HINN GRÍÐARLEGI PJATTKOSTNAÐUR.

Þegar ég kom fyrst til New York vakti það athygli mína hve margir leigubílar voru beyglaðir. Mér var sagt að bílstjórarnur teldu flestir ekki þörf á að vera að eltast við minni háttar beyglur sem höfðu engin áhrif á ástand bifreiðarinnar. Mér hefur oft orðið hugsað til þess hve mikið væri hægt að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga ef þessi hugsunarháttur væri almennur. Nú síðast vekur það umhugsun að lítil beygla er á 20 ára gamla litla Daihatsu Cuore-bílnum sem er á uppboði hjá þættinum A-J á rás 2 til ágóða fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar.

Svona bílum og mun yngri og dýrari bílum er iðulega hent um þessar mundir. Ekki tekur því að gera við beygluna á Cuore-bílnum því að það yrði miklu dýrara en nemur virði bílsins. Beyglan hefur engin áhrif á bílinn, hann stóðst skoðun með henni í dag.

Bílnum hefur aðeins verið ekið 92 þúsund kílómetra og hann verður með 08 skoðun þegar hann verður afhentur. Hann hefur ekki slegið feilpúst síðustu 14 þúsund kílómetrana og er mun þægilegri farkostur innanborgar en 500 sinnum dýrari og stærri bílar.

Cuore-bíllinn er sjálfskiptur og kemst alls staðar í stæði, aðeins 3,2 m á lengd og 1,4 á breidd. Á sínum tíma var þetta minnsti og sparneytnasti bíllinn sem var fluttur inn til landsins.

Farþegar í aftursæti hafa þó þægilegra og betra rými fyrir fætur og höfuð en í mörgum miklu stærri bílum.
Á venjulegum vegum með bundnu slitlagi er ágætlega þægilegt að ferðast um landið á þessum bíl og hann fer jafnhratt um umdæmi lögreglunnar á Blönduósi og 500 hestafla bílar, enda hámarkshraði Cuore-lúsarinnar 135 km/klst, nálægt svonefndum "sviptingarhraða." (Ökuleyfissvipting)

Ef svona bíll stendur frammi fyrir of miklum viðgerðarkostnaði er tapið við að henda honum aðeins tíundi hluti af árlegu verðfalli á nýjum bíl í Corolla stærðarflokki.

Aðalatriðið er að fara ekki út í of dýrar viðgerðir því þá skapast hætta á því að tíma ekki að henda bílnum af því að of miklu hafi verið eytt í hann.

Ókostur við þessa bíla er sá að þeir eru ekki búnir sama öryggisbúnaði og nýir bílar. Ég veit þó ekki til þess að orðið hafi neitt alvarlegri slys á Daihatsu Cuore en öðrum bílum. Raunar man ég ekki eftir neinu alvarlegu slysi á Cuore í 20 ára sögu bílsins hér á landi.

Enginn bíll er með betra útsýni og vegna þess hve hann er mjór má segja að það sé erfitt fyrir aðra bíla að "hitta" á hann, auk þess sem ákaflega auðvelt er að víkja þessum bíl til undan aðvífandi hættu.

Ég vil að lokum varpa þeirri spurningu fram hvort hugsanlegt væri að tryggja bíl sinn þannig að eigandinn geri ekki kröfu um bætur vegna smábeyglna á bílnum og fá einhvern afslátt út á þetta.

Þessi "pjattkostnaður" nemur vafalaust milljörðum á ári hverju. En þetta er kannski utopisk hugmynd.


GETA SKAL ÞESS SEM VEL ER GERT.

Enginn ætti að velkjast í vafa um andstöðu mína gegn Kárahnjúkavirkjun. Sú andstaða hefur þó engin áhrif á sjálfstætt mat mitt á því hvernig að framkvæmdum hefur verið staðið. Ég hef fylgst vel með framkvæmdum Bechtels við álver Fjarðaráls innanfrá og veit að skipulag og öryggiskröfur við byggingu þessarar stærstu byggingar á Íslandi hafa verið holl lexía fyrir Íslendinga. Margir Íslendingar gerðu í upphafi gys að því sem þeir töldu fáránlegar öryggiskröfur. En áranginn sannar gildi þessara krafna.

Að vísu var á tímabili bent á það að um eitthvert skeið fjölgaði slysum í heimahúsum eystra og voru mörg þeirra tengd notkun verkfæra. Fannst sumum það minna á gömlu söguna um það þegar lögregluþjónn fann lík í Fishersundi en dró það upp í Garðastræti af því hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa Fishersund í lögregluskýrslunni, - sem sagt að eitthvað af vinnuslysunum hefði verið færð í heimahús.

Þessar sögur eru löngu þagnaðar og óskandi er að íslensk verktakafyrirtæki dragi þann lærdóm af vinnubrögðum Bechtes sem getur fækkað slysum til muna.


mbl.is Byggingu álversins í Reyðarfirði lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband