Færsluflokkur: Bloggar

Vandræðaleg svör og svipbrigði sögðu mikið.

Augljóst var á svipbrigðum forsætisráðherra þegar Sigmar Guðmundsson spurði hann ágengra spurninga í Kastljósi kvöldsins varðandi mál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að honum leið ekki vel, heldur lá við að hann engdist í vandræðunum við að svara þeim. 

Þetta var síst til þess að styrkja stöðu hennar ef það var ætlunin með þessari fumkenndu vörn, heldur þvert á móti.  

Um "fyrirvarana" og "prinsippin" varðandi matarskattinn má segja það að ef ætlunin er að einfalda skattkerfið með hækkun skattsins má alveg eins búast við því að mótvægisaðgerðirnar, sem gefið var í skyn að yrðu mótaðar í meðferð þingnefndar og þingsins verði til þess að flækja málið enn frekar.

Bæði þessi mál, mál Hönnu Birnu og matarskattshækkkunin virðast ætla að verða stjórnarflokkunum og stjórnarsamstarfinu erfið í skauti.  


mbl.is Fyrirvarar fylgdu samþykkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáa grunaði þetta fyrir þremur árum.

Þegar uppreisn gegn Assad Sýrlandsforseta var komin á flugstig fyrir þremur árum vakti það ánægju Bandaríkjamanna og Breta, sem vildu gjarna að þessum spillta harðstjóra og óþæga ljá í þúfu þeirra um árabil yrði velt úr sessi. 

Uppreisnarmenn fengu því stuðning til að byrja með og ekkert var hlustað á aðvörunarorð Rússa vegna þess að þeir höfðu verið bandamenn og stuðningsmenn Assads um árabil. 

Uppreisnin var talin tákn um "arabíska vorið", byltingu lýðræðissinnaðra og nútímalegra Araba, sem færi um Líbíu, Egyptaland og fleiri Arabalönd.

Fljótlega fóru þó að koma fram efasemdir um að þetta væri rétt mat og nú er komið í ljós að það var beinlínis kolrangt.

Öfgafylltu Íslamistar, sem um getur, hafa reynst vera potturinn og pannan í uppreisninni og kenningar þeirra og aðgerðir minna helst á þá ógn sem heiminum stóð af nasistum á sínum tíma.

Það má líka minnast þess, að fagurgali Hitlers og falskur friðarvilji blekkti forystumenn Vesturveldanna á sínum tíma auk þess sem margir töldu það ekkert slæmt að hann yrði mótvægi við Stalín og kommúnistana í Kreml.  

Nú sjá menn það sama og þá, að gegn slíkum glæpamönnum sem nasistar voru og hinir hörðu 'Islamistar eru nú, duga engin vettlingatök.   

  


mbl.is Boðar loftárásir á Sýrland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mini Cooper er 53ja ára, ekki 55.

Mini Cooper og Mini Cooper S komu fyrst fram árið 1961. Þess vegna getur þessi gerð Mini ekki átt 55 ára afmæli núna eins og sagt er ítrekað í tengdri frétt á mbl.is. 

Mini Cooper var ávöxtur af samvinnu Alec Issigonis, hönnuðar Mini, þess Mini, sem á 55 ára afmæli í ár, og John Cooper, sem var kappaksturbílasérfræðingur og sá möguleikana sem hinn upprunalegi Mini bjó yfir til þess að geta valdið byltingu í smábílaheiminum hvað snerti snerpu og hraða.

Upprunalega var Mini með 998 cc vél, en sú vél gaf bílnum meira en 130 kílómetra hámarkshraða, sem var 30-40 % meiri hraði en hjá smábílum af svipaðri stærð á þeim tíma.

Mönnum óaðii við þessu og létu því minnka vélina niður í 848cc og hámarkshraðann niður í 116 km/klst.

Eini örbíllinn, sem náði slíkum hraða þá var NSU Prinz 30, sem hafði 120 km hámarkshraða og var vinsæll meðal kappakstursmanna.

John Cooper kappakstursbílafrömuður, tókst að telja Issigonis á að framleiða Mini Cooper og Mini Cooper S, sem hófu sigurgöngu sína árið 1961. 

Mini Cooper S var með þá með tvöfalt meira vélarafl en venjulegur Mini, 1275 cc 77 hestaflla vél, sem spyrnti bílnum upp í 100 kílómetra hraða á innan við 9 sekúndum og gat skilað Mini upp í meira en 150 kílómetra hraða.

Framundan næstu ár var einstæð sigurganga þessa bíls í ralli og ökukepppnum af ýmsu tagi.

Finnskir rallökumenn eins og Timo Makinen þróuðu aksturstækni á 130 hestafla Mini Cooper, sem byggðist á því að aka bílnum á hámarksafli í gegnum beygjur en standa samt það mikið á hemlunum með vinstri fæti, að bíllinn dró afturhjólin en vélaraflið yfirvann hemlunina á framhjólunum.  

Með þessari aðferð var hægt að láta bílinn "flatreka" út á hlið í gegnum beygjur að vild með samspili hemla og vélarafls þannig að framhjólin drógu bílinn á nær fullu afli í gegnum beygjurnar en afturhjólin skrikuðu nægilega til að bíllinn héldist í "flatreks"-stöðu. 

Aðferðina var hægt að nota á öðrum kraftmiklum framdrifsbílum, en mér fannst best að kasta Renault 5 Alpine rallbílnum til með stýrissveiflum til að láta hann flatreka.  

 

 


mbl.is 55 ára afmæli Mini Cooper fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráðurinn að ofan.

Ein af undistöðum ferðaþjónustunnar, sem gefur nú mest af sér í þjóðarbúið, er samgöngukerfið sem flutningar og ferðalög ferðamanna byggist á. 

Keflavíkurflugvöllur nýtur góðs af auknum tekjum af umferð, en innanlandsflugvellirnir ekki. Samt eru þeir nauðsynlegir fyrir ferðaþjónustuna og tekjur af henni.

Það er orðið ansi hart í ári þegar grípa þarf til þess að loka ódýrustu flugvöllunum vegna fjárskorts.

Flugið og mannvirkin sem því tengjast, eru þráðurinn að ofan svo að tekin sé líking af þekktri dæmisögu,  í þeim stækkandi vef, sem spunninn er í kringum ferðaþjónustuna.

Sé aðeins hugsað um að ná sem mestum peningum af ferðamönnum án þess að gefa neitt á móti til þess að bæta og auka þjónustuna við þá og vernda jafnframt náttúru landsins, mun það hefna sín.

Við svo búið má ekki standa.  


mbl.is Vantar fé til reksturs flugvalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar draumfarir - hegðun dýra.

Í hundruðum flugferða milli Suðvesturlands og Sauðárflugvallar á Brúaröræfum undanfarinn áratug hefur flugleiðin legið oft yfir eða sitt hvorum megin við Bárðarbungu.

Smám saman hefur mikilleiki þessa næst hæsta fjalls Íslands seytlað æ dýpra inn í vitundina.

Staða þess í eldstöðvakerfi landsins er likust stöðu drottningar eða guðmóður í fjölskyldu eða röð eldstöðva, sem spannar allt frá Hrafntinnuskeri í suðri og norður undir Öskju, jafnvel allt norður til Herðubreiðar.

Hún virðist hvað eftir annað senda aðrar eldstöðvar til verka líkt og mafíuforingi og ferillinn undanfarin ár bendir til þess að hún hafi smám saman verið að búa sig og sína til mikilla verka.

Þetta leiddi af sér myndatökur af henni  og nágernni hennar skömmu áður en hún fór að hrista sig og skjálfa handa fyrir þremur vikum.

Ekki hefur dregið úr áhrifamætti þessa mikla fjalls, að ég hef fjórum sinnum ekið upp á bunguna og einu sinni lent flugvél á henni. Tilvist hennar sest í sálina.

En fjallið virðist geta haft áhrif á fleiri vegu á fólk. Fólk, sem hefur áður sýnt af sér dulræna hæfileika. spágetu og draumspeki, hefur haft samband við mig að undanförnu og sagt mér frá draumförum, sem boðað gætu mikil tíðindi, miklu meiri en áður hafa gerst.

Einnig fólk, sem hefur tekið eftir óvenjulegri hegðun dýra, til dæmis því að gæsir séu óvenju snemma að hafa sig á brott frá svæðum austan við Bárðarbungu. Það rímar við mína reynslu á Brúaröræfum þar sem ég hef aldrei séð eins fáar gæsir á flugi og nú.

Fréttir kvöldsins um áhyggjur jarðvísindamanna eru ekki draumfarir eða ósjálfráð viðbrögð í ætt við hrædd dýr, heldur blákaldur veruleiki mælinga og talna, sem stinga í augu.

Hvort þetta boðar jafn mikið og það virðist geta gert skal ósagt látið.

En mér finnst rétt að greina frá þessu, hvað sem koma mun í ljós.

 

P.S. Þess má geta að ekki hafa öll dýr eða fuglar farið af Brúaröræfum. Einn hefur bæst við, sjá mynd á facebook síðu minni af nýjum vini mínum, sem hefur gert sig heimankominn á Sauðárflugvelli nú siðsumars. 

 


mbl.is Líkur á stórtækum breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upphaf myndunar gervigíga?

Hér á síðunni var fyrir þremur dögum fjallað um þann möguleika hvort samspil Jökulsár á Fjöllum og hins nýja Holuhrauns gæti orðið til þess að mynda fyrirbæri, sem kallað er gervigígar.

Einna fægastir slíkra gíga á Íslandi eru Landbrotshólar, sem Jónas Hallgrímsson uppgötvaði fyrstur manna að væru gervigígar, Rauðhólarnir við Reykjavík, myndaðir af samspili mikils hrauns sem rann úr Bláfjöllum niður í Elliðaárvog og þurfti að fara í gegnum Elliðavatn, og Skútustaðagígar við Mývatn, myndaðir úr samspili hrauns sem rann frá eldstöðvum við vatnið í gegnum það og alla leið niður undir sjó við Skjálftandaflóa.

Það sýndist ekki ýkja líklegt að slíkir gígar mynduðust við Holuhraun nema gosið væri kröftugt og hraunrennslið nógu mikið til þess að króa ána af að að einhverju eða öllu leyti.

Nú er að heyra á útvarpsfréttum að upphaf slíkrar myndunar sé að hefjast þarna, hvað sem síðar verður.

Ef það gerist, verður það í fyrsta sinn á okkar tímum sem hægt verður fyrir menn að verða vitni að því.

En reikna verður með því að menn hafi orðið vitni að því í Eldgjárgosinu 930 þegar Landbrotshólarnir urðu til, því að þá hafði landnám staðið í minnst 60 ár.  


mbl.is Stöðugur órói í Bárðarbungu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langstærsta flugvél sem hefur lent í Reykjavík.

Boeing C-17 Globemastar þotan sem lenti í gærkvöldi á Reykjavíkurflugvelli er langstærsta flugvél sem þar hefur lent, enda meira en tvöfalt þyngri og stærri en Boeing 757 vélar Icelandair.

Vegna þess að hún er hönnuð til að lenda á stuttum og ófullkomnum brautum leikur hún sér að því að lenda bæði á norður-suður brautinni og austur-vestur brautinni, en verður að vera létthlaðin til að komast í loftið.

Enn stærri herflutningavél, Lockheed Galaxy, gæti líka lent á 1100 metrum fullhlaðin ef svo bæri undir.

Lendingin sýnir gildi Reykjavíkurflugvallar sem öryggisventils í millilandafluginu, því að enda þótt þoka væri í Keflavík eins og oft er í rakri sunnan átt, sá skjólið af Reykjanesfjallgarði sem oftar til þess að gott veður væri í Reykjavík.

Ég kom akandi frá Sauðárflugvelli á Brúaröræfum til Reykjavíkur í gærkvöldi og nótt og það var þoka alla leið frá Hornafirði til Hellisheiðar, en bjart í Reykjavík.


mbl.is Herflugvél á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn langt á heimsvísu.

Ragnar Axelsson er Íslendingur sem fyrir allnokkru er kominn langt út fyrir það að vera afburða listamaður og ljósmyndari á íslenskan mælikvarða. 

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með frægðarferli RAXa, sem er er í fremstu röð á sínu sviði og orðinn svo þekktur, að hann getur einbeitt sér að því að ná enn lengra í list sinni á alþjóðavettvangi og vekja heimsbyggðina gagnvart þeim afleiðingum, sem útblástur gróurhúsalofttegunda hafa.

Með þeirri baráttu sem felst í verkum hans, einkum þeim sem hafa orðið til á Grænlandi, hefur RAX lyft sér upp fyrir það að vera eingöngu listamaður í fremstu röð á heimsvísu, heldur einnig einnig áhrifamaður. 


mbl.is Sýning RAX slær öll met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn nokkrir dagar í ný tíðindi af ánni.

Misskilingur komst á kreik í fréttum gær þegar sagt var að hraunið myndi fara yfir vestasta hluta Jökulsár á Fjöllum á einum sólarhring.

Hið rétta var að um var að ræða vestustu kvíslina af mörgum í þessum hluta árinnar og að það tæki að minnsta kosti nokkra daga fyrir hraunið að komast yfir ána.

Þetta blasti við úr lofti þegar komið var að ánni í hádeginu í gær.

Auk þess kólnar hraunið við snertinguna við ána og myndast fyrirstaða þannig að hraunstraumurinn leitar að miklu leyti áfram meðfram ánni.

Hinum megin við þennan hluta árinnar er bakki, svo að hugsanlega munu sprengingar aukast og byrja að myndast gjall, ef hraunið nær að komast alla leið yfir.

En það verður ekki strax, jafnvel þótt gosið haldi áfram með sama krafti og er á því nú.


mbl.is Ekki dregur úr gosinu í Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af merkustu bílum bílasögunnar.

Á þriðja áratug síðustu aldar voru framleiddir nokkrir aldrifs fólksbílar, bæði rússneskir og japanskir.

En Willysjeppinn braut blað að því leyti að hann var fyrsti fjöldaframleiddi fólksbíllinn ef hægt var að gefa jafn litlum, höstum og grófgerðum bíl það nafn.

Á Íslandi byggðu menn furðu stór hús á þennan bíl og í nokkur ár var hann algengasti bíllinn hér á landi.

1947 hófu framleiðendur hans smíði á stærri aldrifsbil, sem var á stærð við meðalstóran fólksbíl og var lúxusbíll í 4x4 flokknum næstu ár á eftir, en hins vegar sjaldgæfur vegna tollalaga sem gáfu ríkulegan afslátt af Willysjeppanum og síðar Land Rover og Rússajeppanum vegna ákvæða um hámarks lengd á milli fram- og afturöxla.

Allir þessir bílar voru með höstum blaðfjöðrum, en Rússajeppinn var í sérflokki með það hve mjúkar blaðfjaðrir hans voru.

Næsta bylting var Ford Bronco 1966 sem var með gorma að framan og því mun þýðari en vestrænu keppinautarnir.

Áfram var haldið að smíða aldrifsbíla með blaðfjöðrum, meira að segja Jeep Wagoneer lúxusjeppann, sem var með þessar fjaðrir alla sína tíð langt fram eftir öldinni.

Range Rover var hins vegar bylting, með mjúka gormafjöðrun bæði að framan og aftan og meira að segja mýkri en flestir venjulegir fólksbílar. Lúxusfólksbíll með lygilega torfærugetu.

Hann var með læsanlegu sídrifi og til þess að auka torfærugetu hans var fjöðrunin höfð afar löng og án nokkurra jafnvægisstanga.

Þess vegna hallaðist hann geigvænlega í kröppum beygjum.

Ég prófaði nýlega torfærugetu 41. árs gamals Range Rovers á 38 tommu dekkjum, sem ég á, með því að fara með hann í torfæru þar sem leiðin var afar ójöfn svo að sums staðar stóð bíllinn að mestu á tveimur gagnstæðum hjólum horn í horn.

Síðan ók ég öðrum gömlum fornbíl, litlum 2ja manna Hilux sömu leið.

Sá bíll er með læsanlegum öxlum og í ljós kom að hann spólaði með tvö hjól á lofti og komst ekki þessa leið nema að öllum hjólum væri læst.

Ranginn át þessa leið upp til agna án slíkra driflæsinga að framan og aftan, því hann "sendi" lausu hjólin niður til jarðar svo að þau fengju grip án læsinga.

Margt fleira mætti segja um Range Rover en ég læt þetta nægja.  


mbl.is Fyrsti Range Roverinn falur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband