ÍSLENSKUR EVEL KNIEVEL ?

Brotthvarf Evel Knievels rifjar upp fyrir mér stórbrotna hugmynd Sigurðar Baldurssonar um stökk á vélsleða úr flugvél yfir Vatnajökli sem vekja kynni heimsathygli. Forsagan er þessi: Snemma ágústmorgun einn 1985 stukku nokkrir fallhlífarmenn frá Akureyri út úr Twin Otter flugvél yfir Bárðarbungu á svipuðum slóðum og Geysir brotlenti 1950. Hjá þeim lentu tvær litlar flugvélar á hjólunum. Þetta ótrúlega atriði er eitt af þeim sem sýnt er í einum gömlu Stikluþáttunum, sem nú eru að koma út á DVD í fyrsta sinn.

En í framhaldi af því fjallaði einn af þáttunum "Draumalandið" á Stöð tvö um þá feðga, Baldur Sigurðsson og Sigurð Baldursson, en Sigurður hafði verið í forsvari fyrir ævintýraleiðangrinum á Bárðarbungu. Í þættinum færir Sigurður hina stórbrotnu hugmynd sína í tal sem felst í eftirfarandi:

Tekin er á leigu Herculesflugvél og henni flogið eins hægt og mögulegt er yfir Vatnajökul yfir staðnum þar sem Geysir brotlenti á Bárðarbungu. Afturhlerinn er opnaður á flugi og samtímis er ræstur fremst í flutningsrými vélarinnar kraftmesti vélsleði, sem völ er á. Á sleðanum situr bundinn Sigurður Baldursson með fallhlíf á baki, gefur allt í botn og brunar á sleðanum aftur úr flugvélinni, sem sagt í gagnstæða stefnu.

Lokahraði sleðans er: Hraði flugvélarinnar - hraði vélsleðans út um afturdyrnar.

Sigurður fer á sleðanum í frjálst fall en opnar síðan fallhlífina og snýr sleðanum á fluginu svo að hann lendir á jöklinum á hæfilegum hraða í aksturstefnu flugvélarinnar. Vélin í vélsleðanum er enn í gangi og Sigurður brunar á honum af stað og þeysir til byggða!

Ég skal segja ykkur af hverju ég þykist vita að þetta gangi upp. Þegar ég var ungur lék ég þann leik á leið á vörubílspalli úr vinnu ásamt öðrum verkamönnum, að rétt áður en bíllinn stöðvaðist og var kominn niður á um 10-15 kílómetra hraða, tók ég á rás frá framenda vörubílspallsins og hljóp eins hratt aftur af honum og ég gat.

Þegar ég stökk aftur af pallinum sneri ég mér í loftinu þannig að ég kom, hlaupandi í loftinu, standandi niður, sneri í aksturstefnu bílsins og hljóp áfram og í burtu.

Ég hafði að sjálfsögðu þróað þetta "stunt" úr því að stökkva aftur af bílnum á nokkurra kílómetra hraða ferð upp í það að vera hlaupandi þegar ég lenti.

Ég er því sannfærður um að áætlun Sigurðar Baldurssonar getur vel gengið upp.

Hitt er annað mál hvort hún verður nokkurn tíma framkvæmd. En gaman væri ef það gæti gerst og þá í tengslum við auglýsingu á því einstæða náttúrufyrirbæri og útivistarparadís sem Vatnajökull er.


mbl.is Evel Knievel látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar, eru gömlu Stiklu þættirnir, spólur 1 - 12 að koma út á DVD ?

Hilmar Ingi Ómarsson (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 21:33

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ertu svo hissa að enginn vildi líftryggja þig?

Þetta atriði yrði stórbrotið. Ég er viss um að Evel sjálfum hefði þótt þetta stórkostleg hugmynd og sennilega gert sér ferð upp á jökul til að geta fylgst með. 

Villi Asgeirsson, 3.12.2007 kl. 13:26

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stiklur 1-26, spólur 1-12 áttu að vera komnar hingað heim frá Austurríki á DVD-spólum, en vegna mistaka í pökkun tefst það eitthvað. En ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sendingin komi vel fyrir jól.

Nýjar kápur verða á diskunum og tal Gísla á Uppsölum verður textað.

Ef átt er við hlaupatriði mitt aftan af palli vörubíls á fer þá byggðist hún á nokkurra ára æfingum þar sem í byrjun var aðeins um það að ræða að stökkva ofan af pallinum niður á götuna. Síðan var atriðið þróað hægt og bítandi með vaxandi hraða á vörubílnum uns komið var að mesta hraða sem hægt var að vera á í stökkinu og eiga trygga lendingu vísa.

Líftrygginguna fékk ég ekki 24 ára gamall af því að ég var í það góðu formi hvað snerti hægan hjartslátt og lág mörk blóðþrýstings að það var fyrir neðan mörk líftryggingarfélagsins.

Ómar Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband