Brottrekstrar eru að verða sér íþrótt.

Svo er að sjá sem það sé að verða alþjóðleg íþrótt að reka þjálfara íþróttafélaga. Virðist stundum litlu sem engu skipta hvort viðkomandi liði gangi vel eða illa eða hvort óánægja hafi komið upp meðal leikmanna og jafnvel enn meiri ástæða til brottrekstrar ef betri árangur hefur náðst en nokkru sinni í sögu viðkomandi félags.  

Miskunnarleysið virðist brottrekstra virðist fara vaxandi, bæði hjá þeim sem hafa valdið til að reka og ekki síður hjá íþróttafréttamönnum, sem virðast elska orðinn "...var rekinn...", Þau orð eru ekki notuð svona afdráttarlaust og alltaf þegar um er að ræða það þegar aðrir hætta störfum en íþróttaþjálfarar.

Spyrja má hvort ekki sé orðið fulllangt gengið í þessum efnum.

 

 


mbl.is Logi: Kom mér algjörlega í opna skjöldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verri bílar til.

Við Íslendingar höfum kynnst sumum af þeim bílum, sem í tengdri frétt á mbl.is eru taldir vera verstu bílar sem framleiddir hafa verið. Við þekkjum líka bíla, sem ekki eru á listanum, en geta talist verstu bílar sem fluttir hafa verið inn til Íslands.

Í einni af mörgum stórum bókum um bíla, sem mér hafa áskotnast um ævina, er fyrsta gerðin af russneska Zahphorochets rassvélarbílnum, sem var grunsamlega líkur Fiat 600 en bara miklu ljótari.

Einn eða tveir slíkir bílar voru fluttir til Íslands og reyndust herfilega. Í stóru bílabókinni var staðhæft að þessi bíll væri versta bílahönnun allra tíma, enda ekki furða, því að hann væri svo hræðilegur, að stórlega mætti efast um að hann hefði yfirleitt verið hannaður!

Austur-Þýski sendibílinn Garant var jafnvel enn lakari bíll, að ekki sé minnst á P-70, fyrirrennara Traband, sem var úr pappaplasti vegna skorts á stáli, og ýmsir hlutar bílsins, þar á meðal gólfið í farangursgeymslunni, úr lélegum krossviði.

Í sumum bókum eru Skodabifreiðar sem hannaðar voru eftir 1960 hafa verið svo lélegar, að orðspor frameiðandans, sem hafði verið sæmilegt fram að því, breyttist í það að vera "international joke".

Ég notaði Skoda 120 í tvö ár við Kárahnjúka og einhvern veginn hékk hann saman og var hægt að skrönglast ótrúlega erfiðar slóðir, enda vélin fyrir aftan afturhjólin, sem drifið var á.

Bíllinn lak miklu vatni og það var enginn bakkgír, en það er nú reyndar ekki skylda samkvæmt íslenskum birfreiðalögum, ótrúlegt en satt.

Þegar hann átti að fara í skoðun eitt síðsumar bað ég verkstæðismann um að skoða hann og setja á blað þau atriði sem þyrfti til að koma honum í gegnum skoðun.

Ég fékk tveimur vikum síðar afhentan við hátíðlega athofn þennan lista innan í nokkurs konar Óskarsveeðlaunasumslagi, sem ég opnaði og las.

"Að þessum bíl er....allt !"

Ég skrönglaðist með hann í Ystafell og þar er hann nú á bílasafninu mikla

Ýmsir bresir bílar frá áttunda og níunda áratugnum hafa verið á lista yfir verstu bíla heims, svo sem Austrin Allegro, og jafnvel lúxus- tækniundrið Aston Martin Lagonda.

Ágætis bílar eins og Alfa Romeo Alfasud og Renault Dauphine hrundu niður vegna ryðs.  .

 

 

 


mbl.is Verstu bílar allra tíma?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran getur verið án mannsins.

Náttúran getur verið án mannsins en maðurinn getur ekki verið án náttúrunnar. Þannig hefur það oft verið orðað sem Kumi Naidoo alþjóðaframkvæmdastjóri Greenpeace segir í viðtali.

Enn og aftur kemur það upp að orsakasambandið í upphafi ljóðs Snorra Hjartarsonar er rétt:  "Land, þjóð og tunga." 

Landið getur vel verið án þjóðarinnar og tungunnar en forsendan fyrir þjóð og tungu er landið.

Það er oft tíðkað að væna náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk um að hugsa bara um náttúruna en ekki fólk. Líka sagt að dýraverndunarfólk hugsi bara um dýrin en ekki fólkið.

Svona áróður ristir afar grunnt því að án lands eða náttúru þrífst ekkert fólk. Náttúruverndar- og umhverfisverndarstefna snýst um hagsmuni fólks.  

Og í dýraverndunarlögum er talað um að fara "mannúðlega" með dýr. Það þýðir fólki sé ekki misboðið, sem þykir vænt um dýr og vill ekki að þau þjáist að óþörfu.

 


mbl.is Mannkynið í hættu en ekki Jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yoko og Vigdís, þetta er lagið!

Yoko Ono og Vigdís Finnbogadóttir eiga margt sameiginlegt fyrir utan það að vera þekktar á heimsvísu.

Þær sýna, að sé heilsan í lagi og henni viðhaldið með því að halda áfram skapandi starfi og brýndum huga er fjarri því að níræðisaldurinn sé eitthvað, sem þurfi að óttast út af fyrir sig.

Þannig skapa þær fordæmi fyrir aðra, sem annars myndu kannski láta undan óhjákvæmilegum fylgifiskum hás aldurs, fordæmi, sem er afar gefandi og dýrmætt.


mbl.is Óttist ekki aldurinn!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlagavaldur Skaftfellinga um aldir.

Eldgos og óáran hafa verið örlagavöldur Skaftfellinga allt frá landnámstíð þótt sjaldnast hafi það verið fest á bókfell, svo sem Eldgjárgosið mikla 934, sem er stærsta hraungos sem komið hefur á sögulegum tíma mannkyns, stærra en sjálfir Skaftáreldarnir.

 Kötlugosið 1918 kom miklu róti á mannlíf í nærsveitum þess á sínum tíma og sömuleiðis stríðsárin og kreppan 1917, sem varð dýpri en nokkur kreppa hefur orðið hér á landi í meira en heila öld.

Meðal þeirra sem fóru að austan til Reykjavíkur var Þorfinnur Guðbrandsson frá Hörgslandi og Síðu og Ólöf Runólfsdóttir frá Hólmi í Landbroti, sem hafði verið í fóstri í Svínafelli í Öræfum.

Hann var fæddur 1890 en hún 1896 og ég hef áður sagt frá kjörum þeirra, sem mótuðu lífshlaup þeirra og lífsviðhorf.

Þau felldu hugi saman og eignuðust tvö börn, annað þeirra síðar móðir mín. Ég minnist þess í æsku hve mikið mark Kötlugos og ekki síður Móðurharðindin settu á Skaftfellinga og viðhorf þeirra.  

Ég rek þetta meðal annars nánar þessar vikur í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem ég reyni að leiða fram sérstætt fólk sem ég kynntist ungur bæði beint og í gegnum ættmenni mín og foreldri, fólk sem ég hefði, ef ég hefði verið 30-40 árum eldri þá, gert að viðfangsefni í sjónvarpi ef það hefði þá verið komið til skjalanna.

Þetta fólk hafði að sjálfsögðu afar mikil áhrif á mig á þessum uppvaxtar- og mótunarárum og ég lærði mikið af því.

 

 


mbl.is 95 ár frá síðasta Kötlugosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Möguleikinn fjarlægi á að Ísland kæmist ekki í umspil úr sögunni"?

Stundum er hægt að fara afar langa og torsótta leið til þess að orða hluti. Ofangreind setning í fyrrsögn þessarar bloggfærslu úr veffrétt (véfrétt?) er dæmi um það.

Í setningunni eru tvær neitanir, "kæmist ekki áfram" og "er úr sögunni" en tvær neitanir gefa yfirleitt jákvæða niðurstöðu, í þessu tilfelli að Ísland komist áfram í umspilið, ef ég skil fréttina rétt.

Eða kannski skil ég hana ekki rétt, því að þetta er orðað á svo flókinn hátt.


mbl.is Ísland þarf jafngóð úrslit og Slóvenía nær í Sviss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munaði einu marki á spánni og leiknum.

Það er alltaf gaman að spá fyrir um úrslit leikja, og þegar Bylgjan hringdi í mig í dag spáði ég því að Ísland ynni Kýpur 2:1. Ég óttaðist aðallega tvö sálræn fyrirbrigði:

1. Lymskuleg ummæli þjálfara Kýpurliðsins í gær um það að lið Íslands væri mjög gott og Kýpur á botninum gátu verið sögð til að gera Íslendinga of sigurvissa og værukæra.

2. Gamalt fyrirbrigði varðandi það að lið, sem er komið út úr baráttunni fái vissa ánægju af því að ráða úrslitum um röð efstu liða. Þetta hefur marg sinnis gerst, allt frá bestu liðum niður í firmalið eða jafnvel í mótum innan fyrirtækja.

Mér er enn í minni þegar fréttastofa RUV átti í síðasta leik sínum í keppni deilda innan fyrirtækisins enga möguleika á efstu sætum, en okkur tókst að blása okkur baráttuanda í brjóst í síðasta leiknum gefn því liði, sem þá var efst.

Við unnum það óvænt og með því vannst tvennt: 1. Við sýndum fram á að við gætum verið bestir, þrátt fyrir allt. 2. Við réðum úrslitum um það röð efstu liða.

Þess vegna spáði ég 2:1 en síðan kom í ljós að getumunur Íslands og Kýpur í kvöld var einfaldlega of mikill, enda eru við með lið, sem er eitthvert það besta sem við höfum átt, bæði að reynslu og getu, og býr yfir miklum karakter.

Til hamingju, Ísland !


mbl.is Kýpur engin fyrirstaða fyrir Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Durango dauðanum merktur.

Chrysler bílaframleiðandinn býr yfir gríðarlegri reynslu og þekkingu þeirra hönnuða hjá AMC, sem á árum áður hönnuðu bíla eins og Cherokee 1983, sem er einn merkasti jeppi/jepplingur sögunnar og tímamótabíll.

Grand Cherokee á níunda áratugnum var að vísu ekki jafn mikill tímamótabíll, en þó mátti líta á hann sem arftaka sem væri aðeins rýmri og öflugri en fyrirrennarinn.

Á síðasta áratug hefur mér finnst það með ólíkindum hvernig Chrysler hefur glutrað þessu niður með bílum eins og Durango, Nitro, Jeep Commander og fyrstu gerðinni af nýjum Cherokee, sem var auglýstur sem bíll með fullkomna jeppaeiginleika en lá niðri að framan eins og úlfaldi á nösunum.

Nú er mál til komið að Chrysler reki af sér slyðruorðið og kveiki á brautryðjendakyndlinum, sem stundum blossaði upp í höndum AMC.  

Mér sýndust Durango, Nitro og Commander vera dauðanum merktir og tel, að því fyrr sem Chrysler viðurkennir það og tekur sig á, því betra.

Chrysler sýndi, að enn var töggur í mönnum þar á bæ þegar þeir umbyltu pallbílaheiminum undir merki Dodge á níunda áratugnum með hinum glæsilega og þokkafulla Dodge Ram, bæði hvað snerti útlit og aðra eiginleika.


mbl.is Durango fórnað fyrir Grand Wagoneer?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kexruglað veðurfar.

Síðustu tvö ár hafa öfgar og dyntir í veðurfari hafa einkennt veðurfarið hér á landi og víða um heim.

Þegar komið hafa kuldaköst og snjóar hefur þetta stundum glatt mjög kuldatrúarmenn, sem trúa því að þetta séu merki um að það séu lygar að loftslag fari hlýnandi, hvað þá að það sé af mannavöldum.

En svo koma miklir hlýindakaflar, að ekki sé nú talað um meðalhitatölur yfir lengri tíma, þar sem kuldatrúarmenn loka augunum.

Hörð snjóaáhlaup eins og í lok ágúst núna og í byrjun september í fyrra líkjast ekki svipuðum áhlaupum á árum áður. Þá voru þau ekki með svona mikla úrkomu og komu yfirleitt ekki í norðvestanáttum heldur í norðaustanátt.

Þegar litið er til baka til fyrri ára vekur athygli hvað norðaustanáttin er oft miklu hlýrri nú en þá var.

Ég hef verið mikið á öræfunum norðaustan Vatnajökuls síðasta áratug og það vekur athygli mína að á þessu úrkomuminnsta svæði landsins hefur síðustu ár verið meiri snjókoma en áður.

Það er ekki merki um kólnun heldur frekar merki um aukna úrkomu vegna þess að sjór er hlýrri og auð svæði á honum norður af landinu mun stærri en áður voru.

Þrátt fyrir þessa miklu snjókomu hafa hlýrri ár og sumur orðið til þess að aukin bráðnun hefur gert meira en að vinna hana upp, þannig að jöklar halda áfram að minnka ár frá ári, hvað sem kuldatrúarmenn segja.

Nú sé ég að í tæplega 700 metra hæð á norðausturhálendinu fer hitinn í 11 stig í miðjum október, aðeins 10 dögum fyrir fyrsta vetrardag !


mbl.is Ótrúlegar hitatölur í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur of hægt að vinna á fordómunum og orðavali.

Yfirleitt getur fólk ekkert gert að því þótt það veikist af alls konar sjúkdómum. Það á jafnt við um geðsjúkdóma sem aðra sjúkdóma, en samt ríkja enn of miklir fordómar gagnvart geðsjúkdómum og talað er niður til geðsjúklinga.

Við sjáum það á mörgu. Engum dettur í hug að segja "krabbameinsveiki ráðherrann eða krabbameinsveiki borgarstjórinn" en annað er stundum upp á teningnum varðandi "geggjaða borgarstjórann."

Meirihluti aldraðra notar þunglyndislyf og þess vegna má meirihluti þeirra sem hafa skömm á þunglyndissjúklinga búast við því að nota þessi lyf sjálfur. Af hverju er þunglyndi sett í sérflokk sem sjúkdómur? Hvers vegna á það að vera meira niðurlægjandi að taka lyf við þeim kvilla en öðrum?

Orðanotkunin segir sína sögu. Til er orðið Kleppari en orðin Vífilsstaðari og Kristnesari hafa aldrei heyrst.

Yfirleitt er látið nægja að nota eitt eða í mesta lagi tvö orð yfir fólk með sjúkdóma, eftir því hver sjúkdómurinn er, en þegar geðveila á í hlut verða orðin allt í einu orðin minnst 50, og ná yfir alls konar stig sjúkdómsins og alltaf notað niðrandi !

Skoðum orðavalið.

Menn eru:   ...ekki eins og fólk er flest - bilaðir - bilaðir á geði -  bilaðir á geðsmunum, - brenglaðir, - brenglaðir á geðsmunum, - klikkaðir, -  léttklikkaðir, - stórklikkaðir,  - snarklikkaðir, - kolklikkaðir, - ruglaðir, - kexruglaðir, -  snarruglaðir, - ekki í lagi, - ekki alveg í lagi, - geðveikir, - geðsjúkir, - veilir á geði, - veilir á geðsmunum, - geðbilaðir, - snarbilaðir, - Klepptækir, - Kleppsmatur, - geggjaðir, - léttgeggjaðir, - snargeggjaðir, - að fara yfirum, - alveg að fara yfirum, - að ganga af göflunum, - að tapa sér, - alveg að tapa sér, - alveg búnir að tapa sér, - að missa sig, - alveg að missa sig, - alveg búnir að missa sig, - vitlausir, - snarvitlausir, - kolvitlausir, - ærir, - elliærir

Ekki minnkar orðgnóttin ef menn vilja sletta erlendum orðum:

Menn eru:  ...manískir, - maníakar, - kreisí, - kol kreisí, - lúnatiks, - skissófren, - ekki með fúlle fem!

Já, 50 mismunandi orð og orðatiltæki til að lýsa einum sjúkdómi á ýmsum stigum og meira að segja eftir aldri, samanber orðið elliær. Eða hafa menn heyrt orðin ellihjartveikur, ellisykursjúkur eða ellikrabbameinssjúkur ?


mbl.is Geðheilsa á efri árum í brennidepli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband