14.11.2013 | 22:38
Það verður enn bið á íslensku "Örkinni".
Nú er myndin um Noah, örkina hans Nóa, að komast fyrir almennings sjónir.
Vonandi rennur upp sá dagur sem íslenska heimildamyndin "Örkin" verður fullgerð og sýnd. Þangað til verður það hin erlenda mynd, sem mun væntanlega gleðja fólk með myndskeiðum af íslenskri náttúru.
Engin heimildamynd mín hefur verið eins kostanaðarsöm fyrir mig og "Örkin", því að það kostaði mikið að taka upp allt myndefnið í hana.
Sérferðir mínar frá Reykjavík austur á land og upp á norðausturhálendið urðu alls um 100 og dagarnir sem fóru bara í þessi ferðalög voru meira en 300. Kvikmyndatökumennirnir Friðþjófur Helgason og Sigurður Grímsson fóru í margar af þessum ferðum með mér, einkum Friðþjófur.
Að öllu eðlilegu má búast við að þessi mynd muni kosta hátt í 100 milljónir þegar öll kurl verða komin til grafar. 15 milljónir fengust í beina styrki til hennar en kostnaðurinn er orðinn talsvert meiri við að ná öllu þessu myndefni og ekki er í sjónmáli neinn möguleiki til að afla fjár til framhaldsins.
Aðalatriðið er, að það tókst þó að ná myndefni sem aldrei verður hægt að taka aftur.
Það hefur tafið, að vegna virkjana- og stóriðjuæðisins, sem rann á Íslendinga um síðustu aldamót, hefur þessi mynd orðið að víkja fyrir bráðari verkefnum um allt land.
Hjalladalur er sokkinn og mun fyllast af auri og því verður ekki snúið við. Hins vegar er von til að snúa öðru við víða um landi eða að minnsta kosti að hafa einhver áhrif með því að standa vaktina þar.
Hitt veit ég, að það verður ekki fyrr en myndin "Örkin" verður sýnd, hvenær sem það verður, sem þjóðin og umheimurinn munu fá að sjá, hvað raunverulega var gert með Kárahnjúkavirkjun.
Um þá, sem stóðu að þeim hervirkjum, verður hægt að segja: "Fyrirgef þeim, þótt þeir vildu ekki vita hvað þeir voru að gera."
![]() |
Íslensk náttúra og örkin hans Nóa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.11.2013 | 07:55
Grettir okkar tíma.
"Sitthvað er gæfa og gjörfileiki" er eitt af meginstefjunum í Grettissögu. Í því felst harmræn lýsing, sem hefur tryggt að fáum Íslendingum í gegnum aldirnar hefur verið sama um örlög þess manns.
Svipað er að segja um Mike Tyson. Hann er Grettir okkar tíma á heimsvísu.
Ekki þurfti annað en að líta rétt sem snöggvast á hann þegar hann varð allra manna yngstur heimsmeistari í þungavigt til að sjá að enda þótt meðfæddir hæfileikar hans væru gríðarlegir, var vöðvamassinn slíkur, sem og hin einstæða blanda af snerpu, hraða og kröftum, að það blasti við að notuð voru til hins ítrasta lyf og þjálfunaraðferðir, sem hámörkuðu þessa eiginleika.
Tyson var og er enn afar umdeild persóna, en sú staðreynd, að hann dró að sér fleiri áhorfendur og skapaði meiri tekjur í kringum sig en dæmi eru um, byggðist á því að engum var sama um hann, - allir höfðu skoðun á honum.
Svipað mátti segja um Michael Shumacher kappakstursnilling þegar hann var upp á sitt besta.
![]() |
Tyson notaði gervilim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2013 | 22:28
Skemmd á starfi flugvallarnefndarinnar.
"Skjóta fyrst og spyrja svo." Þetta virðist í tísku nú. Ryðjast gegnum Gálgahraun með óþarfan veg og eyðileggja þannig málarekstur fyrir dómstólum. Og leggja á niður minnstu flugbraut Reykjavíkurflugvallar áður en nefnd, sem rannsaka á besta fyrirkomulag á vellinum fær ráðrúm til að starfa.
Ég hef bent á möguleika þess að breyta flugvellinum þannig að aðalflugbrautin og sú lengsta verði lengd austur-vestur-flugbraut, en í stað núverandi norður-suðurbrautar og na-sv brautar komi braut, sem liggi með stefnu mitt á milli þeirra og sameinaði þannig bestu kosti beggja brautanna.
Þessi lausn myndi geta fært borginni jafnvel meira íbúðabyggingarými en óðagotslausnin, sem nú á að vaða fram með.
![]() |
Hunsi vilja landsmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
13.11.2013 | 21:02
Víða eru bílastæði orðin of mjó.
Þeir, sem raða niður bílastæðum í Reykjavík virðast ekkert fylgjast með tímanum, hvað snertir breidd bíla.
Þeir hafa smám saman verið að breikka síðustu áratugi.
Þannig voru sumir af minnstu bílunum, sem voru allt niður í 3,50 á lengd rétt um 1,50 á breidd, en jafnlangir bílar eru núna orðnir allt að 1,70 á breidd, en slík breidd var áður fyrr aðeins bundin við bíla sem voru metra lengri.
Nú er meirihluti meðalstórra bíla yfir 1,80 á breidd, eða 15 til 20 sentimetrum breiðari en áður var.
Þetta hefur mikil áhrif á þrengsli á bílastæðum, og af þessum sökum ríkir sums staðar ófremdarástand, sem felst í því að menn hyllast til að taka sér tvö stæði.
Aukin breidd bíla felst að stærstum hluta í þykkari hurðum, bæði vegna öryggis og líka vegna þess að í hurðirnar eru sett ýmis þægindi, auk þess sem bungur utan á bílnum eru tískuatriði.
Þessi stóraukna breidd finnst mér gagnrýnisverð, en það þýðir ekkert að vera fást um það sem fólkið vill, hvorki um það að það laðist að breiðum bílum né kaupi dýrari bíla en áður, heldur að gera ráð fyrir stækkun þeirra með því að hafa bílastæðin breiðari.
![]() |
Bílar munu ekki komast í stæðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2013 | 20:52
Allt aðrar tölur en búið er að flagga lengi.
Í meira en áratug hefur því verið flaggað hér á landi að kostnaður við að leggja jarðstrengi væri margfalt meiri en við að leggja loftlínur.
Síðan kemur allt í einu annað upp úr dúrnum, enda hef ég áður heyrt um það að fullyrðingarnar um svo miklu meiri kostnað við jarðstrengi en loftlíndur væru ekki réttar.
![]() |
Jarðstrengir lítið dýrari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2013 | 12:51
Þróunarhjálp Íslendinga er þjóðarskömm.
Svonefnd þróunarhjálp vesturlanda við lönd þriðja heimsins er aðeins brot af því arðráni, sem vesturlönd stunda hjá vanþróuðu ríkjunum.
Í þessu arðráni munar mestu um gríðarlega styrki til landbúnaðarframleiðslu iðnríkjanna, sem rænir þjóðir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku möguleikum til að nýta sér þá samkeppnisaðstöðu, sem jafnræði í tolla- og styrkjamálum myndi færa þeim.
Vesturlönd segjast í orði berjast fyrir viðskipta- og tollafrelsi í heiminum, en eru allra þjóða verst á borði.
Til friðþægingar verja þessar ríku þjóðir örsmárri prósentu af þjóðartekjum sínum til svonefndar þróunaraðstoðar.
Íslendingar eru moldrík þjóð í samanburði við þróunarlöndin. Sem dæmi má nefna að þjóðartekjur á hvern mann eru 300 sinnum meiri á Íslandi en í Eþíópíu.
Því mætti halda að Íslendingar tímdu að láta svipað af höndum rakna í þessu efni og sambærilegar þjóðir, en það er nú aldeilis öðru nær. Við verjum einfaldlega langtum minna hlutfallslega til þessara mála en nokkur sambærileg þjóð!
Og nú á að bíta höfuðið af þjóðarskömminni með því að fara aftur á bak í þessu efni.
![]() |
Reiðubúnir ef beiðni berst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
12.11.2013 | 12:40
Einn af síðustu "ávölu" nýju bílunum 1957.
Dante Giacosa hét bílahönnuðurinn, sem hannaði Fiat bíla frá 1936 til 1972. Hann var snillingur í að hanna minnstu bíla fyrirtækisins eins og Fiat Topolino 500 frá 1936 ber vitni um.
Síðan komu bílar eins og Fiat 1400 árið 1950 og Fiat 600 árið 1956.
Um það leyti voru bílar í örri breytingu útlitslega í þá átt að vera kantaðir, og Bandaríkjamenn réðu þar ferðinni, en einnig kom við sögu ítalski hönnuðurinn Pinin Farina, sem hannaði meðal annars Nash 1952, sem var fyrsti fjöldaframleiddi fólksbílinn, þar sem "frambrettin" voru hærri en vélarhlífin.
Það kom því dálítið á óvart að Fiat 500, sem kom fram 1957, skyldi vera með ávalari línum en Fiat 600 og þeir bílar, sem þá voru nýir á markaðnum. Fiat 500 var eini nýi bíllinn á þessum tíma sem var alls ekki með framljósin skagandi fram úr framhornum bílsins, heldur með ávalt bogadregnar línur í ávölum framenda.
Eina eftirgjöfin var fólgin í örlítið framstandandi framljósum, en sú "villa" var síðan leiðrétt í nýja Fiat 500 sem er reyndar svo miklu stærri en fyrirrennarinn að við liggur að það sé um of.
Ávalar línur voru einfaldlega komnar úr tísku 1955, enda leið ekki nema rúmur áratugur þar til Fiatverksmiðjurnar neyddust til að láta breyta útliti minnasta bíls verksmiðjanna á róttækan hátt, svo púkalegur og úreltur í útliti þótti Fiat 500 vera.
Undirvagn, vél og driflína Fiat 126 voru hin sömu og á Fiat 500, en útlitið gerbreytt til að þjóna tískunni, enda entist Fiat 126 í 28 ár, eða tvöfalt lengur en Fiat 500.
En síðustu tvo áratugi hefur tískan sveiflast alla leið til baka og vel það, svo að núna þykja hinn upprunalegi Fiat 500 og ekki síður hinn nýi vera einhverjir allra fallegustu bílar allra tíma, - sá eldri meira að segja valinn kynþokkafyllsti bíll heims!
En Fiat 126 þykir hins vegar úreltur í útliti, og 3-4 faldur verðmunur er jafngömlum Fiat 500 og Fiat 126 frá 1972-1975, þeim eldri í vil.
![]() |
Agnarsmátt listaverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2013 | 00:03
Skapar kannski auka útgjöld ?
Eiður Svanberg Guðnason bendir á það í fésbókarfærslu að stjórn Íslensku óperunnar sé ólaunuð og þannig sparist ekkert við það að sameina þá stjórn stjórnum annarra menningarstofnana.
Í framhaldi af athugasemd Eiðs mætti velta því fyrir sér, hvort aukið "álag" og vinna á þeim, sem nú eru launaðir annars staðar og bæta myndu stjórn óperunnar við sín störf, þyrftu ekki launahækkun.
Sem sagt: Auka útgjöld?
![]() |
Verða að líta á það sem lokið er |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.11.2013 | 15:24
"Skvísurnar" í minni bók voru eldri, en áður ungar !
Klukkan fimm næstkomandi miðvikudag verður nýútkomin bók, "Manga með svartan vanga - sagan öll" kynnt í bókabóð Máls og Menningar við Laugaveg.
Þar verður frumflutt lagið "Manga með svartan vanga".
Þetta er sagan um Möngu með svartan vanga, Ásdísi skáldkonu frá Rugludal, systurnar í Baslhaga og aðrar hvunndagshetjur síðustu aldar.
Bókin "Manga með svartan vanga" kom út 1993, fyrir réttum 20 árum, en seldist upp tveimur dögum fyrir jól og hefur verið ófáanleg síðan.
En nú er sú bók orðin gersamlega úrelt og þess vegna er þessi nýja bók skrifuð, því að eftir útgáfu fyrri bókarinnar skolaði svo mörgum nýjum upplýsingum og munum, tengdum þessum persónum, í hendur mér, að í þessari bók eru 60 blaðsíður nýsmíði.
Í gömlu bókinni vantaði alveg 30 ára kafla í sögu Möngu og margt fleira vantar líka um hinar konurnar, þannig að það vantaði hryggjarstykkið í söguna sem verður að vera til að hægt sé að skilja hin ótrúlegu örlög þessara kvenna.
Manga var ung, skarpgáfuð, fróð og kraftmikil kona um 1910 þegar örlög þessarar síðar gömlu förukonu, sem ég kynntist sem drengur, voru ráðin, - og í þessari nýju bók er þetta þungamiðjan í sögu hennar.
Manga, Ásdís skáldkona og systurnar í Baslahaga voru nokkur konar kvenkyns Bjartar í sumarhúsum þessa tíma, raunverulegar og lifandi persónur, sem brutust um í hlekkjum þjóðfélagsins og gengu í gegnum ótrúlegar raunir og örlög, oft hafðar að háði og spotti, enda margir atburðir í kringum þær bæði gráthlægilegir og ömurlega harmrænir í senn.
Manga gekk síðustu æviárin, orðin heyrnarsljó, eftir þjóðveginum miðjum, oft með stóð af hundum og köttum í kringum síg og flautandi bílaröð á eftir, talin einn af helstu farartálmum norðurleiðarinnar.
Ég hafði lengi haft í huga að skrifa þessa sögu upp á nýtt, en úrslitum réði bloggpistill minn með heitinu "Það er ekki lengra síðan" í ágúst síðastliðinum, skrifaður í tilefni af umræðum um orð forsætisráðherra í 17. júni ræðu um litla stéttaskiptingu í íslensku þjóðfélagi.
Bloggpistilinn vakti miklu meiri athygli og umtal en mig óraði fyrir og þessi bók er eðlilegt framhald af honum, enda er einn af síðustu köflum bókarinnar með heitinu "Það er ekki lengra síðan."
![]() |
Skvísurnar fjölmenntu á Slippbarnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.11.2013 | 12:35
"Tröllasögur" eins og í stríðinu?
Sögurnar af aftökum fólks í Norður-Kóreu fyrir að horfa á suðurkóreska sjónvarpsþætti eru svo ótrúlegar að kalla mætti þær tröllasögur. Ekki minnist ég til dæmis þess að villimenn nasista hafi tekið fólk af lífi fyrir að hlusta á útvarp frá löndum bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni.
En þá er þess að minnast að þegar "tröllasögur" um helförina fóru að leka út í stríðinu óraði fólki á vesturlöndum ekki fyrir því að þær gætu verið sannar.
Annað kom þó heldur betur í ljós.
Yfirvöld í Norður-Kóreu eru svo firrt að þeim er trúandi til alls. Þess vegna fá "tröllasögur" byr undir báða vængi.
![]() |
Drepnir fyrir að horfa á sjónvarpsþætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)