"EKKI ER ÉG VEL GÓÐUR ENN".

Þegar einn af kynlegu kvistunum í Reykjavík í den fipaðist á reiðhjóli og hjólaði inn um gluggann á veitingastaðnum Uppsalakjallaranum, reis hann blóðugur upp úr brotnu leirtaui milli borðanna, leit á hjólið og sig og sagði: "Ekki er ég vel góður enn." Þetta kemur í hugann nú þegar ég horfi á Bjarna Ármannsson og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í sjónvarpi. Ætlar þetta engan enda að taka?

F-LISTI FRJÁLSLYNDRA OG ÓHÁÐRA.

Það virðist vefjast fyrir mörgum hvers eðlis aðild F-listra frjálslyndra og óháðra sé að nýju borgarstjórnarsamstarfi. Menn geta svo sem túlkað þetta í ýmsar áttir en þó hygg ég að rétt sé hafa eftirfarandi í huga:

Þessi umræddi listi var kjörinn 2006 áður en Íslandshreyfingin varð til. Fimm af sex efstu mönnum hans sögðu sig úr Frjálslynda flokknum á útmánuðum 2007.

Efsti maður listans er í leyfi. Margrét Sverrisdóttir er réttkjörinn varamaður hans og saman hafa þau átt hlut í myndun nýs meirihluta borgarstjórnar.

Margrét Sverridóttir er varaformaður Íslandshreyfingarinnar og hennar samherjar í Íslandshreyfingunni að Ólafi frátöldum (sem hefur verið í leyfi frá stjórnmálastörfum) voru ofarlega á I-listanum við síðustu alþingiskosningar og háðu harða kosningabaráttu.

Margrét hefur sagt að stefna Íslandshreyfingarinnar sé sú stefna sem hún hefði viljað að Frjálslyndi flokkurinn hefði. Það á til dæmis við um stóriðjumálin en Ólafur F., Margrét og samherjar þeirra í borgarstjórn héldu uppi mjög öflugum málflutningi í umhverfismálum í borgarstjórn og stóðu þá vakt öðrum betur.

Þetta urðu þau að gera í minnihlutaaðstöðu og þess vegna hlýtur það að vera gleðiefni ef sjónarmið þeirra eiga möguleika á meiri framgangi í meirihluta en minnihluta.

Þrátt fyrir að upp kæmi ný staða hjá fólkinu á F-listanum í fyrravetur hefur sá hópur sem unnið hefur mest fyrir listann í borgarstjórn haldið áfram starfi sínu í borgarmálum án þess að riðlast. Dæmi þar um er að einn fulltrúa listans í nefndum borgarinnar er félagi í Frjálslynda flokknum. Það er eðlilegt, miðað við það að listinn er kenndur við frjálslynda "OG ÓHÁÐA".

Ólafur F. Magnússon tók upphaflega sæti á F-lista sem óháður og saga og nafn listans sýnir það eðli listans að hann er ekki rígbundinn við flokka.

Um kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum gildir hið sama og um alþingismenn: Þetta fólk er einungis skylt að fylgja sannfæringu sinni og starfa í samræmi við stjórnarskrá og önnur lög. Enginn stjórnmálaflokkur "á" þetta fólk.

Ég sé hins vegar ekkert óeðlilegt við það að mér og fleirum í Íslandshreyfingunni líki það vel að gott fólk sem ég hef kynnst vel að góðu einu komist í aðstöðu til að berjast fyrir framgangi hugsjóna sinna.

Vægi mála er misjafnt í sveitarstjórnum og á landsvísu og sömuleiðis getur samstarf flokka verið mismunandi.

Minnt hefur verið á það í umræðunni að flugvallarmálið hafi verið aðalmál F-listans í síðustu borgarstjórnarkosningum og verði það væntanlega áfram. Ekki liggur fyrir hvernig því máli verður landað í nýju samstarfi en ég sé ekki að því verði ráðið endanlega til lykta á næstu 2,5 árum vegna þess að fyrir þann tíma liggja ekki fyrir nauðsynlegar upplýsingar.

Á Umhverfisþingi kom fram að unnið sé að friðun Skerjafjarðar og að því máli koma fimm bæjarfélög. Hvað varðar flugvöll á Lönguskerjum er það mál því langt frá því að vera leyst.

Það virðist vefjast fyrir sumum hvert fylgi Íslandshreyfingarinnar hafi verið og voru nefnd tvö prósent í þættinum Mannamáli í gærkvöldi. Íslandshreyfingin fékk hins vegar 4,85% fylgi í Reykjavík í alþingiskosningunum og 3,3% á landsvísu.

Fylgi I-listans hefði nægt til að koma tveimur þingmönnum að í Reykjavík ef ekki hefði verið settur þröskuldur sem kom í veg fyrir 6000 kjósendur fengju fulltrúa miðað við fylgi á við aðra landsmenn.


Bloggfærslur 15. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband