Færsluflokkur: Bloggar
9.1.2015 | 21:53
Af hverju þá frekar en síðar?
Tilraunir dómsvaldsins til að læsa upplag Spegilsins ofan í kistu eins og lík í gröf í kirkjugarði, voru kannski framkvæmanlegar fyrir þremur áratugum, en nú eru aðrir tímar og hægt að skoða þetta eintak á netinu.
Og þegar það er skoðað er satt að segja erfitt að finna mun á þessu spaugi og samsvararandi spaugi síðari tíma, sem ekki fór fyrir dómstóla.
Vísa að öðru leyti í bloggpistilinn á undan þessum um þetta athyglisverða mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2015 | 19:46
Guð og Spaugstofuþátturinn. Hráki og koss.
Tvívegis þegar Spaugstofan var með þætti um páska, kom upp mikill kurr vegna meints brots þeirra á íslenskum lögum um guðlast. Einkum voru þessara raddir áberandi í annað skiptið sem þeir "drógu dár" að fermingum og voru þeir af sumum sakaðir um gróft brot á boðorðinu um að leggja ekki nafn Guðs við hégóma.
Í framhaldi af þessu stóðst ég ekki mátið heldur fór með þessa stöku á skemmtunum:
Fermingarbörn fóru hnuggin i háttinn.
Hneyksluð var þjóðin og æst
og þegar Guð sá Spaugstofuþáttinn
sagði hann: Dsísús Kræst!
Nú vaknar spurningin hvort bæði þátturinn og vísan voru guðlast og refsiverð lögum samkvæmt.
Samanburður við dóminn yfir Úlfari Þormóðssyni er erfiður vegna þess blaðið var gert upptækt og er það enn og auk þess er svo langt um liðið síðan það kom út, að ég man ekki hvort ég sá það.
Hér kem ég með p.s. á viðeigandi stað. Var að skoða hið fordæmda blað og sé í fljótu bragði ekki stigsmun á því sem þar er spaugað með um fermingar og því hefur komið fram ítrekað síðar í spaugi um sama fyrirbæri.
Það bendir til þess að tímarnir hafi breyst og aldrei varð ég var við að neinn móðgaðist eða fyrtist við þegar ég fór með stökuna og var ég feginn því, vegna þess að ég var ekki alveg viss fyrirfram um viðtökurnar.
Auk þess er kveðskapur hjá mér af þessu tagi alger undantekning, heldur hef ég í gegnum tíðina samið það marga sálma og trúarlega söngva í fullri alvöru að þeir eru að minnsta kosti orðnir þrjátíu.
Þetta er eins og svo oft spurning um stemningu, aðstæður og hvernig það er flutt.
Þegar séra Jakob Jónsson varð meðal annars doktor út á ritgerðina "Skop og háð í Nýjatestamentinu" ( Humor and Irony in the New Testament) fannst sumum tiltækið glannalegt.
Nær allir höfðu ekki haft hugmynd um að slíkt væri að finna í hinni helgu bók.
En vígðir menn hafa margir haft auga fyrir slíku og ég þekki einn prestlærðan mann, sem er sérfræðingur í þvi´sem hann kallar "Jesúbrandara".
Þegar verið er að meta alvarleika háðs og skops kemur í ljós, að stundum er erfitt að skilja af hverju einum þykir eitthvað særandi og móðgandi þegar öðrum þykir svipað atferli eða orðalag það ekki.
Mér kemur í hug munurinn á því að hrækja og kyssa. Það er talið sérlega móðgandi og jafnvel refsivert að hrækja, þótt ekki sé nema í átt að manni, til dæmis lögreglumanni.
Hins vegar gildir allt öðru máli ef viðkomandi tæki sig til og kyssti í stað þess að hrækja.
Fylgir kossi þó varla minni smithætta en hráka, sem lendir jafnvel ekki í andliti þess sem hrækt er til.
Mörg dæmi eru um það að það, sem einni þjóð eða hópi fólks finnst sérlega særandi og móðgandi, finnst öðrum algerlega saklaust. Og stundum móðga menn eða særa alveg grandalausir.
Og svipað er að segja um það samhengi og þær aðstæður og tíma, sem stundum ráða úrslitum um það hvort háðið sé særandi eða bara skemmtilegt og meinlaust.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2015 | 08:19
Mun líklegri lausn á gátu en hjá AF447.
Árangur leitarsveita vegna brotlendingar flugs QZ8501 á Jövuhafi er þegar orðinn miklu meiri en var á svipuðum tíma eftir hvarf AF447 yfir Suður-Atlantshafi 2009, að ekki sé nú talað um M870, sem enn er líkast til stórfelldasta og dularfyllsta hvarf flugsögunnar.
Franska þotan sem fórst á Suður-Atlantshafi hafnaði á margfalt meira dýpi en sú malasíska nú og úti á miklu stærra reginhafi.
Kassarnir, sem þarf að finna, eru raunar tveir, "svarti kassinn" með gögnum um flughreyfingar vélarinnar og stöðu vélbúnaðar og stjórnbúnaðar hennar og "rauði kassinn" með hljóðupptökum af því sem fram fór í stjórnklefanum.
Þessar upplýsingar náðust um síðir úr flaki AF447 á ævintýralegan hátt og leiddu til þess að það mjög svo dularfulla hvarf upplýstist að fullu um síðir, þremur árum eftir að vélin fórst.
Í ljós kom að flugvélin hafði lent í hættulegum veðurskilyrðum, sem út af fyrir sig hefðu ekki þurft að leiða til þess að hún færist, heldur voru það röng og afar dramatísk viðbrögð áhafnarinnar sem ollu því að vélin fórst með öllum þeim, sem um borð voru, þeirra á meðal einum Íslendingi.
Air France og önnur flugfélög gerðu ráðstafanir til þess að bæta þjálfun flugmanna eftir það slys og fróðlegt verður að sjá hvað olli því nákvæmlega að QZ8501 fórst.
![]() |
Nema smelli á Jövuhafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2015 | 19:24
Bankar ríki í ríkinu?
Bankar og fjármálafyrirtæki reyndust vera ríki í ríkinu í ótal löndum í aðdraganda Hrunsins. Þrátt fyrir stór orð var fjármálakerfið ekki stokkað upp að neinu ráði í kjölfar hrunsins heldur lagðar miklar byrðar á almenning til þess að helstu orsakavaldar kreppunnar gætu náð vopnum sínum og lagt í aðra vegferð.
Írar og Íslendingar voru í hópi þeirra þjóða sem gengu í gegnum miklar hremmingar og ganga raunar enn.
Ég sá athyglisverða fréttaskýringu á bandarískri sjónvarpsstöð varðandi völdl og áhrif bankanna. Var sú fréttaskýring síst af öllu til að gefa von um að vantraust bandarísks almennings á Bandaríkjaþingi minnkaði, en þingið nýtur nú aðeins trausts 7% þjóðarinnar.
Sjónvarpsmaðurinn nefndi tvo atburði, sem gerðust um svipað leyti, og vekja spurningar um það hvort um tilviljun var að ræða að þetta gerðist á svipuðum tíma.
Annars vegar það, að tillögur þingsins í málefnum bankanna fólu í sér svo stórfelldan flótta frá upphaflegum fyrirætlunum, að engu var líkara en að tillögur bankanna sjálfra hefðu orðið ofan á.
Hins vegar það, að þingið samþykkti að framlög fyrirtækja til framboða þingmanna mættu verða tíu sinnum hærri en hingað til.
Sjónvarpsmaðurinn upplýsti að bankarnir væru í hópi þeirra fyrirtækja sem styrkja stjórnmálamenn mest.
Hann þurfti því ekki að bæta við þeirri spurningu að úr því að bankarnir gætu tífaldað styrki sína hér eftir, var það þá tilviljun að þetta tvennt gerðist á svipuðum tíma, annars vegar mikil eftirgjöf gagnvart bönkunum og hins vegar heimild til margföldunar á framlögum þeirra til einstakra frambjóðenda og þingmanna?
![]() |
Bankarnir hegða sér óásættanlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.1.2015 | 13:50
Óttinn er helsta og lymskulegasta vopnið sem fyrr.
Adolf Hitler notaði ótta þjóðanna við nýjan hildarleik heimsstyrjaldar til þess að þvinga fram samninga fyrir aðgerðum hans eða aðgerðarleysi gagnvart þeim.
Þetta tókst honum í félagi við Mussolini að minnsta kosti átta sinnum í röð, ýmist með algeru aðgerðarleysi Breta, Frakka og Sovétmanna eða gegn máttlausum mótmælum:
Hitler fór óáreittur inn í Rínarlönd 1936, studdi Franco í borgarastyrjöld á Spáni 1936-39, Mussolini tók Eþíópíu 1935-36, Hitler tók Austurríki 1938, samdi um yfirtöku Súdetahéraðanna sama ár, tók Tékkóslóvakíu 1939 og Ítalir tóku Albaníu sama ár og Hitler gerði griðasamning við Stalín í ágúst 1939.
Einu viðspyrnuna veittu Íslendingar 1939 þegar þeir neituðu Þjóðverjum um leyfi til nota landið fyrir flug sitt yfir Atlantshaf en á svipuðum tíma tóku Íslendingar þó 30 norska skógarhöggsmenn fram yfir vel menntaða Gyðinga sem innflytjendur til landsins.
Þrátt fyrir þetta hafði Hitler í ræðu og riti, svo sem í bók sinni Mein Kampf, gert skilmerkilega grein fyrir fyrirætlunum sínum. Höfuðatriðin voru yfirburðir hins aríska kynstofns "Ubermenschen" yfir undirmálsþjóðum, "Untermenschen" á borð við Slava og blökkumenn, "Drang nach Osten" til að skapa "Lebensraum" fyrir Þjóðverja, uppgjör við hina glæpsamlegu Bolsévika í Kreml og útrýming Gyðinga.
Í ofanálag var stærsta atriðið í stefnu Hitlers "aldrei aftur 1918", þ.e. heitstrenging um það að aldrei framar skyldu þýskir ráðamenn "svíkja þjóð sína" með því að gefast upp fyrir erlendu hervaldi, heldur berjast til síðasta manns.
Það var ekki tilviljun að "frelsi gegn ótta" var eitt af fjórum tegundum frelsis, sem Roosevelt Bandaríkjaforseti setti fram sem markmið lýðræðisþjóða heims.
Nú stendur yfir barátta fyrir þessu mikilvæga frelsi, sem er einn af hornsteinum vestrænnar lýðræðis- og mannréttindahugsjónar.
Það vita blóðþyrstir og hatursfullir vígamenn andstæðingar frelsis, mannréttinda og lýðræðis vel, og þess vegna fremja þeir voðaverk sín á þann hátt að það skapi sem mestan ótta.
Ef þeim tekst að ná því markmiði sínu að láta óttann glepja okkur sýn, svo að við hættum að þora að láta skoðanir okkar í ljósi og grípum í staðinn til óttablandinna ráða þar sem ofbeldi, kúgun og brot á mannréttindum eru talin réttlætanleg, ná þeir því takmarki sínu að koma á svipuðu ástandi hjá okkur og ríkir þar sem forneskjulegar og villmannlegar kúgunaraðferðir í grimmilegri og öfgafullri framkvæmd og túlkun á trúarsetningum eru orðnar yfirsterkari landslögum hjá þjóðum, sem hafa mannúð, mannréttindi, lýðræði og frelsi sem leiðarsteina.
Munum, að frelsi frá ótta var eitt af fjórum tegundum frelsis Roosevelts, og að hinar þrjár voru: Tjáninga- og skoðanafrelsi, trúfrelsi og frelsi frá skorti.
![]() |
Einn hefur gefið sig fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.1.2015 | 23:29
Sleppti einni af fyrstu Toyotunum.
Þegar Toyota kom til sögunnar hér á landi 1965 opnaðist möguleiki til þess að eignast duglegan en mjög ódýran ferðabíl til að fara í erfiðar ferðir um allt land til að skemmta á öllum árstímum.
Fram að þeim tíma hafði ég notað minnstu bíla landsins af NSU-Prinz gerð.
Ástæðan fyrir hikinu gagnvart jeppunum var sú að fram að þessum tíma voru einu jepparnir sem veittur var stórfelldur bændaafsláttur af á opinberum gjöldum, Willys, Rússajeppi GAZ 69 og Land Rover. Allir þessir bílar stóðust þær kröfur um bændaafslátt að vera styttri en 2,40 m á milli öxla en en þá skorti alla vélarafl, fannst mér, voru með fjögurra strokka kraftlitlar vélar.
Toyota Landcruiser var hins vegar með sex strokka vél, aflmikla vél á þeirra tíma mælikvarða, og aðeins voru 2,29 metrar á milli öxla þannig að hann féll óvænt inn í afsláttarkerfið góða.
Ég ákvað því að skella mér í hóp þeirra fyrstu sem fengi sér slíkan bíl, en í þeim svifum bárust fréttir af alveg nýjum bandarískum jeppa, Ford Bronco, sem var líka nógu stuttur, 2,33 m á milli öxla, með sex strokka kraftmikla vél, en heldur minni, léttari og eyðslugrennri en Landcruiserinn, auk þess sem hann var með gormafjöðrun að framan og mun þýðari en Toyotan.
Ég gerðist því þátttakandi í svonefndu Bronkó-æði sem gekk yfir landið og varð af tækifæri til þess að taka þátt í innreið bíltegundar, sem hefur notið mestu vinsælda sem um getur í sögu bílsins á Íslandi.
Báðir þessir bílar, fyrstu árgerðir af Ford Bronkó og Landcruiser, voru hins vegar einstaklega góðir bílar og merkilegt hve margir af þeim eru enn gangfærir.
Og upprunalegi Landcruiserinn hefur verið framleidur í Brasilíu að mestu leyti óbreyttur í hálfa öld undir nafninu Toyota Bandeirante.
Ég bætti fyrir Toyota "svikin" 1965 síðar á ævinni og set hér inn þrjár myndir af "minnsta Toyota jöklajeppa landsins", Hi-Lux árgerð 89, þar sem hann er að leggja af stað síðdegis með bátinn "Örkina" austur að Kárahnjúkum vorið 2006 og er síðan á neðstu myndinni eldsnemma morguninn eftir kominn hálfa leið á leið út Eyjafjörðinn.
Miðmyndin er af honum þegar ég skildi hann eftir á Sauðárflugvelli seint í október síðastliðnum, nú orðinn fornbíll.
Bandarískt jeppatímarit valdi fyrstu gerð Bronco sem besta jeppa allra tíma, miðað við þann tíma sem hann var framleiddur og það er ekki svo galið val. Bíllinn var að vísu aðeins framleiddur í 11 ár frá 1966-1977, en með átta strokka vélinni, sem kom 1967-8 var hann alveg dýrlegur jeppi.
Ég lét setja millisæti frammi í, lækka gólfið afturí miklu meira en aðrir gerðu og setja tvö hliðarsæti aftast, og þá gat 9 manna fjölskylda ferðast saman í bíl, sem var styttri en Yaris er nú !
![]() |
Toyota fagnar 50 ára afmæli á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.1.2015 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2015 | 20:28
Sem betur fer fældu þeir þá bestu í burtu.
Ekki þarf að fara í grafgötur með vilja þeirra kumpána Adolfs Hitlers og Benito Mussolinis til að framleiða gereyðingarvopn.
Þeir þorðu ekki að beita eiturgasi af ótta við að slíkar árásir yrðu endurgoldnar en framleiðsla kjarnorkusprengju var heillandi í augum Hitlers.
Tveir vísindamenn þessa tíma eru einkum tengdir við gerð kjarnorkusprengjunnar, Albert Einstein og Enrico Fermi. Einstein ásamt fleirum vakti athygli ráðamanna Bandamanna á möguleikunum til framleiðslu kjarnorkusprengju og Fermi var talinn "faðir kjarnorkusprengjunar" því að hann var aðalmaðurinn á bak við hina tæknilegu og eðlisfræðilegu hlið smíði hennar.
Einstein hraktist úr landi undan Gyðingaofsóknum nasista og Fermi flúði líka frá Ítalíu til Bandaríkjanna vegna kynþáttaofsókna Mussolinis.
Þetta er kannski það eina jákvæða sem hægt er að finna varðandi kynþáttaofsóknir nasista og fasista.
Annað jákvætt er það hve óhæfir margir af helstu stjórnendum nasista voru.
Hafa sagnfræðingar í vaxandi mæli þakkað það vangetu þeirra að þeir töpuðu stríðinu.
Sagt er að þegar Churchill var í miðju stríðinu greint frá fyrirhuguðu banatilræði við Hitler hafi hann beðið menn fyrir alla muni að láta hann í friði, því að lifandi væri hann besti bandamaður þeirra.
Hafði Churchill vafalaust í huga þráhyggju Hitlers þegar hann bannaði lífsnauðsynlegt undanhald og setti ofan í við eða rak frábæra hershöfðingja eins og Heinz Guderian og Erwin Rommel um stundarsakir ef þeir dirfðust að mögla.
Von Manstein var snjallasti hershöfðingi Hitlers, skipulagði einhverja snjöllustu herför allra tíma inn í Niðurlönd og Frakkland í maí-júní 1940 og var snillingur í undanhaldshernaði hugmyndafræðinni á bak við hana, svo sem björgun hersveita frá Krímskaga, Sardiníu og Austur-Prússlandi.
Hermann Göring var afleitur eins og best kom fram í orrustunni um Bretland og hinni fráleitu áætlun um að nota loftbrú til að bjarga 6. hernum í Stalingrad frá ósigri. Hann lét glepjast af snilldarlegri björgun meira en 100 þúsund manna herafla Þjóðverja, sem lokaðist inni í rúma þrjá mánuði við bæinn Demyansk norðvestur af Moskvu í ársbyrjun 1942.
Þá tókst með loftbrú að flytja hátt í 20 þúsund særða hermenn í burtu, álíka marga bardagahæfa inn, birgja herinn upp af hergögnum og vistum og ná honum út úr herkvínni.
Við Stalingrad var um að ræða þrefalt stærri her auk þess sem lofther Rússa var orðinn miklu öflugri en við Demyansk.
Þegar Albert Speer var falið að taka yfir skipulagningu á hernaðarframleiðsu Þjóðverja tók hún risastökk fram á við svo að vopnaframleiðslan var meiri 1944 en nokkru sinni fyrr þrátt fyrir hinar hrikalegu eyðileggingu sem loftárásir Bandamanna olli.
Það sýndi hve óhæfir fyrirrennarar Speers höfðu verið.
Þegar Ernst Udet, afburða flugmaður, var gerður að yfirmanni, kom fljótt í ljós að hann var algerlega vonlaus í slíku starfi og hlutverkið var honum svo gersamlega um megn að hann framdi sjálfsmorð.
![]() |
Fundu leynilegt kjarnorkuver nasista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2015 | 15:01
"Löng og krókótt leið..."
"Long and winding road" söng Paul McCartney á sínum tíma og vandamál heilbrigðiskerfisins okkar ná 15 ár aftur í tímann og gæti þess vegna tekið 15 ár að leysa þau, því að þetta er langtímavandamál og ristir miklu dýpra en svo að einir kjarasamningar leysi þau.
"Ef flótti lækna úr landi heldur áfram, veit ég ekki til hvers var verið að gera þennan samning" segir einn bloggarinn í dag.
Ég held að svarið við þessu sé, að eins og er sé þetta spurning um að byrja á því að búa til einhverja viðspyrnu til þess að minnka flóttann og að það þurfi langtímaáætlun til að að forðast það að við verðum 2. flokks þjóð í þessum efnum með tilheyrandi keðjuverkunum út í allt efnahagslífið og þjóðlífið.
Staða lækna er einfaldlega þannig, að þeir, sem okkur bráðvantar mest til starfa, sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum, hafa menntast og unnið erlendis og eiga því afar auðvelt með að fara þangað til starfa fyrir miklu hærri laun og þó einkum miklu betri starfsaðstöðu.
Í athugasemdum við annan pistil hér á síðunni koma fram tölur um það hvað nágrannaþjóðir okkar ýmsar eyða í sín heilbrigðiskerfi á hvern íbúa. Þar stingur í augu hve miklu minna er varið í þetta hér á landi en í öðrum löndum.
Ástæðan er sú að fyrir um 15 árum hófst hér mikill söngur um það að langmest opinbert fé færi í heilbrigðis- og velferðarkerfið og að þar væri eftir mestu að slægjast við að draga úr útgjöldum og spara.
Alveg gleymist og gleymist enn, að hærri meðalaldur, vaxandi veikindi og örorka vegna óheilbrigðs lífsstíls er jafnt og þétt að fækka þeim, sem eiga að vinna fyrir hinum sístækkandi hluta þjóðarinnar sem kerfið þarf að þjóna.
Einnig að flóknari og dýrari tækni eykur útgjöldin.
![]() |
Felur í sér algjöra uppstokkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.1.2015 | 10:49
Óendanlega margar jarðir?
Ef eilífðin og óendanleikinn eru ráðandi í alheimi sem er óendanlega stór og tíminn byrjaði aldrei og endar aldrei eru óendanlega miklar líkur á tvífarajörðum og tvíförum okkar.
Ég bið því að heilsa tvífara mínum, sem situr og er að blogga það sama og ég eða svipað og ég, við skiptum hugsanlega um líkama í draumum okkar í nótt í krafti fjarhrifakenningar Helga Pjeturss og vitnum í sömu ljóðlínuna um Drottin allsherjar:
"Vítt um geim um lífsins lendur
lofuð séu´hans verk.
Felum okkur í´hans hendur
æðrulaus og sterk.
![]() |
Fundu plánetu líka jörðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2015 | 01:14
Rímar við fyrstu upplifun mína af dauðanum.
Þegar ég var fimm ára gamall í sumardvöl að Hólmaseli í Flóa talaði aðeins eldri drengur á bænum, sem ég lék mér oft við, um það að hænur gætu synt. Ég trúði honum ekki og þetta endaði með því að við klófestum hænuunga og settum hann í vatn í tunnu til að sannreyna þetta.
Unginn var heitur í höndum mér og óskaplega hræddur, og ég fann hvernig hjarta hans barðist ótt og títt.
Unginn virtist í fyrst geta synt því að hann hamaðist með fótunum og vængstubbum sínum og komst á nokkra ferð, en síðan hægðist á honum og loks flaut hann bara líflaus og drukknaður. hann.
Þegar ég hélt á vesalings unganum dauðum og köldum í lófa mér og fann að hann var strax byrjaður að kólna og hjartað sló ekki lengur var það fyrsta upplifun mín af dauðanum og hún var gríðarlega sterk.
Svo sterk voru þessi viðbrögð að ég gat engan veginn sofnað um kvöldið af ótta við að þegar ég sofnaði væri ekki víst að ég vaknaði nokkurn tímann aftur.
Það var að sjálfsögðu fullkomlega órökrétt að meiri hætta væri á því að deyja í svefni í vöku, en réðist sennilega af því hve svefninn virtist líkur dauðanum hvað það varðaði að þá væri manni kúplað út úr meðvituðu lífi.
Þessi tilfinning var svo óviðráðanleg og sterk að hún hélt mér vakandi langt fram á nótt þangað til ég leið loks útaf.
Ég óttaðist ekki aðeins dauðann og það að deyja kannski strax, heldur var engu líkara en ég óttaðist það mest að vera ekki vakandi þegar ég dræpist og mætti því helst ekki sofna það sem eftir væri ævinnar.
Vandamál hinnar sextán ára gömlu stúlku rímar við þessa fyrstu upplifun mína, sem bráði af mér næsta dag eftir að fyrir lá að ég gæti ekki fengið það uppfyllt að vera vakandi til æviloka. Að þessu leyti held ég að ég skilji hið sérkennilega vandamál dönsku stúlkunnar, sem er kannski aðeins sérkennilegt vegna þess hve lengi hún hefur verið haldin þessari óviðráðanlegu tilfinningu.
![]() |
Mamma, nú mun ég deyja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)