VEÐURVÆTTIR REIÐAR.

Var að fá upphringingu um að útskýra frekar kviðlinginn á bloggsíðunni í dag. Sjálfsagt mál. Nafn kviðlingsins eru af gefnu tilefni, óveðri sem hefur riðlað áætluninni um fyrirkomulag gangsetningarathafnar Kárahnjúkairkjunar. Nafnið er hliðstætt hugtakinu "Kverkfjallavættir reiðar", sem Jón Helgason notað í því erindi Áfanga sem fjallar um Hvannalindir og svæðið þar í kring.

Fyrstu hendingar kviðlingsins lýsa því að Kárahnjúkavirkjun er mikið verkfræðilegt afrek og að því leyti geta þeir sem að því stóðu að því að framkvæma skipanir um byggingu hennar verið stoltir af þessari mestu framkvæmd Íslandssögunnar. En það er nokkurn veginn það eina sem ég sé ástæðu til að vera stoltur af.

Stoltið er blandað skammartilfinningu svipað og ef besta fáanlega tækni yrði notuð til að virkja Geysi og Gullfoss eða stækka Steingrímsstöð með því að drekkja Þingvöllum.

Vatnajökull og svæðið umhverfis hann er einfaldlega langverðmætasta náttúrufyrirbæri Íslands sem líkt og mestu listaverk heims þolir ekki að stórum hluta þess sé umturnað fyrir virkjun sem ekki einu sinni stenst lágmarkskröfur um arðsemi.

Nú útiloka vísindamenn ekki að á sprungusveim Kverkfjalla geti orði eldgos af mannavöldum vegna þungans af Hálslóni sem vex og minnkar á víxl á hverju ári. Verði eldsumbrot þarna fá orð Jóns Helgasonar um "Kverkfjallavættir reiðar" nýtt líf.

Þeir hinir sömu og nú eru stoltir af verkfræðilegum afrekum eystra myndu þá væntanlega líka verða stoltir af því að þessi tækni ylli eldgosi. "Stórkostlegt túristagos, auknar ferðamannatekjur á svæðinu!"

Allt þetta og fleira á ég við með orðinu "virkjunarhneyksli".

Ég vísa í fyrri skrif mín um það gildi sem ósnortinn Hjalladalur hefði haft og á eftir að blasa við fólki enn betur en fyrr þegar heimildarmyndir um hann líta dagsins ljós.

Margkyns ráð eru notuð til að kaupa fólk til fylgis við þessar framkvæmdir sem þurrka munu upp stórkostlega fossa á næsta ári í viðbót við það að fylla Hjalladal af auri.

Reiðum vættum landsins, í þetta sinn veðurvættum, tókst að koma skilaboðum á framfæri í dag. Spurt var rétt í þessu í útvarpinu hvers vegna engir mótmælendur hefðu verið við Nordica. Því er auðsvarað: Það var ekki vitað fyrirfram að sá hluti athafnarinnar, sem fínasta fólkinu var boðið til færi þar fram.

Ómakið var reyndar tekið af mótmælendum, - veðurvættirnar sáu um mótmælin á margfalt áhrifameiri hátt. Vona að þetta dugi til útskýringar á neðangreindum kviðlingi í tilefni dagsins:

VEÐURVÆTTIR REIÐAR.

Tæknin er mikil og mögnuð /
svo mennirnir kikna í hnjánum, /
en fjölröddun fuglanna er þögnuð /
og fossarnir allir í ánum. /
Já, nú ber vel til veiðar, - /
af virkjunarhneyksli menn guma /
er veðurvættir reiðar /
varnaðarorðin þruma. /

Bjóðast þar fúlgur fjárins /
svo fylgi við spjöllin tryggist. /
Fagran dal fylla skal auri. /
Fjallkonan tárast og hryggist. /
En þið sem að því standið /
og umturna landi hyggist, - /
verknaður ykkar mun uppi. /
á meðan land byggist. /


mbl.is Ræs! sagði Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valgeir Bjarnason

Góðar vísur Ómar og eiga vel við daginn í dag. Það er greinilegt að sá sem stjórnar veðrinu er ekki ánægður með gangsetninguna fyrir austan.

En var það ekki haninn í kvæðinu þínu um minkinn í hænsnakofanum sem rámur æpti ræs og vakti gamla syfjaða gæs?

Valgeir Bjarnason, 30.11.2007 kl. 17:39

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ekki alveg rétt munað hjá þér. Þetta var svona:

En nú vaknaði loksins bóndinn því að hundurinn gelti hátt

og hljóp beint út með byssuna og náði minknum brátt...

Það var sem sé hundurinn sem vakti bóndann en ekki er þess getið í kvæðinu hve margar hænur minkurinn var þá búinn að éta.

Ómar Ragnarsson, 30.11.2007 kl. 18:55

3 identicon

Fossarnir allir í ánum   -   skáldaleyfi? Þú getur betur!

Nöldrarinn (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 09:08

4 identicon

Sæll Ómar, ég sé hvergi e-mailið þitt hérna svo mig langar að biðja þig um að senda á mig e-mailið þitt á jon@lux.is Þarf endilega að koma á þig smá gögnum. :)

kv.

Jón Ólafur

Luxury Adventures Iceland

Jón Ólafur Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 14:46

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kæri nöldrari. Fjölröddun fuglanna er þögnuð og (sömuleiðis) allir fossarnir í ánum, eða: Fjölröddun fuglanna er þögnuð og fossarnir allir í ánum (eru líka þagnaðir).

Útskýrðu betur fyrir mér hvað er rangt að þínu mati við þetta. Er það orðið "allir".

Staðreyndin er þessi: Jökulsá í Fljótsdal, Kelduá og Kringilsá verða allar virkjaðar þannig að enginn foss mun framar renna í Kellduá og heldur enginn foss í Jökulsá í Fljótsdal í minnsta kosti 45 -49 vikur á ári. Í fáar vikur á haustin mun vatn renna á yfirfalli Ufsarstíflu. Þá verður vatn í fossum Jökulsár í Fljótsdal.

Þegar lægst verður í Hálslóni á vorin er hugsanlegt að vatn muni renna um Töfrafoss en það verður mjög lítið þennan langvatnsminnsta tíma ársins. Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum er talið að gljúfrið fyrir neðan Töfrafoss muni fyllast upp af auri á innan við öld og að fossinum verði þar með eins og öllum Hjalladal drekkt í auri.

Fögur framtíðarsýn?

Ómar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband