1.12.2007 | 17:42
ÍSLENSKUR EVEL KNIEVEL ?
Brotthvarf Evel Knievels rifjar upp fyrir mér stórbrotna hugmynd Sigurðar Baldurssonar um stökk á vélsleða úr flugvél yfir Vatnajökli sem vekja kynni heimsathygli. Forsagan er þessi: Snemma ágústmorgun einn 1985 stukku nokkrir fallhlífarmenn frá Akureyri út úr Twin Otter flugvél yfir Bárðarbungu á svipuðum slóðum og Geysir brotlenti 1950. Hjá þeim lentu tvær litlar flugvélar á hjólunum. Þetta ótrúlega atriði er eitt af þeim sem sýnt er í einum gömlu Stikluþáttunum, sem nú eru að koma út á DVD í fyrsta sinn.
En í framhaldi af því fjallaði einn af þáttunum "Draumalandið" á Stöð tvö um þá feðga, Baldur Sigurðsson og Sigurð Baldursson, en Sigurður hafði verið í forsvari fyrir ævintýraleiðangrinum á Bárðarbungu. Í þættinum færir Sigurður hina stórbrotnu hugmynd sína í tal sem felst í eftirfarandi:
Tekin er á leigu Herculesflugvél og henni flogið eins hægt og mögulegt er yfir Vatnajökul yfir staðnum þar sem Geysir brotlenti á Bárðarbungu. Afturhlerinn er opnaður á flugi og samtímis er ræstur fremst í flutningsrými vélarinnar kraftmesti vélsleði, sem völ er á. Á sleðanum situr bundinn Sigurður Baldursson með fallhlíf á baki, gefur allt í botn og brunar á sleðanum aftur úr flugvélinni, sem sagt í gagnstæða stefnu.
Lokahraði sleðans er: Hraði flugvélarinnar - hraði vélsleðans út um afturdyrnar.
Sigurður fer á sleðanum í frjálst fall en opnar síðan fallhlífina og snýr sleðanum á fluginu svo að hann lendir á jöklinum á hæfilegum hraða í aksturstefnu flugvélarinnar. Vélin í vélsleðanum er enn í gangi og Sigurður brunar á honum af stað og þeysir til byggða!
Ég skal segja ykkur af hverju ég þykist vita að þetta gangi upp. Þegar ég var ungur lék ég þann leik á leið á vörubílspalli úr vinnu ásamt öðrum verkamönnum, að rétt áður en bíllinn stöðvaðist og var kominn niður á um 10-15 kílómetra hraða, tók ég á rás frá framenda vörubílspallsins og hljóp eins hratt aftur af honum og ég gat.
Þegar ég stökk aftur af pallinum sneri ég mér í loftinu þannig að ég kom, hlaupandi í loftinu, standandi niður, sneri í aksturstefnu bílsins og hljóp áfram og í burtu.
Ég hafði að sjálfsögðu þróað þetta "stunt" úr því að stökkva aftur af bílnum á nokkurra kílómetra hraða ferð upp í það að vera hlaupandi þegar ég lenti.
Ég er því sannfærður um að áætlun Sigurðar Baldurssonar getur vel gengið upp.
Hitt er annað mál hvort hún verður nokkurn tíma framkvæmd. En gaman væri ef það gæti gerst og þá í tengslum við auglýsingu á því einstæða náttúrufyrirbæri og útivistarparadís sem Vatnajökull er.
![]() |
Evel Knievel látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2007 | 15:38
BRÁTT EINI ÓSELDI DAGURINN ?
![]() |
Stúdentar fagna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 15:34
ER 1. DESEMBER JAFNOKI 17. JÚNÍ ?
17. júní er þjóðhátíðardagur Íslendinga en ég held að 1. desember 1918 hafi í raun fært þjóðinni meiri breytingu á stöðu Íslands. Sumir halda því fram að 1. febrúar 1904 hafi fært Íslendingum meiri breytingar en hinu verður ekki neitað að það var fyrst 1. desember 1918 sem það var tryggt í lögum, Sambandslögunum, að Íslendingar gætu öðlast fullt sjálfstæði og slitið sambandinu við Dani 25 árum síðar ef þeir kysu svo.
Hin drungalega umgjörð dagsins hinn kalda vetur síðasta drepsóttarfaraldurs á Íslandi í kjölfar Kötlugoss hefur haft þau áhrif að minnka hann í samanburði við hina fjölmennu Lýðveldishátíð á Þingvöllum og tveggja daga hátíðahalda sumarið 1944.
Í mínu ungdæmi var 1. desember mun meiri hátíðisdagur en síðar varð og er það miður að mínum dómi. Eitt er þó gott við það. Dagurinn þykir ekki nógu merkilegur til þess að hægt sé að bjóða hann út á markaðnum, þ. e. selja umgjörð hans einhverju fyrirtæki sem leggur í púkkið við kostnaðinn við hátíðahöldin.
Síðast var það Og Vodafone sem varð fyrir valinu ef ég man rétt sem kostunaraðili og sáust merki þess víða. Hver hreppir hnossið næst? Coca-Cola eða Pepsi á Íslandi?
Ég leyfi mér að gagnrýna þetta og þessi gagnrýni beinist á engan hátt gegn þeim fyrirtækjum, sem leitað er til um kostun, heldur gegn okkur sjálfum. Mér finnst það verðfella mat okkar á þjóðhátíðardeginum að þetta eitt ríkasta þjóðfélag heims skuli ekki geta staðið óstutt að þessari einu hátíð á árinu sem þjóðin á til að helga sjálfri sér.
Það er ekki langt í það með sama áframhaldi að sungið verði á Austuvelli 17. júní:
Ó, Guð vors lands -
Og Vodafone. -
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn....
Mér finnst kaldhæðnislegt ef 1. desember verður vegna vanmats á gildi hans einn eftir sem eini hátíðisdagurinn sem þjóðin á fyrir sjálfa sig án þess að þurfa að setja hann á uppboð á markaði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)