Færsluflokkur: Bloggar

Maríuerlan María er horfin af vaktinni.

Bæði þegar setið er um kyrrt um stund á hálendinu og ekki síður þegar dvalið er þar langdvölum kemur í ljós að jafnvel í því sem virðist að mestu auðn leynist fjölbreytt líf þegar að er gætt. 

Á síðustu sjö árum hef ég aldrei dvalið eins lengi á hálendinu á Brúaröræfum og í sumar og hafði þar fasta bækistöð og viðveru að mestu í þrjár vikur frá 19. ágúst til 8. september.

Á þessum tíma fór lítil maríuerla, sem ég gaf nafnið María, að heimsækja mig æ oftar og var undir lokin daglegur gestur. Ég hef sýnt af henni mynd á facebook og ætla að setja myndir inn núna á síðuna og og syngja lágt og senda henni óskalagið: "Troddu þér nú inn í Toyotu hjá mér / María, María." 

Ég sé eftir á að ég gerði of lítið af því að hæna hana að mér í haust með smá matargjöfum og mun bæta úr því ef ég verð þarna á vappi næsta sumar.  

Nú er kominn vetur þarna og meðalhiti á Brúaröræfum er svipaður í miðjum október og hann er Reykjavík í febrúar. María er því væntanlega farin og ég sakna hennar.

 


mbl.is Refurinn Gosi vaktar gosstöðvarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Djúpur ótti, andúð og einlæg aðdáun í bland.

Frá því ég var þrjú heil sumur í Kaldárseli hef ég játað það fúslega, að við ekkert er ég jafn hræddur og kóngulær. Ég kemst ekki enn yfir það augnablik þegar ég vaknaði eina nóttina við það að risastór kónguló var að skríða yfir andlitið á mér. ´

Óttinn og andúðin minnkaði ekki við það að mér var sagt að kvenkóngulóin sýndi karli sínum megnustu fyrirlitningu yfirgang og niðurlægði hann eftir að hann hefði lokið sínu hlutverki til viðhalds stofninum með því að drepa hann og éta .   

En þessi ótrúlega sterka óttatilfinning er blandin annarri, ekki síður sterkri tilfinningu, en það er aðdáun á einstæðri verkfræðilegri snilld þessarar pöddu, sem er hreint yfirgengileg.

Pælið þið bara í henni og ekki síður í hagkvæmninni sem felst í því að skítnýta karlinn.  


mbl.is Kónguló notaði stein til að halda vefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan mun meta hann að verðleikum.

Mikhail Gorbatjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna sálugu, þurfti að axla það hlutverk að leiða þegna sína í gegnum einn beiskasta ósigur í sögu heimveldanna. Sigurvegarar skrifa oftast söguna og þá mega "taparar" sín litils og hlutur þeirra er gerður sem verstur. 

Þessu hefur Gorbatjov orðið að sæta og átt undir högg að sækja, ekki hvað síst hjá Rússum.  

En sem betur fer kemur að því þegar tímar líða fram að menn sjá söguna úr meiri fjarlægð og eiga auðveldara með að fella rétta dóma. 

Þá munu líf og störf Gorbatjovs verða metin að verðleikum og hlutur hans réttur. Enginn mannlegur máttur gat komið í veg fyrir fall Sovétríkjanna og ekki er víst að heimurinn hefði komist jafn farsællega í gegnum hin örlagaríku ár sem Gorbatjov var við völd, ef hans hefði ekki notið við.   


mbl.is Mikhail Gorbatjov á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tyrkir horfa á 2014. Rússar horfðu á 1944.

Þegar Rauði herinn var kominn að Varsjá í júlílok 1944 hófu borgarbúar uppreisn gegn Þjóðverjum. 

Þá höfðu Rússar sótt samfellt á breiðri víglínu í vesturátt í eitt og hálft ár og við blasti að ekkert gæti stöðvað sókn þeirra.  

En Rauði herinn aðhafðist ekkert til aðstoðar Varsjárbúum, þótt aðeins væri 5 mínútna flug frá næsta flugvelli, sem Rússar höfðu á valdi sínu, til borgarinnar.

Þjóðverjar fengu að murka niður uppreisnarmenn óáreittir, meðal annars með risastórum Tiger skriðdrekum sínum og fallbyssum, án þess að Stalín skeytti hið minnsta um sárbeiðni Churchills um að leyfa Bretum og Bandaríkjamönnum að hjálpa Pólverjum í samstarfi við Rússa.

Það var ekki fyrr en eftir fimm mánaða kyrrstöðu við borgina sem Rússar sóttu loks inn í hana og 85% borgarinnar var þá í rúst. Mannfall Pólverja í stríðinu var hlutfallslega hið langmesta hjá nokkurri Evrópuþjóð, sex milljónir manna. 

Þessi hegðun Stalíns og Rússa er af mörgum talin ein skammarlegasta aðgerð stríðsins, svo einkennilega sem það kann að hljóma að aðgerðarleysi sé í raun jafngild aðgerðar, vegna þess að hún þjónaði þröngum hagsmunum Rússa um að ráða lögum og lofum í Póllandi eftir stríðið og þá yrði það auðveldara eftir hina miklu pólsku fórn, sem varð til einskis, veiklaði þjóðina og felldi hugdjörfustu baráttumenn hennar.

Þjóðverjar höfðu árið áður brytjað niður Gyðinga í Varsjá og Adolf Eichmann sagði að takmark Hitlers hefði verið alger útrýming Gyðinga, alls 10,5 milljóna manna.

Stalín varð æ hræddari við Gyðinga á síðustu árum sínum, og var því feginn hve margir rússneskir Gyðingar fluttu til Ísraels.  Þess vegna studdu Rússar stofnun Ísraelsríkis og báru jafn mikla ábyrgð á því að Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn, þótt fáir muni eftir því nú

Líkt og Gyðingar hafa búið í mörgum löndum hafa Kúrdar ekki búið í einu landi heldur fjórum og eru illa séðir af valdhöfunum í þeim öllum, af því að þeir vilja viðhalda yfirráðum sínum yfir búsvæðum Kúrda og auðlindum þeirra. 

Kúrdar eru um eða yfir þrisvar sinnum fleiri en Gyðingar voru og flækja því alla pólitík á búsvæðum sínum verulega.  

Níðþröng og miskunnarlaus sjónarmið ráða hegðun ríkisstjórna þessara landa varðandi Kúrda.

Þeim kann í afmörkuðum tilfellum að vera ósárt um þótt Kúrdar veiki stjórnvöld nágrannaríkjanna, ef það aðeins styrkir þeirra eigin stöðu. Svipuð hugsun og hjá Stalín varðandi Pólverja.

Hverju ríki um sig hentar það vel að Kúrdar hafi sig hæga innan sinna landamæra en að hin þrjú ríkin berjist við Kúrda þannig að bæði Kúrdar og þessi þrjú ríki veiklist við það.

Þetta er eigingjörn og ljót utanríkispólitík eins og hún verður verst.  Bandaríkjamenn og NATO sárbiðja Tyrki um hjálp til handa Kúrdum og Bandaríkjamenn og Bretar sárbáðu Rússa um hjálp 1944.

Í báðum tilfellum er beiðnunum neitað af miskunnarleysi.  

Þess vegna horfa Tyrkir aðgerðarlausir á það að Kúrdar séu murkaðir niður af villimennsku íslamistanna rétt eins og Rússar voru aðgerðarlausir þegar Pólverjar voru murkaðir niður af villimennsku nasistanna.

Þessi ljóti leikur er leikur að eldi þar sem tekin er mikil áhætta, en samt viðgengst hann nú, rétt eins og fyrir réttum 70 árum.   


mbl.is Ofsótt þjóð á braut sjálfstæðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...og ekki var sólarlagið í kvöld síðra.

Það var áhrifamikið að fylgjast með sólarupprásinni á níunda tímanum í morgun og taka myndir af því. 

Sólarlagið í kvöld gaf sólarupprásinni lítið eftir og ég er búinn að setja eina mynd af því inn á facebook síðu mína.

Nú er það svo að á langri ævi hafa blasað við svipuð fyrirbæri fjölmörg kvöld, einkum á vorin og þá með Snæfellsjökul eða Snæfellsnesfjallgarðinn í baksýn.

En gasið úr Holuhrauni breytir litunum þannig að rauði liturinn verður öðruvísi og birtist á öðrum stöðum í litrófinu og móðunni en venjulega.

Rauði liturinn í sólarlaginu í kvöld var útaf fyrir sig nokkuð hefðbundinn en samt óvenjulegur.

En um það getur hver um sig dæmt sem sér myndina á facebook síðunni.

Hana birti ég með viðeigandi texta um þá ranglátu dóma sem í dag voru kveðnir upp yfir fólki, sem vann sér það til sakar að unna fegurstu smíðum íslenskrar náttúru og setjast niður í faðmi hennar í Gálgahrauni fyrir tæpu ári.

Því máli er ekki lokið, þótt stærsta skriðbeltatæki Íslands, 60 víkingarsveitarmönnum vopnuðum gasbrúsum, handjárnum og kylfum hefði verið beitt gegn 25 friðsömum einstaklingum sem hreyfðu hvorki legg né lið.  


mbl.is Rauð sól yfir Reykjavík - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn vilja ekki læra af reynslunni.

Það ætti vel að vera hægt að læra af reynslunni miðað við getu upplýsingasamfélags nútímans til að gaumgæfa mál og koma nýtilegustu staðreyndum á framfæri. 

En enda þótt það hafi þegar komið í ljós í kreppunni miklu sem skall á um þetta leyti árs 1929, að efnahagsvöxtur sem byggðist á uppskrúfuðum verðamætatölum, sem áttu í raun enga innistæðu, gat ekki staðist til lengdar, virtist sá lærdómur gleymdur og grafinn í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008.

Nú varar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn við svipuðu og varað var árangurslaust við 2007 og 2008.  

Og það virðist ekki þurfa langan tíma til þess að menn kjósi að gleyma hlutunum.

Ef litið er á helstu upphrópanirnar hér á landi og þær bornar saman við upphrópanirnar á árunum 2002 til 2008, væri hægt að skipta flestum þeirra út fram og til baka án þess að tekið yfir eftir því, samanber:

"Traust efnahagsstjórn!" - 

"Áfram, ekkert stopp!" -

"Traust og hækkandi gengi krónunnar !"

"Stöðugleiki og meiri hagvöxtur en annars staðar!" -  

"Tvöföld hækkun arðgreiðslna í sjávarútveginum!"

"Auknar fjárfestingar í stóriðjunni!"  

 


mbl.is Vara við nýrri kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kom fram á réttum tíma.

Sjá má á blogginu spurningu um það hvað sé eiginlega að, þegar Yoko Ono mælir vinsamlega um framlag Jóns Gnarr til nútíma stjórnmála. 

Spurningin lýsir firringu, því að miklu frekar hefði átt að spyrja, hvort ekki hefði ekki verið eitthvað að hér á landi í Hruninu og aðdraganda þess.

Eða að spyrja um það hvað hefði eiginlega verið að á einstæðu róstu- og ringulreiðartímabili í borgarstjórn Reykjavíkur á svipuðum tíma.

Undarlega fljótt hefur margt fólk verið að gleyma því fári sem fólst í Hruninu og aðdraganda þess.

Það skilur ekki, að það var full ástæða til þess að Jón Gnarr gaf sig í stjórnmálin og gerði það á hárréttum tíma þegar brýn þörf var fyrir það.

Svo er að sjá það stefni í það að brýn þörf verði fyrir slíkt aftur.  


mbl.is Yoko: Jón haft áhrif um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Putin syngur "Bluberry Hill" og spilar á píanó.

Hver er hinn rétti og raunverulegii Pútín?  Í ímyndar- og áróðursrstríðinu á milli vestrænna fjölmiðla og rússneskra fjölmiðla eru dregnar upp gerólíkar myndir af honum. 

Á Youtube má sjá Putin syngja lagið "Bluberry Hill" á góðgerðarsamkomu og spila á píanó. Væntanlega til að sýna að hann sé "líbó" og geti verið mjúkur maður.

Hann er líka sýndur í júdói sem glímumaður með svart belti, synda glæsilegt flugsund og vinna táknrænar þrautir Heraklesar. Væntanlega til að sýna styrk hans og traustleika.

Hann er flottur og kraftalegur, næstum eins og frægustu kvikmyndaleikararnir sem léku hetjur og glæsilega menn.  

Það er aðeins aldarfjórðungur síðan Sovétríkin með Rússland sem allsráðandi afl voru annað tveggja risavelda heimsins.

Rússland býr enn yfir kjarnorkuvopnum af því magni sem aðeins Bandaríkin ein státað af.

Í vestrænum fjölmiðlum er greint frá því að Pútín segist geta tekið Varsjá á tveimur dögum.

Rússland er sært ljón og særð ljón geta verið varasöm, segja menn.

Dregnar eru upp myndir af gerðum Pútíns sem minni á svipaðar aðfarir Hitlers, en Þýskaland var sært ljón þegar Hitler nýtti sér það og komst til valda.

Þrátt fyrir alla upplýsingagetu nútíma fjarskipta og fjölmiðlunar er afar erfitt og flókið að lesa hið rétta út úr öllum þeim misvisandi myndum, sem dregnar eru upp af Pútín.  

Lýst er mörgum atriðum í stjórnarháttum hans innalands sem sýna ósvífinn og valdagráðugan mann sem ullar á þá lýðræðisskipan sem sé á yfirborðinu í landinu.

En því er líka lýst að hann hafi afar sterka stöðu meðal þjóðarinnar.

Og þá erum við komin að upphafinu í þessum bloggpistli, spurningunni um það hver sé hinn rétti og raunverulegi Pútín.

 

 


mbl.is Pútín málaður sem Herkúles
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afglöp fortíðarinnar.

Alla pistla um Ríkisútvarpið ætti að hefja á þeirri staðreynd að bygging Útvarpshússins á sínum tíma var dýrasta og stærsta menningarslys síðustu áratuga.  Þetta var hreint monthús og stærð þess, óhagkvæmni og stóraukinn rekstrarkostnaður, bara hússins vegna, er búinn að kosta miklu meiri peninga en nemur þeim fjármunum, sem nemur afborgununum og vöxtum af lánum RÚV.

Einstætt er að á sínum tíma sárbáðu starfsmannasamtök RÚV ráðamenn um að hætta við þessa byggingu og láta RÚV annað hvort frekar vera í sínum gömlu húsakynnum á Skúlagötu og við Laugaveg eða þá að hanna miklu minna, einfaldara og hagkvæmara Útvarpshús.  

Nú hamast óvildarmenn Ríkisútvarpsins og heimta að það sé selt. Sömu menn og stóðu fyrir einkavinavæðingu og gjafsölu banka og fleiri opinberra fyrirtækja í byrjuninni á aðdraganda Hrunsins.

Sömu menn og hamast gegn 365 miðlum vegna einkaeignarhaldsins á þeim.  

Þeir kveina sáran yfir háum greiðslum almennings fyrir afnotin af RÚV. Þó hefur það verið svo undanfarin ár að stórum hluti af útvarpsgjaldinu hefur verið "rænt" til að eyða í önnur og óskyld mál.

Það skyldi þó ekki vera svo, að ef RUV hefði fengið þessa eyrnamerktu peninga væri fjárhagsvandinn ekki sá sem hann er nú.

Sömu menn og heimtuðu að dreifkerfið væri selt kvarta nú yfir ástandi þess og kenna Ríkisútvarpinu um !

Og nú er enn hafinn upp söngurinn um að selja Rás 2 sem þó er sá hluti rekstrarins sem ber sig best.

Persónan Ragnar Reykás var hugarsmíð sem fundin var upp hjá Spaugstofunni og blómstraði hvað best í útsendingum RÚV.  Engu er líkara en Ragnar Reykás hafi ekki aðeins stjórnað ferðinni þegar Útvarpshúsið var byggt, heldur blómstri hann nú sem aldrei fyrr í þeim sem vilja gefa Ríkisútvarpið.   


mbl.is Lánagreiðslur RÚV 593 millj. á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera samkvæmur sjálfum sér.

Allt frá fjórða áratug síðustu aldar hefur það vafist fyrir mönnum, í hverju það felist að vera samkvæmur sjálfum sér í utanríkismálum. Á tímum Komintern og "Moskvulínu" sveifluðust íslenskir kommúnistar til og frá eftir línunni að austan og því hvað hentaði best alheimskomúnismanum. 

Þetta leit í flestra augum út sem hámark ósamkvæmninnar en kommarnir sjálfir voru þó samkvæmir sjálfum sér hvað snerti stuðning við heimsbyltinguna.

Við undirritun Keflavíkursamningsins 1947 og NATO samningsins 1949 var því lýst yfir að Ísland væri og yrði herlaust land á friðartímum og Íslendingar hefðu sjálfir aldrei her. Andstæðingum þeirra samninga þótti ósamkvæmni gæta í þessum yfirlýsingum af því að Keflavíkurflugvöllur yrði augljóslega notaður fyrir flutninga á hergögnum og herliði ef Bandaríkjamönnum þætti nauðsyn bera til þess.

Fylgjendum samninganna fannst þeir vera samkvæmir sjálfum sér, bentu á skilyrði Íslendinga væri einstakt, og að kommúnistar hefðu viljað fá stórveldin, Sovétríkin, Bretland og Bandaríkin til að ábyrgjast saman hlutleysi Íslands, en það myndi augljóslega geta kostað hið sama og gerðist í upphafi Fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar slíkur samningur dró Belgíu og Breta inn í stríðið.

Þegar Varnarliðið kom 1951 var það á grundvelli þess að vegna Kóreustríðsins og vaxandi stríðshættu væru ekki lengur friðartímar.

Þegar þíða varð um stund 1955-56 í Kalda stríðinu vildu allir flokkar á þingi nema Sjálfstæðisflokkurinn skilgreina heimsástandið sem friðartíma og reka herinn.

En innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland og Breta, Frakka og Ísraelsmanna inn í Egyptaland gaf Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum átyllu til að draga það að reka herinn burt.  

Svipað gerðist hjá Vinstri stjórninni 1971-74 án þess að séð væri umtalsverð breyting í ófriðarátt í heiminum þá.

Tveir menn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, ákváðu í raun 2003 að Íslendingar skyldu styðja innrás og ólöglegan hernað á hendur Írökum og nokkrir einstaklingar vou sendir þangað og til Afganistan til að lúta heraga NATO.

Í sáttmála NATO er sagt að árás á eitt ríki í bandalaginu skoðist sem árás á þau öll. En ekkert ákvæði er um það að öll rikin séu skuldbundin til að taka þátt í árásum ríkja í bandalaginu á önnur ríki.

Fordæmi er fyrir svipuðu í sögunni. Þrátt fyrir hernaðarbandalag Öxulveldanna töldu Ítalir sér ekki skylt að lýsa yfir stríði þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 og Japanir töldu sér ekki skylt að ráðast á Sovétríkin þegar Þjóðverjar réðust á þau. Hefðu hins vegar verið skuldbundnir er Sovétríkin hefðu ráðist á Þjóðverja.

Þjóðverjar voru ekki skuldbundnir til að segja BNA stríð á hendur þegar Japanir réðust á Perluhöfn, en Hitler gerði það samt, og það voru mikil mistök af hans hálfu.

Ögmundur Jónasson er samkvæmur sjálfum sér í prinsippinu í andstöðu sinni gegn því að Íslendingar styðji hernaðarárásir á samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.  

En þá vakna ýmsar spurningar. Verður ekki að rísa gegn svo villimannlegri hreyfingu af öllu afli, rétt eins og risið var gegn nasistum á sínum tíma?

Og þá vaknar aftur spurning, í þetta sinn um skilgreiningu á villimennsku.

Hvort eru meiri villimennska, hótanir íslamistanna að hálshöggva fólk og limlesta í nafni trúarbragða, eða sú hótun risaveldanna í Kalda stríðinu að eyða öllu lífi í eldi kjarnorkustríðs í ríki andstæðinganna?  

 


mbl.is Ögmundur styður ekki árásir á Ríki íslam
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband