AFDRIFARÍK MISTÖK Í FARANGURSFLUTNINGI.

Fréttin um 30 golfsettin sem Icelandair skildi eftir minnir á ein afdrifaríkustu mistök á þessu sviði sem urðu í ágúst 1950 þegar keppnistaska Arnar Clausens varð eftir á Reykjavíkurflugvelli og það kostaði hann líklega Evrópumeistaratitil í tugþraut. Þetta var sérlega slæmt fyrir tugþrautarmann sem notar fleiri en eina tegund af skóm í mismunandi greinum. Örn varð t.d. að fá lánaða allt of stóra skó hjá Jóel Sigurðssyni spjótkastara í köstin enda náði hann ekki sínu besta þar. 

Örfáum stigum munaði að Örn yrði Evrópumeistari og hann hefði meira að segja orðið sigrað ef ný stigatafla hefði þá verið tekin í gildi á mótinu.

Á þessum tíma voru flugsamgöngur stopular milli Íslands og Evrópu og ekki hægt að fá skó að heiman.

En það sem verra var, - í gildi voru innflutningshöft sem ollu því að sárafáir skór voru til. Sem dæmi um það má nefna að Torfi Bryngeirsson var svo heppinn að vinna í hlutkesti einu nýju stökkskóna sem svonefnt Fjárhagsráð úthlutaði KR.

Torfi sagði síðar að þetta hlutkesti hefði ráðið úrslitum um það að hann hreppti Evrópumeistaratitillinn í langstökki. 

Örn var ekki bara óheppinn með skóna, heldur var hann ljónheppinn í bókstaflegri merkingu hvað það snerti að Haukur, tvíburabróðir hans, keppti líka á EM og gat því lánað honum skó fyrir hlaupagreinarnar.

Á þessu móti gerðist það stórslys í íþróttasögu Íslendinga að Haukur fékk ekki að keppa í sinni bestu grein, 200 metra hlaupinu, en varð sammt fimmti í 100 metra hlaupinu.

Eftir EM fór Haukur til Svíþjóðar og náði þar besta tíma ársins í Evrópu í 200 metra hlaupi og setti Norðurlandamet sem stóð í annan áratug!

Örn Clausen var þriðji besti tugþrautarmaður heims árin 1949, 1950 og 1951 og ég hef fært að því rök að hefðu bræðurnir ekki hætt keppni aðeins 23 ára gamlir hefði verið góður möguleiki á því að þeir hefðu báðir getað staðið á verðlaunapalli fyrir tugþraut á OL í Melbourne 1956. 

Nánar má lesa um þetta í bókinni "Mannlífsstiklur" þar sem meðal annars er fjallað um fræknasta lið íþróttamanna sem Íslendingar hafa sent til keppni erlendis.  

 

 


mbl.is Icelandair skildi 30 golfsett eftir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Talandi um Örn Clausen þá finnst mér því lítt á lofti haldið að hann átti heimsmet í 1000 metra boðhlaupi um skeið. Nú orðið er aldrei keppt í 1000 metra boðhlaupi en það  var alls ekki svo sjaldgæf keppnisgrein á sínum tíma.

Sæmundur Bjarnason, 25.10.2007 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband