GERUM BÚÐARFERÐIRNAR ÞÆGILEGRI !

Fyrir örfáum dögum birtist frétt um að verslunarmiðstöð á Spáni hefði látið útbúa athvarf fyrir þá sem ekki eiga að fullu samleið með verslunarfélögum sínum og ég sagði við sjálfan mig: Mikið var að einhver áttaði sig á þörfinnni fyrir að auðvelda fólki að láta sér líða vel í verslunarferðum. Ég skal nefna dæmi sem útskýrir það sem ég á við. Ég og undirleikari minn, Haukur Heiðar Ingólfsson læknir, höfum farið í fjömargar ferðir til útlanda til þess að skemmta Íslendingum erlendis.

Haukur vann sem ungur maður í verslun á Akureyri og Helga kona mín hefur unnið í verslunum um áratuga skeið frá unglingsárum. Þau hafa gaman af því að fara um verslanir þótt þau versluðu ekki neitt, einkum fataverslanir, því að bæði unnu lengst af í fataverslunum og því áhugavert að kynna sér fatatískuna, verslunarhættina og uppstillingu varningsins.

Sveinrós kona Hauks hefur einnig gaman af því að skoða verslanir. Ég á ekki slíkan bakgrunn, hef nákvæmlega engan áhuga á fatnaði og verslunum.

Ég hef hins vegar gaman af því að rölta um í góðum bókaverslunum og verslunum sem bjóða upp á ljósmyndavörur, kvikmyndavélar, tölvur og varning sem tengist flugvélum og bílum.

Ég er yfirleitt mun skemmri tíma inni í þessum verslunum en hin þrjú í sínum verslunum.

Við höfum fyrir löngu komið okkur upp fyrirkomulagi sem hentar okkur öllum afar vel og kallar á sérstakt athvarf fyrir það okkar sem ekki er að rölta um búðir í það og það skiptið.

Við göngum í smátíma saman en fljótlega kemur að því að við höfum ekki áhuga á að skoða öll sömu hlutina jafnlengi.

Þá ákveðum við að gefa verslunargönguna frjálsa fyrir hvern og einn eða tvö og tvö saman eftir atvikum og sammælumst um að hittast öll á ákveðnum tíma á ákveðnum stað.

Oftast er það ég sem eignast við þetta aukalegan tíma þar sem ég er ekki að skoða varning og þá hef ég löngum undrast að ekki skuli vera til athvarf fyrir þá sem svo háttar um.

Þetta er misjafnt eftir stöðum. Stundum er hægt að setjast niður á veitingastað og koma sér fyrir við borð með fartölvu, bók eða annað, en í sumum verslunarmiðstöðvum er þetta ekki auðvelt.

Ég minnist þess til dæmis hve örðug aðstaða mín var í Illum Kaupmannahöfn að finna stað þar sem ég gæti dundað við að semja texta við lag.

Þörfin fyrir athvarf getur verið mismunandi eftir atvikum og því ekkert endilega kynbundin. Til dæmis unir Haukur Heiðar sér oft vel í sínum upphaldsverslunum og stundum stendur þannig á að það eru karlarnir eða karlinn sem á tímafrekara erindi við innkaup sín eða skoðun á vöruúrvali.

Þegar við Bubbi Morthens fórum til Manchester til að lýsa hnefaleikakeppni langaði hann að skoða sérverslun með flugur fyrir veiðimenn en mig langaði að skoða nýjustu árgerð af gömlu gerðinni af Mini sem þá var enn framleidd.

Til gamans fyrir báða fórum við báðir á báða staðina og skemmtum okkur konunglega yfir því að fylgjast með sérvisku og hegðun hvor annars. Ég hafði nákvæmlega ekkert vit á flugunum og hann vissi ekkert um Mini, enda var hann þá enn ekki kominn með bílpróf ef ég man rétt og hafði engan áhuga á bílum.

En viðbrögð mín við framtaki Hagkaupa er þessi: Fögnuður yfir því að forráðamenn stórra verslana og verslunarmiðstöðva lagi sig loks að verslunarhegðun viðskiptavinanna.

Eða er það ekki boðorð númer eitt í verslun: Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér ?


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MEIRIHLUTINN SEM VARÐ MINNIHLUTI.

Hvers vegna þarf aftur og aftur að berjast sérstaklega fyrir því í kjarabaráttu að reyna að hífa upp þá sem lægst hafa launin og ekki hafa notið launaskriðs? Af hverju virðist þetta ástand hafa versnað síðustu áratugi? Ég held að hluti skýringarinnar sé fólgin í því að nú er það minnihluti verkalýðsins sem vinnur eftir strípuðum töxtum en fyrr á árum var það meirihlutinn. Skoðum þetta nánar. 

Þegar ég var ungur voru línurnar í verkalýðsbaráttunni nokkuð skýrar. Verkamenn voru fjölmenn stétt og yfirgnæfandi meirihluti þeirra vann á "strípuðum" töxtum eins og það væri kallað nú. Ég tel mig hafa haft gott af því að allt frá 13 ára aldri vann ég verkamannavinnu í jólafríi, páskafríi og á sumrin. Á aldrinum 17-20 ára vann ég líka á kvöldin og um helgar við byggingu Austurbrúnar 2 til að eignast þar íbúð og held að ég kynnst nokkuð vel kjörum verkalýðsins á þessum tíma.

Verkamenn voru svo fjölmennir þá vegna þess að ekki voru komin til sögunnar hin fjölmörgu tæki og tól sem nú eru notuð við að grafa skurði, leggja vegi o. s. frv. Sem dæmi má nefna að víða varð að beita þeirri aðferð við að flytja til varning, t. d. í pakkhúsum, að verkamenn mynduðu röð og varningurinn var handlangaður manna á milli þá leið sem þurfti að flytja vöruna. Í svona röð afkastaði enginn maður meira en annar og því var eðlilegt að allir hefðu sama kaup.

Þegar skipað var upp t. d. sekkjavöru tóku tveir og tveir saman sekkina upp og settu þá upp á bretti. Báðir afköstuðu jafn miklu.

Á þessum árum var atvinnuleysi. Ég var stundum einn af þeim sem fór í biðröð niðri við höfn og beið eftir því hverja Jón Rögnvaldsson valdi til vinnu þann daginn.

Við slíkar aðstæður varð því ekki til launaskrið heldur mætti kalla það vinnuskrið. Þeir sátu eftir sem ekki fengu vinnu.  

Verkalýðsbaráttan varð því einfaldari en nú. Barist var fyrir launahækkun og þegar laun hækkuðu hækkuðu svo til allir jafnt. Verkamannafélagið Dagsbrún var einsleitt félag að þessu leyti og yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna vann á strípuðum töxtum. Og meirihlutinn hefur alltaf sterka stöðu innan hópsins, ekki satt?

Nú er þetta gjörbreytt. Í verkamannafélögunum er líkast til minnihluti sem vinnur einfalda verkamannavinnu með handverkfærum. Meirhlutinn hefur farið á námskeið, vinnur eftir bónuskerfi o. þ. h. og mun fleiri eiga möguleika á launaskriði en þegar afköstin fólust eingöngu í líkamlegu erfiði.

Afleiðingin er sú að þessi minnihluti hefur erfiða stöðu og ég held að það sé þess vegna sem svona illa gengur að hífa þá lægst launuðu upp í kjarabaráttunni. Af því að hver hugsar á endanum um sitt eigið veski siglir meirhlutinn aftur og aftur í burtu frá kjörum minnihlutans og skilur hann eftir með sárt ennið.

Hvers vegna skyldi meirihlutinn berjast fyrir kjörum minnihlutans? Og jafnvel þótt hann geri það í orði er alltaf hætta á að það verði ekki á borði.

Ég tek fram að ég hef ekki kynnst kjörum kvenna í verkalýðsstétt á sama hátt á okkar tímum og kjörum karla fyrr á árum og framangreindar vangaveltur eru því alls ekki vísindaleg greining heldur einungis tilraun til að leita skýringar á hluta þess vandamáls sem bág kjör hinna lægst launuðu er og stingur illilega í stúf við það meðaltal sem notað er þegar okkur er skipað efst á stall bestu þjóðfélaga heims.   

 


Bloggfærslur 29. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband