Færsluflokkur: Bloggar
20.3.2015 | 19:24
Gamli rúnturinn var stórbrotin félagsmiðstöð.
"Keyra rúntinn piltar sem eru´í stelpuleit..." orti Sigurður Þórarinsson þegar hann lýsti stemningunni í miðbæ Reykjavíkur um miðja síðustu öld í ljóði sínu "Vorkvöld í Reykjavík" undir sænsku lagi.
Þessi yndislega hringekja með hæfilegri blöndu af gangandi fólki og bílum var upp á sitt besta áður en bílarnir urðu of margir miðað við gangandi fólkið þegar leið á öldina.
Fyrir unga fólkið gegndi rúnturinn mikilvægu hlutverki við það að það kynntist og blandaði geði í aðdraganda þess að finna lífsförunaut, en til þess þurfti það að "sýna sig og sjá aðra."
Eftir að rúnturinn í Reykjavík fór að dala hélt rúnturinn á Akureyri velli.
Þar var hann að vísu eðlilega miklu styttri en rúnturinn í Reykjavík en virtist ekki missa afl sitt af einhverjum ástæðum.
Ég kynnti mér hann sérstaklega og gerði stutt sjónvarpsinnslag um hann, rúntinn á Akranesi og rúntinn í Reykjavík sem dró það vel fram hve mjög rúnturinn í höfuðborginni mátti muna fífil sinn fegri.
Einn tæknilegur munur var áberandi: Rúnturinn á Akureyri var með tvöfalda umferð þannig að ekið var í báðar áttir, - en í Reykjavík aðeins í eina átt.
Í bílunum í Reykjavík sá því enginn framan í aðra í bílunum, en á Akureyri margsinnis hvert kvöld, - allir vissu af öllum og formúlan "að sýna sig og sjá aðra" svínvirkaði.
Þegar best lét í Reykjavík var gangandi fólkið svo margt að þrátt fyrir ákveðinn skort á sambandi milli fólksins í bílunum, sáu allir í bílnum gangandi fólkið og allt gangandi sáu alla akandi; - rúnturinn var nokkurs konar risavaxin félagsmiðstöð fyrir bæjarbúa og sérstaklega fyrir unga fólkið.
Nú hefur ferðamannafjöldinn í Reykjavík og að hluta til á Akureyri yfirkeyrt og eytt megin sérkennum gamla rúntsins.
Það er eftirsjá af gamla rúntinum en tímarnir breytast og mennirnir með, og "enginn stöðvar tímans þunga nið."
![]() |
Á rúntinum í 16 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2015 | 11:42
Nokkur dæmi úr fortíðinni.
Saga jafnaðarmanna á Íslandi geymir nokkur dæmi um framboð á móti sitjandi formanni.
1952 bauð Hannibal Valdimarsson sig fram en Stefán Jóhann Stefánsson hafði þá verið formaður flokkins í 14 ár. Hannibal náði kjöri sem entist honum til setu í stólnum í tvö ár, en þá tók Haraldur Guðmundsson við formennsku.
1984 bauð sonur hans, Jón Baldvin Hannibalsson, sig fram gegn sitjandi formanni, Kjartani Jóhannssyni, og hafði betur.
1994 bauð Jóhanna Sigurðardóttir sig fram gegn Jóni Baldvini, en laut í lægra haldi og stofnaði Þjóðvaka í framhaldinu.
Í öll þessi skipti voru framboðin að mestu undir þeim formerkjum, að flokkurinn þyrfti að sækja í sig veðrið meðal kjósenda með breytingum á forystu hans.
Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála nú.
![]() |
Eigum ekki að hræðast breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.3.2015 | 10:15
1954 á toppnum hjá mér.
Það fer mikið eftir aðstæðum hversu áhrifamikið er að verða vitni að sólmyrkva, skýjafari, tíma dags, hvort jörð er hvít eða auð og hvort það er hásumar eða ekki.
Kosturinn við myrkvann núna var líka helsti ókostur hans, þ. e. hve bjart var meðan hann gekk yfir og rökkvunin því ekki eins mikil.
Þótt jörð sé að miklu leyti auð eru fjöll hvít og víða skaflar enn, og því var birtan svo mikil ef endurkasti himinbirtunnar, þautt dauf væeri þegar myrkvinn var mestur, að rökkvunin naut sín síður með því að fylgjast með henni með berum augum.
Því kom myrkvinn best út fyrir þá sem voru með dökk sólmyrkvagleraugu.
Af því að það er enn ekki komið sumar féll út það fyrirbæri, sem er eftirminnilegast af öllum í sólmyrkvunum 1954, 2003 og 2015, það hvernig fuglarnir þögnuðu og fóru að sofa.
Það var skýjað, þar sem ég upplifði myrkvann í sveit 1954 og þess vegna varð mun dimmara en ef það hefði verið heiður himinn, að ég nú ekki tali um hvíta jörð.
Eins og sjá mátti af myndum, sem ég tók af myrkvanum frá Ólafsfjarðarmúla 2003 og sýndar voru í fréttatíma Sjónvarpsins í gærkvöldi, var sólin það lágt á lofti, að myrkvinn kom furðu vel fram á myndum, þótt hann væri skilgreindur sem deilarmyrkvi frekar en almyrkvi.
Ef ég á að velja á milli þessara þriggja myrkva síðan 1954, lendir sá fyrst í fyrsta sæti sem upplifun.
Kannski er það vegna þess að hann var fyrstur og 13 ára aldur skilar afar sterkt minningum um eitthvað sem maður upplifir fyrst á ævinni, en það, hvernig náttúran lagðist til svefns í rökkri um hábjartan dag hafði mest áhrif og skilar þeim myrkva í efsta sætið hjá mér.
![]() |
Fylgstu með sólmyrkvanum í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2015 | 06:54
Verður hægt að fyrirgefa ömurlegan vetur? Já!
Ekki verður fjölyrt um það hvað flestum finnst veturinn í vetur hafa verið ömurlegur með sínum metlægðagangi og illviðrum.
En ekki þarf annað en að líta á kort yfir meðalloftþrýsting á jörðinni til að sjá að í janúar er dýpsta lægðin á jörðinni suðvestur af Íslandi og fyrir norðvestan landið næst hæsta hæð jarðar.
Sem þýðið einfaldlega mestu átök á milli hæðar og lægðar og mestu storma á jarðarkringlunni hvern meðal vetur.
Svona veðurlag ætti því að vera okkur Íslendingum hversdagslegt og gagnslaust að kvarta yfir því á meðan maður kýs að eiga hér heima.
En það er alger sólmyrkvi ekki, samanber það að í júlí verður liðið 61 ár frá síðasta myrkva.
Að horfa á sólmyrkva við bestu aðstæður er einfaldlega einstök og ómetanleg upplifun.
Og þegar þetta er skrifað, í dagrenningu, er ekki annað að sjá en að upp sé að renna annar af tveimur dögum síðustu fjóra mánuði með logni og heiðskíru veðri!
Eða eins og sagt var í gamni við fólk þegar það fór út úr húsi á slíkum degi fyrr í vikunni: "Passaðu þig að detta ekki ef þú ferð út, - það er logn".
Á okkar landi er getur það ekki flokkast nema undir einstaka heppni ef þorri þjóðarinnar getur horft á sólmyrkva við bestu veðurfræðilegu aðstæður meðan enn telst vera vetur á almanakinu.
Verður þá ekki hægt að fyrirgefa ömurlegan vetur? Jú, að hlýtur að vera. Hvílík dýrð, hvílík dásemd!
![]() |
Sólmyrkvinn sýndur í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2015 | 19:53
"Bara vandamál - engar lausnir !" ?
"...guðaveigar lífga sálaryl..." og "Látum því, vinir, vínið andann hressa..." orti "listaskáldið góða" sem sjálft var augljóslega áfengissjúklingur sem lést um langt um aldur fram af völdum slyss, sem langlíklegast var vegna drykkju.
Og ekki skorti þunglyndið hjá skáldinu sem hældi bölvaldi sínum í hástert á góðum stundum, sem urðu æ færri á síðustu árum hans.
Sjá mátti á netmiðlum um daginn hneykslast yfir því að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining leituðu eftir aðferð við að finna erfðamengið, sem ber áfengissýkina á milli kynslóða og talað í lítilsvirðandi tóni um það.
En Kári Stefánsson er ekki maðurinn, sem fann það upp að áfengisssýki væri arfgeng, - það hefur legið lengi fyrir.
Liza Minelli og Judy Garland eru meðal milljónum dæma um það.
Í auglýsingu um Toyota les Egill Ólafsson á sinn sérstaka hátt kjörorðið:
"Engin vandamál, - bara lausnir!"
Fyrir þá sem trúa á ljóðlínurnar "...guðaveigar lífga sálaryl..." og "Látum því vinir vínið andann hressa".. sem allsherjar og óbrigðula lækningu við deyfð og doða mætti vel lesa kjörorð sem byggist á reynslunni af slíku:
"Bara vandamál - engar lausnir."
![]() |
Liza Minnelli í meðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2015 | 12:44
Vaxandi óánægja.
Nú sýnist vera á enda það tímabil, sem stórlækkun eldsneytis hefur valdið því að nokkur stöðugleiki hefur ríkt í íslenska hagkerfinu með lítilli verðbólgu.
Framundan eru róstur í kjaramálum, sem munu, auk nokkurrar verðhækkunar á eldsneyti, knýja af stað verðbólgu sem mun gera smám samam útaf við kjarabót skuldaleiðréttingarinnar sem hluti kjósenda fékk af almanna fé, sem almennningur sjálfur mun borga á endanum á meðan ekki kemur inn ein einasta króna af stærsta kosningaloforðinu 2013 um 3-400 milljarða frá "hrægömmum og vogunarsjóðum."
Meðan svona er og þegar viðbætist óþarfa frumhlaup utanríkisráðherra Framsóknarflokksins um að fara fram hjá þinginu með bréfi til ESB, sem ekki einu sinni talsmenn stjórnarinnar eru sammála um hvaða merkingu hafi, er ekki að furða að fylgi stjórnarflokkanna samanlagt sé komið niður í þriðjung kjósenda en fylgi stjórnarandstöðuflokkanna samtals tvöfalt meira.
Engan þarf að undra að fylgi Pírata geri þá að stærsta stjórnmálaaflinu og langstærsta stjórnarandstöðuflokknum.
Í gangi er svipað fyrirbæri og skóp stórsigur Besta flokksins í byggðakosningunum 2010, og miðað við dökkandi útlit um horfurnar framundan er hugsanlega ekki séð fyrir endann á góðu gengi Pírata.
![]() |
Píratar stærstir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.3.2015 | 07:33
Alþingi er í fjötrum sjálfs sín.
Á Alþingi Íslendinga er aðeins einn stöðugur og þverpólitískur meirihluti: Síðan 1959 eru þetta þeir þingmenn sem eru í svonefndum "öruggum sætum" í kosningum og geta setið rólegir með bjórdósina sína á kosninganótt fullvissir um það að á einhverju kjördæmisþingi eða í prófkjöri með öllum sínum göllum var frá því gengið að þeir kæmust örugglega á þing, og um það breyttu sjálfar kosningarnar engu.
Í fyrri kosningunum 1959 féll forsætisráðherrannn Emil Jónsson í kosningum í kjördæmi sínu í Hafnarfirð og í Austur-Húnavatnssýslu féll forseti Sameinaðs Alþingis, nokkuð, sem hefur verið óhugsandi síðan.
Þessi þverpólitíski meirihluti þingsins hefur verið ómeðvituð undirrót þess að ekki eru komin í gildi lög sem tryggja að í kjörklefanum sjálfum ráði kjósendur því um alla frambjóðendur, en ekki bara þá sem eru í "öruggum sætum", hvort þeir eru kjörnir eða ekki.
Meðan engu fæst haggað um þessa undirrót og fleiri ástæður fyrir vantrausti almennings á Alþingi verður þingið í fjötrum sjálfs sín.
![]() |
Þingmaður lét falla hér óviðeigandi orð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2015 | 21:36
Hvenær hafa menn umboð og hvenær ekki ?
Heyra má upphrópanir sumra nú þess efnis að ríkisstjórnin 2009 hafi ekki haft umboð til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Samt lá þar að baki þingsályktun eins og sækjast ber eftir í þingræðisríki, og ekkert annarra tuttugu ríkja, sem hafa sótt um aðild, lét fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um að "kíkja í pakkann" heldur nýtti sér þingmeirihluta sinn til þess að fara í þá vegferð með því skilyrði að þjóðin sjálf réði því í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort samningurinn yrði samþykktur eða honum hafnað.
Flokkarnir sem stóðu að sumum af umsóknum þessara landa voru meira eða minna klofnir í afstöðunni til ESB og einnig stjórnarandstöðuflokkarnir, rétt eins og hér.
En samt varð það niðurstaðan í þessum löndum að athuga, hvað gæti komið út úr aðildarviðræðum, með því fyrirfram skilyrði að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um hugsanlegan samning.
Norðmenn felldu slíkan samning tvívegis.
Engu að síður hefði það kannski orðið betra 2009 að láta þjóðina ráða því sjálfa beint, hvort hún vildi "kíkja í pakkann" að því tilskyldu að hún ákvæði síðan endanlega um úrslit málsins.
En þáverandi ríkisstjórn var vorkunn úr því að engin annarra umsóknarþjóða hafði gengið lengra en það að þjóðin réði örugglega beint úrslitum um örlög samningsins.
Þeir sem hrópa um umboðslausa umsókn 2009 mega hins vegar yfirleitt ekki heyra minnst á þjóðaratkvæðagreiðslur, og finnst í góðu lagi að ákvarðanir núverandi ríkisstjórnar fari ekki einu sinni í umsögn og umræður á þingi.
Og formenn utanríkisnefndar og forseti Alþingis meta málið þannig, að ekki þurfi að leita álits þingsins því að í raun hafi ekkert breyst í málinu og þess vegna þurfi þingið ekki að skipta sér af því!
Þegar síðan talsmenn ESB ætla að segja pass, og meta málið líkt því sem talsmenn stjórnarflokkanna í utanríkisnefnd og í forsæti þingsins gera hér heima, eiga sömu menn varla orð yfir yfirgang ESB!
Það er erfitt að skilja hvers vegna ekki var einfaldlega hægt að láta málið dankast og falla á tíma í þinginu eins og í fyrra og sjá til hvort það gæti bara ekki legið svona til næstu kosninga, svo að ekki þyrfti að koma til sífelldra upphlaupa út af því.
![]() |
Ísland enn á lista yfir umsóknarríki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.3.2015 | 14:17
Það ríkti líka mikil bjartsýni árið 2007.
Íslendingar fóru með himinskautum í velgengni 2007 og stjórnarflokkarnir auglýstu fyrir kosningarnar undir slagorðunum "traust efnahagsstjórn" og "áfram árangur, - ekkert stopp!"
Það voru talin merki um "íslenska efnahagsundrið" að útlendingar skófluðu inn fjármunum í landið til að nýta sér háa vexti og hátt gengi krónunnar, sem þótti mikið hraustleikamerki.
Þegar einstaka raddir vöruðu við því fyrirbæri, sem seinna hlaut heitið "snjóhengjan" og spáðu óhjákvæmilegu gengisfalli allt of hátt metinnar krónu, voru þeir úthrópaðir sem "úrtölumenn" og "öfundarmenn."
Nú hangir snjóhengjan enn yfir okkur átta árum síðar og framundan er vor, þar sem allt verður á öðrum endanum í kjaramálum og hugsanlega að bresta á verðbólga sem mun eyða ávinningi skuldaleiðréttingarinnar sem raunar var fengin með því að millifæra fé frá sameiginlegum sjóði landsmannan yfir á hluta landsmanna.
Það sem gerir láglaunastéttirnar reiðar er hvernig topparnir og forstjórarnir færðu sjálfum sér á silfurfati stórhækkaðar tekjur áður en blekið hafði þornað af kjarasamningunum og að í aðgerðunum vegna "forsendubrests" var hann ekki talinn gilda varðandi leigjendur og ýmsa aðra láglaunahópa.
Fyrir síðustu kosningar var talað um 3-400 milljarða krónur í beinhörðum peningum, sem teknir yrðu af "hrægömmum" og "vogunarsjóðum" og færðir kjósendum.
Alveg gleymdist að geta þess að stór hluti af þessum "hrægömmum" og "vogunarsjóðum" voru venjulegt fólk og sjóðir þeirra.
Nú eru liðin tvö ár síðan stóru kosningaloforðin voru gefin og ekkert bólar enn á kosningagjöfunum.
Líklega verða aðvörunarorð Lilju Mósesdóttur afgreidd sem "úrtölur" rétt eins og svipuð orð 2007.
![]() |
Hægt að afnema höftin hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
18.3.2015 | 11:15
Skárra er seint heldur en aldrei og ekkert?
Það er ekki nýtt að tekið hafi verið tillit til umhverfissjónarmiða og menningarlegra sjónarmiða í vegagerð á Íslandi, svo sem varðandi álfasteina og álfhóla,en hins vegar ekki algengt heldur.
Ef ég man rétt tók Vegagerðin tillit til sagna um álfabyggð þegar nýr vegur var lagður um Hegranes fyrir nokkrum áratugum, og var vegarstæðið lagað eftir því.
Í hitteðfyrra var haldið málþing um nýja háskólaritgerð um það, hvernig stofnanir brygðust við mati og ábendingum Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum framkvæmda.
Miðað við deilur og umræður um framkvæmdir orkufyrirtækja hefði mátt ætla að þau væru erfiðust í þessum efnum.
En útkoman var hins vegar sú að Vegagerðin hefði staðið sig verst allra og skipulega hunsað og vanvirt niðurstöður Skipulagsstofnunar og niðurstöður mats á umhverfisáhrifum og sýnt mesta viðleitni allra til að fara sínu fram.
Hver skyldi orsökin vera? Hugsanlega sú að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og Vegagerðin á sér miklu lengri forsögu og fleiri verkefni að baki en aðrir, þar sem áratugum saman var hægt að fara sínu fram.
Hugsanlega hefur hana dagað uppi í hinu gamla umhverfi, þegar engin Skipulagsstofnun eða mat á umhverfisáhrifum voru til það halda í hemilinn á henni.
Málinu, sem varðar lagningu Álftanesvegarins um Gálgahraun, er hvergi nærri lokið og á eftir að standa að minnsta kosti í einhver ár enn. Og vekja athygli margra vegna eðlis síns og málsatvika.
Málið allt reyndist við nána skoðun vera miklu verra en mann hafði órað fyrir, og meðal annars gefnar upp alrangar forsendur fyrir vegalagningunni um óbærilegan umferðarþunga og slysahættu.
Höfuðábyrgðina á því ber að sjálfsögðu bæjarstjórnarmeirihlutinn í Garðabæ, en Vegagerðin ber sína ábyrgð af því hvernig haldið var á málum, því að ekki var að sjá að hún gerði neitt til að halda aftur af valdhöfunum.
Þetta mál er slæm fortíð, sem ekki verður breytt héðan af, en er hins vegar hægt að læra af. Og nú ber svo við að sýnd er viðleitni til að reyna að bæta að örlitlum hluta óbætanlegt umhverfistjón og á ekki að vanþakka það út af fyrir sig. Skárra er seint heldur aldrei og ekkert.
Sumir kunna að gera lítið úr álfasögum og álfatrú en gæta þess þá ekki að um er að ræða sambland af náttúruvernd og menningarsögu.
Sem dæmi má nefna Tungustapa í Dölum og þjóðsöguna dramatísku um álfakirkjuna í stapanum, þar sem dyr stapakirkju álfanna stóðu gegnt dyrum kirkju mannanna, og þegar prestarnir í þeim stóðu gegnt hvor öðrum fyrir altari og horfuðust í augu í gegnum opnar dyrnar, hné annar þeirra örendur niður.
Tengt því er ljóðið um Kirkjuhvol sem Stefán Íslandi söng svo meistaralega vel. Eða var það Einar Kristjánsson? Man það ekki vel, kannski báðir, en það skiptir ekki máli, heldur þjóðmenningin sem birtist í þjóðsögunni, ljóðinu, laginu og flutningi þess.
Það að ryðja burtu Tungustapa af einhverri "brýnni nauðsyn" yrði ekki vel séð.
Enginn skyldi vanvirða helgi og gildi mannshugans og verðmæti unaðsstundanna. Dæmi um slíkt er það fyrirbæri, þegar þúsundir erlendra ferðamanna fóru sérstaklega niður í Norðurmýri í Íslandsferðum sínum til þess að sjá umhverfi atburðanna í skáldsögunni "Mýrinni" eftir Arnald Indriðason, umhverfi atburða, sem voru aðeins hugarfóstur eins Íslendings.
En gersemi í menningarsögu okkar og eftirminnileg og dýræt upplifun lesendanna.
![]() |
Hífa stóran stein úr Garðahrauni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)