Færsluflokkur: Bloggar

Alvöru áhættugerningur.

Það er athyglisverð tilviljun að sama daginn og Vestur-Íslendingur framkvæmir það sem kallað er "lífshættulegur áhættugerningur" er verið að leika sér með mun stærri og alvarlegri áhættugerning þar sem er læknadeilan svonefnda. 

Það var ljóst að eldsprengingunni í gervivíkingaskipinu í Reykjavíkurhöfn var stjórnað með fjarstýringu og ekki sett í gang fyrr en í þann mund sem kappinn hafði stokkið yfir eldtungurnar á borðstokkunum og var að lenda í sjónum. 

Læknadeilan er hins vegar alvöru áhættugerningur þar sem teflt er með líf margra og ekki hægt að stjórna því með fjarstýringu hvort eða hvenær mannslífi er fórnað eða stórfellt og óbætanlengt heilsutjón verður. 

Burtséð frá málstað deiluaðila og málsatvikum er þetta mál nú að fara út fyrir verjandi mörk. 


mbl.is „Þetta er mjög alvarlegt ástand“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komnar á fimmta hundraðið.

Þegar fyrrverandi útvarpsstjóri taldi sig knúinn til að veita stöðugum árásum á Ríkisútvarpið andsvar tiltók hann að frá 2008 hefðu birst 350 slíkar aðfinnslur í Morgunblaðinu einu. 

Sem dæmi um slíkar árásir má nefna ásakanir um hlutdrægni fréttastofu Sjónvarpsins sem hefði verið landráðum líkust með því að taka viðtal við fulltrúa Norðmanna í samninganefnd um makrílveiðar á Norður-Atlantshafi. Var þó búið að taka margsinnis viðtöl við íslenska samningamenn um makrílveiðarnar. En til voru þeir sem töldu ámælisvert að tala við aðra aðila deilunnar. 

Þessum útvarpsstjóra varð ekki vært en samt heldur flaumurinn áfram og einnig er á stundum hart sótt að fréttastofu Stöðvar 2.  

Þannig má með snöggu innliti í net og fjölmiðla í dag sjá tvo slíka pistla, þar sem fréttastofurnar eru sakaðar um hlutdrægni. Björn Bjarnason átelur fréttastofu Sjónvarpsins fyrir að hafa sagt fréttir af því hvaða afleiðingar verkfall lækna, sem hófst í gær, muni hafa á störf spítalanna, en þar var meðal annars  fólst meðal annars fjöldi þeirra aðgerða sem þyrfti að fresta.

Björn telur þetta ekki hafa fallið undir hugtakið fréttir því að þetta hefðu verið spádómar! Og með þessu hefði fréttastofan verið að knýja á um útkomuna úr deilunni!

Í leiðara Morgunblaðsins fær Stöð 2 ákúrur með því að voga sér að taka við tal við Össur Skarphéðinsson, sem hafi verið með fjarstæðu- og spunakennda fréttaskýringu vegna yfirlýsingar forsætisráðherra um afturköllun aðildarumsóknar að ESB.

Segir orðrétt í leiðaranum: "Slíkar fréttaskýringar pólitískra spunameistara gera lítið fyrir áhorfendur annað en að draga úr trúverðugleika fréttatímans og fréttamannsins."

Og í lokin er hnykkt á með því að segia: "Að fréttastofan taki þátt í spunanum er annað og verra mál."

Ofangreind dæmi af ótal mörgum sýna, að ljósvakafréttastofurnar vinna sér til óhelgi í augum þessara óstöðvandi síbyljugagnrýnenda með því einu að taka viðtöl við báða aðila eða dirfast að leita upplýsinga um annað en það sem þegar hefur gerst.

Er það íhugunarefni að meðal þeirra sem hamast mest gegn fjölmiðlunum eru fyrrverandi og núverandi ritstjórar, sem maður hélt að hefðu kunnað eitt af boðorðum fréttamennsku:

Hvað? Hverjir? Hvenær? Hvernig? Af hverju? Hvaða sjónarmið? Hvað svo? 

Pistlarnir og ummælin í Morgunblaðinu einu um hina vondu fréttastofu Sjónvarpsins voru orðnir 350 í tíð fyrrverandi útvarpssstjóra. Líklega eru þeir nú komnir vel á fimmta hundraðið, því að ekki linnir þessari síbylju.  

 

    


mbl.is Samningafundi slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það endar með því..."

Það var hent á lofti fyrir rúmri öld þegar kerling ein frétti af því að Þjóðverjar hefðu sagt Frökkum stríð á hendur og varð að orði: "Þetta endar með því að þeir drepa einhvern." 

Og það var hlegið að ummælum kerlingar, en áður en yfir lauk höfðu um 10 milljónir ungra manna verið drepnir í algeru tilgangsleysi. 

Nú má sjá á tveimur sviðum hjá okkur, hjá Landhelgisgæslunni og í ástandi heilbrigðiskerfisins að ef ástandið á þessum sviðum heldur svona áfram óbreytt muni það enda með því að einhver láti lífið. 

Og rétt eins og 1914 er það rammasta alvara en ekki tilefni til að hafa í flimtingum. 


mbl.is Öryggi sjómanna stefnt í tvísýnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur sykursins og ósigur þjóðarinnar um áramótin.

Það hefur lengi verið vitað að hvítasykur er að verða skæðasta fíkniefni heims og í þann veginn að skáka tóbakinu sem böl. Eins og breski sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver bendir á vex kostnaðurinn í heilbrigðiskerfinu vegna óhóflegrar neyslu sykur jafnt og þétt. 

Þess vegna vill hann að sykurinn sé skattlagður eins og tóbak, sem "næsta tóbakið" og bendir á Frakka sem fordæmi.

Hann hefði getað tínt til fleiri rök en kostnaðinn í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Afleiðingar óhóflegrar sykurneyslu koma líka fram í skertum lífsgæðum og líkams- og vinnugetu vegna ofþyngdar, áunninar sykursýki og hjartasjúkdóma og ótímabærra örkumla og dauða.   

Fyrir áramót hefði hann líka getað bent á Íslendinga,sem fyrirmynd og framsýna þjóð, sem hefði hafið baráttuna gegn hinum vaxandi vágesti.  En sykurskatturinn, sem búið var að koma á, var felldur niður. 

Hvað næst?  Verðlækkun á tóbaki?  


mbl.is „Sykur ætti að skattleggja eins og tóbak“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Með landnemum sigldi´hún um svarrandi haf..."

Nógu slæm var hegðun víkinganna oft á tíðum þótt ekki sé reynt að ýkja hana frekar, þótt rannsóknir geti í fyrstu ýtt undir það. 

Til landnáms á Íslandi var að mestu efnt í samræmi við það sem sagnir og sögur greina og ef eitthvað var, var þáttur keltneskra manna og kvenna og norrænna manna sem komu frá Bretlandseyjum kannski hafður minni en vert var. 

Ég hyggst því standa við þá lýsingu sem gefin er í ljóðinu um íslenskku konuna í eftirfarandi erindi:

"Með landnemum sigldi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma, hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð."


mbl.is Norrænar konur sigldu líka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru dæmi um að mælieiningar skópu stórhættu.

Það er augljóst óhagræði af því að nota ekki sömu mælieiningarnar í öllu og alls staðar á okkar miklu tækniöld. 

Það eru til dæmi um það að misskilningur varðandi mælieiningar hafi valdið slysum og jafnvel munað minnstu að stórslys yrði. 

Þessi hætta á stórslysi kom upp þegar menn héldu að nægt eldsneyti væri til flugs á Boeing 767 á leið vestur eftir Kanada af því að þeir rugluðu saman lítrum og gallónum. 

Þotan varð eldsneytislaus á stað, þar sem eini mögulegi nauðlendingarstaðurinn var aflagður flugvöllur við Gimli, sem notaður var fyrir ýmsar íþróttir. 

Þangað tókst flugmönnunum að svífa vélinni afllausrir og lenda henni klakklaust, þótt litlu munaði að hjólandi strákar á vellinu yrðu fyrir þotunni. 

Í fluginu eru menn enn að burðast með þrjár mælieiningar varðandi vegalengdir, kílómetra, landmílur og sjómílur. Einnig tommur og fet. 

Fyrstu árin sem ég ferðaðist um landið sem farþegi hafði ég gaman að fylgjast með hvernig gengi og finna út hraða vélarinnar miðað við jörð út frá því sem ég sá út um gluggann. 

Notaði þá alltaf kílómetra. Síðan lærði ég að fljúga sjálfur og þá komu landmílur og sjómílur til sögunnar. Ég vildi ekki kveðja kílómetrana og hef alla tíð síðan haft gaman af því að breyta þessum þremur mælieiningum í hverja aðra í huganum, sitt á hvað. 

Til að breyta sjómílum í kílómetra margfaldar maður fyrst með tveimur, dregur síðan einn tíunda frá og bætir síðan einum fjórða af mismuninum við. 100 = 100x2 sem eru 200. Einn tíundi eru 20, og þá er við komin í 180. Bætum síðan einum fjórða af mismuninum, (20) við, sem sagt 180 plús 5 og útkoman er 185.

Ef maður vill síðan vera hárnákvæmur er gott að vita að 100 sjómílur eru 185,2 kílómetrar.

Munurinn á sjómílum og landmílum er sá, að 100 sjómílur eru 115 landmílur, sem sagt 15% fleiri. Og 100 landmílur eru 87 sjómílur, sem sagt 13% færri.  

Og síðan er hægt að leika sér fram og til baka á milli allra mælieininganna og ég nota þær sitt á hvað eftir aðstæðum. 

Hef fyrir löngu lært utan að að 10 mílur á hraðamælum bíla eru 16 km, 20 mílur eru 32, 30 eru 48, 40 eru 64, 50 eru 80 og 60 eru 97 (hækkað upp af því að mílan er 1,609 km) o. s. frv. 

En það er samt bara til vandræða að vera að burðast með þetta svona og láta Kanann um að flækja þetta með tommum, mílum, gallónum, ekrum o.s.frv.

Í ofanálag geta engilsaxnesku þjóðirnar ekki komið sér saman um gallónin, heldur er amerískt gallón 3,785 lítrar en breskt gallón 4,53 lítrar og þarf stundum að breyta þar á milli þegar bornar eru saman upplýsingar hjá þessum tveimur þjóðum. 

Svo er breska pundið (lbs) ekki hálft kíló heldur 0,453 og þyngdareiningin stone er síðan notuð til að flækja málin enn frekar, til dæmis í þyngd manna í bardagaíþróttum. 

Auðvelt hugarreikningsdæmi að breyta enskum pundum í kíló, deila með tveimur og draga í viðbót einn tíunda frá útkomunni.   

En það ruglar bara fólk þegar talað er um fjölda hektara á sama tíma og flestir myndu frekar átta sig á flatarmálinu ef það væri sett fram í ferkílómetrum, þótt það sé afar fljótlegt hugarreikningsdæmi að í einum ferkílómetra eru 100 hektarar.

Nú síðast í morgunfréttum útvarpsins var talað um 11 þúsund hektara lands, sem hefðu brunnið í Ástralíu. Og hverju er venjulegur útvarpshlustandi nær sem ekki hefur vanist því að átta sig á flatarmáli mældu í þúsundum eða jafnvel milljónum hektara? 

Þarna hefði verið í lófa lagið fyrir útvarpsmanninn að segja að 110 ferkílómetrar lands hefðu brunnið, því að flestir vita nokkurn veginn hvað einn ferkílómetri er stór. 

En það er víst ekki hægt að ætlast til þess að allir séu sömu nördarnir og ég er, ekki heldur fréttamenn.  


mbl.is Kenndi metrakerfinu um flugslysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama svar og hjá þeim gamla?

Faðir minn heitinn var orðinn sjúkur maður og var tekinn til bæna í viðtalstíma hjá lækni, sem lagði honum nýjar og strangar lífsreglur. 

"Þú verður að forðast sterkt áfengi og drekka bara veikt", sagði læknirinn og pabbi svaraði að bragði: 

"O,hver andskotinn. Þarf maður nú að byrja að drekka með þessu?" 

Ég hef verið veikur fyrir kókinu alla tíð og hef drukkið kynstur af því og allt of mikið. 

En gleðifréttirnar um það að kók sé gott við timburmönnum koma full seint fyrir mig, ef ég á að nýta mér þær, því að ég hef aldrei bragðað áfengi og hef alla tíð verið óvirkur alki. 

Viðbrögð mín við gleðitíðindum um það að kók sé gott við timburmönnum gætu því orðið þau sömu og hjá pabba: "O, hver andskotinn. Þarf maður nú að byrja að drekka með þessu?"

Þess má geta að pabbi nýtti sér það að læknirinn þekkti hann ekki og vissi því ekki um að hann neytti víns en hafði farið þó farið einu sinni í meðferð, sem hrökk skammt. 


mbl.is Lagar kók timburmenn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlög Houdinis auka á spennuna.

Dean Gunnarsson fetar þessa dagana hér á landi í 90 ára fótspor Harrys Houdinis, frægasta töframanns og undankomulistamanns sögunnar. Örlög Houdinis hljóta að vera ofarlega í huga allra sem fást við svona iðju.

Hann sá ekki fyrir að eitt af brögðum hans myndi verða honum óbeint að falli, sem sé það að þola þung skrokkhögg.

Þegar áheyrandi að fyrirlestri hans kom til hans og sló hann að honum óviðbúnum tvö högg undir beltisstað olli það skaða, sem dró Houdini til dauða á sviplegan hátt.

Rétt eins og hjá Muhammad Ali löngu síðar, varð sá, sem slík högg fékk, að vera því viðbúinn svo að líkaminn gæti brugðist við.

Í dag tóku hinar erfiðu íslensku aðstæður á þessum tíma árs fram fyrir hendurnar Gunnarssyni og skópu óvænta undankomu um sinn og þar með örugga lífgjöf.

Sagt er að um tilviljun hafi verið að ræða, þ. e. að gangsetning báts hafi mistekist.

Ef svo er geta tilviljanir ráðið úrslitum á báða vegu varðandi svona áhættuatriði. Og spurning er hvort það verði alltaf tilviljanir í rétta átt. Örlög Houdinis auka á spennuna og óvissuna.

Áhættan sem svona menn taka, er það sem kallað er "útreiknuð áhætta" og erfitt fyrir aðra en þá, sem eru þaulkunnugir slíku að meta hve mikil áhættan er.

Stundum, og vonandi sem oftast, er hún miklu hættuminni en hún lítur út fyrir að vera.      


mbl.is Frestað á síðustu stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramót eru hentugt viðmið.

Þegar líður á ævina áttar maður sig á því hvernig tíminn æðir áfram, þannig að liðnir áratugir virðast eins og nokkrir mánuðir í minningunni. Ástæðan er sú að hvert ár á efri árum er ekki nema 1,4% af þeim tíma, sem maður man eftir, en um fermingu var hvert liðið ár 10 sinnum stærri hluti af þeim tíma, sem munað var eftir þá.

Þessi breyting á meðvitundinni um tímann á gerist hægt og bítandi alla ævina og um síðir hefur meðvitundin um gildi tímans slævst, einmitt þegar hvert lifað ár verður æ stærri hluti af þeirri ævi, sem ólifuð er og þar af leiðandi mikilvægara.

Þótt gildi þess sé mikið að lifa sem best í núinu, af því að fortíðinni verður ekki breytt og ekkert fast í hendi með framtíðina, þýðir það þó ekki það að fásinna sé að hugsa um framtíðina, bæði til lengri og skemmri tíma og íhuga gildi reynslu liðins tíma.

Þá getur verið ágætt að fara yfir stöðuna um hver áramót og setja niður þau atriði, sem mestu skipta til þess að geta lifað sem best í núinu á hverjum tíma, það sem eftir er af lífinu.

Það, að bera saman stöðuna um hver áramót, getur verið hentugt og nauðsynlegt til að hrista upp í manni og brýna til verka. Það þarf ekki endilega að kalla þetta áramótaheit, heldur kannski frekar áramótaáherslur.

Þetta getur verið enn nauðsynlegra þegar mörg járn eru í eldinum og margt hefur verið á döfinni, kannski allt of lengi á döfinni án þess að klárast.

Og gott er, þegar litið er yfir það hverjar hafa verið áramótaáherslur liðinna áramóta, að átta sig á því hverju mætti miða hraðar þegar í ljós kemur og blasir við, hve margt hefur dregist úr hömlu vegna þess hvernig tíminn og æviárin æða áfram.    

  


mbl.is „Hver í ósköpunum fann upp á þessari vitleysu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakaradrengurinn man ekki svipað.

Ég er bakarasonur, og afi var líka bakari, fyrst í Bernhöftsbakaríi en síðast í Hlíðabakaríi. Ég segi stundum í gamni að ég hafi verið alinn upp á vínabrauðsendum. Sem voru reyndar líka verðmæti eins og vínarbrauðslengjurnar, - endunum safnað saman og gefnir hænsnunum í hinu stóra hænsnabúi Bakarameistarafélags Íslands rétt ofan við Múlakamp. 

Siggi heitinn póstur, sérkennilegur maður með hvellan og norðlenskan talanda hér í miðri flatmælgi borgarbúa auk þess sem s-ið hans fossaði fram af vörunum líkt og foss, blanda af íslensku s-i og þýzkri zetu, enda mikill aðdáandi alls sem þýszzkT var, kom oft í Hlíðabakarí og hafði gaman af að spjalla við bakarana í önn og svækju dagsins.

Ofan á þessi sérkenni bættist álkulegt og langleitt andlit sem vakti svipað bros hjá manni og andlit gamanleikarans Alfreðs Andréssonar.  

Þegar hann kom eitt sinn niður í kjallarann, þar sem bakað var, var ég líka í heimsókn þar, á að giska átta ára, að háma í mig vínabrauðsenda, sem voru þar í hrúgu á borðsendanum.

Siggi starði á mig og spurði pabba, hvað gert væri við alla þessa vínabrauðsenda, sem til féllu. Sá hann í hendi sér að varla gæti ég, þessi krakki, étið þá alla.

Pabbi sagði að þeir væru gefnir hænsnum.

"Og þrífaszzt þau virkilega á svona szzæTindum?" spurði Siggi áhyggjufullur, með sitt hvella sz-hljóð og harða norðlenska T í síðasta orðinu og virtist hafa minni áhyggjur af bakarabarninu en hænunum.    

Hvað um það, rúnnstykkið í Bernhöftsbakarí ku hafa hækkað um 60% og kostar nú 80 krónur. Gamall bakarasonur man ekki eftir meiri hækkun á rúnnstykkjum í 70 ár, jafnvel þótt brýnt tilefni til hækkunar hafi verið tíundað og verðið sagt það lægsta í bransanum.

En líklega hefur verðið á rúnnstykkjunum bara verið rúnnað af.

Nú bíður maður eftir því hvort verð á vínarbrauðum lækki í takt við afnám sykurskattsins þannig að ódýrara verði að fæða bakarabörn nútímans.

Nema að nýjustu bakstursaðferðirnar séu þannig að vínarbrauðsendum hafi verið útrýmt.

Enda hænurnar ofan við Múlakamp fyrir löngu úr sögunni.    


mbl.is Rúnstykkin hækka um 60%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband