25.10.2007 | 23:29
SÓMI AKUREYRINGA, SKÖMM REYKVÍKINGA.
Flugvél flaug fyrst á Íslandi í Vatnsmýri í Reykjavík 1919. Ef allt væri með felldu stæði minnismerki um það á þessum stað við nýju Hringbrautina. Nelson og félagar hans lentu í Reykjavík í fyrsta hnattfluginu. Lindberg lenti þar líka. Zeppelin loftfarið flaug yfir Öskjuhlíðina 1930. Balbo og félagar lentu líka í Reykjavík. Súlan flaug frá Reykjavík í kringum 1930. Vagga íslensks flugs er því í Reykjavík því að flugfélag Akureyrar var ekki stofnað fyrr en 1938. En þessa sér hvergi stað í Reykjavík, - ekkert flugminjasafn, engin minnismerki.
Frá gamla flugturninum í Reykjavík var orrustunni á stórum hluta Norður-Atlantshafs stjórnað. Án sigurs í þeirri orrustu hefði engin landganga orðið í Normandí 1944 og Sovétmenn labbað vestur yfir Þýskaland.
Gamli flugturninn er í niðurníðslu og áætlanir hafa verið uppi um að brjóta hann niður. Fulltrúum Breta á Íslandi er slíkt óskiljanlegt. Ég hef séð þar í landi og í Noregi og Frakklandi hvernig menn umgangast af virðingu og stolti hliðstæðar minjar um baráttuna gegn þeirri villimennsku sem Hitler stóð fyrir.
Fyrstu stríðsárin voru Reykjavíkurflugvöllur, Skerjafjörður og Hvalfjörður miðja baráttunnar sem rekin var gegn nasistum frá Íslandi. Einu minjarnar um þetta eru varðveittar á byggðasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!
Þar stendur sjóflugvélaskýlið sem á sínum tíma var stærsta bygging Íslands og stóð í Vatnagörðum í Reykjavík.
Við ýmsar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli hafa merkar flugminjar farið forgörðum og minnisverðar flugvélar farið í uppfyllingar undir flugbrautir.
Fyrsta millilandaflug Íslendinga var farið frá Reykjavíkurflugvelli, þar lenti fyrsta þotan og ótal frægar vélar úr flugsögu heimsins hafa lent þar.
Loftleiðir voru stofnaðar í Reykjavík og frá Reykjavík hóf Björn Pálsson brautryðjendaflug sitt með sjúklinga.
Landhelgisgæslan hefur frá upphafi verið með starfsemi sína þar með tengsl við þorskastríð og fræknar bjarganir.
Svona mætti áfram telja upp ástæður fyrir því að þessarar merku sögu sæi stað í höfuðborg Íslands.
Sem borinn og barnfæddur Reykvíkingur skammast ég mín fyrir að svo er ekki.
Að sama skapi tek ég ofan hattinn fyrir Akureyringum og feðgunum á Hnjóti fyrir að reyna að bjarga því sem bjargað verður.
Fyrir tuttugu árum fannst mér skemmtilegt yfirlæti fólgið í nafninu "Flugklúbbur Íslands, Akureyri."
En það var okkur Reykvíkingum mátulegt að þeir fyrir norðan sendu okkur smá pillu sem nú er orðin að mörgum pilluglösum.
Arngrímur Jóhannsson á vafalaust drjúgan þátt í því hve sómi Akureyringa er mikill á þessu sviði.
Árans vandræði eru það að í höfuðborginni og vöggu flugsins á Íslandi skuli hvorki vera neinn Arngrímur né skilningur á þýðingu þess að varðveita söguna og menningararfinn á fleiri sviðum en þeim sem tengjast landi og sjó.
![]() |
Forngripir flugsögunnar á einum stað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
25.10.2007 | 10:38
AFDRIFARÍK MISTÖK Í FARANGURSFLUTNINGI.
Fréttin um 30 golfsettin sem Icelandair skildi eftir minnir á ein afdrifaríkustu mistök á þessu sviði sem urðu í ágúst 1950 þegar keppnistaska Arnar Clausens varð eftir á Reykjavíkurflugvelli og það kostaði hann líklega Evrópumeistaratitil í tugþraut. Þetta var sérlega slæmt fyrir tugþrautarmann sem notar fleiri en eina tegund af skóm í mismunandi greinum. Örn varð t.d. að fá lánaða allt of stóra skó hjá Jóel Sigurðssyni spjótkastara í köstin enda náði hann ekki sínu besta þar.
Örfáum stigum munaði að Örn yrði Evrópumeistari og hann hefði meira að segja orðið sigrað ef ný stigatafla hefði þá verið tekin í gildi á mótinu.
Á þessum tíma voru flugsamgöngur stopular milli Íslands og Evrópu og ekki hægt að fá skó að heiman.
En það sem verra var, - í gildi voru innflutningshöft sem ollu því að sárafáir skór voru til. Sem dæmi um það má nefna að Torfi Bryngeirsson var svo heppinn að vinna í hlutkesti einu nýju stökkskóna sem svonefnt Fjárhagsráð úthlutaði KR.
Torfi sagði síðar að þetta hlutkesti hefði ráðið úrslitum um það að hann hreppti Evrópumeistaratitillinn í langstökki.
Örn var ekki bara óheppinn með skóna, heldur var hann ljónheppinn í bókstaflegri merkingu hvað það snerti að Haukur, tvíburabróðir hans, keppti líka á EM og gat því lánað honum skó fyrir hlaupagreinarnar.
Á þessu móti gerðist það stórslys í íþróttasögu Íslendinga að Haukur fékk ekki að keppa í sinni bestu grein, 200 metra hlaupinu, en varð sammt fimmti í 100 metra hlaupinu.
Eftir EM fór Haukur til Svíþjóðar og náði þar besta tíma ársins í Evrópu í 200 metra hlaupi og setti Norðurlandamet sem stóð í annan áratug!
Örn Clausen var þriðji besti tugþrautarmaður heims árin 1949, 1950 og 1951 og ég hef fært að því rök að hefðu bræðurnir ekki hætt keppni aðeins 23 ára gamlir hefði verið góður möguleiki á því að þeir hefðu báðir getað staðið á verðlaunapalli fyrir tugþraut á OL í Melbourne 1956.
Nánar má lesa um þetta í bókinni "Mannlífsstiklur" þar sem meðal annars er fjallað um fræknasta lið íþróttamanna sem Íslendingar hafa sent til keppni erlendis.
![]() |
Icelandair skildi 30 golfsett eftir á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)