GALIN VIRKJANAFÍKN - FYRRI HLUTI

Heil og sæl.  

Ég býð þá velkomna sem heimsækja þessa nýju bloggsíðu og leggja orð í belg.

Ég stefni að því að á henni verði rúm fyrir spjall um heima og geima en kýs að byrja á því sem mér liggur helst á hjarta um þessar mundir, en það er að reyna að skilgreina og útskýra betur yfirskrift  viðtals í Morgunblaðínu nýlega: "Við þurfum að fara í meðferð", - útskýra betur í hverju sú fíkn er fólgin sem kallar á meðferð með tilheyrandi skammvinnum fráhvarfseinkennum á leið til mun betra lífs og betra hlutskiptis en þess að vera bölvað af afkomendum okkar.

Myndin efst á þessari nýju bloggsíðu er táknræn fyrir þá braut sem við Íslendingar erum nú komnir á í að stórskemma eða eyðileggja það sem að mati valinna erlendra sérfræðinga í tengslum við fund umhverfisráðherra heimsins í Nairobi nýlega taldi vera er eitt af sjö undrum veraldar, - sá hluti Íslands þar sem ís og eldur móta landið á einstæðan hátt.  

Staðurinn heitir Stapar og er nú á botni Hálslóns. Fossaröðin að baki mér hægra megin fékk nafnið "Þrepafoss" hjá forsætisráðherranum í ferð hans um svæðið í sumar, fjórum árum eftir að hann og 43 aðrir þingmenn ákváðu að sökkva Hjalladal og þeim hluta hins friðaða Kringilsárrana sem er í dalnum. Þetta ákvað þetta góða fólk án þess að hafa skoðað nema bláenda lónstæðisins. Þetta fólk vann ekki vinnuna sína í stærsta máli samtímans og sækist enn og aftur eftir endurkjöri.

Yfirmaður mats á umhverfisáhrifum skoðaði aldrei Hálsinn, sem lónið heitir eftir og verið er að sökkva. "Erfitt aðgengi" var eitt af viðkvæðunum hjá þessu göngufæra fólki sem gat þó komist á jeppum um hluta af dalnum á tíma sem bauð upp á farartæki sem heitir þyrla.

Á hluta bakgrunnsins má sjá örlítinn hluta hinnar 15 kílómetra löngu, 150 metra háu og 2ja til 3ja kílómetra breiðu og bogadregnu "Fljótshlíðar íslenska hálendisins" sem er stærsti hluti þeirra 40 ferkílómetra af grónu landi sem er nú að sökkva. Hún er að sjálfsögðu í hvarfi frá þeim stað sem Landsvirkjun leiddi fólk til til að sýna þeim "urðina, grjótið, eyðimörkina og örfoka melana" sem sökkva átti svo vitnað sé margendurteknar lýsingar á þessu landi.

Vatnið í Hálslónið hefur nú þegar komist upp fyrir gráu hjallana, sem einnig eru í baksýn, hluti af einstæðu hjallalandslagi dalsins sem segir loftslagssögu síðustu 11 þúsund ára. 

Hjallarnir eru hluti af landslagsheild sem Brúarjökull, fljótvirkasti skriðjökull heims hefur mótað með eftirfarandi einstæðum fyrirbærum í þessari röð: Brúarjökull - krákustígshryggir - Hraukar - hjallarnir í Hjalladal - Stapasvæðið í botni Hjalladals - Dimmugljúfur. Að það sé í lagi að eyðileggja tvö af þessum sex fyrirbærum, hjallana og Stapana, og segja að nóg sé eftir, er hliðstætt því að taka burt hendur og búk styttunnar af Jón Sigurðssyni og segja að nóg sé eftir, - höfuð - fætur - fótstallur - lágmynd.  

Ofan við fremsta hjallann á myndinni voru heitar lindir sem fólk gat baðað sig í. Þrátt fyrir þessar heitu lindir og hins augljóslega eldvirka svæðis og innskotsganga við Stapa var því haldið fram eins lengi og stætt var að stíflurnar stæðu ekki á eldvirku svæði og upplýsingar um misgengi fór hljótt.  

Aðeins tíu dögum áður en þessum stað, Stöpunum, var drekkt uppgötvaði ég í viðtali við staðkunnugan mann á Aðalbóli að gljúfrið, sem Jökla rennur þarna um, hefði ekki verið til fyrir 40 árum, heldur hefði áin runnið þá uppi á malarhjalla, sem þá var botn hennar.

Á líkum stöðum erlendis er fyrir löngu búið að bæta aðgengi og setja upp upplýsingaskilti til að útskýra fyrir ferðamönnum hvað þeir horfa á, - hvernig vatn, vindur og önnur öfl hafi mótað landið í hundruð þúsundir eða milljónir ára. 

Hér á botni Hjalladals mátti hins vegar sjá hvernig Jökla hafði á aðeins 40 árum búið til þetta gljúfur, þvegið flata eldrauða flikrubergsklöpp fyrir innan það sem kalla mætti Rauðagólf, og búið til svonefnda Rauðuflúð, stærstu flúðina í ánni. Við hina yngri ferðamenn hefði mátt segja: "Komið þið aftur eftur 40 ár og þá verður Jökla búin að sverfa niður enn dýpra gljúfur með rauðum klettaveggjum, fyrsta áfangann af "Rauðagljúfri".

Það, að maður skyldi hafa uppgötvað þetta ásamt ótal öðru á þessum slóðum svo seint sýnir vel hve hræðilega skammt sú vinna er komin á veg hér á landi að rannsaka og skilgreina þau náttúruverðmæti sem erlend sérfræðinganefndin lagði til grundvallar því mati að Ísland sé eitt af sjö undrum veraldar. Það er til marks um verðmætamatið hér á landi að aðeins var minnst á þetta álit sérfræðinganna ítillega á innsíðu í einu daglblaðanna.

Á baksíðu Morgunblaðsins var í haust stór frétt um 40 störf sem ný málmblendiverksmiðja á Grundartanga myndi skapa og gumað af því í fréttinni að þetta sýndi hina miklu möguleika sem orkufrekur iðnaður (mesta hugsanlegt orkubruðl) gæti gefið þjóðinni. Á sama tíma verða sjálkrafa til 2000 ný störf á Íslandi á hverju ári án þess að fréttnæmt þyki. Í lítilli smáfrétt á innsíðu fyrir tveimur árum var í sama blaði greint frá ákvörðun um nýja flugleið Flugleiða sem gæfi 200 störf.

Hægt væri að nefna ótal fleiri dæmi um það brenglaða verðmætamat sem fylgt hefur virkjana- og orkufíkninni. Hún færist sífellt í aukana eins og títt er um hliðstæð fyrirbæri. Skammtarnir verða stærri og stærri. Álverið sem reis í upphafi við Straumsvík var 33 þúsund tonn. Ný liggja fyrir yfirlýsingar um það að álverin sem nú eru á teikniborðinu og bæta þurfi við verði alls minnsta kosti þrjátíu sinnum stærri.

Svo að ég noti uppáhaldsorð þeirra sem ráða ferðinni, "gróði",  er lítið gefið fyrir og þagað um þá stórkostlegu gróðamöguleika sem gæðastimpillinn "eitt af sjö undrum veraldar" gæti gefið þjóðinni en hampað 40 störfum sem málmbræðsla í Hvalfirði geti fært okkur á kostnað náttúruverðmæta sem eru hundrað sinnum verðmætari að minnsta kosti.

Ég ætla að útskýra þetta nánar í framhaldi þessa pistils þar sem rökstutt verður með hrollvekjandi staðreyndum hvernig þessi fíkn er komin langt út fyrir öll skynsemismörk, - að því er virðist án þess að nokkur hafi veitt því athygli til fulls, - svo samdauna erum við orðin þessu fári.

Þá skuluð þið halda ykkur.

Með bestu kveðjum.

Ómar.

 

 

 


Bloggfærslur 14. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband