Færsluflokkur: Bloggar
25.11.2014 | 22:06
Hvað um íslensku ævintýrin?
Grænlendingar eru "komnir aftur niður á jörðina" segir í frétt en þeir sáu í hillingum stórkostlegar framkvæmdir vegna námavinnslu, sem nú hafa gufað upp.
En þeir eru bara eitt dæmið af mörgum þar sem menn rjúka upp til handa og fóta í anda gullæðisins sem greip Bandaríkjamenn og kennt er við Klondyke.
Í frétt einni í sjónvarpi fyrir þremur árum var viðtal við bóndann á Hvestu við Arnarfjörð.
Hann lýsti því að hann hefði verið með marga möguleika í huga í sambandi við atvinnumöguleika og ný tækifæri, en væri búinn að fresta þeim öllum og hefði ákveðið að bíða frekar eftir olíuhreinsistöðinni risavöxnu, sem hlyti að fara að koma.
Hér á landi hefur hálgert olíuævintýrisæði runnið á menn. Ekki var fyrr búið að ympra á málinu en menn fóru að eyða stórfé í að skipuleggja og undirbúa stórar olíuhafnir á Norðausturlandi, meira að segja í eyðifirðinum Loðmundarfirði með tilheyrandi jarðgöngum yfir til Fljótsdalshéraðs og hraðbraut nánast beina reglustikuleið til Reykjavíkur yfir hálendi og fjöll.
Nú þegar er búið að slá olíuævintýrinu föstu með því að gera bindandi samning við útlend fyrirtæki um rannsóknir og vinnslu á Drekasvæðinu án þess að nokkur bitastæð eða upplýst umræða hafi farið fram um það.
Kostnaður við vinnslu á því dýpi sem olían kann að verða fimmfalt meiri en kostnaðurinn af vinnslu olíu í Suðurlöndum, svo að olíuverðið myndi varla duga fyrir kostnaðinum.
Búið er að negla það niður að Íslendingar gerist olíuvinnsluþjóð, klári olíu Drekasvæðisins á nokkrum áratugum og leggi fram hámarks skerf sinn til mengunar lofthjúpsins og loftslagsbreytinga á sama tíma og íslensku þjóðinni veitt alþjóðleg viðurkenning fyrir sjálfbæra þróun, afrek í umhverfismálum og nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa.
Og þetta gerist á sama tíma og þriðjungur af raforkuframleiðslu landsins fæst með rányrkju á jarðvarma og með mest mengandi fyrirtæki landsins á Hellisheiði, sem mengar meira en nokkurt álver.
Umskipunarhafnaævintýri er þegar byrjað að heilla menn svo mjög að þeir fá ofbirtu í augun.
Talað er um heimshöfn í Finnafirði á borð við Bremerhaven. Liggja þó siglingarleiðirnar um norðvesturleiðina og norðausturleiðina hvorugar um Ísland, heldur norður með vesturströnd Grænlands og norður með strönd Noregs og við blasir að einasta svæðið á Íslandi, sem gæti skapað nauðsynlegt bakland "heimshafnar" er við sunnanverðan Faxaflóa.
![]() |
Komnir aftur niður á jörðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2014 | 09:21
Athyglisverðar tölur í hreingerningamálinu.
Nokkrar tölur hafa verið nefndar í hreingerningamálinu á Landsspítalanum.
1. Þær kosta 100 milljónir á ári núna eftir að verkið var boðið út og 12 Pólverjar vinna það.
2. Þær kostuðu 67 milljónir áður en verkið var boðið út og 35 Íslendingar unnu það.
Sagt var í frétt um málið að verkefnið hefði verið aukið eitthvað þegar skipt var um form á vinnunni við það. Ekki var þó svo að skilja að það hafi verið aukið um 50%, jafnmikið og kostnaðaraukinn varð. Fróðlegt væri samt að fá að vita hve mikil þessi aukning var.
Eftir stendur að 12 Pólverjar vinna verk sem 35 Íslendingar unnu áður, og að verkefnið hafi samt verið aukið.
Gagnlegt gæti verið að kafa betur ofan í þetta þríliðudæmi og tryggja að allar forsendurnar séu réttar, því að í fljótu bragði virðist sem verktakafyrirtækið græði drjúgum á því að píska útlendingum út og brjóta jafnvel á þeim lög.
Kannski finnst mönnum það hið besta mál að íslenskir eigendur verktakafyrirtækja eigi möguleika á því að efnast vel og leggja sitt af mörkum í aukna neyslu og hagvöxt sem fylgir gróða með því að innleiða hálfgert þrælahald útlendinga.
Að hér aukist stéttaskipting í nýlendustíl þar sem herraþjóðin efnist vel en undirþjóðinni sé þrælað út á lægsta tekjuþrepi eða jafnvel fyrir neðan það.
Vissulega hafa útboð og einkavæðing ákveðna kosti, hrista upp í málum og auka á útsjónarsemi til hagræðingar og betri nýtingar vinnuafls og peninga þar sem áður var komin ákveðin stöðnun sem oft fylgir opinberum rekstri.
En á móti kemur, að mörg dæmi eru um það að eftirliti og eftirfylgni hin opinbera með verktökunum er afar víða áfátt enda skorið við nögl sér með það.
Ég hef áður nefnt dæmi um það eins og til dæmis við gatnaframkvæmdir í Reykjavík þar sem verktakar hafa komist upp með að brjóta skilmála og við framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli sem urðu ónýtar með margra tuga milljóna kostnað fyrir skattgreiðendur.
![]() |
Milljarður í Landspítalann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.11.2014 | 08:52
Eðlileg afleiðing af skotvopnadýrkun Bandaríkjamanna.
Hvíti maðurinn ruddi sér braut og valtaði yfir rauða menn í tveimur heimsálfum og þetta vald spratt fram úr byssuhlaupunum sem bogar og örvar indíánanna máttu sín litils gegn.
Sé kýrin heilagt dýr á Indlandi og sauðkindin jafnvel enn hér á landi er byssan dýrkuð sem aldrei fyrr vestra. Bandaríkjamenn bera fyrir sig að í "frontier"landi, landnámssvæði, sé almenn byssueign eðlileg.
Það eru falsrök, því að hvorki Kanadamenn né Ástralíumenn búa við neitt viðlíka böl af völdum mannvíga með skotvopnum og Bandaríkjamenn.
Ungi drengurinn sem tók upp leikfangabyssuna gæti hafa orðið fórnarlamb þeirrar takamarkalausu dýrkunar á byssunni sem er innrætt strax í frumbernsku. Það leit kannski út í hans augum eins og skemmtilegur byssuleikur þegar lögreglumaður skipaði honum að setja hendur upp fyrir höfuð.
Lögreglumaðurinn tilheyrði stétt manna þar sem ítrasta tortryggni var nauðsynleg til að vera ekki skotinn af einhverjum sem beitti lymskulegu bragði.
Báðir voru fórnarlömb óeðlilegs ástand í þjóðfélagi þeirra, ef marka má fréttir af því að lögreglumaðurinn sé niðurbrotinn maður.
Á mörgum sviðum nútímalífs bæði í Bandaríkjunum og annars staðar virðist sem ákveðin valdaöfl hafi kverkatak á þjóðfélögum með því að nýta sér yfirburði fjármagns og aðstöðu.
Þeir sem hagnast á vopnasölunni og eigendur vopnanna vestra koma ævinlega í veg fyrir breytingar og á öðrum sviðum má víða sjá víða um lönd hvernig yfirburðir fjármagns, valda og aðstöðu standa í vegi fyrir umbótum á ýmsum sviðum.
![]() |
Varði framgöngu lögreglumannsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2014 | 20:46
Merkilegt hvað viðgekkst í mínu ungdæmi.
Frá því að ég hafði líkamsburði til á unglingsárum var ég í alls konar verkamannavinnu á sumrin, um helgar og í skólafríum bæði í sveit og borg. Þetta voru árin frá 1953 til 1961 alls tæp níu ár.
Á þeim tíma hugsaði enginn um áhrif ryks, óhreininda og hávaða, sem verkafólk þess tíma þurfti að þola. Það var talið hreystimerki að þola ill og óþrifaleg vinnuskilyrði og taka líkamlegu álagi og erfiði af karlmennsku.
Maður var stoltur af því að vera skítugur af kúamykju í sveitinni, anda að sér sementsryki í uppskipun við Reykjavíkurhöfn, spónaryki í spónakjallaranum undir timburversluninni Völundi og utan dyra á vinnusvæði Völdundar, steinryki frá grjótborum og hávaða frá þeim án heyrnarskjóla, og soga ofan í sig asbestryk við verkamannastörf inni í nýbyggingu á horni Ásvallagötu og Bræðraborgarstígs.
Fljótlega kom þó að því að kaupa sér rykgrímu fyrir uppskipunina á sementinu, sem var aðeins betur borguð en önnur uppskipunarstörf.
Enn sem komið er hafa áhrifin af asbestrykinu í nýbyggingunni í Vesturbænum ekki komið fram hjá mér, hvað sem síðar kann að verða, en það ryk var sagt vera krabbameinsvaldandi löngu eftir að maður vann í þeim óþverra.
Eina rykið sem hafði slæm áhrif á þessum tíma var rykið í spónakjallaranum og rykið á vinnusvæði Völundar.
Fljótlega fór að grafa í augnalokunum á mér og ég fattaði ekki þá, að því ollu örsmáar tréflísar sem komust inn í viðkvæma húðina.
Sem betur fer er þetta að mestu liðin tíð. Nema kannski hjá Pólverjum, þar sem tólf slíkir þykja nægja til að vinna verk sem áður þurfti 35 Íslendinga til að vinna.
![]() |
Fullkomlega ólöglegur gjörningur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.11.2014 | 14:17
Nýtt mynstur, jafn mikilvægt fyrir vísindamenn og Kröflueldar?
Kröflueldar voru á sínum tíma drýgsta eldgosahrina sögunnar til að auka þekkingu jarðvísindamanna á eðli eldvirkni og eldgosa.
Á þeirri þekkingu og rannsóknum með notkun nútíma mælitækni á eldgosum fyrir og eftir eldana hafa jarðeðlisfræðingar byggt þær framfarir sem meðal annars leiddu til þess, að hálftíma fyrir upphaf Heklugossins árið 2000 var hægt að tilkynna um það fyrirfram í útvarpi.
Vitað hefur verið að annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar liggi undir öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn og að Grímsvötn eru virkasta eldfjall Íslands og eina íslenska eldstöðin sem kemst á alþjóðlegan lista jarðvísindamanna yfir tíu merkustu eldstöðvar jarðarinnar.
Fyrst Bárðarbunga er svona stór og mikil og miðja vegu í kerfi eldstöðvanna, sem liggja um Ísland endilangt horn í horn milli Reykjaness og Melrakkasléttu hefur það virst undarlegt hve fá eldgos verða í henni sjálfri.
Vísindamenn hafa útskýrt það með því að eldgos allt suður í Friðland að Fjallabaki hafi í raun verið í kerfi Bárðarbungu. Talið var líklegt fyrirfram að Holuhraun tilheyrði áhrifasvæði Öskju, en nú virðist líklegra að Bárðarbunga sé potturinn og pannan í gosinu þar, sem ég birti nýja mynd af á facebook síðu minni í tengslum við þennan bloggpistil.
Nú er nefnilega að koma í ljós að umbrotin í og við Bárðarbungu eru eitthvað alveg nýtt, sem bendi til þess að kvikukerfið undir þessari megineldstöð landsins sé flóknara en menn hafa haldið og að það sendi jarðfræðinga landsins að teikniborðinu eins og það er stundum orðað á erlendu máli.
Stóra spurningin er líka sú hvort í uppsiglingu sé nýtt hegðunarmynstur þessa risa sem færi okkur stórgos sem enga hliðstæðu eigi sér á þessum slóðum á sögulegum tíma.
![]() |
Kvikukerfi Bárðarbungu er flóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2014 | 01:45
Óvenjulega lítill snjór á hálendinu.
Það eru sannarlega óvenjuleg snjóalög á hálendinu eða öllu heldur skortur á snjóalögum.
Þær fara nú að verða að minnsta kosti þrjár, vikurnar sem það hefur verið að mestu 2-4 stiga hiti á Sauðárflugvelli og hann hugsanlega orðinn opinn, í 660 metra hæð yfir sjó, þótt ég hafi ekki þurft að lenda þar og viti það ekki nákvæmlega.
Eini ókosturinn við það, ef svæði eins og völlurinn verða alauðir þegar komið er þetta langt inn í veturinn, er sá að ef það frystir á auða jörð og þiðnar ekki eftir það í vetur, er hætt á að klakinn geti verið lengur en ella að fara í vor.
En í fyrravetur snjóaði strax það mikið, að ekkert frost komst í jörðu og því var nær enginn klaki í jörðu síðastliðið vor.
Snjór er hátt uppi í fjöllum á Tröllaskaga og það er flekkótt land við Holuhraun. Ætla að skutla inn einni á facebook af hraunstraumnum í drjúgri fjarlægð frá gígnum, sem tekin var fyrir helgina.
![]() |
Spáð hlýju veðri alla vikuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2014 | 20:51
Tveir möguleikar og hvorugur góður?
Sú nýja staða, sem mælingar sýna að er í Bárðarbungu vekur upp margar spurningar sem vísindamenn hljóta að þurfa að svara.
Sagt hefur verið að hið mikla magn af gasi, sem kemur upp í gosinu í Holuhrauni, sé vegna þess að uppruni kvikunnar sé svo djúpt í jörðu.
Einnig hefur verið sagt að kvikan komi suðvestan úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu.
Nú sýna alveg nýjar mælingar að aðeins séu einn til þrír kílómetrar niður á kvikuna og því meiri líkur en áður hefur verið talið á því að gos hefjist þar.
Fróðlegt verður að fá nýtt mat á ástandið eins og Ármann Höskuldson hefur raunar kallað eftir.
Þar sem enn skelfur undir bungunni og því hefur verið varpað upp að gos geti varað lengi, vaknar spurningin um það hvor möguleikinn sé skárri, áframhaldandi gos í Holuhrauni eða nýtt gos í Bárðarbungu.
Langvinnt gos í Holuhrauni hefur valdið vísindamönnum áhyggjum vegna afleiðinga langvarandi dreifingar á gasi. Birt er ný mynd af gosinu þar á facebook síðu minni.
Gos í Bárðarbungu er líklegt til að verða öskugos ef kvikan kemst upp í gegnum 800 metra þykkan ísinn, og spurning, hvort þaðan komi verri gosefni en í Holuhrauni.
Ef kvikuhólfið undir Bárðarbungu er á eins til þriggja kílómetra dýpi en gasútstreymið í Holuhrauni er samt talið merki um kviku af miklu meira dýpi, er það þá vegna þess að kvikuhólfið sé mun stærra en áður hefur verið talað um, og nái allt frá sjö kílómetra dýpi langleiðina upp undir yfirborðið?
Og þar með geti stórgos þarna orðið enn stærra og skæðara en hið rólega gos í Holuhrauni, sem spýr út meira en tíu sinnum minna af hrauni á hverri viku heldur en Lakagígar gerðu 1783?
![]() |
Skjálfti að stærð 5,1 í Bárðarbungu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.11.2014 | 18:09
Meira en áratugs öfugþróun.
Fyrir um 15 árum hófst hæg en stöðug þróun varðandi upplýsingagjöf á Íslandi, sem ég vil kalla öfugþróun. Hún fólst í því að stór fyrirtæki, stofnanir og samtök fóru að leggja aukna áherslu á almannatengsl sín og sóttust eftir sem öflugustum og reyndustu fjölmiðlamönnum til að taka það hlutverk að sér.
Þessi þróun hefur staðið alla tíð síðan og valdið skaðlegum atgerfisflótta frá fjölmiðlunum, af því að í boði hafa verið miklu hærri laun utan þeirra.
Hættan hefur líka falist í öðru atriði sem mörgum yfirsést.
Fjölmiðlamenn, sem hafa sóst eftir góðum og vel launuðum stöðum, hafa á stundum séð hagræði í því, þó ekki sé nema ómeðvitað, að setja sig vel inn í einstaka málaflokka, þar sem miklir hagsmunir utan fjölmiðlanna eru fólgnir, og þar með aukið líkurnar á því að fá góð tilboð á þessum sérsviðum sínum.
Í ofangreindu ástandi er falin mikin hætta fyrir frjálsa fjölmiðlun og þar með lýðræðið í landinu.
Af þeim sökum er bág staða fjölmiðla og aðför gegn þeim eina þeirra, sem er ekki í eigu einkaaðila, mun stærra mál en sýnist vera í fljótu bragði.
![]() |
Að segja en ekki þegja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.11.2014 | 08:34
Hverjir sáu og sjá enn ekkert nema stóriðju?
Ríkisstjórn Íslands hefur enn ekki afturkallað einróma yfirlýsingu sína um að risaálver skuli rísa í Helguvík. "Orkufrekur iðnaður" er sama trúaratriðið hjá þeim og það var og hefur verið í hálfa öld.
Þeir, sem nú væna þá um svartsýni, sem hafa meiri metnað fyrir hönd þjóðarinnar en að fórna einstæðri náttúru hennar fyrir bruðl með orku landsins og sölu hennar á útsöluverði, sáu aldrei neitt annað en stóriðju á vegferð sinni með þjóðina fram af hengiflugi Hrunsins og virðast raunar enn vera með stóriðjuna í forgangi.
Þeir töluðu árum saman niður möguleika í ferðaþjónustu og skapandi greinum með hæðnisorðum eins og "eitthvað annaða", "fjallagrasatínsla", "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík", "fólk sem er á móti framförum og atvinnuuppbyggingu og vill að við förum aftur inn í torfkofana."
Enda þótt allt þetta svartsýnistal um "eitthvað annað" virki nú hjákátlegt blasir við að núverandi ráðamenn halda enn fast í stóriðjutrú sína og draga stórlega saman framlög til skapandi greina eins og kvikmyndagerðar.
Þeir eru við svipað heygarðshorn varðandi framhaldsskólana og menntamál og svelta Ríkisútvarpið í viðjum afleiðinga af fyrri gerðum sínum varðandi hinn risastóra myllustein sem Útvarpshúsið er og því að ræna stórum hluta af útvarpsgjaldinu frá RUV.
Þeir eru alveg blindir á raunveruleikann í heilbrigðismálunum varðandi sístækkandi hóp aldraðra í þjóðfélaginu á sama tíma sem hlutfall hinna yngri fer sífellt minnkandi.
Þegar bent er á hvernig það þurfi að takast af raunsæi og djörfung á við viðfangsefnin er bara slegið upp orðum eins og "illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal".
Þegar ástand og hegðun málsaðila í lekamálinu blasir við er talað um að þjóðin þurfi að læra af því, - ekki stjórnmálamennirnir.
Nei, þeir þurfa ekkert að læra, því að "fámennur hópur" hefur komist upp með illmælgi og sleggjudóma." Væntanlega er dómurinn yfir aðstoðarmanni innanríkisráðherra sleggjudómur?
![]() |
Brengluð sýn náð athyglinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.11.2014 | 22:35
Akureyringar skjóta Reykvíkingum ref fyrir rass.
Í Vatnsmýri fór fram fyrsta flug á Íslandi 1919. Þar ákvað bæjarstjórn rétt fyrir stríðið að gera skyldi aðalflugvöll landsins, gerð var teikning og hafin gerð flugbrauta.
Þar gerðu Bretar stóran flugvöll sem þeir gáfu Íslendingum eftir stríðið með öllum mannvirkjum hans.
Eðlilegt hefði verið að þarna hefði risið Flugsafn Íslands, gert hefði verið veglegt minnismerki á þeim stað, þar sem fyrst var flogið, varðveitt mannvirki svo sem valdir braggar, gamli flugturninn og vígin í Öskjuhlíðinni og flugsafnið verið hluti af stóru stríðsminjasafni í stíl við söfn erlendis svo sem í Noregi og Englandi.
Myndarlegt safn og vel varðveittar minjar hefðu dregið að sér þúsundir erlendra ferðamanna eins og títt er um svipuð söfn og minjar erlendis.
Af einhverjum ástæðum bar starf áhugamanna um þetta ekki ávöxt, því miður, hér í Reykjavík. Miklu réði vafalaust undarlegt tómlæti samborgara minna um flugið og jafnvel andúð margra á fluginu og flugvellinum, skilningsleysi á hinni merku flugsögu, stríðssögu, flugminjum og stríðsminjum.
Mikil verðmæti og minjar hafa farið forgörðum að óþörfu.
Á Akureyri hefur hins vegar ávallt verið gott andrúmsloft, velvild og flugáhugi meðal bæjarbúa gagnvart fluginu og flugvellinum þar. Þar á ég marga af mínum bestu flugvinum, svo sem Arngrím Jóhannsson, sem þar hefur gert flugsafnið að lífshugsjón sinni og notið samtakamáttar flugáhugamanna á staðnum og verið fremstur meðal jafningja um hið merka björgunarstarf.
Akureyringar hafa gert okkur Reykvíkingum skömm til með því að bjarga því sem bjargað varð.
Fyrir sína miklu elju og ræktarsemi eiga Arngrímur og allir hans samherjar á Akureyri miklar þakkir skildar og héðan að sunnan eru þeim sendar árnaðaróskir í tilefni 60 ára afmælis Akureyrarflugvallar, sem þeir halda auðvitað upp á á veglegan hátt.
![]() |
Flugsagan kristallast á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)