VEÐURVÆTTIR REIÐAR.

Var að fá upphringingu um að útskýra frekar kviðlinginn á bloggsíðunni í dag. Sjálfsagt mál. Nafn kviðlingsins eru af gefnu tilefni, óveðri sem hefur riðlað áætluninni um fyrirkomulag gangsetningarathafnar Kárahnjúkairkjunar. Nafnið er hliðstætt hugtakinu "Kverkfjallavættir reiðar", sem Jón Helgason notað í því erindi Áfanga sem fjallar um Hvannalindir og svæðið þar í kring.

Fyrstu hendingar kviðlingsins lýsa því að Kárahnjúkavirkjun er mikið verkfræðilegt afrek og að því leyti geta þeir sem að því stóðu að því að framkvæma skipanir um byggingu hennar verið stoltir af þessari mestu framkvæmd Íslandssögunnar. En það er nokkurn veginn það eina sem ég sé ástæðu til að vera stoltur af.

Stoltið er blandað skammartilfinningu svipað og ef besta fáanlega tækni yrði notuð til að virkja Geysi og Gullfoss eða stækka Steingrímsstöð með því að drekkja Þingvöllum.

Vatnajökull og svæðið umhverfis hann er einfaldlega langverðmætasta náttúrufyrirbæri Íslands sem líkt og mestu listaverk heims þolir ekki að stórum hluta þess sé umturnað fyrir virkjun sem ekki einu sinni stenst lágmarkskröfur um arðsemi.

Nú útiloka vísindamenn ekki að á sprungusveim Kverkfjalla geti orði eldgos af mannavöldum vegna þungans af Hálslóni sem vex og minnkar á víxl á hverju ári. Verði eldsumbrot þarna fá orð Jóns Helgasonar um "Kverkfjallavættir reiðar" nýtt líf.

Þeir hinir sömu og nú eru stoltir af verkfræðilegum afrekum eystra myndu þá væntanlega líka verða stoltir af því að þessi tækni ylli eldgosi. "Stórkostlegt túristagos, auknar ferðamannatekjur á svæðinu!"

Allt þetta og fleira á ég við með orðinu "virkjunarhneyksli".

Ég vísa í fyrri skrif mín um það gildi sem ósnortinn Hjalladalur hefði haft og á eftir að blasa við fólki enn betur en fyrr þegar heimildarmyndir um hann líta dagsins ljós.

Margkyns ráð eru notuð til að kaupa fólk til fylgis við þessar framkvæmdir sem þurrka munu upp stórkostlega fossa á næsta ári í viðbót við það að fylla Hjalladal af auri.

Reiðum vættum landsins, í þetta sinn veðurvættum, tókst að koma skilaboðum á framfæri í dag. Spurt var rétt í þessu í útvarpinu hvers vegna engir mótmælendur hefðu verið við Nordica. Því er auðsvarað: Það var ekki vitað fyrirfram að sá hluti athafnarinnar, sem fínasta fólkinu var boðið til færi þar fram.

Ómakið var reyndar tekið af mótmælendum, - veðurvættirnar sáu um mótmælin á margfalt áhrifameiri hátt. Vona að þetta dugi til útskýringar á neðangreindum kviðlingi í tilefni dagsins:

VEÐURVÆTTIR REIÐAR.

Tæknin er mikil og mögnuð /
svo mennirnir kikna í hnjánum, /
en fjölröddun fuglanna er þögnuð /
og fossarnir allir í ánum. /
Já, nú ber vel til veiðar, - /
af virkjunarhneyksli menn guma /
er veðurvættir reiðar /
varnaðarorðin þruma. /

Bjóðast þar fúlgur fjárins /
svo fylgi við spjöllin tryggist. /
Fagran dal fylla skal auri. /
Fjallkonan tárast og hryggist. /
En þið sem að því standið /
og umturna landi hyggist, - /
verknaður ykkar mun uppi. /
á meðan land byggist. /


mbl.is Ræs! sagði Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FRÁLEITUR UPPSLÁTTUR.

Síðan hvenær er það orðið að stórmáli í fréttum hvort stjórnmálamenn hafa læknisvottorð upp á vasann þegar þeir koma úr veikindaleyfi? Þeir hafa oft og iðulega eins og annað fólk farið í veikindaleyfi og komið aftur án þess að blásist hafi upp umræða um vottorð, enda finnst mér það vera einkamál viðkomandi hvort hann fær sér slíkt vottorð og framvísar því eða ekki.

Dæmi: Ólafur Thors fór í margra mánaða veikindafrí að læknisráði og kom aftur án þess að nokkur væri að pæla í vottorði. Ingibjörg Pálmadóttir fékk aðsvif og hélt síðan áfram og enginn talaði um vottorð. Nýlega flutti Einar Karl Haraldsson ræðu fyrir Össur og enginn talaði um vottorð. Þyrla sótti forseta Íslands á Snæfellsnes og hann var fluttur á sjúkrahús þegar hann axlarbrotnaði í Landssveit og enginn minnist á vottorð.

Bush Bandaríkjaforseti fór í læknisaðgerð og var frá á meðan og engan fjölmiðil sá ég minnast á vottorð.

Kannski fengu allir þessir menn sér vottorð? Ef svo var, - hvað með það? Það veit það enginn því enginn hefur spurt enda einkamál viðkomandi.

Á bloggsíðu Önnu Kristinsdóttur kemur fram að hvergi sé stafur um vottorð í reglum borgarstjónar og þess vegna eru allar þessar samsæriskenningar og upphrópanir út í hött.

Ég segi bara: Hættum þessu kjaftæði og leyfum Ólafi F. að eiga jól og áramót í friði.


mbl.is Ólafur F. látinn skila vottorði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband