HINN GRÍÐARLEGI PJATTKOSTNAÐUR.

Þegar ég kom fyrst til New York vakti það athygli mína hve margir leigubílar voru beyglaðir. Mér var sagt að bílstjórarnur teldu flestir ekki þörf á að vera að eltast við minni háttar beyglur sem höfðu engin áhrif á ástand bifreiðarinnar. Mér hefur oft orðið hugsað til þess hve mikið væri hægt að lækka iðgjöld bifreiðatrygginga ef þessi hugsunarháttur væri almennur. Nú síðast vekur það umhugsun að lítil beygla er á 20 ára gamla litla Daihatsu Cuore-bílnum sem er á uppboði hjá þættinum A-J á rás 2 til ágóða fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar.

Svona bílum og mun yngri og dýrari bílum er iðulega hent um þessar mundir. Ekki tekur því að gera við beygluna á Cuore-bílnum því að það yrði miklu dýrara en nemur virði bílsins. Beyglan hefur engin áhrif á bílinn, hann stóðst skoðun með henni í dag.

Bílnum hefur aðeins verið ekið 92 þúsund kílómetra og hann verður með 08 skoðun þegar hann verður afhentur. Hann hefur ekki slegið feilpúst síðustu 14 þúsund kílómetrana og er mun þægilegri farkostur innanborgar en 500 sinnum dýrari og stærri bílar.

Cuore-bíllinn er sjálfskiptur og kemst alls staðar í stæði, aðeins 3,2 m á lengd og 1,4 á breidd. Á sínum tíma var þetta minnsti og sparneytnasti bíllinn sem var fluttur inn til landsins.

Farþegar í aftursæti hafa þó þægilegra og betra rými fyrir fætur og höfuð en í mörgum miklu stærri bílum.
Á venjulegum vegum með bundnu slitlagi er ágætlega þægilegt að ferðast um landið á þessum bíl og hann fer jafnhratt um umdæmi lögreglunnar á Blönduósi og 500 hestafla bílar, enda hámarkshraði Cuore-lúsarinnar 135 km/klst, nálægt svonefndum "sviptingarhraða." (Ökuleyfissvipting)

Ef svona bíll stendur frammi fyrir of miklum viðgerðarkostnaði er tapið við að henda honum aðeins tíundi hluti af árlegu verðfalli á nýjum bíl í Corolla stærðarflokki.

Aðalatriðið er að fara ekki út í of dýrar viðgerðir því þá skapast hætta á því að tíma ekki að henda bílnum af því að of miklu hafi verið eytt í hann.

Ókostur við þessa bíla er sá að þeir eru ekki búnir sama öryggisbúnaði og nýir bílar. Ég veit þó ekki til þess að orðið hafi neitt alvarlegri slys á Daihatsu Cuore en öðrum bílum. Raunar man ég ekki eftir neinu alvarlegu slysi á Cuore í 20 ára sögu bílsins hér á landi.

Enginn bíll er með betra útsýni og vegna þess hve hann er mjór má segja að það sé erfitt fyrir aðra bíla að "hitta" á hann, auk þess sem ákaflega auðvelt er að víkja þessum bíl til undan aðvífandi hættu.

Ég vil að lokum varpa þeirri spurningu fram hvort hugsanlegt væri að tryggja bíl sinn þannig að eigandinn geri ekki kröfu um bætur vegna smábeyglna á bílnum og fá einhvern afslátt út á þetta.

Þessi "pjattkostnaður" nemur vafalaust milljörðum á ári hverju. En þetta er kannski utopisk hugmynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Þetta er eins og mælt úr mínum minni Ómar!

Ég hef alla tíð keyrt um með "þrjú hjól undir bílnum". Auðvita er ekkert að því að klína lakki í beyglur til að forðast rið og slappa þessari maníu að bíllinn þurfi að vera perfekt!

Bílaeign íslendinga er dálítið krúttlega hallærisleg!

Dállítið sveitó í samfélagi þjóðanna!

Vilhelmina af Ugglas, 13.12.2007 kl. 23:23

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þetta er snilldarhugmynd! Ég veit um fólk sem ærist vegna lítillar beyglu á stuðaranum, algjörlega búið að gleyma hvert hlutverk stuðarans er. Annað ... í New York, þar sem umferðin þarf að ganga snurðulaust fyrir sig, er flautað á fólk sem gleymir sér, svona sauðum, og þeir drífa sig af stað án þess að móðgast. Hér á landi, kannski á beygjuljósi þar sem kannski aðeins þrír komast yfir ljósin er mikið um sofandahátt og ef flautað er á viðkomandi þá móðgast hann ógurlega. Ég veit til þess að "fórnarlamb" flauts hefur elt flautarann til að garga á hann fyrir þessa ósvífni. Tek það fram að ég er ekki að mæla með óhóflegri notkun á flautunni, frekar því að fólk sé einbeittara í umferðinni (segir sú sem alltaf tekur strætó).

Guðríður Haraldsdóttir, 13.12.2007 kl. 23:50

3 identicon

Rétt. Það verður að breyta þessum iðgjöldum þannig að menn séu ekki að gera veður út af smáskeinum. Ég veit fjölmörg dæmi þess að fólk sem á svona "bíldós" sem kominn er tími á að henda reyni að sviðsetja tjón eða skeinuklessa bílinn sinn lítillega til að fá smá smá aur út úr tryggingunum áður en bílnum er hent. Græða svona 30 - 50 þús.

spritti (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 07:32

4 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Þörf athugasemd - svo er fólk að væla um tannlæknakostnað!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.12.2007 kl. 11:09

5 identicon

Ég bý á suður spáni og sama má segja um spánverjana og leigubílstjórana í NY. Þeir eru ekkert að stressa sig yfir ''engu'' Ég er með Scion xA 2005 og hann er rispaður og beyglaður vel yfir meðaltali, þe. ef ég miða við Ísland. Mér er nokk sama svo lengi sem hann kemur mér frá A til B.

Bjössi. (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:16

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Best að bæta í já kórinn. Ég keypti Nissan Sunny '92 fyrir 2 1/2 ári. Fljótlega klesstist hann, eins og ég ræddi í þessari færslu á sínum tíma. Einhver gungan bakkaði á hann. Þar sem bíllinn var í stæði og engin vitni, sat ég eftir með skaðann. Ég hafði borgað 100.000 kall fyrir bílinn. Þetta var einfaldasta týpa, enginn aukabúnaður, en keyrður aðeins 47 þús. og leit út eins og nýr. Þetta var því sárt, en lítið við því að gera. Viðgerð myndi kosta helming kaupverðsins eða meira, svo ekki var það fýsilegt.

Ég endaði með því að taka innan úr afturhurðinni, kýla beygluna út og hef keyrt um þannig síðan. Tek það fram að ég setti panelinn aftur í hurðina. Ég er ekki á leiðinni að kaupa mér nýjan bíl, enda hefur hann aldrei bilað og rennur gegn um skoðun á hverju ári (ekki auðvelt í Hollandi), og beyglan verður bara að vera þarna. 

Svo er hann auðvitað sparneytinn.

Villi Asgeirsson, 14.12.2007 kl. 13:06

7 identicon

Sæll, Ómar minn

Allt er það satt og rétt, nema þessi smáatriði:

Það er lítið pláss fyrir fætur aftur í Cuore. Ég fór með ykkur hjónum austur á Laugarvatn fyrir nærri tveim áratugum í téðum bíl. Fyrir utan það að vera lafhræddur alla leiðina var ég með náladofa í báðum fótum þegar komið var á leiðarenda. Gat svo varla nokkuð ort í þættinum hjá þér því að ég kveið fyrir heimleiðinni.

P.s. Áður en ég settist inn í bílinn aftur skoðaði ég hjólin - hvort þau væru nokkurn veginn hringlaga.

Hjálmar Jónsson (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 13:42

8 identicon

Sæll Ómar,

mér finnst þetta tómt rugl og til að sannfæra ykkur "Já menn" þá er það alltof algengt að menn skelli hurðum utan í næsta bil, þegar um þröng stæði er að ræða. 

Þetta gerir það að verkum að menn á "beyglum" með lægri iðngjöld trygginga (eins og stungið er upp á), spá enn minna í tjónið sem þeir valda og koma væntanlega til með að meta tjónið sem þeir valda sjálfir á staðnum og aka svo burt.

Einnig eru bifreiðar nú til dags, margar hverjar með samlita stuðara og stuðarar eru ekki ætlaðir til þess að banka í þá með reglulegu millibili þegar komast þarf í stæði, eins og skilja má á svari Guðríðar.   Menn (og konur, svo maður æri ekki feminista)ættu frekar að vanda sig betur við aksturinn og læra að virða þær reglur sem um hann gilda.

Það sem mér finnst hinsvegar vanta, er að ökukennurum verði gert skilt að ganga sjálfir með reglulegu millibili undir aksturspróf.  Maður sér allt of mikið af fólki í umferðinn sem virðir engar reglur og mér rennur sá grunur að það sé af megninu til komið vegna slælegrar kennslu í upphafi.

Steini (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 18:31

9 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Fyrigefðu ónæðið aftur Ómar!

Ég les oft þitt blogg og mun sakna þín.

Ég kveð nú bloggheim í bili og sný aftur til Afríku.

Þar sem ég bý er útilokað að blogga en ég les bloggið þegar ég get. Jólagjöfin frá mér til þín er HÉR. 

(http://vilhelmina.blog.is/blog/vilhelmina/entry/391293/)

Gleðileg Jól!

Vilhelmina af Ugglas, 14.12.2007 kl. 18:40

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú ert að tala um aðra gerð af Cuore en ég, 4x4 gerðina, sem við notuðum þá. Vegna rýmisins sem afturöxullinn tekur er mun þrengra um fætur í þeim bíl en í venjulega bílnum sem er aðeins með framhjóladrif. Þetta getur þú séð í Kastljósþætti í kvöld þar sem ég sýni mjög ljóslega að meira rými er samtals fyrir fætur í þeim bíl en í mörgum miklu stærri bílum.

Ómar Ragnarsson, 14.12.2007 kl. 19:11

11 identicon

Faðir minn vann um áratugaskeið á Keflavíkurflugvelli og ók hann lengi á milli á Trabant, svo kom Fiat tímabil með miklum bilunum en hann endaði á Daihatsu Cuore sem var einstaklega ódýr í rekstri og bilaði nánast aldrei.

Það ætti að framleiða þennan bíl aftur nánast óbreyttan. Hví ekki að láta Kínverja um það, ef við erum orðin of ‘fín’ fyrir þessa bíla?

 

Gummi (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 22:06

12 Smámynd: Jóhann H.

Smáréttingar (ehf) henta vel fyrir smáa bíla.  Engin málun, ekkert spartsl, engar tafir.  Sem sagt allt smátt og hagkvæmt.  Alveg eins og Cuore...

Jóhann H., 15.12.2007 kl. 02:36

13 identicon

Þakka þér fyrir frábæra grein um VV sem er/var besti söngvari sem þjóðin hefur gefið af sér.

-------------------------------

 Það sem mig langar að bregðast við er komment sem þú skrifaðir við grein hjá Geir Ágústssyni nokkrum. Þar spurðir þú hvernig Árni Finnsson ætti að að komast á ráðstefnuna á Balí ef hann hefði ekki farið á einkaþotu. Ég helda að hann hefði fundið marga aðra möguleika ef hann hefði leitað efitr þeim. Ef hann trúir því að þotur valdi "Global Warmin" þá hefði hann aldrei farið með einni slíkri til Balí. Hann hefði farið með seglaskútu eins og ég hefði valið.

geirsi (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 02:30

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég átti við það að Árni Finnsson hlyti að fara til Bali með venjulegu áætlunarflugi, - ekki einkaþotu. Síðan er spurningin hvað sé einkaþota. Það er hugsanlegt að fari nógu margir í stórri þotu verði hvorki kostnaðurinn né útblásturinn meiri á hvern mann en í áætlunarflugi.

Varðandi gamla Cuore þá er hann enn framleiddur að mestu óbreyttur í Malasíu með hægri handar stýri. Hægt er að sjá gripinn með því að leita á netinu að Perodua Kancil, en það heitir hann þar í landi. 

Hann er ekki fluttur til Bretlands, - gæti stafað af skorti á loftpúðum, en aðeins stærri gerð af Perodua er fluttur til Bretlands og seldur þar. Það er flottur smábíll og langódýrasti smábíllinn á breska markaðnum.

Ég á tvo örsmáa og ódýra Fiat-bíla með hægri handar stýri, sem ég hef flutt inn og það er ekkert mál. Í sumum tilfellum er það þægilegra, til dæmis ef maður þarf að leggja út í kant á þjóðvegi. Þá fer maður út úr bílnum án þess að opna dyrnar út á akstursbrautina.  

Ómar Ragnarsson, 16.12.2007 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband