Færsluflokkur: Bloggar

"Allt í lagi, - við verðum dauðir."

"Allt í lagi, - við verðum dauðir" er grunnstefið hjá þeim sem ráða ferðinni í orkumálum þeirra jarðarbúa, sem nú eru uppi. 

Þegar eitthvað kemur í ljós, sem muni hafa afdrifarík áhrif síðar meir, anda menn oft léttara ef afleiðingar gjörða okkar koma ekki fram fyrr en eftir nokkrar kynslóðir. 

Það sýnir eigingirni, hroka okkar og skammsýni þegar afleiðingarnar eru taldar léttvægari ef fjarlægari kynslóð verður fyrir þeim heldur en ef næsta eða þar næsta kynslóð þarf að fást við þær. 


mbl.is Tappinn að losna úr Suðurskautslandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heillandi risaverkefni.

Miðhálendið, hjarta landsins, er talsvert fjarlægari og stærri vettvangur óhjákvæmilegra átaka heldur en Gálgahraun var inni á höfuðborgarsvæðinu. 

Sem fyrr hafa stóriðjufíklar og áltrúarmenn yfirburði varðandi völd, aðstöðu og peninga. 

Og þeir nota vel þau tækifæri, sem þeim bjóðast, til að sýna þessa yfirburði í verki. 

Það var engin tilviljun að þeir fóru offari í Gálgahrauni þegar þeir beittu stærsta skriðdreka landsins auk 60 víkingarsveitarmanna vopnaða kylfum, handjárnum og gasbrúsum gegn friðsömu fólki sem sat þar og hreyfði hvorki legg né lið. 

Þær aðgerðir valdhafanna voru þó smámunir einir miðað við þær aðgerðir, sem íslenskir ráðamenn báðu NATO um að æfa á íslenska hálendinu 1999 með því að æfa það að beita stórvirkustu drápstólum öflugasta hernaðarbandalags heims, F-15 orrustu- og sprengjuþotum til að drepa íslenskt náttúruverndarfólk á hálendinu.

Það er því að sönnu risaverkefni að ráðast gegn þessu valdi með friðsamlegu andófi gegn stórfelldum umhverfis- og náttúruspjöllum sem einbeittur brotavilji gegn náttúru Íslands ætlar að knýja í gegn.

En í stað þess að glúpna fyrir valdinu og tólum þess á að líta á það sem heillandi verkefni, sem Steinar Kaldal, verksefnistjóri hálendisverkefnis náttúruverndarfólks, hefur tekið að sér að leiða.    


mbl.is Ráðinn verkefnisstjóri hálendisverkefnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reglurnar trufluðu eðlilegt fyrirbæri.

Umræðan um formannskosningarnar í Samfylkingunni hræra öllu saman í einn graut og það veldur því að sumir komast að þeirri niðurstöðu að það sé fullkomlega óeðlilegt og til vandræða fyrir stjórnmálaflokk ef einhverjir bjóða sig fram gegn sitjandi formanni. 

Þetta er einkennileg sýn á lýðræði og þann kost þess að laða fram bestu stefnuna og besta fólkið til að bera hana fram. 

Samfylkingin hefur verið með sérstöðu meðal stjórnmálaflokka varðandi það að láta alla stuðningsmenn sína hafa tækifæri til að taka þátt í vali á forystumanni. 

Í þetta skipti kom í ljós að samkvæmt reglunum var sá möguleiki fyrir hendi að framboð kæmi það seint fram, að einungis landsfundarfulltrúar gætu kosið, en það er nú samt sami háttur og hafður er á hjá til dæmis Sjálfstæðisflokknum, og enginn virðist sjá neitt athugavert við.

Nútíma tækni hlýtur að geta gert það mögulegt að allir flokksmenn geti kosið, hvar sem þeir eru staddir á landinu með skemmri fyrirvara en nú er. 

Verkefnið hlýtur að vera að finna lausn á því máli.

Allar þær vangaveltur og getsakir sem uppi hafa verið út af kosningunni nú hafa sýnt, að það voru fyrst og fremst kosningareglurnar og hugsanleg áhrif þeirra sem trufluðu það eðlilega, sjálfsagða og nauðsynlega fyrirbæri í lýðræði að laða fram bestu kraftana til þess að kynna, berjast fyrir og bera fram bestu fáanlegu stefnuna.

Og landsfundur á miðju kjörtímabili er kjörið tækifæri fyrir forystumenn hvers flokks til að á leiða fram traust á þeim til góðra verka. 

En það þarf að búa svo um hnúta að slíkt traust sé eins víðtækt og unnt er, til dæmis með því að búa svo um hnúta að allir stuðningsmenn viðkomandi flokks geti tekið þátt í vali forystumanna hans og þeim nauðsynlegu umræðum um þá og stefnu þeirra sem eru grundvöllur lýðræðis. 

Það hlýtur að tæknilega mögulegt á okkar tímum að færa slíkt val sem næst landsfundinum sjálfum. 


mbl.is Ekki deilt í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílíkt augnayndi !

Hvílíkt augnayndi var ekki El Clasico í kvöld á alla lund!

Madridingar voru að vísu rændir fallegu marki í fyrri hálfleik þegar þeir voru betri aðilinn, en Börsungar áttu svo mörg falleg tilþrif og færi í síðari hálfleik þegar þeir áttu mun meira í leikngum, að miðað við það að dómarinn er hluti af vellinum er ekkert við úrslitunum að segja. 


mbl.is Barcelona lagði Real og bætir í á toppnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúlli Karls sagði frá einum hinna "háttsettu".

Lúðvík heitinn Karlsson flugmaður var magnaðasti sagnamaður og spunameistari sem ég hef kynnst og ber öllum saman um það, sem þeirri snilld kynntust. 

Hann gat haldið partíum gangandi í stanslausum hlátri heilu næturnar með spuna sínum.

Lúðvík hafði tekið sér svo margt fyrir hendur víða um heim að auðvelt var fyrir hann að færa í stílinn.

Einn staðurinn, sem hann hafði sannanlega verið á, var Tenerife á Kanaríeyjum, en þangað fór hann í brúðkaupsferð.

Honum sagðist svo frá að þegar honum fór að leiðast einhæfni í "köfunum" í brúðkaupsferðinni, hefði hann farið á köfunarnámskeið, og af því að vitað var að hann hafði lært köfun, varð frásögnin sennilegri þess vegna.

Lúlli sagði að köfunarkennarinn hefði verið háttsettur eimbættismaður í Þýskalandi fram til ársins 1945, en á útmánuðum þá um veturinn í upphafi árs, hafi honum fundist veðrið í Þýskalandi svo leiðinlegt að hann hafi farið til Tenerife vegna þess að veðrið þar hefði verið skárra!

Köfunarsnillingurinn kenndi Lúlla að varast stórhættulega hákarla með því að kafarnir hefðu með sér sérstaka tegund af skeljum sem þeir settu í sérstakt hólf á búningum.

Ef þeir væru fyrir framan hákarl, sem opnaði kjaftinn til þess að gleypa þá, skyldu þeir taka skelina og henda henni inn í hákarlskjaftinn. Svona skelfiskur væri mesta hnossgæti hákarlanna og þeir létu sér nægja þetta hnossgæti.

Svo bætti Lúlli við og glotti: "Þetta bjargaði okkur oft, sem vorum með þessar skeljar tilbúnar. Hins vegar voru nokkrir menn af Gyðingaættum meðal nemenda, sem ekki nutu þessa, því að þýski köfunarmeistarinn sagði þeim aldrei frá því."   


mbl.is Fundu leynistað nasista í Argentínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnt að því að hækka orkuverðið.

"Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur verður lagður milli Íslands og Skotlands" sagði forstjóri Landsvirkjunar á fundi fyrirtækisins í hitteðfyrra. 

Á öðrum fundi giskaði hann á að slíkt myndi hækka orkuverð innanlands um marga tugi prósenta og fannst það eðlilegt, enda yrði annar ávinningur fyrir þjóðfélagið meiri að hans mati og heimilunum því ekki of gott að borga sinn hluta af kostnaðinum.  

Auk þessa hefur hann kynnt þá stefnu Landsvirkjunar að tvöfalda orkuframleiðsluna fyrir árið 2025 þar sem virkjanir á austurbakka Mývatns og á Leirhnjúks- Gjástykkissvæðinu verða að veruleika auk sóknarinnar inn á miðhálenidð.

Þessi stefna þýðir að framundan séu langmestu virkjanaframkvæmdir í sögu þjóðarinnar, að eftir aðeins áratug munum við framleiða tíu sinnum meiri raforku en við þurfum til eigin nota, og að af 5000 megavatta framleiðslu 2025 muni íslensk heimili fá um 3% til sinna þarfa.

Og sæstrengurinn gyllti muni síðan negla endanlega naglana í líkkistu mestu náttúruverðmæta Íslands.  

 


mbl.is Orkuverð lægst hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungt baráttufólk fyrir jafnrétti kynslóðanna.

Það er gleðilegt þegar öflugt ungt fólk tekur upp glæsilega baráttu fyrir réttindum óborinna kynslóða og baráttu gegn rányrkju. 

Hvort tveggja á við um olíuvinnslu á Drekasvæðinu og verndun íslenskra náttúruverðmæta. 

330 þúsund Íslendingar hafa ekki siðferðilegt leyfi til að hrifsa til sín af skammsýni og græði verðmæti eða eyðileggja verðmæti, sem varða milljónir manna, sem eiga eftir byggja þetta land. 

Síðan sóknin fyrir því að gera okkur að olíuþjóð hófst um síðustu aldamót hefur engin alvöru umræða farið fram hér á landi um það mál. 

Íslenskir ráðamenn í öllum flokkum hafa verið samhentir í því að reka þessa stefnu á þann hátt að hún væri að þeirra eigin mati svo sjálfsögð að ekki þyrfti að kanna málið á þann hátt sem svo stórt grundvallarmál á skilið. 

Síðastur í þeirri atburðarás var Steingrímur J. Sigfússon, sem fékk það samþykkt að heimila rannsóknir og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Á síðasta ári hélt Samfylkingin vandað og afar fróðlegt málþing um olíuvinnslumálið, setti síðan nefnd í að fylgja því eftir með frekari athugun, og í morgun var haldinn fundur um það á Hótel Sögu. 

Myndin sem blasti við eftir þetta brautryðjendastarf á þessu sviði var skýr. 

1.

Þetta er glapræði. Eins og nú háttar málum er og verður vinnslukostnaður olíu á Drekasvæðinu miklu hærri en heldur en söluhagnaður. Sádi-Arabar, sem eru og hafa verið stærstir í olíuframleiðslunni og slungnastir allra, virðast ætla að spila þannig úr spilum sínum með hliðsjón af ógnarhröðum framförum í nýtingu annarra orkugjafa, að þeir sitji ekki á endanum uppi með ónýtta olíu ef svo fer að aðrir orkugjafar taki við. Þeir hafa ekki tekið í mál að minnka framboðið á olíu til að hækka verðið.

2.

Þetta er umhverfislega rangt á sama tíma sem alþjóðleg viðleitni til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda birtist í alls kyns aðgerðum til að koma í veg fyrir útblásturinn. Það er einber hræsni að gapa um það hvar sem því verður við komið, að við séum í fararbroddi í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa á sama tíma og við erum með þá stefnu að leggja okkur fram um að lengja olíuöldina sem mest.

3.

Þetta heyrir undir jafnréttismál. Það felur í sér brot gegn jafnrétti kynslóðanna, að ein kynslóð telji sér það sæmandi að hrifsa til sín verðmæti frá þeirri kynslóð framtíðarinnar, sem hugsanlega þyrfti í hreinni neyð á þessari olíu að halda, verði hún á annað borð vinnanleg. (Yfirleitt endast olíulindir ekki nema 1-3 kynslóðir). 

Þótt við látum Drekann liggja, ef það má orða það svo, fer þessi olía ekki neitt ef við látum hana óhreyfða. Við eyðileggjum ekki neitt eða sóum neinu með því að láta hana liggja. 

Um þá hegðun okkar að hrifsa til okkar olíuna frá einhverri af framtíðar kynslóðum landsins, gildir það orðalag að við skirrumst ekki við að beita afkomendur okkar órétti, - en óréttur er orð sem einu sinni var í einu af megin kjörorðum Sjálfstæðisflokksins, - gjör rétt, þol ei órétt.

Væri betur ef það kjörorð yrði rifjað upp á ný og farið eftir því.

 

Um einn stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands gildir það, að um er að ræða náttúruverðmæti, sem fela í sér mestu verðmæti landsins ásamt mannauðnum.

Með því að vaða um þetta svæði með mannvirkjakraðaki, risaháspennulínum, upphleyptum hraðbrautum, stíflum og miðlunarlónum, sem fyllast upp af jökulauri, auk jarðvarmavirkjana með sínum stöðvarhúsum, skiljuhúsum og gufuleiðslum eru unnin óafturkræf spjöll sem ekki er hægt að bæta.

Verndunarnýting er hin vegar gerólík virkjananýtingu að því leyti, að verndun kemur ekki í veg fyrir að virkjað verði síðar, en virkjanir með óafturkræfum áhrifum koma í veg fyrir verndun síðar.     

 


mbl.is Tók stórt stökk inn í framtíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir tímar kalla á ný vinnubrögð.

Stjórnmál og stjórnmálamenn eiga í vaxandi mæli undir högg að sækjameðal kjósenda, sem verða æ tregari til að koma á kjörstað með hverjum kosningum. 

Píratar sækja sér fylgi úr ýmsum áttum. Það er ekki erfitt að verða afhuga núverandi stjórnarflokkum og stefnu þeirra við að færa fjármuni og völd til þeirra sem þegar hafa mest af slíku og standa ekki við kosningaloforð sín.

Píratar eru nú að verða kjósendum kunnari en áður og koma vel fyrir. Þeir höfða til yngri hluta kjósenda sem fulltrúar nýrra tíma fjarskiptabyltingar netsins og tölvanna og nýtingar þess til framfara í beinu lýðræði og á mörgum öðrum sviðum.

Þar að auki virðast þeir vera einarðastir í sambandi við aukið og bætt lýðræði og það að farið verði að vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Að minnsta kosti nefna þeir þau mál oftar en aðrir. 

Og nýir tímar kalla á ný viðbrögð og ný vinnubrögð og þá beinist athyglin að nýju fólki eins og Pírötum, sem leitast við að koma fram af hreinskiptni og einlægni og hefur hæfileika til að gera gagn.  

Hinir flokkarnir, sem eiga mikið mannval og mörg ágæt stefnumál, verða að taka mið af þessu og rífa sig á breyttum tímum út úr stöðnuðu fari stjórnmálanna sem hafa beðið endurtekið skipbrot síðustu árin, - þeir verða að taka sér ærlegt tak í stefnumálum sínum og vinnubrögðunum og aðferðunum sem hafa ríkt við að koma þeim fram. 

Tákn um það hve langt stjórnmálin eru komin niður, er til dæmis stórminnkandi traust almennings á Alþingi, og var þó ekki af miklu taka.     

 


mbl.is „Ákall um lýðræðisumbætur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumurinn um endurvakið veldi Sovétríkjanna.

Sagt er að Vladimir Putín hafi gengið hryggur út af einum af fundum leiðtoga Bandaríkjamanna og Rússa, þegar Sovétríkin liðuðust í sundur, og heitið því að gera allt sem hann gæti til að endurvekja fyrra veldi stórveldisins, sem staðið hafði allt frá keisaratímanum í gegnum Sovéttímann og endað með öðru af tveimur voldugustu risaveldum síðari hluta 20. aldar.

Eitt það hættulegasta sem hægt er að hugsa sér í alþjóða stjórnmálum er særður og smánaður risi, sem liggur sem lamaður og finnst hann hafa verið beittur órétti.

Þetta fannst Frökkum eftir niðurlæginguna 1870 og Þjóðverjum eftir hefnd Frakka og auðmýkinguna 1918-19.

Ef Pútín hefur enn í huga rúmlega 20 ára gamlan draum sinn er hægt að útskýra flest af því sem hann segir og gerir út frá því, til dæmis ummæli hans um að það komi til mála að beita kjarnorkuvopnum við aðstæður eins og voru þegar Krímskaginn var innlimaður og hætta var á hörðum afskiptum annarra þjóða.   


mbl.is Vill sameiginlegan gjaldmiðil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gult spjald þýðir að það má ekki koma annað gult.

Þegar öflugur knattspyrnumaður fær gult spjald í leik, er hann kominn í nýja aðstöðu í leiknum, því að þá má hann ekki fá annað gult spjald, - samkvæmt reglunum þýða tvö gul spjöld eitt rautt spjald. 

Eftir eitt gult spjald verður hann að vanda sig alveg sérstaklega.

Svipað er í körfuboltanum. Þegar menn hafa fengið á sig fimm villur jafngildir það rauðu spjaldi.  

Þetta viðurkennir Árni Páll Árnason eftir eitt óvenjulegasta formannskjör sögunnar í íslenskum flokki.

Honum er svo sannarlega vandi á höndum.  


mbl.is „Þarf að vanda mig í framhaldinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband