Færsluflokkur: Bloggar

Nú reynir á.

Gott var að sjá íslenskt lið með "nýja kennitölu" inni á vellinum í dag á móti Egyptum svo notað sé orðalag fyrirliðans eftir sneypuleikinn í gær. Síðari hluti kennitölu Guðjóns Vals var 1314 í dag, það er 13 mörk úr 14 skottilraunum. 

Sagt var að lykilmenn vantaði í egypska liðið en það vantaði líka lykilmanninn Aron Pálmarsson í íslenska liðið. Á tímabili var hann með hæstu samanlagða tölu skoraðra marka og stoðsendinga allra leikmannanna á HM. Sannkallaður afburðamaður.

En aðrir leikmenn risu bókstaflega upp í hinum mikilvæga leik í dag á sama og fyrrum handboltastórveldið Rússland var rassskellt og lenti langt á eftir efstu fjórum liðunum í sínum riðli.

En nú reynir á íslenska liðið fyrir alvöru. Nú má ekki tapa einum einasta leik hér eftir og heldur ekki treysta á það að lykilmenn vanti í lið andstæðinganna.

Íslenska liðið hefur nú, sem oftar, farið nokkurn veginn erfiðustu leiðina sem fannst til að koma sér áfram og því er afar mikilvægt að ekki sé búið að sóa öllu púðrinu og úthaldinu á hinni erfiðu leið.  


mbl.is Ísland í 16-liða úrslit á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæminu um Austurbæjarbíó verði fylgt.

Nasa, áður Sigtún og Sjálfstæðishúsið, er ekki eina samkomuhúsið í Reykjavík, sem til hefur staðið að umturna eða rífa. Svipað átti sér stað varðandi Austurbæjarbíó fyrir tæpum áratug. 

Þegar það mál kom upp datt út úr mér í útvarpsviðtali, að undarleg væri sú sjálfseyðingarhvöt í menningar- og minjamálum, sem réði í þessum efnum og strax í kjölfarið fylgdi umræða, þar sem meðal annarra Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi, beitti sér afefli.

Svo fór að hætt var við áform verktaka um miklar framkvæmdir á lóðinni í stíl fyrirhrunsáranna, sem augsjáanlega kostuðu stórfellda ofnýtingu svæðisins, og húsið hefur fengið að vera í friði síðan og komið að notum sem leikhús og samkomuhús.

Vonandi tekst að finna svipað hlutverk fyrir gamla Sjálfstæðishúsið svo að notað sé hið upprunalega heiti hússins. 

Listinn yfir menningarhús í Reykjavík, sem hafa verið rifin, er þegar orðinn langur. Má þar nefna hús eins og Báruna, Fjalaköttinn, Gúttó, Tripolibíó, Hafnarbíó, Hálogaland, Skátaheimilið við Snorrabraut, og Stjörnubíó. Alls átta hús. 

Nú er ekki með þessu sagt að öll þessi hús hefðu átt að standa, en betra hefði verið að fyrirfram hefði verið ákveðið að varðveita til dæmis Fjalaköttinn, fyrsta bíóhús Norðurlanda, og eitt braggabíó.

Íþróttahús MR var í hættu á tímabili sem og Gamla bíó, sem er að ganga í endurnýjun lífdaga sem betur fer.  

  


mbl.is Margir hafa sýnt Nasa áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Urðu ekki Heródes og Pílatus vinir ?

Sagan sýnir að í utanríkispólitík þjóða gilda oft grimmari lögmál en í viðskiptum einstaklinga. Gamla orðtakið að á aftökudegi Krists hafi þeir Pílatus og Heródes orðið vinir hefur margsannast. 

Það hefur árum saman verið á kreiki orðrómur um furðulega samvinnu og næstum því vináttu á milli Gaddafis og breskra ráðamanna, og má það furðu gegna í margra augum, sem muna hryðjverkið sem sprengdi farþegaþotu upp yfir bænum Lockerby í Bretlandi. 

Nú virðast vera að koma fram gögn um að þessi samvinna hafi verið jafnvel meiri en menn grunaði.

Ástæðan er hugsanlega tengd olíuhagsmunum eins og sagan sýnir að ráðið hefur meira en flest annað í viðskiptum og samskiptum þjóða á olíuöld.

Ein af ástæðunum að Ronald Reagan felldi Jimmy Carter af forsetastóli var misheppnuð tilraun til að frelsa gísla sem rænt var í bandaríska sendiráðinu í Teheran 1979.

Ýmis gögn voru dregin fram síðar sem bentu til þess að klerkarnir í Íran hefðu viljað stuðla að valdatöku Reagans með því að draga afhendingu gíslanna þar til að eftir að hann var kosinn.

Heimurinn stóð á öndinni þegar Stalín og Hitler gerðu með sér griðasamning 23. ágúst 1939, en þó voru, ef grannt var skoðað, ákveðin "Machiavellisk"rök fyrir því, vegna þess að báðir högnuðust á því, þótt yfirlýst markmið beggja hefðu fram að því verið þau að knésetja hvorir aðra.

Á sama hátt þótti sumum, sem gátu vitnað í hinar hatrömmustu fjandskaparorð Winstons Churchills í garð Stalíns og kommúnistanna í Kreml, með ólíkindum hvernig hann gæti sama daginn og Hitler réðist á Sovétríkin, svarist í órofa fóstbræðralag með Stalín og hans hyski.

En Churchill svaraði með því að segja að svo mikið væri í húfi að kveða niður villimennsku nasista, að ef á þyrfti að halda myndi allt eins gera bandalag við kölska sjálfan á móti Hitler og ekki eiga í vandræðum með að segja nokkur vinsamleg orð um kölska í Neðri málstofunni ef á þyrfti að halda. 

Í fyrri heimsstyrjöldinni áttu vopnaframleiðendur í viðskiptum yfir víglínuna til þess að græða á stríðinu og í Seinni heimsstyrjöldinni komst GM upp með það að láta Þjóðverjum hergögn í té allt fram til ársins 1943, enda hafði Henry Ford ekki verið feiminn við svipuð viðskipti við bæði Rússa og Þjóðverja allt fram til 1941. 

Nú síðast hefur myndast bandalag á milli fyrrum fjandmanna í Miðausturlöndum gegn ISIS-samtökunum og skondið er að heyra við upptöku stjórnmálasambands við Kúbu kröfur Kana á hendur Kúbumönnum vegna mannréttindabrota þar í landi á sama tíma sem vestrænar þjóðir blaka ekki við mannréttindabrotamönnum í olíuríkjunum við Persaflóa. 


mbl.is Blair lagði lag sitt við Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlileg ráðstöfun vildarpunkta.

Það er óeðlilegt að einstakir starfsmenn hjá hinu opinbera fái persónulega til sín vildarpunktana hjá Icelandair fyrir flugmiða sem ríkið borgar fyrir ferðir þeirra á sínum vegum.

Slíkt fyrirkomulag getur virkað eins og persónulegur hvati fyrir þá sem vinna hjá opinberum fyrirtækjum til þess að fljúga sem mest með Icelandair á opinberan kostnað og uppskera jafnvel ókeypis flugfargjöld fyrir sjálfa sig síðar meir þegar þeir nýta þá í einkaerindum. 

Það má furðu gegna hve lengi þetta fyrirkomulag hefur verið í gildi án þess að nokkuð hafi verið hróflað við því. 

 


mbl.is Gæti sparað hundruð milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt og varanlegt afbrigði af handboltafrægð Íslands?

Silfurverðlaun Íslendinga á Ólympíuleikum vakti athygli og undrun á því hvernig örþjóð getur komist svo langt í hópíþrótt þar sem tefla þarf fram á annan tug leikmanna í hæsta gæðaflokki.

Nú blæs ekki byrlega hjá íslenska landsliðinu en þá kemur upp alveg ný staða á HM, sem sé sú að fjórir af landsliðsþjálfurunum á mótinu eru íslenskir og að þrír þeirra geti fylgt liðum sínum áfram upp í úrslitakeppnina.

Raunar voru þrír af fjórum landsliðsþjálfurum einn keppnisdaginn við stjórn sinna liða á sama tíma.

Tveir þjálfaranna hafa tekið við að frægum þjálfurum hjá tveimur af helstu handboltaþjóðunum, Þýskalandi og Danmörku, og það eitt að stýra liði stórveldis á öllum sviðum segir mikið um getu og álit Dags Sigurðssonar.  

 


mbl.is Sjálfstraustið geislar af Degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilahristingur er ekkert grín.

Í áhugamannahnefaleikum er gert það skilyrði að leikmaður, sem er rotaður í keppni (sem er sjaldgæft vegna höfuðhlífa) megi ekki keppa aftur næstu þrjá mánuði og þurfi á að undirgangast nákvæma læknisrannsókn. 

Kinnbeinsbrot og andlitsmeiðsli Arons Pálmasonar rúmum mánuði fyrir HM hlutust af þungu höfuðhöggi, og ef til vill hafa beinbrotið og sjáanleg meiðsli dregið athyglina frá innri afleiðingum höggsins.

Í handbolta verða menn fyrir hörðum pústrum í hverjum leik og ef til vill var Aron veikur fyrir og þess vegna orðinn dasaður áður en stóra höggið kom í Tékkaleiknum. 

Hvað sem því líður er hart við það að búa að Íslendingar séu hvergi í meiri hættu en í miðborg Reykjavíkur.   


mbl.is Aron spilar ekki gegn Egyptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versti virkjanakostur landsins enn á dagskrá !

Skömmu áður en Alþingi samþykkti að ráðast í Kárahnjúkavirkjun lá fyrir sú bráðabirgðaniðurstaða í Rammaáætlun að tveir virkjanakostir á Íslandi hefðu mestu mögulegu óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif, annars vegar Kárahnjúkavirkjun og hins vegar virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Séð var til þess að þetta mat kæmist ekki í hámæli fyrr en síðar á árinu 2003 þegar Alþingi var búið að afgreiða málið.

Nú hefði maður haldið að þegar meira en hundrað virkjanakostir væru komnir á blað í allt, myndu menn láta það vera að ætla að fara út í þann ónotaða virkjanakost, sem nú er sá versti sem mögulegur er. 

Ónei. Nú er virkjun Jökulsár á Fjöllum og færsla hennar alla leið yfir í Fljótsdal sett á dagskrá eins og ekkert sé sjálfsagðara en að sökkva stórum hluta hinnar frábæru leiðar frá Möðrudal inn í Kverkfjöll og eyðileggja ásýnd og upplifun Vatnajökulsþjóðgarðs, þurrka Dettifoss upp lungann úr árinu og ljúga því að ferðamönnum á sumrin að leifarnar af honum sem fá að renna síðsumars, sé aflmesti foss Evrópu. 

Á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum einu og sér er magnaðasta og langfjölbreyttasta eldfjallasvæði heims, með tíu tegundum af helstu fyrirbærum eldfjallasvæða, en við samburð við tíu helstu önnur eldfjallasvæði heims kemst ekkert þeirra nema að vera rétt hálfdrættingar.

Ég vísa að öðru leyti í bloggpistil frá í fyrradag með nánari útlistun á sérstöðu Íslands, en á sama tíma og öðrum þjóðum dettur ekki í hug að svo mikið sem athuga virkjanir í þjóðgörðum sínum, eru hérlend valdaöfl á fullu við að bollaleggja hernað gegn einu af helstu náttúruundrum veraldar.  

Síðustu tveir dagar hafa verið sem martröð fyrir náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk. 

Hafið er leifturstríð í hernaðinum gegn landinu á breiðustu víglínu, sem hægt er að skapa, bæði með takamarkalausu virkjanakappi hjá Orkustofnun og daginn eftir að ráðast til atlögu á dæmalausan hátt í boði meirihluta atvinnumálanefndar á víðernin við jaðar bæði Langjökuls og Vatnajökuls og fara fram hjá rammaáætlun og umhverfisráðherra.

Skrokkölduvirkjun þýðir einfaldlega 70 kílómetra framrás háspennulínu og upphleyptrar hraðbrautar inn að miðju hálendisins auk annarra virkjanamannvirkja svo sem stöðvarhúss, stíflu, miðlunarlóns og veituskurðar.

Í fyrra lýsti forstjóri Landsvirkjunar því yfir að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur yrði lagður milli Íslands og Skotlands. 

Þegar strengurinn verður kominn mun hernaðurinn gegn landinu verða hertur enn frekar en nú og engu eirt í taumlausri skammtímagræðgi fyrr en gengið hefur verið milli bols og höfuðs á náttúru Íslands.

 

 

 


mbl.is Fordæmir tillögu Orkustofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munaði 10 vörðum skotum í fyrri hálfleik.

Fyrri hálfleikur í leik Íslands og Tékklands í dag verður líklega í minnum hafður að endemum. 

Fyrsta þriðjung hans skoruðu Tékkar mark á hverri mínútu og hefðu með sama áframhaldi skorað 60 mörk í leiknum! 

Í hálfleik hafði tékkneski markvörðurinn varið 17 skot ef ég man rétt en hinum megin á vellinum var samsvarandi tala 10 mörkum lægri. Sá Tékkneski var þegar í fyrri hálfleik með svipaðar tölur í vörðum skotum og samanlagt í öllum leikjum liðsins fram að því! 

Ísland virðist nú vera orðinn óskaandstæðingur markvarðanna á mótinu, því að þeir eru menn leiksins í hvert sinn. 

Það þýðir ekki einungis að þetta séu góður markverðir heldur hitt að þeir fá auðveldari skot að verja en í öðrum leikjum. 

Það hefur löngum loðað við íslenska landsliðið á stórmótum að þurfa endilega að fara erfiðustu leiðina til að komast áfram. 

En sjaldan hefur sú leið orðið eins erfið og nú og í þetta sinn getur komið sér illa að hafa ekki krækt sér í bæði stigin í leiknum gegn heims- og Evrópumeisturum Frakka fyrir tveimur dögum, þar sem engu var líkara en að það væri allt annað lið inni á vellinum en nú. 

Þetta minnir á það þegar Íslendingar, alveg með óþekkt lið, unnu sjálft silfurlið Svía á HM 1964 með því að nýta sér "leynivopnið" Ingólf Óskarsson, en tapa síðan óvænt næst á eftir fyrir Ungverjum. 


mbl.is Risatap gegn Tékkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...stykki´ er margir fíla..."

Flík í snjónum stakk í stúf, - 

það stykki´er margir fíla, 

því brjóstahöldin létt og ljúf

losa fleira´en bíla. 


mbl.is Brjóstahald til að losa flóttabíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í fyrsta sinn að fjárútlát eru "falin" hjá Gæslunni.

Á yfirborðinu ríkir sú stefna stjórnvalda að fjölga opinberum störfum úti á landsbyggðinni. En í raun ríkir stjórnleysi þar sem vinstri höndin tekur meira til sín en sú hægri gefur af því að yfirsýnin skortir og þessi sömu stjórnvöld eru búin er að losa svo um tökin á opinberum rekstri með stofnun opinberra hlutafélaga að ekki ræðst neitt við neitt.

Ráðist er með offorsi í vanhugsaðar fljótræðisaðgerðir á borð við flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar sem bitna á tugum starfsfólks með stórfelldri röskun á stöðu og högum þess auk þess sem viðkomandi stofnun er lömuð árum saman eftir flutninginn, samanber flutning Landmælinga Íslands upp á Akranes á sínum tíma, sem lamaði reksturinn í fimm ár.

Á sama tíma er það látið afskiptalaust hvernig störf eru lögð niður úti á landi og þau flutt til Reykjavíkur oft með hókus pókus aðferðum.

Þegar litið er á kort yfir flugvelli á Íslandi sést glögglega að þeim er þannig raðað niður að Akureyrarflugvöllur liggur mun betur við þessu neti vallanna til flugmælinga en Reykjavík.

Auk þess hefði maður haldið að útboð væru besta leiðin til þess að laða fram sem besta hagkvæmni.

En hér gildir hins vegar fyrirbæri sem maður kynntist vel hjá opinberri stofnnun í gamla daga, að öllu skipti stundum í huga yfirmanna úr hvaða "skúffu" fjármunirnir komu en ekki hvað verkefnið kostaði.

"Hesturinn ber ekki það sem ég ber" sagði karlinn, þegar hann sat á hestinum með poka á baki sér í stað þess að reiða hann fyrir framan sig á baki hestsins.

Í því tilfelli hér um árið, sem ég vitna til, taldi yfirmaður minn nauðsynlegt að gera sjónvarpsþátt sem kostaði ekki krónu! Þetta væri nauðsynlegt til að sýna fram á hvað hans deild, FFD, væri miklu betur rekin en "hin deildin", LSD, Lista- og skemmtideild.

Það gerði hann þannig, að þátturinn fjallaði um vitavörðinn á Hornbjargsvita og yrði á dagskrá sama kvöld og hneykslanlega rándýr mynd á vegum LSD um Lénharð fógeta !

Hann fól mér að gera þáttinn af því að mín laun voru færð sem laun íþróttafréttaritara! 

Jú, farið var fljúgandi til Ísafjarðar á FRÚnni til þess að finna með erfiðismunum eitthvað smá íþróttatengt efni til að fjalla um og myndi kostnaður við þetta flug skrifast á íþróttir í Sjónvarpinu. Á Ísafirði færum við með varðskipi til Hornbjargsvita og síðan aftur með varðskipi til baka til Ísafjarðar og þaðan beint til Reykjavíkur á kostnað íþróttaumfjöllunar í sjónvarpi.

Í sjónvarpinu yrði þátturinn unninn á vinnutíma íþróttafréttamannsins og kostnaðurinn falinn í þeirri "skúffu" og öðrum skúffum Sjónvarpsins, svo sem hjá framköllunardeildinni og víðar! 

Þátturinn um vitavörðinn á Hornbjargsvita myndi ekki kosta eina einustu krónu!

Höfuðatriði væri að ekki færi króna í mat eða gistingu.

En minnstu munaði að öll fléttan félli á fjórum kjúklingjum frá Aski, sem ég neyddist til að kaupa fyrir ferðina, af því að últra hægri sinnaður kvikmyndatökumaðurinn neitaði á síðustu stundu að láta yfirlýstan kommúnista á Hornbjargsvita brasa ofan í sig á meðan við dveldumst þar ókeypis ! 

Þetta sýnir að Landhelgisgæslan er ekki í fyrsta sinn notuð til þess að fela hinn raunverulega kostnað við fjárútlát, fjárútlát sem fyrir bragðið verða jafnvel meiri en ella hefði orðið. Og skattgreiðendur um allt land borga. 

 


mbl.is Störf flutt frá Akureyri til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband