Færsluflokkur: Bloggar
4.11.2023 | 23:44
Afar spennandi nýr kostur í rafbílaflórunni.
Það er ekki á hverjum degi, sem jafn spennandi nýr kostur á rafbílasviðinu hefur verið frumsýndur og GWM ORA 300 PRO.
Aðalástæðan er sú, að einn aðal ókosturinn við minnstu og ódýrustu rafbílana, sem hafa hingað til verið á boðstólum, er skortur á rými, einkumm í aftursætinu.
Þess kemur það þægilega á óvart yfir hve miklum kostum rafbíll þessi býr yfir fyrir jafn hagstætt verð.
Á þessari bloggsíðu hefur verið sýndur áhugi á ódýrasta rafbílnum, Dacia Spring, sem áhugaverðum kosti fyrir "litla manninn" sem vill taka þátt í orkuskiptunum.
Dacia fór mjðg hugvitsamlegar leiðir til að gera bílinn léttari, en þegar nánar var að gætt kom í ljós að bíllinn fær aðeins eina stjörnu af fimm mögulegum í svonefndri NCAP rannsókn á ðryggisatriðum varðandi gerð bíla.
Þarna hefði framleiðandinn þurft að gera betur og einnig að minnka ekki rafhlöðuna niður í 27 kwst og rýra með því drægnina of mikið, niður í 230 km.
Í hinum nýja ORA 300 PRO er rafhlaðan 58,8 kwst með uppgefna WLTP 319 km drægni.
p.s. Með því að fara inn á kynningarsíðu GWM sést, að rafhlaðan í 300 PRO er gefin upp með 48 kwst, en hins vegar framleidd aðeins öflugri 400 gerð með 63 kwst rafhlöðu, sem ætti að geta gefið allt að 400 km drægni.
![]() |
Hekla frumsýnir nýja rafbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.11.2023 kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2023 | 13:25
Ýmislegt líkt með Kröflueldum og eldvirkninni núna á Reykjanesskaga.
Í Kröflueldum hafði mælitækni þróast nógu mikið til þess að hægt væri á betri veg en áður að fylgjast með landhæð, risi og sigi, sem skiptust á.
Í níu skipti varð ekki úr gosi, heldur hljóp kvikan eftir meginsprungu, nær alltaf í norðaustur.
Þrátt fyrir byltingu í mælitækninni núna, er áfram erfitt fyrir vísindamenn að segja með vissu um það hvort og hvenær landris endar með eldgosi.
![]() |
Gos þykir líklegast við Illahraunsgíga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2023 | 13:18
Leitað að eldgosi með vasaljósi.
Atvikið, sem Þorbjörn Þórðarson greinir frá að gerst hafi í Kröflueldum, er líkast til einstakt í eldgosasögunni, og örugglega það minnsta.
Þetta gerðist að vetrarlagi, og blaðamenn frá helstu fjölmiðlum héldu til í Hótel Reynihlíð.
Um kvöldið var dimm hríð, og jarðfræðingar gáfu það upp, að miðja kvikunnar, sem leitaði upp, væri nálægt Leirhnjúki, og gæti kvikan leitað annað hvort til norðurs eða suðurs, en ekki væri vitað, hvort yrði ofan á.
Um miðnæturbil barst sú fregn til Reynihlíðar, að eldgos væri hafið í Bjarnarflagi nálægt Kísilhiðjunni, og varð uppi fótur og fit hjá blaðamönnunum, sem flýttu sér þangað.
Þegar þangað kom var ekkert að sjá vegna snjókomu, en síðuhafi var vopnaður stærstu gerð af vasaljósi og taldi aðspurður, að færa sig upp í svonefnda Krummagjá, sem hafði myndast í Mývatnseldum fyrir 250 árum.
Gönguferðin við ljósið frá vasaljósinu endaði snöggt þegar hópurinn áttaði sig skyndilega á því að hafa lent í einstæðum fíflagangi með því að vera að leita að eldgosi með vasaljósi!
Lögðu menn því snarlega á flótta og hættu þessari endemis vitleysu.
Þegar birti morguninn eftir sást að á svæði á stærð við stóran fótboltavöll hafði fallið fíngerð öskumylsna; minnsta hraun á Íslandi við það að gaosið hafði glóandi aska upp úr borholuröri og dreifst um þetta litla svæði í kring!
![]() |
Komin nálægt því að fara í gos |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2023 | 08:30
"Sorg og líkn" komið á Youtube eftir nítján ára vinnsluþróun.
Hörmulegt slys á varasðmum stað í gatnakerfi hefur kallað fram aðgerðir, sem sýna nauðsyn þess að mikilvægi góðrar gerðar umferðarmannvirkja sé haft í huga við gerð þeirra.
Hallgrímur Pétursson orti um dauðans óvissa tíma á sinni tíð, og við jarðarför Davíðs Helgasonar æskuvinar síðuhafa árið 2004, varð óvenjulegt atvik.
Davíð hafði orðið bráðkvaddur, en þegar presturinn lyfti hönd yfir kistu hans til að segja "af moldu ertu kominn..." féll vinur hins látna fram fyrir sig á fremsta bekk í hjartaáfalli og jarðarförin stöðvaðist í 20 mínútur.
Atvikið varð til þess að á staðnum varð til þessi vísa:
Feigðin grimm um fjörið krefur,
fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur;
örlög ráða för.
Stakan átti eftir að draga dilk á eftir sér, því að nokkrum árum síðar þróaðist hugmynd um að lengja ljóðið þegar setið var við jarðarfarir Flosa Ólafssonar, Bessa Bjarnasonar, Hermanns Gunnarssonar og Carls Möllers, þannig að loks varð til heill sálmur, sem nú hefur loksins verið birtur með textuðu tónlistarmyndbandi á facebook og Youtube í flutningi Kórs Grundarkirkju, stokkvartetts, en upptöku myndar og hljóðs og myndvinnslu annaðist Þorgrímur Þorsteinsson,
Stakan hér að ofan er núna innifalin í lok fyrsta erindis sálmsins sem birtist á þessari bloggsíðu 11. júlí 2023.
Útsetningu og kórstjórn annaðist Þorvaldur Örn Davíðsson.
![]() |
Afreinin verður áfram en stöðvunarskyldu komið á |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2023 | 23:28
Framkvæmdaleyfi í gildi fyrir virkjun í Eldvörpum! ??
Fyrir nokkrum árum var, ef rétt er munað, veitt framkvæmdaleyfi fyrir gufuaflsvirkjun í Eldvörpum! Byrjað var á því að gera borplön!
Nú gæti hver farið að verða síðastur að reisa þessa virkjun hið snarasta ef menn ætla að æða í virkjun þarna og verða á undan hugsanlegu eldgosi, sem nú er talið líklegasta framvindan
Undir Svartsengi og Eldvörpum er sameiginlegt orkuhólf, en vegna rányrkju svæðisins, er þetta merki um örvæntingu virkjanamanna, því að viðbótarvirkjun mun aðeins hraða tæmingu orkuhólfsins!
Í viðtengdri frétt um skjálfta og landris á þessu svæði er greint frá því að undir því sé stórt kvikuhólf!
Allt ofangreint er því miður með upphrópunarmerkjum, því að ruglið sem skín út úr virkjanastefnunni er yfirgengilegt.
![]() |
Saga jarðhræringa í Svartsengi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2023 | 22:21
Vantar torfbæi alþýðunnar, svo sem Skarðsá.
Flestir þeirra torfbæja, sem þekktir eru hér á landi vegna þess að þæir hafa verið varðveittir, gefa litla mynd um menningu og kjðr alþýðu fólks, vegna þess að þeir eru fyrst og fremst húsakynni yfirstéttarinnar og hinna betur megandi.
Fyrir tilviljun komst síðuhafi í tæri við gögn um húakost á landsbyggðinni, sem voru á bókasafninu litla á Sólheimum í Grímsnesi á sjöunda áratugnum.
Í þeim mátti sjá, að svo seint sem á fjórða áratugnum skar eitt svæði síg úr, envþað voru Húnavatnssýsla og Skagafjðrður en þar var meirihluti sveitabæja enn úr torfi.
Í Hvemmi í Langadal var lítill torfær, sem búseta var í allt fram til 1957, sem síðuhafa gafst einu sinni færi á að koma inn í.
Þremur áratugum síðar var gerður sjónvarpsþáttur um torfbæinn Skarðsá í Sæmundarhlíð, sem Skarðsárannáll.
Þar bjó enn einsetukonan Pálína, komin um áttrætt. Húsaskipan var sérkennileg og fólst greinilega í því að koma í veg fyrir kulda í hjarta bæjarins með því leiðin þangað inn lægi um afar löng og þröng göng. Dró heiti þáttaris nafn sitt af því.
Skarðsárannáll bendir til ákveðinn tengsl þessa yfirlætislausa torfbæjar við menningararf okkar, og er miður varð nánast útrýming smáu torfbæjanna sem öldum saman voru heimkynni þorra þjóðarinnar.
Réttari mynd myndi fást í Skagafirði ef þar væri einn alþýðubær varðveittur ásamt stóra bænum að Glaumbæ.
![]() |
Menningararfur falinn í torfbæjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2023 | 20:17
Ekki hægt að treysta endalaust á áhættuspil með eldvirknina.
Stórmerkileg heppni hefur verið hingað til yfir eldgosunum á Reykjanesskaga, sem líkast til marka upphafið á nokkurra alda tímabili nýrrar eldvikni á skaganum, sem nú er horft fram á.
Í stað þess að nýta þann mikla mannauð, sem felst í jarðeðlisfræðingum okkar og einbeita okkur að forvarnaraðgerðum, er ekkert slíkt sérstakt á döfinni, heldur eru jafnvel uppi margvíslegar framkvæmdir víðsvegar um svæðið frá Reykjanestá til Þingvallavatns, sem er morandi í eldstöðvum sem hafa verið virk á sögulegum tíma.
Bláa lónið, Svartsengi og Grindavík, sem nú eru nefnd, eru ekki aðeins milljarða mannvirki, heldur þéttbýli og orkufyrirtæki sem þjóna bæði byggð og stóriðju á stærstum hluta suðvesturhorns landsins.
Samhliðs því, sem fleiri staðir bætast við í röð þeirra, sem nú hafa þegar gosið, aukast væntanlega líkurnar á því að áhættuspilshegðunin færi okkur eldgos með hundraða milljarða tjóni.
Svo alger er doðasvefninn í málefnum innviðanna svonefndu, að áfram er unnið ötullega að því að undirbúningi nýs millilanda- og innanlandsflugvelli kenndan við Hvassahraun, sem er, eins og nafnið bendir til, ætlað að vera á einum af ótal hraunum Reykjanesskagans.
![]() |
Lítill viðbragðstími ef kvika kemur upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.10.2023 | 19:46
Ekki hægt að leysa vandamál með því að nota áfram hugsunina, sem olli þeim.
Gott ef það var ekki hinn vísi maður Albert Einstein, sem sagði, að ekki væri hægt að bæta úr mistökum með því að notast áfram við þann hugsanagang sem olli þeim.
Ástæða þess að talað er um að íslensk heimili og fyrirtæki og orkuskptin sjái fram á orkuskort liggur ljós fyrir: Stóriðja og orkufrek erlend fyrirtæki hafa í morg ár fengið svo mikinn forgang í notkun íslenskrar orku að hann hefur fært þeim yfir 80 prósent hennar.
"Það er nefnilega vitlaust gefið" eins og Steinn Steinarr komst að orði, og þarf að stokka spilin upp á nýtt.
![]() |
Augljóst að þetta myndi ekki standast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2023 | 23:49
Mælingar leikmanns sem sýna áhrif covid-19 ?
Síðan 1960 hefur síðuhafi stundað sérstakar æfingar í stigahlaupum og skráð hjá sér tímamælingar á þeim.
Fyrstu árin var hlaupið með notkun skeiðklukku frá jarðhæð upp á 12. hæð í Austurbrún 2, og reyndist mögulegt að ná jafn góðum tíma og hraða lyftan, sem fór þessa vegalengd á 30 sekúndum.
Í nokkur ár nýttust blokkirnar við Sólheima til þessara æfinga.
Við búferlaskipti allt til dagsins í dag hefur verið unnt að stunda æfingu af þessu tagi í ýmsum húsum, til dæmis Ræktinni á Seltjarnarnesi á meðan hún var starfræktm, einnig upp stigana í Útvarpshúsinu, og síðustu tíu árin hefur fjðgurra hæða hlaup frá kjallara upp á fjórðu hæð í blokk við Fróðengi verið notað.
Stigahlaup af þessu tagi hafa þann kost, að með þeim eru hnén notuð til klifurs, tvær tröppur í skrefi, svo að líkamsþun-ginn fer ekki illa með hnén eins og í hlaupum á jafnsléttu.
Á árunum 2013 til 2022 var tíminn upp stigana furðu jafn, í kringum 30 sekúndur.
En þá kom Covid-19, og, og hraðinn minnkaði hressilega og þar með jókst tíminn að sama skapi.
Það var svo sem ekki alveg nýtt fyrirbrigði, pestir eins og lungnabólga gátu haft tímabundin áhrif og sömuleiðis beinbrot.
En annað var alveg nýtt: Covid varð til þess að tíminn jókst úr 34 sekúndum upp í tæplega 50 sekúndur.
Nú er liðið eitt ár frá Covid og tíminn er þetta 46-49 sekúndur.
Stigahlaup reynir á viðbragð, snerpu, hraða, kraft og úthald, svo að þetta er líklega furðu góður mælikvarði.
En leiðinlegur er hann.
![]() |
Ný skýring á orsökum langvinnra Covid-einkenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2023 | 22:44
Snýst um nauðsynlegt samband kynslóðanna.
Síðustu ár hefur það færst mjðg í vöxt, að þegar gengið er um Reykjavíkurborg finnist hinum eldri þeir skyndlega vera komnir í allt aðra borg, jafnvel erlendis.
Meginástæðurnar eru aðallega vanhugsaðar breytingar eða niðurrif á húsum, einkum í eldri hlutum borgarinnar, en nefna má líka næstum sjúklega tilhneigingu til að breyta um nðfn úr íslenskum nðfnum yfir í ensk.
Á ferð um suðvesturhluta Írlands 1992 vakti athygli sú viðleitni Íra að varðveita gelísk örnefni og skilti á vegum og mannvirkjum.
Voru vegaskilti víðast með gelíska nafninu ofan á og hinu enska nafni undir.
Nefna má ótal dæmi um vanrækslu og sinnuleysi gagnvart menningarminjum í Reykjavík.
Einna snautlegast í borg, þar sem fyrsta flugið á íslenskri grund fór fram, skuli flugminjar hafa verið vanræktar jafn gersamlega og gert hefur verið í Reykjavík.
Sem lítið dæmi má nefna, upprunalegir munir frá fyrstu árum Reykjavíkurflugvallar á borð við gasluktir, sem notaðar voru sem brautarljósm, skuli vera varðveitt á byggðasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn i Patreksfirði!
"Hér reri afi á árabát" er sungið í einu af þjóðhátíðarlðgum Vestmannaeyinga, og slíka hugsun má hafa í hávegum þegar menningarminjum er sinnt hér á landi.
![]() |
Guðlaugur vill menningarminjar í öndvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)