Færsluflokkur: Bloggar
7.4.2015 | 00:55
Ólíkar aðstæður meirihlutans og minnihlutans.
Áhugaverðar eru rökræður Bjarna Benediktssonar og þingmanna Pírata og koma fram gild sjónarmið og álitamál hjá báðum aðilum.
En að einu leyti eru aðstæður stórs meirihluta og veiks minnihluta ólíkar: Meirihlutinn sem keyrir sitt í gegn ber ábyrgð á því sem hann knýr fram en það gerir minnihlutinn ekki.
Ýmis dæmi eru um það að hjá meirihlutum á þingi hafa málin ekki reynst eins vel ígrunduð eða útfærð og æskilegt hefði verið, - oft vegna þess að ekki var nægur tími til að fara ofan í saumana á öllu.
En samt stóð meirihlutinn frammi fyrir því að verða að ljúka málinu og sitja uppi með ábyrgðina.
Í slíkum tilfellum skiptir ekki máli fyrir úrslit málsins, hvort minnihlutinn greiðir atkvæði gegn frumvörðum eða ekki. Þau eru samt samþykkt, sama hvað minnihlutinn gerir.
Þá er það val minnihlutans og sjálfsagður og lýðræðislegur réttur hans hvort hann vill halda stíft fram sjónarmiðum, sem hann er ekki viss um hvort séu rétt ígrunduð, eða að gefa með hjásetu þá yfirlýsingu að betur hefði mátt skoða málið.
![]() |
Hún er í sömu stöðu og aðrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.4.2015 | 22:31
Ein takmarkaðra auðlinda jarðar. Orkuskiptin nálgast hratt.
Í æsku og á yngri árum kemur vitneskjan um að menn séu dauðlegir ekki í veg fyrir þann hugsunarhátt að dauðinn sé órafjarri og það sjaldgæfur hjá ungu fólki, að framundan hjá meðalmanninum sé ævi sem sé ígildi heillar eilífðar. Þið vitið: Sumt fólk deyr að vísu fyrir aldur fram en ekki ég.
Þegar ungt fólk byrjar að reykja eru afleiðingarnar af því svo fjarri í huga þess, að þær hafa ekki nógan fælingarmátt.
Þegar líður á ævina blasir hins vegar sú staðreynd æ skýrar við að jarðlífið er takmörkuð auðlind.
Fram á okkar daga hefur ríkt svipað hugarfar hjá jarðarbúum varðandi auðlindir jarðar og möguleikana á endalausri nýtingu þeirra fyrir þarfir sífjölgandi mannkyns.
Afleiðingin og niðurstaðan af þessum hugsunarhætti birtist í hinni ófrávíkjanlegu kröfu um endalausan og veldisvaxandi hagvöxt, - hugarfar og krafa, sem engin stjórnvöld í heiminum virðast geta losnað við þótt allir megi sjá, að dæmið mun ekki ganga upp endalaust með sama áframhaldi.
Það koma áreiðanlega flestum á gersamlega á óvart þegar það upplýstist í fyrra eða hitteðfyrra að súkkulaði ætti sér ekki bjarta framtíð sem algeng og ódýr matvara.
Jafn mikið á óvart kom sú vitneskja að til væri efni, sem enginn hefði hingað til haft áhyggjur af að takmarkaði væri til af og heldur ekki vitað um hve mikil undirstaða það er í landbúnaði og margs konar framleiðslu.
En þetta er fosfór, auðlind sem mun með sama áframhaldi ganga til þurrðar á þessari öld með afdrifaríkum afleiðingum.
Sérfræðingar helstu olíuframleiðslulanda heims viðurkenna að olíuöldin hafi náð hámarki fyrir tíu árum eða svo, og að eftir 20-40 ár liggi leiðin hratt niður á við.
Í augum sumra kann þetta að virðast það langur tími að engin ástæða sé til að bregðast við strax núna, en í raun er þetta ógnarstuttur tími, ekki hvað síst með tilliti til lengdar annarra alda í sögu mannsins eins og steinaldar og bronsaldar.
Það sjáum við þegar við lítum 20-40 ár til baka, aftur til áranna 1975-1995.
Og stórfelld orkuskipti kalla á mikinn tíma og kostnað við undirbúning og tækniúrvinnslu.
En allar þjóðir hafa samt hagað sér þannig hingað eins og olían sé eilíf orkuuppspretta og eins og engin takmörk séu fyrir því hvað hægt sé að dæla miklu af koldíoxíði út í lofthnjúpinn.
Framundan er tími, þar sem óhjákvæmileg orkuskipti verða að fara fram að stórum hluta í búskap mannkynsins.
Í dag fór ég í fyrsta skipti í 56 ár á reiðhjóli í verslunarferð.
Ég fór að vísu í 3ja kílómetra reynsluferð á hjólinu í gær, en annað var erindið ekki og hjólið kom að því leyti ekki í staðinn fyrir bíl í þeirra ferð.
En ferðin í dag leysti bíl af hólmi, því að þannig stóð á, að ekki var nægur tími til að fara þetta gangandi.
Þetta var að vísu stutt verslunarferð en reiðhjólið er "hybrid" eða "tvinnhjól," það er með hjálparrafhlöðu, sem getur líka knúið það áfram eingöngu ef með þarf.
Þetta er á algeru byrjunarstigi hjá mér, því að eftir er að skoða í hvaða ástandi rafhlaðan er.
Hjólið hafði staðið all lengi nýtt og ónotað þegar því skolaði í hendurnar á mér í tengslum við sölu á gömlum bíl í fyrra, og stóð aftur ónotað í vetur svo að rafhlaðan gæti hafa misst getuna til að hlaðast almennilega.
1500 metrar samtals fram og til baka kann að þykja stuttur spölur, en fyrsta flug Whrigt-bræðra var reyndar enn styttra.
Engu er hægt að spá um það hvort þessi litlu orkuskipti hjá mér muni endast samfellt úr þessu. Veðurspáin fyrir næstu daga er ekki uppörvandi og af því að hjólið er splunkunýtt og kannski óhjákvæmilegt að selja það, er viss óvissa í spilunum með þetta.
En það er freistandi að víkja ekki af þeirri leið til óhjákvæmilegra orkuskipta, sem við blasa fyrr eða síðar hjá öllum jarðarbúum. Og fá lönd búa upp á betri möguleika en Ísland.
Fyrir tveimur árum átti ég heima við Háaleitisbraut og útreikningar benda til að svona hjól hefði nýst miklu betur á þeim slóðum en þar sem ég á heima núna, austarlega í Grafarvogshverfi.
Háaleitisbrautin er 2,5 kílómetra frá miðju íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu en Fróðengi er 5 kílómetra frá miðjunni.
Samanburðurinn er óhagstæðari varðandi þann stað sem ég á oftast erindi á, Útvarpshúsið.
Frá gamla verustaðnum voru 1,6 kílómetrar þangað, en 8,6 kílómetrar eru þangað frá núverandi verustað.
Þetta eru 14 kílómetrar samtals fram og til baka, sem samsvarar 40 mínútum í tíma, auk 2x5 mínútna sem bætast við við að taka hjólið út og koma því fyrir aftur eftir hverja ferð, alls 50 mínútur.
Og tíminn er stundum peningar, ekki satt?
![]() |
Páskaegg verða senn lúxusvara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.4.2015 | 13:55
Ógnvaldur í austanveðri Afríku.
Hryðjuverkasamtökin al-Shabab og öfgamenn hafa verið ógnvaldur í Sómalíu og nágrannaríkjum þeirra í áraraðir og virðist ekkert lát þar á.
Þetta eru hreinræktuð glæpasamtök sem bregða yfir sig skikkju trúarbragða til að réttlæta óréttlætanlegan hrylling og útbreidda skelfingu.
Ekkert nágrannaríki er óhult og heldur ekki sæfarendur frá öllum þjóðum undan ströndum Sómalíu þar sem hefur löngum stundum ríkt svipað sjóræningjaástand og var fyrir tímum sjóræningja á fyrri öldum sem gerðir voru að söguhetjum á borð við kaptein Blood.
Því miður hefur þetta langvarandi ástand í tiltölulega fjarlægu landi slævt vitund umheimsins um framferði þessara glæpasamtaka og of lítið verið fjallað um ódæði þeirra á borð við það síðasta, drápið á 158 kristnum skólanemum.
Svipað afskiptaleysi ríkir gagnvart samtökunum Boko Haram í Nígeríu enda ræðst fréttamat hjá fjölmiðlum oft af því í hve mikilli nálægð það er.
Á ferð nálægt landamærum Sómalíu fyrir áratug kom óttinn íbúa Eþíópíu við þjófaflokka frá Sómalíu glöggt í ljós hjá, því að þeir fóru iðulega yfir landamærin í ránsferðir að næturlagi. Var ekki sérlega árennilegt að vera þar á ferð og þurfa að gista í afrísku nóttinni.
Eþíópíumenn tóku Kristni 700 árum á undan Íslendingum og trú Koptanna hefur í sér svo mikla helgi í landinu, að meira að segja kommúnistinn Mengisto lét hana í friði þegar hann var við völd.
Þess vegna er al-Shaba sérstaklega illa við Eþíópíumenn þótt í þetta sinn hafi Keníabúar einnig fengið að kenna á þeim.
Í Eþíópíu ríkir að vísu alræði valdhafa landsins í krafti laga, sem sett voru á tímum Erírtreu stríðsins með því yfirvarpi að tryggja öryggi íbúanna en voru í raun tæki til að bæla niður andóf.
En ástandið í landinu er hátíð miðað við það sem ríkir í Sómalíu.
Stjórnvöldin byggja stöðu sína líka á því að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjamönnum og það svo mjög, að fyrir nokkrum árum fengu þau Bandaríkjamenn til þess að gefa loftárásir fyrir sig á búðir sómalísku hryðjuverkasamtakanna.
![]() |
Ráðast til atlögu gegn al-Shabab |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
6.4.2015 | 03:51
Þotuknýr í Hveragerði.
Jón "gustur" Ágústsson,bílstjóri Sumargleðinnar á fyrri helmingi sögu hennar var yfirleitt aldrei að skafa utan af hlutunum hér í gamla daga.
"Gusturinn" var hress í máli, lét flest flakka, kvað fast að orði og mætti segja ýmsar sögur af hnyttni hans og fjöri.
Nú er hann nokkuð við aldur og hefur síðustu árin dvalist á heilsuhælinu í Hveragerði þar sem hefð er fyrir sérstæðu mataræði úr jurtaríkinu.
Þegar Raggi Bjarna heimsótti hann lét Gusturinn vel af sér.
"Hvernig er fæðið hérna?" spurði Raggi.
"Það er nú ekki lítið fjör! Hvílíkur orkugjafi," svaraði Jón. "Nú er ber ég viðurnefnið Gustur fyrst með rentu. Þetta grasagums virkar stundum þannig á mig að ég gæti farið eins og þota í einu flugi héðan til Reykjavíkur með strókinn aftur úr rassgatinu!"
Vindgangur hjá geimförum hvað?
![]() |
Ekki hægt að knýja sig áfram með vindgangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2015 | 23:00
"Hið kalda hjarta hafanna" ?
Fyrir tæpum tuttugu árum var varpað ljósi á gríðarlega langan og öflugan hafstraum sem hlykkjaðist eins og hringekja um Atlantshaf endilangt og austur á Indlandshaf.
Hinn hlýi Golfstraumur er heitur yfirborðsstraumur sem greinist í nokkrar greinar á Norður-Atlantshafi.
Tvær greinar skiljast frá honum á Norður-Atlantshafi.
Önnur fer norður með vesturströnd Grænlands rétt norður fyrir Nuuk, en upp að suðurströnd Íslands og leggst norður með vesturströndinni og austur fyrir Horn.
Að öðru leyti fer stór hluti straumsins norður með vesturströnd Noregs allt norður fyrir Nord kap.
Þessum straumum er það að þakka að byggilegt er á Grænlandi, Íslandi og í norðurhluta Noregs.
Þegar straumurinn kólnar við endimörk hans, sekkur hann niður undir sjávarbotn og streymir þar til baka.
Ef mikið magn af tæru bræðsluvatni berst út á Norður-Atlantshaf og Íshafið vegna hlýnunar loftlags, sem bræðir jöklana og hafísinn, er það léttara en saltvatnið og veldur því truflunum á Golfstraumnum og veikingu hans. Og veikingar virðist nú vera farið að gæta samkvæmt mælingum.
Það aftur á móti veldur kólnun á veðurfari á þeim slóðum þar sem Golfstraumurinn hefur veikst, jafnvel nýrri ísöld á því svæði.
Af þessum sökum vara margir vísindamenn við því að maðurinn standi fyrir stórfelldri og hraðri breytingu á samsetningu lofthjúps jarðar, sem geti valdið ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það sé óábyrgt og varasamt að rugga um of þeim báti, sem allt mannkynið er í.
Í sumum tölvulíkönum af breytingunum kom strax fram fyrir 20 árum, að þótt loftslag hlýni að meðaltali á jörðinni geti lofstlagsbreytingarnar valdið svæðisbundinni kólnun, til dæmis því að svalara og rakara veðurlag verði við Norður-Atlantshaf.
![]() |
Hefur sjávarkuldi áhrif á sumarið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
5.4.2015 | 15:43
Af hverju nýtur hún mests trausts?
Margir komast nú á flug út og suður í ummælum sínum á netmiðlum um það að Sigurjón M. Egilson skyldi spyrja Katrínu Jakobsdóttur um hugsanlegt framboð hennar til embættis forseta Íslands.
En spurning Sigurjóns var fyllilega réttmæt í ljósi þess að í haust kom í ljós í skoðanakönnun að Katrín naut mests trausts allra formanna stjórnmálaflokkanna.
Ég hitti hana á förnum vegi skömmu eftir það og spurði sömu spurningar og Sigurjón.
Þessar vinsældir mega heita með ólíkindum því að flokkur hennar berst nú við að komast upp úr neðsta sætinu í skoðanakönnunum og er lengst til vinstri í litrófi stjórnmálanna, þótt nú orðið sé orðið næsta erfitt að raða öllum flokkum og fólki á bása eftir þeim mælikvarða.
Hvers vegna getur formaður lítils flokks út á jaðri notið mests trausts?
Kannski þarf að kafa ofan í þjóðarsálina ekki síður en að skoða mannkosti hugsanlegra frambjóðenda.
Í öllum forsetakosningum, þegar nýir forsetar hafa verið valdir, hefur sá, sem sigraði, ekki átt upp á pallborðið hjá ríkjandi stjórnmálaöflum.
Meirihluti þjóðarinnar hefur hallast því að í embætti forseta sé persóna, sem myndi ákveðna valddreifingu.
Formenn stjórnarflokkanna 1952 mæltu með séra Bjarna Jónssyni í embættið, en Ásgeir Ásgeirsson var kosinn í óþökk þeirra.
1968 tengdi meirihluti kjósenda Gunnar Thoroddsen við þáverandi stjórnarflokka og kaus Kristján Eldjárn, sem reyndist vel og aflaði sér virðingar í starfinu.
1980 gerðist það svo í fyrsta sinn í sögunni að kona var kosin í almennri kosningu í embætti þjóðhöfðingja.
1996 hafði Alþýðubandalagið verið í stjórnarandstöðu í fimm ár og Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn.
![]() |
Ekki að undirbúa forsetaframboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.4.2015 | 12:47
Siggi var úti II.
Ef þeir, sem fengu lögregluna til að eyða dýrmætum tíma sínum til að leita uppi ímyndað ofbeldi í Laugardalnum hefðu kunnað gömlu þjóðvísuna "Siggi var úti", hefði hugsanlega verið hægt að losna við þetta verkefni.
Miðað við breytta þjóðfélagshætti er þörf á að endurskoða textann og færa hann til nútíma horfs og miða við nýliðna atburði inni í miðri Reykjavík:
SIGGI VAR ÚTI II.
Siggi var úti að afloknu djammi.
Óp þá hann heyrði í nálægum skóg.
Smeykur og hrelldur og hræddur á þrammi
hringdi´hann á lögguna´og ört andann dró.
Agg, gagg, gagg, sagði tófan í garði.
Agg, gagg, gagg, - löggan kom fyrr en varði.
Allur á taugum í angist þar starði
aumingja Siggi og þorði ekki heim.
![]() |
Kvenmannsóp reyndust vera tófugagg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.4.2015 | 00:36
Hreinræktuð illmenni með trúna sem yfirskin.
Allt framferði hryðuverkasamtakanna Ríki Íslams, Boko Haram, Al-Qaida og brjálæðinganna í Mósambík ber vitni um hreinræktuð illmenni sem nota öfgafullar útlistanir á einstökum atriðum trúarbragða sem yfirskin til að veita dráps- og skemmdafýsn sinni útrás.
Athyglisverð var nýleg umfjöllun í fjölmiðlum um suma hinna vestrænu manna, sem gengið hafa til liðs við þessi samtök og þá aðferð, sem beitt var við þá til þess að fá þá til að taka þátt í morðum, limlestingum og pyntingum.
Sú aðferð miðaði að því að lokka þá markvisst og bítandi til þátttöku til illra verka á forsendum, sem eru almennur grunnur vígaferla og réttlæting á þeim: Við eigum í höggi við óvini og annað hvort drepa þeir okkur eða við drepum þá.
Það er aðeins um tvennt að velja: Að stunda drápin eða vera drepinn.
Með vaxandi samsekt í æ stærri glæpaverkum voru jafnt og þétt brotnar niður allar siðferðilegar varnir og hömlur gegn athæfinu.
Athyglisvert atriði kom fram fram í þessari umfjöllun um hina vestrænu liðsmenn varðandi það, að bakgrunnur fjölda þessara ungmenna var yfirleitt venjulegt vestrænt umhverfi í kristnum þjóðfélögum.
![]() |
Rústuðu fornri borg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
4.4.2015 | 21:34
Sama viðfangsefnið hér, í Svíþjóð og víðar.
Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld voru sýndar myndir af mótmælum landsbyggðarfólks í Svíþjóð vegna síminnkandi þjónustu og hraðasta fólksflótta í Evrópu úr dreifbýli í þéttbýli, að því er talið er.
Einkennin eru alls staðar þau sömu, fækkun banka, verslana og alls kyns stofnana og fyrirtækja á vegum einkaframtaks eða ríkis og sveitarfélaga.
Þegar stofnanir fyrir frumþarfir fólks á barneignaaldri eru vanræktar eða lagðar niður er vegið að undirstöðum byggðar.
Ástæðurnar fyrir hinni stórfelldu tilfærslu fólks frá dreifbýli til þéttbýlis og borga í heiminum hafa verið þær sömu í meira en hundrað ár, krafan um svonefnda hagræðingu í þágu hagvaxtar eða sem viðbrögð við efnahagsörðugleikum.
Fyrir 100 árum átti sér til dæmis stað stórfelld tilfærsla í fiskveiðum á Íslandi, þegar verstöðvar í tugatali á annesjum og útskerjum lögðust niður með tilkomu vélbáta og togara.
Þessi bylting var að vísu af hinu góða því að þau kjör sem menn urðu að una við í verbúðunum voru ekki mönnum bjóðandi.
En síðustu áratugi hefur staðið yfir stórkostleg tilfærsla á fiskveiðiheimildum til fárra og stórra útgerðarfyrirtækja á kostnað smærri fyrirtækja og dreifðra byggða.
Í Hruninu töldu menn sig tilneydda til að draga saman í þjónustu víða um land og hefur lítið af því gengið til baka eftir að efnahagurinn fór að rétta við.
Ástandið væri víða enn verra ef ekki komið til hin gríðarlegi vöxtur ferðaþjónustunnar sem hefur að hluta til, eðli málsins vegna, gagnast landsbyggðinni en hvergi nærri náð að snúa straumnum við.
Það er erfitt að finna ráð til að skapa betra jafnvægi í byggðinni þegar efnahagslegir kraftar eru jafn sterkir og raun ber vitni.
En í þeim efnum verður að huga betur að þeim þáttum í velferð fólks, sem ekki er hægt að setja sömu ísköldu verðmiðana á og á það, sem skapar unaðarstundir og upplifun og reikna dæmin út frá því, auk þess sem huga verður að þeim verðmætum, sem tapast þegar mannvirki eru skilin eftir mannlaus þegar byggðir fara í eyði eða hrakar hratt.
![]() |
Nauðsynlegt að hafa verslun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2015 | 16:14
"Skagfirska efnahagssvæðið", - "SES".
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, sér strax að það eru sérkennileg hlutföll að Skagafjörður fái 77% af störfum, sem tillögur eru um að flytja til Norðurlands vestra, en allir aðrir staðir aðeins 23%.
Hún áttar sig greinilega ekki á því að síðan upp úr síðustu aldamótum hafa einhverjar sterkustu rætur og uppspretta valda flokks forsætisráðherra og þar með núverandi ríkisstjórnar verið á Sauðárkróki.
Þau völd hafa farið vaxandi og styrkst svo mjög, að stundum er talað um þetta fyrirbæri banvænnar blöndu af peningum og stjórnmálum sem "Skagfirska EfnahagsSvæðið, skammstafað "SES", - á ensku "SEC", "the Skagafjörður Economic Connection", samanber nafn bíómyndarinnar góðu, The French Connection".
Þessi bíómynd var í tveimur hlutum, I og II, og Skagfirska efnahagssvæðið I var í mótun frá fram til 2008, en Skagfirska efnahagssvæðið II eftir Hrun.
.
![]() |
Óska eftir sömu vinnubrögðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)