Færsluflokkur: Bloggar

Grátlegt vanmat.

Sú saga er sífellt að endurtaka sig í veraldarsögunni að þjóðarleiðtogar hafa ekki skilið aðra þjóðarleiðtoga eða aðrar þjóðir og afleiðingarnar orðið dýrkeyptar fyrir alla. 

Verst hefur þó verið þegar þeir hafa alls ekki viljað leita eftir nauðsynlegum skilningi.

Sem dæmi má nefna að skilningsleysi Bandaríkjamanna á eðli þjóðfrelsisbaráttu Vietnama kostaði óþarft, langvinnt, skelfilegt og mannskætt stríð sem endaði með ósigri sterkasta herveldis heims.

Kanarnir gáfu sér að Vietnamar væru í einu og öllu leppar og útsendarar Rússa og Kinverja í heimsyfirráðaherferð kommúnista.

Auðvitað voru þeir, sem réðu í Norður-Vietnam, kommúnistar, en það var ekki aðalatriðið heldur hitt að barátta þeirra var ekki einasta þjóðfrelsisbarátta gegn nýlenduveldunum heldur barátta gegn ofurvaldi erlendra stórvelda almennt svo sem Kínverja og Japana.

Enda brutust út átök milli Víetnama og Kínverja þegar stríðið við Bandaríkjamenn var ekki lengur aðalatriðið. Og vinslit urðu á milli Rússa og Kínverja.  

Því meira sem gluggað er í aðdraganda stríðs Bandaríkjamanna og Japana á árunum 1940 til 1941, því betur kemur í ljós að gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, að ósveigjanleiki Japana í samningaviðræðum um deilumál þjóðanna hafi einn orðið til þess að stríðið braust á, blasir það við að úrslitakostir Bandaríkjamanna í nóvember 1941 voru gersamlega óaðgengilegir fyrir Japani.

Þess var meðal annars krafist að Japanir hættu hernaði sínum í Kína og drægju her sinn þaðan.

Að sjálfsögðu var hernaður Japana í Kína líklegast hroðalegasta og grimmansta herför síðustu aldar og árásar- og útþenslustefna þeirra sömuleiðis. En harðlínumönnum í Japan tókst að halda þessari stefnu fram í krafti þess að Japanir bæru óþarflega mikinn skarðan hlut frá borði í kapphlaupi nýlenduveldanna um lönd í Afríku og Asíu. 

Í nóvember 1941 blasti það við, að Japanski herinn yrði olíulaus innan tveggja mánaða ef ekki linnti viðskiptaþvingunum og öðrum aðgerðum Bandaríkjamanna til að "svelta" japanska herinn til hlýðni og upphgafar.

Að vera auðmýktur með því að beygja sig í duftið var miklu meira mál fyrir Samuraiana japönsku en fyrir vestræna ráðamenn. Auðmýking eftirgjafarinnar jafngilti algerum ærumissi, sem var miklu alvarlegra mál hjá japönskum herforingjum en samsvarandi eftirgjöf hjá vestrænum valdamönnum.

Í slíku tilfelli var aðeins um tvo kosti að ræða fyrir japönsku herforingjana , að ganga til orrustu eða að fremja kviðristu, harakiri.

Þýskaland var niðurlægt og sært stórveldi í upphafi kreppunnar 1930. Búið var að hluta ríkið í sundur í tvennt þannig að Þjóðverjar urðu að fara í gegnum "óvinaland" á milli Þýskalands og Austur-Prússlands.

Skaðabótakröfur Versalasamninganna voru ósanngjarnar og niðurlægjandi, að ekki sé talað um það að ALLRI skuldinni af Fyrri heimsstyrjöldinni var skellt á Þjóðverja.

Í fróðlegum breskum þáttum, sem nú eru sýndir í Sjónvarpinu um upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar, koma vel fram brestir í hinum gömlu kenningum um aðdraganda stríðsins, meðal annars um það hve herská þýska þjóðin sjálf hefði verið. Þvert á móti áttu friðarhreyfingar og friðarpólitík meira fylgi þar en í flestum öðrum löndum, þótt keisarinn og ýmsir ráðamenn í hernum aðhylltust vígbúnað. 

Það verður að "skilja óvininn" til að átta sig á gjörðum hans, jafnvel það að ein helsta menningarþjóð Evrópu, sem ól af sér Beethoven og Göthe, skyldi ganga mestu villimennsku síðustu aldar á hönd í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar.

Öfgasamtök á vorð við ISIS sem nú láta að sér kveða, blása í glæður andúðar meðal þjóða þriðja heimsins á langvarandi arðráni og ofurvaldi vestrænna stórvelda víða um heim, sem eigi þátt í hungri og dauða milljóna fátæklinga á svæðum örbirgðar og skorts.

Trúarbrögð eru misnotuð til þess að magna hefndarhug með tilheyrandi illvirkjum.

Pútín Rússlandsforseti, sem svo sannarlega stundar lítt geðslega stjórnarhætti, nýtir sér sært stolt fyrrverandi stórveldis og landlæga og aldagamla tortryggni Rússa í garð þeirra sem seilast til aukinna áhrifa í nágrannalöndum Rússlands og fyrrverandi Sovétlýðveldum og virka ógnandi í augum rússneskra valdhafa, sem minnugir eru þess þegar Þjóðverjar seildust til aukinna áhrifa í Austur-Evrópu í aðdraganda innrásar Hitlers í Sovétríkin 1941. 

Nauðsynlegt er fyrir Vesturveldin að skilja þetta og haga pólitík sinni í samræmi við það.  

 

 


mbl.is Nauðsynlegt að skilja óvininn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert jafnast á við leikhúsið. "Aftur til upphafsins."

Nútíma menning og fjölmiðlun býr yfir stórkostlegum tæknilegum möguleikum ljósavakamiðla, kvikmynda stórsýninga og bóka til þess að færa áhorfendum listir, sögur og skáldskap. 

Ég hef fengið nasasjón af túlkunarmöguleikum þessara tækja og miðla, allt frá sjónvarpi til bókaskrifa, en niðurstaðan er samt sú að hin beinu milliliðalausu tengsl milli túlkanda og áhorfanda í leikhúsi eða útileiksviði taki öllu fram. 

Það eitt að horfst er í augu og jafnvel möguleiki á beinum snertingum sem og gagnkvæmum samskiptum og tjáskiptum á jafnréttisgrundvelli, sjá og finna viðbrögð og viðtökur, tekur öllu öðru fram.

Ég kynntist leiksviðinu fyrst á sjötta áratug síðustu aldar á afar mótandi hátt en síðar komu sjónvarp og bókaskrif til sögunnar.  

Bókin hefur þann kost fram yfir aðrar aðferðir til miðlunar, að hún rúmar mun meira magn en kvikmynd eða leiksýning.

En það hefur áreiðanlega verið mikils virði fyrir ritun Íslendingasagnanna að fyrst voru sögurnar mæltar af munni fram fyrir áheyrendur og meitiluðust og mótuðust áreiðanlega mjög af því.

Þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum áratugum að fara þá leið varðandi það ef ég setti niður ýmislegt það sem ég hef upplifað og á dagana hefur drifið á ævinni, að fara það sem kalla má á enskunni "back to basics", afturhvarf til upprunans, með því að færa þett fyrst fram á leiksviði.

Var í dag uppi í Landnámssetrinu í Borgarnesi að æfa flutning áframhalds sögunnar, sem ég hóf að segja þar fyrir réttu ári, af fólki og fyrirbærum sem á dagana hafa drifið og mótað líf mitt og starf.

Í fyrra voru það árin 1940-53 sem fjallað var um em meginstef ásamt fjölskrúðugum frændgarði, sem tók mikið rými, en á frumsýningu næstkomandi föstudagskvöld verða árin 1953 til 1960 undirliggjandi tímalína.

Skólaárin, unglingsárin í borg og sveit með kynnum af stórbrotnu fólki, leiklistin og upphaf skemmtikraftsferilsins verða meginviðfangsefnið.

Þrátt fyrir að vera barn og unglingur fékk ég strax þá að kynnast ótrúlegu fjölbreyttu úrvali afk stórkostlegu fólki, allt frá aumustu vesalingum og niðursetningum til helstu ráðamanna og leikara þjóðarinnar og vonast til að geta skilað því sem best á sýningunum, sem framundan eru.    

  

 


mbl.is „Versti óvinur leikarans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núllið getur verið skemmtilegt.

Talan núll er líklega lang skammtilegasti tölustafurinn, því að notkun þess býður upp á svo margar skrýtnar mótsagnir að ekki sé nú talað um þann eiginleika núllsins að tífalda, hundraðfalda og þúsundfalda tölur með því einu að því sé bætt aftan við þær. 

Það er ekki ónýtt að geta með því að kunna mörg tungumál þagað á sem flestum þeirra. Raunar felst alger þögn í því að geta þagað á öllum tungumálum heims, og má segja að með slíkri þögn geti tungumálakunnátta náð hæstum hæðum.

Í útvarpsfréttum áðan var talað um könnun og talningu á geðrænum vandamálum drengja á aldrinum núll til tíu ára.

Samkvæmt því hefur verið kastað tölu á þá drengi, sem eru núll ára gamlir og þjást af geðrænum sjúkdömum.

Útkoman af því hlýtur að vera núll, og raunar er erfitt að hugsa sér eins eða tveggja ára gamlan dreng sem þjáist af geðrænum sjúkdómum.

 

Í nákvæmnisvísindum hefur núllið reynst erfitt viðureignar þegar um er að ræða stærðir sem eru næstar fyrir ofan það.

Þannig var kjarni efna lengi talinn minnsta mögulega stærð efnis eða allt þar til í ljós kom að hægt væri að kljúfa hann, og reyndist þessi litla stærð þá heldur betur búa yfir möguleikum til mesta risastökks sögunnar í gerð sprengna og framleiðslu orku. 

Hugtökin allt og ekkert reynast vera erfið viðfangs því að svo virðist sem ævinlega sé hægt að finna eitthvað stærra en allt og minna en það minnsta en áður var talið mögulegt.  

Alheimurinn er til dæmis hugtak sem vefst fyrir þeim sem hugsa sem svo að handan alheimsins hljóti að vera eitthvað.  

 


mbl.is Kýs að þegja á öllum tungumálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar vísbendingar um það að vera orðinn gamall.

"Tíminn líður hratt á gervihnattaöld" orti Magnús Eiríksson og á síðustu árum úreldast tæki og tól hraðar en nokkru sinni fyrr.

"Þannig týnist tíminn".

Í hugann koma tíu atriði sem gefa vísbendingu um að þú sért orðinn gamall. 

1. Þú manst eftir því þegar var "flaggað fyrir kónginum" á afmælisdegi hans.

2. Þú manst eftir því þegar amma og afi fengu síma, komin á sextugsaldur.

3. Þú manst eftir því þegar fyrstu umferðarljósin á landinu voru sett upp.

4. Þú manst eftir skiltum á húsum við Laugaveg með ör og áletruninni: "Til næsta loftvarnabyrgis".

5. Þú manst eftir strætisvagnaleiðinni "Njálsgata-Gunnarsbraut". 

6. Þú manst eftir því þegar sumir rugluðust og óku öfugt eftir Lækjargötunni fyrst eftir að hún var breikkuð um helming.

7. Þú manst eftir "matrósarfötunum" sem alla stráka langaði til að eignast.

8. Þú manst eftir fyrstu "Biropennunum" (kúlupennunum) sem voru á boðstólum á Íslandi.

9. Þú manst eftir þvi hvað þú varðst hissa þegar þú sást Corn-flakes pakka í fyrsta sinn.

10.  Þú manst eftir því þegar flugvél var vinningur í happdrætti.   


mbl.is Endurvekja áhuga á kassettum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekning á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli ?

Þegar eldgos á Fimmvörðuhálsi dó út vorið 2010 héldu margir að þar með væri endir bundinn á umbrotin þar. 

Annað kom á daginn.

Gosið reyndist aðeins vera forsmekkur á miklu öflugra gos, öskugosið fræga úr Eyjafjallajökli, sem menn áttu raunar fyrirfram miklu frekar von á en hið litla hraungos nokkru austar.

Nú er stóra spurningin hvort svipað sé í gangi á mun stærra svæði í Bárðarbungu og norðaustur af henni að því leyti að hraungosið, sem yrði þá undanfarinn, og öskugosið, sem kæmi upp í bungunni, yrðu miklu stærri og langvinnari samtals en gosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli voru.  

Margt er hægt að skoða og velta vöngum yfir varðandi framvinduna þarna, meðal annars þeim mögleika ef gosið í Holuhrauni heldur lengi áfram að nýja hraunið stífli ármót Svartár og Jökulsár við suðvesturhorn Vaðöldu og búi til tvö lón sitt hvorum megin við sig. Sjá mynd og nánari umfjöllun á facebook síðu minni. 


mbl.is Dregur úr skjálftavirkni í ganginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misleading headline?

The headline "Snow covers the ground in Holuhraun" can be misleading, because the new lava is so hot that snow is immediatelly melted and the new lava continues to be black or red, but not white as the surroundings.

But snow fell in this area for the first time when I was there from Friday evening to Saturday morning and I´ll show two areal pictures in Facebook that were shot on Saturday morning that confirm this. 

One picture is taken over the west side of the new lava and shows snow surrounding it and the other picture shows small lavafield that was created in a short eruption three weeks ago south of the craters, that are active now and are producing the far greater lavafield now. 

For the first time the outlines of this new small lavfield can be unmistakebly and clearly seen against the white snow surrounding it.  


mbl.is Snow falling on Holuhraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að færa Gæsavatnaslóðann til.

Gæsavatnaleið um Dyngjuhálsl er einhver magnaðasti og tignarlegasti hálendisslóði landsins í góðu veðri. 

Leiðinni er stundum ruglað saman við nýrri veg, sem liggur í hálfhring norðan við Trölladyngju og stendur hinum syðri að baki hvað landslag og útsýni snertir, en er settur skör ofar með þvi að merkja hann sem sérstakan hálendisveg.

Á syðrir leiðinni efst á Dyngjuhálsi eru flottar gígaraðir og útsýnið af hálsinum allt austur til Snæfells er geysi fagurt.

Ekið er um suðurbrún hins mikilfenglega sprengigígs Urðarháls.  

Slóðin er orðin til með lágmarks raski, nær eingöngu með því að jeppar hafa ekið sama slóðann án frekari tilfæringa.

Þegar komið er niður á Jökulsárflæðurnar tekur alveg nýtt landslag við þar sem ekið er yfir ótal kvíslar Jökulsár sem liggja þétt saman og síðan langa leið um sléttan sand og frá upphafi leiðarinnar á sléttlendinu og algera flata veglínu í austnorðaustur eru um 35 kílómetrar þar til komið er norður á vikrana milli Dyngjuvatns og Vaðöldu. .

Það er á þessum sandi sem nýtt hraun er nú byrjað að renna yfir slóðina eins og hægt verður að sjá á loftmynd, sem tekin var í fyrrakvöld af henni og ég ætla að setja á facebook síðu mína. 

Nokkur vegalengd, á að giska tveir kílómetrar eru enn frá nýja hrauninu á sléttum sandinum yfir í sandorpið hraun sem þekur stórt flatlendi þarna norður af og býður upp á nýtt stæði fyrir slóða þegar núverandi gosi lýkur.

Myndi ný Gæsavatnaslóð koma inn á veginn, sem liggur norður fyrir Trölladyngju heldur vestar en nú er.  

Engin ástæða er til þess að vera með rask til þess að gera nýja slóð. Hún getur komið þegar hraunið er hætt að renna lengra án þess að nota nein verkfæri og orðið svipuð slóðinni, sem hún mætir.

Rökræða kann að verða um það hvort láta eigi nýja hraunið loka þessum syðri slóða fyrir vélknúinni umferð og hafa hana aðeins fyrir göngufólk.

Að svo komnu er það mikið álitamál, því að nú þegar liggur slóði vestar í norður frá syðri leiðinni norður í þá nyrðri sem ekki er eins skemmtileg,-  vantar bæði Flæðurnar og leiðina meðfram nýja hraunjaðrinum, þannig að syðri leiðin öll lokast ekki fyrir bílaumferð nema að loka þeirri leið líka.  

Auk þess er leiðin frá Gæsavötnum um Dyngjuháls til Drekagils meira en 70 kílómetra löng og því öryggisatriði að hægt sé að fara hana á bíl.  


mbl.is Hraunið er komið yfir veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný umgjörð og ný upplifun.

Svartur litur hefur verið yfirþyrmandi á gosstöðvunum í Holuhrauni að undanförnu að undanskildum hinum eldrauðu tungum, sem hafa staðið upp úr gígunum og sindrað í hraunsttaumum þar að næturlagi og í rökkri, sem verður æ lengri hluti sólarhringsins þegar haustar. 

Raunar eru dökkir svartir og dökkgráir litir yfirgnæfandi á þessu svæði þegar það er autt, en fyrir bragðið skera aðrir litir, svo sem grænir litir gróðurvinja og bláir litir vatna, sig enn betur úr en ella.  

Nú bætist hvítur litur vetrarsnævarins við auk þess sem miklar hvítar gufur standa upp úr þeirri hrauntungu, sem hefur teygt sig lengst í norðaustur og er í mikilli glímu við vatnið í Jökulsá svo að sýður hressilega upp úr.

Það var ný lífsreynsla að eiga svefnstað á Sauðárflugvelli í fyrrinótt vegna þess að þá stóð mökkurinn beint í áttina þangað, og þessi staður var miklu nær gosinu en í byggð.

Það var sérkennileg tilhugsun að geta átt von á þvi að ósýnilegt brennisteinsloftið sigi niður af lágum hæðum fyrir vestan völlunn og safnaðist fyrir á þessum stóra slétta fleti, en í slíkum tilfellum getur eitrunin orðið afar lúmsk.

Ráðið við þessu var að aka upp á hæð og vera þar yfir nóttina.

Þegar ég kem suður úr Akureyrarferð á afmælisskemmtun Ragga Bjarna í Hofi ætla ég að huga að því að velja fleiri myndir úr þessari ferð en hafa birst fram að þessu á facebook síðu minni.   


mbl.is Snjóar í Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eindæma snjór í Snæfelli.

Svæðið norðan Vatnajökuls, nokkurn veginn milli Snæfells í austri og Trölladyngju í vestri, hefur verið sá hluti Íslands, sem er með minnsta úrkomu, svo litla, að jaðrar við þurrt meginlandsloftslag. 

Á síðustu árum hefur þetta breyst nokkuð, einkum hvað varðar svæðið í kringum Snæfell frvá Vestur-Öræfum vestur í Krepputungu.

Elstu menn muna ekki eftir eins miklum snjó á þessum slóðum og hlóðst niður síðasta vor og í sumar hefur verið meiri snjór í Snæfelli en menn minnast.

Þótt það kunni að virðast skrýtið, eru þessi miklu snjóalög að hluta til fylgifiskar hlýrra og úrkomusamara veðurfari en fyrir aldamótin. 

Áberandi hafa verið öflugar lægðir og úrkomusvæði, sem hafa komið upp að Suðausturlandi með svo miklu vatnsveðri, að það hefur komist vestur yfir Austfjarðafjallgarðinn og Snæfell, og vegna þess að þetta hefur gerst að vetrarlagi, hefur úrkoman fallið sem snjór á fjöllum.

Meiri snjór hefur verið í Kverkfjöllum en oftast áður.  

Þrátt fyrir þetta virðist Brúarjökull, stærsti skriðjökull landsins, halda áfram að minnka, bæði með því að lækka og dragast saman.

Hlýnun veðurfars gerist ekki jafnt og þétt, heldur eru algengar sams konar sveiflur á mili ára og árattuga og ævinlega hafa verið.

Frá lokum 19. aldarinnar hefur hins vegar verið áberandi, að hver hlýindatoppur er ögn hærri en næsti á undan, og hver lægðirnar hafa einnig farið smám saman hækkandi.

Síðan hafa ýmis tölvumódel leitt í ljós, að á afmörkuðum svæðum getur orðið kólnun og sýndu sum líkön það í lok síðustu aldar, að orðið gæti svalara í norðvesturhluta Evrópu og einnig úrkomusamara.  


mbl.is Vísbending um kólnandi veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Firring skrifræðisþjóðfélagsins.

Ég er það "gamaldags" að ég komst í gott skap við að aka um sveitir landsins á vorin þegar áburðarlyktin af túnunum fyllir vitin. Enn betra skap við að finna töðuilminn síðsumars.

Mér fannst magnað og gefandi að dvelja í nótt við einfaldan kost uppi á Brúaröræfum og taka á móti hálendisvetrinum í háfjallasólinni eftir snjókomu næturinnar. Ekki hvað síst eftir að hafa verið kvöldið áður í návígi við átök elds, vatns og snævar í Holuhraun Sjá myndir sem ég ætla að segja á facebook frá því í gærkvöldi og í morgun.  

Lykt af lífríkinu og sem beinust snerting við náttúruna og tengsl við hana og hin miklu öfl hennar eru ómissandi hluti af þroska lífssýn og lífsnautn okkar.

Skorti þetta tilfinnanlega myndast smám saman firring þess sem lifir aðeins og hrærist daginn út og daginn inn í exel-skjölum og tölvugögnum og verður smám saman að því sem Vilmundur heitinn Gylfason nefndi svo snilldarlega "möppudýr." 

Sívaxandi skrifræði veldur því að það er engu líkara en margt fólk umbreytist hreinlega og missi tengsl við eðlilegt og beintengt samband við umhverfi sitt, tilveru og viðfangsefni. 

Skrifræðið sjálft og endalaus vöxtur þess er orðið að höfuðhlutverkinu og hið raunverulega viðfangsefni þokar fyrir því.  

Margt að því sem möppudýrin taka upp á virðist benda til þess að þau skorti talvert af skynsemi og velvild.

Ég held ekki að þetta sé þannig, heldur að hið ómanneskjulega og tilbúna umhverfi leiði þá, sem þekkja lítið annað en það,, út á þessa braut.

Lögmál Parksinsons, sem hafa aldrei sannast eins hastarlega og á okkar tímum, fjalla ekki um að fólkið, sem lifir og hrærist i samræmi við þau, sé neitt verr af Guði gert en annað fólk, heldur það að ákveðið umhverfi laðar fram ákveðna eiginleika hjá okkur. 

Einkum er átakanlegt þegar starfsmenn þjónustufyrirtækja og stofnana virðast orðnir firrtir vitund um það hvert sé eðli þjónustunnar, til hvers hún sé, og hvernig þeim, sem njóta eiga hennar eða leita hennar, sé best þjónað.  


mbl.is Fólk kvartar undan sveitalyktinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband