálslóns verður þorrin miklu fyrr en reiknað var með vegna stórum meiri framburðar aurs í það en reiknað var með, en þetta sást greinilega á vorin strax eftir fulla myndun lónsins 2008.
Stuðlagáttin, gilið, sem Kringilsá rann um niður i Hjalladal, hafði þá þegar fyllst upp af auri og breyst í sléttar leirur.
Fullyrt var við ferðamenn fyrir 2007 að Töfrafoss myndi ekki hverfa, nema þá aðeins neðri helmingur hans í september. Hið rétta er að lónið nær kílómetra upp fyrir fossinn þegar það er fullt og fossinn hverfur strax í júlí.
Menn skelltu skolleyrum við því að Lagarfljót myndi kólna og deyja.
Ekki var minnst á hröðun á færslu óss Lagarfljóts og þaðan af síður á "mótvægisaðgerðir" vegna þess.
Fyrir liggja orð forstjóra Landsvirkjunar að arðsemi virkjunarinnar sé óviðunandi og því verður vafalaust ekkert gert til að breyta ósnum enda er það hvergi á blaði.
Landeigendur sáu hilla undir milljarða gróða vegna vatnsréttinda en með dómi og grimmu bréfi lögfræðings Landsvirkjunar um það hve þessi virkjun væri áhættusöm og erfið voru þeir dollaradraumar drepnir snarlega.
Fullyrt var að leirfok í lónstæðinu fram eftir sumri yrði vel viðráðanlegt þótt það blasti við að útilokað væri að koma í veg fyrir það að bestu veðurdagana fram eftir júlí yrði ólíft fyrir þeim á svæðinu.
Fullyrt var að dýrleg og fjölsótt ferðamannaparadís myndi opnast við lónið í góðviðrum sumarsins með tjaldbúðum, stífluklifri, siglingum og gönguferðum.
Lónið var á mynd Landsvirkjunar sýnt svo blátært, að það sæist til botns.
Hið rétta er að lónið er kúkbrún drullusúpa með aðeins 5 sm skyggni!
Þegar ekki sjást handa skil fyrir leirfoki við lónið í hlýjum hnjúkaþeynum og mestu hitunum snemmsumars eru myndir Landsvirkjunar af "ferðamannaparadísinni" aðhlátursefni eða öllu heldur grátlegar.
Þeir, sem ekki voru blindaðir af græðgi og auðtrúa fyrir 2008 voru kallaðir "óvinir Austurlands" og sá sem þetta skrifar var þegar árið 1999 kallaður "óvinur Austurlands númer eitt" bara fyrir það eitt að sýna báðar hliðar þessa máls í stað þess að stunda einhliða kranablaðamennsku og þöggun.
![]() |
Ós Lagarfljóts fluttur til suðurs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2013 | 01:42
Ritsnillingur á uppleið.
Hin síðari ár hefur Guðmundur Andri Thorsson vakið vaxandi athygli mína fyrir ritstörf sín. Hann er pistlahöfundur í fremstu röð og hefur margsýnt hve mikið og agað vald hann hefur á stíl og máli.
Það er unun að lesa skrif hans.
Nýjasta bók hans hefur vakið athygli og lof og bókin Valeyrarvals eftir hann er tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Hann er vel að viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins kominn.
Í haust lágu leiðir okkar saman vegna bókar minnar "Manga með svartan vanga - sagan öll" því að Andri var prófarkalesari hennar hjá Forlaginu.
Það kom strax í ljós að þetta var mikið happ fyrir mig því að það var ekki fyrr en undir lok ágúst, sem sú djarfa ákvörðun var tekin að ráðast í útgáfu bókarinnar.
Það kallaði á hraðar hendur, bæði hjá mér og Andra, því að ekki aðeins þurfti að endurskoða bókina "Manga með svartan vanga" frá árinu 1993, heldur einnig að stytta hana lítillega en bæta við 60 nýjum blaðsíðum.
Ég á Guðmundi Andra mikið að þakka fyrir að það tókst að gefa þessa bók út í tæka tið án þess að lenda í skakkaföllum. Að minnsta kosti hefur allt gengið vel hingað til hvað hana varðar.
Samstarf okkar var afar ánægjulegt og Andri sýndi slíka smekkvísi og fagmennsku, að breytingar hans og harður en bráðnauðsynlegur niðurskurður þar sem það átti við, runnu ljúflega í gegn hvað mig snerti.
Það hefur verið gefandi að kynnast honum og ég óska honum innilega til hamingju með viðurkeninguna.
Ég hygg að hún verði ekki sú síðasta á ferli hans, því að hann sé ritsnillingur á uppleið.
![]() |
Fékk viðurkenningu frá RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.12.2013 | 10:41
Eftirminnilegasta gamanmyndin frá æskuárum mínum.
The Secret Life of Walter Mitty var eftirminnilegasta gamanmynd sem ég sá sem ungur drengur, líklega 7-8 ára gamall.
Mig minnir að hún hafi verið sýnd í Bæjarbíói í Hafnarfirði og þetta var myndin sem gerði hinn óviðjafnanlega gamanleikara Danny Kay einn af frægustu kvikmyndaleikurum heims og vafalaust frægasta gamanleikarann að frátöldum Charles Chaplin.
Einkum man ég eftir hvað ég hló mikið þegar hann faldi sig í stórri búð með því að þykjast vera stór standlampi eða eitthvað slíkt.
Helst vildi ég sjá báðar myndirnar aftur, þá gömlu og þá nýju, og bera þær saman.
![]() |
Mjög skemmtileg mynd og mikið hlegið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2013 | 22:41
Kverkfjöll eru virk eldstöð.
Kverkfjöll hafa löngum verið dularfull og duttlungarfullt náttúrufyrirbæri. Af gögnum frá fyrri tímum má ráða að vafi hafi á stundum leikið á því hvort gosið hafi þar eða ekki.
Um 1960 varð mikil sprenging þar sem dreifði gjósku, en engin vitni voru um hvers eðlis þessi uppákoma hefði verið.
Öld fyrr var velt vöngum yfir því hvort gosið hefði þar, en dular- og efablær var yfir því.
Fjöllin eru afar afskekkt en sjást þó víða að á norðausturhálendinu í góðu veðri.
Hins vegar er hin dreifða umferð um það svæði seinni áratuga fyrirbæri, því að fyrir seinni heimsstyrjöld komu til dæmis aðeins smalamenn inn á þetta stóra hálendissvæði um mánaðamótin september-október.
Kverkfjöll eru þriðja hæsta fjall landsins, næst á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu, sem bæði eru virk eldfjöll og að sjálfsögðu þetta há og stór vegna mikillar eldvirkni.
Fyrir áratug hvarf annað af tveimur lónum í Kverkfjöllum, blátt á litinn á mynd, sem ég hyggst láta inn á síðuna, en kom síðan aftur fyrir nokkrum árum eins og ekkert hefði í skorist.
Enga skýringu hef ég heyrt vísindamenn getað fært fram á óyggjandi hátt um þessa dynti.
Eystra lónið er kallað Gengissig og eftir að vatn í því hafði hækkað undanfarin ár, fór svo, að eitthvað brast undir því, svo að stór hluti af vatnsmagni þess hljóp niður undir Kverkjökli, kom fram í ánni Volgu og fór í henni út í Jökulsá á Fjöllum.
Vegna þess að ekki hefur gosið í Kverkfjöllum eftir að jarðskjálftamælingar komu til skjalanna er afar erfitt að ráða í merkingu einstakra skjálfta eða skjálftahrina í Kverkfjöllum.
Fyrir gosin í Surtsey og Heimaey var því kastað fram að Helgafell og eyjarnar væru útbrunnar eldstöðvar en annað kom á daginn.
Og enginn skyldi bóka að Kverkfjöll væru óvirk eldstöð heldur þvert á móti.
Þegar ég innti Sigurð heitinn Þórarinsson jarðfræðing eftir því hvaða stað ég ætti að setja efst á forgangslista yfir viðfangsefni í náttúru Íslands svaraði hann hiklaust: Kverkfjöll.
Öll kynni mín af þeim síðan hafa styrkt þetta álit, og ég hef kallað Kverkfjöll "djásnið í kórónu landsins" þar sem Vatnajökull er kórónan.
Í samræmi við það skipa Kverkfjöll verðugan sess í tveimur af þeim 15 Stikluþáttum, sem nú hafa verið gefnir út í síðari hluta heildarútgáfu þeirra þátta.
![]() |
Jarðskjálfti í Kverkfjöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.12.2013 kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2013 | 15:01
"Þetta reddast. Peninga strax, sama hvernig!"
Þannig myndi ég lýsa Íslendingaheilkenninu, sem fjallað er um í skemmtilegri grein í Fréttablaðinu í dag og er gott innlegg í "þjóðagrínið"sem farið hefur um netheima í mynd, sem franskur iðnhönnuður hannaði.
Miðað við höfðatölu er líklega engin þjóð á jarðríki, sem trúað hefur verið fyrir varðveislu jafn mikilla náttúruverðmæta og Íslendingar fyrir afkomendurna og mannkyn allt, en er jafn illa til þess fallin að gera það.
En er einnig jafn óforskömmuð í að þagga niður staðreyndir um raunveruleikann og búa til glansmyndir, byggðar á hreinum rangfærslum til að réttlæta og fegra nánast hvað sem er.
Þvert á móti er allt falt fyrir skammtímagróða, sama hvernig hann er fenginn og sama hvernig það muni bitna á afkomendum okkar. Hægt er að þylja upp úr sér langa runu af atriðum sem sýna þetta.
Framtíðin, sem Íslendingar hugsa um, nær fram að næstu mánaðamótum hjá einstaklingum, næsta fjórðungsuppgjöri já fyrirtækjum, næstu kjarasamningum hjá "aðilum vinnumarkaðarins" eða næstu kosningum hjá stjórnmálamönnum.
Og hugsunin um fortíðina nær jafnvel enn styttra til baka, enda gæti verið óþægilegt að reyna að læra eitthvað af fortíðinni.
Við köllum okkur "þróaða þjóð" og tölum með lítilsvirðingu um "vanþróaðar þjóðir."
Meðal "vanþróaðra þjóða" voru svokallaðir "frumstæðir þjóðflokkar indíána" í Ameríku sem gerðu þær kröfur til gerða sinna og nýtingar lands og auðlinda, að það skert í engu rétt og hagi sjö kynslóða fram í tímann.
Ríósáttmálinn var tilraun til að nálgast sjö kynslóða hugsun indíánanna, sem jafngildir sjálfbærri þróun, en ekki einasta hefur undirskrift okkar Íslendinga undir sáttmálann ekki reynst pappírsins virði gagnvart okkur, heldur virðist nú kominn vilji hjá okkur til að færa umhverfis- og náttúruverndarmál okkar aftur til tímanna fyrir Ríósáttmálann.
![]() |
Þjóðagrínið vekur heimsathygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)