19.12.2007 | 21:41
BYLTING HRAÐLESTANNA EKKI HÉR.
Eitt af því sem hægt verður að nota í Evrópu til að minnka útblástur frá samgöngutækjum eru hraðlestir og byltingarkennd tæknibylting á því sviði sem unnið hefur verið að. Í þessum efnum eru Evrópubúar á undan Bandaríkjamönnum en það tekur samt tíma að hrinda stórhuga áætlunum í framkvæmd sem byggjast á samvinnu allra þjóðanna í álfunni og samræmingu, svo sem í sporabreidd. Þjóðirnar á jöðrum Evrópusamfélagsins eiga hins vegar erfiðara með að nýta sér þetta en þær sem nær eru miðjunni.
Samt má halda halda því fram að tæknilega sé hægt að koma á hraðlestarsamgöngum út í öll horn Evrópu, - nema til Íslands.
Það er meira að segja tiltölulega stutt að sigla milli Írlands og Englands en annað er uppi á teningnum varðandi Ísland. Við erum algerlega háð fluginu nema við viljum hverfa aftur til þess tíma þegar það var kallað að "fara í siglingu" þegar Íslendingar fóru til Evrópu.
Þess vegna þurfa Íslendingar ekkert að vera feimnir við að fara fram á að tekið verði tillit til sérstöðu okkar í þessum efnum, þótt það kosti að við setjum meira út í loftið fyrir bragðið. Einnig verður að líta til þess að flugumferð til og frá landinu er svo örlítið brot af heldarflugumferðinni að það tekur því varla að nefna það.
![]() |
Tekið verði tillit til landfræðilegrar sérstöðu Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.12.2007 | 12:46
SÆLDARLÍF EÐA EKKI ?
Það er ekkert nýtt að jólasveinar geti lent í kröppum dansi á jólaböllum. Þetta fékk ég óþyrmilega að reyna hér á árum áður þegar mikið fjölmenni var á stærsu böllunum svo að stundum stappaði nærri því að börn træðust undir. Ég hafði það fyrir reglu, að enda þótt við stæðum báðir, Gáttaþefur og Ketkrókur uppi á sviði mestallan tímann og færum þar með nýjan söngleik á hverju ári, fór Gáttaþefur alltaf tvisvar niður á gólfið til að heilsa öllum börnunum og ganga með þeim í tveimur lagasyrpum í kringum jólatréð.
Þá kom stundum fyrir að sveinki barst með straumnum upp að fögrum konum og var þar fastur í þvögunni í óþægilegri nálægð við þær. Fer nú reyndar eftir hugarfarinu hverju sinni hvort viðkomandi þykir nálægð af þessu tagi þægileg eða óþægileg.
Mér er einkum minnisstætt gríðarlega fjölmennt jólaball í Súlnasal Hótels Sögu þar sem minnstu munaði að börn træðust undir þvögunni sem myndaðist í kringum mig við jólatréð. Þar var Gáttaþefur fastur eins og í dýi í nokkra stund klemmdur fast upp við konu, sem hafði á sínum tíma verið kjörin fegurðardrottning Íslands og hafði orðið enn fegurri og föngulegri með aldrinum.
Þetta var um tíma pínlegt ástand, svo að notað sé tvírætt orðalag, en rættist þó úr því og enginn tróðst undir þótt sum börnin væru nálægt því og mörg þeirra farin að gráta.
Ég get borið um það að það var oft ekkert sældarlíf að standa í þessu, einkum þegar börnin hengju í skegginu eða klipu mann fast þar sem á var hangið.
En yfirleitt var þetta tóm ánægja þótt starfið væri erfitt og aldrei urðum við sveinarnir fyrir áreitni á borð við þá sem greint er frá að hafi átt sér stað í Bandaríkjunum. En það er jú allt mögulegt þar í landi.
Hér á landi benda nú nöfn jólasveinanna frekar til þess að þeir ættu að vera ágengir frekar en mæðurnar á jölaböllunum. Þarf ekki annað en að nefna Faldafeyki, Giljagaur, Gáttaþef og Stekkjastaur í því sambandi, jafnvel Kjötkrók ef menn skilja orðið lambakjöt með þröngri skýringu. Jafnvel mætti hafa Stúf grunaðan ef það er haft í huga að stærðin skipti ekki öllu máli.
![]() |
Káfaði á jólasveininum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.12.2007 | 02:02
VIÐ HVERJA ÆTLA MENN AÐ KEPPA?
Merkilegt er hvað við Íslendingar gerum lítið í því að læra af mistökum annarra þjóða. Dæmi um það er tilhneigingin til að gera gamla miðbæinn í Reykjavík að eftirmynd af miðborg Stokkhólms og ótal fleiri borga þar sem menn dauðsjá eftir því að hafa gengið allt of langt í því rífa hin gömlu, vinalegu hús, og reisa gler- og steinsteypuhallir í staðinn. Ef menn ætla að keppa við krossgötur og þungamiðju höfuðborgarsvæðisins sem er á svæðinu Elliðavogur-Árthúnshöfði-Mjódd-Smárinn á þann hátt að ná til sín fólki á sömu forsendum, þá er það tapað stríð. Krossgötur og þungamiðja byggðar hafa ævinlega forskot.
Ísland er vindasamasta land Evrópu með kaldasta sumarið og hinar yfirbyggðu verslunarmiðstöðvar njóta þess. Ætla menn að keppa við Smáralind og Kringlu með því að gera miðbæinn sem líkastan þeim en þó ekki undir einu heildarþaki? Eða stefna menn enn hærra og vilja keppa við Oxford Street eða Fimmtu tröð?
Um alla Evrópu harma menn að hafa gert miðborgir að samansafni kuldalegra stein- og glerkastala. Prag er hins vegar auglýst sem minnst breytta höfuðborgin í mið-og norðanverðri Evrópu og nýtur góðs af því, - hefur þótt vera með einstaklega heillegan svip af því að hinu gamla var ekki rutt skefjalaust í burtu.
Síðustu misseri hef ég uppgötvað Laugaveginn sem ágætis hraðgöngu og skokkleið í rigningu og sudda, vegna þess að í suðlægum áttum er skjól meðfram húsunum við norðanverða götuna. Þegar ég fer upp Laugaveginn hef ég orðið var við hvað götunni hefur þegar verið breytt mikið, - svo mikið að maður þekkir götuna varla lengur og er ekki viss um hvað maður er kominn langt.
Þetta hef ég til merkis um hvað er að gerast og að ef þessu verður haldið svona áfram mun gatan missa sinn gamla, vinalega og sjarmerandi svip, sem er einmitt það sem er og hefur verið aðalsmerki hennar og eina leiðin til að laða þangað fólk sem vill vera í manneskjulegu umhverfi.
"Það á ekki að vera að halda í þessi kofaskrifli og ónýta hjalla" er sagt. Jú, þetta var líka sagt þegar litlu munaði að Bernhöftstorfan yrði rifin og þar með eyðilögð húsalínan frá Íþöku norður að Stjórnarráðshúsinu.
Það er þegar búið að raska mörgum húsalínum og það sem til stendur að rífa er ekkert ónýtara en Bernhöftstorfan var. Við erum ekki að tala um nokkra fúahjalla, það er verið að tala um hundrað hús.
Það er alveg hugsanlegt að taka hluta af þessu miðborgarsvæði og reisa þar verslunarmiðstöð sem reynir að keppa við Kringluna og Smáralind. En með því að rústa heildarsvip svæðisins með skefjalausu niðurrifi er tekið af því það eina sem veitir því einu sérstöðuna sem það getur haft: Hlýleg, aðlaðandi og manneskjuleg byggð sem dregur að sér ferðafólk og borgarbúa vegna þess að hún á engan keppinaut.
Að lokum eitt einfalt atriði. Sólin er lægra á lofti á sumrin í Reykjavík en nokkurri annarri höfuðborg í heimi. Því hærri sem húsin eru, því verr gengur geislunum að komast ofan í götuna og ylja upp mannlífið í landi kaldasta sumars Evrópu.
![]() |
Rætt um niðurrif í miðborginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.12.2007 | 01:21
SKILJANLEGUR MUNUR.
Það er skiljanlegur munur á því hvað dýrarar er að búa á Íslandi en í öðrum af ríkustu löndum heims. Ef til dæmis er miðað við Danmörku er Ísland miklu dreifbýlla land en Danmörk og þar að auki afskekktasta landið í Evrópu. Þess vegna er meiri kostnaður við aðföng og einnig vegur þungt að hærra verð er hér á matvöru en annars staðar enda skilyrði til landbúnaðar verri hér.
En sé kaupgjald lægra hér en í þeim löndum sem næst okkur koma, verður munurinn meiri hvað kaupmátt snertir heldur en nemur muninum á því sem það dýrara að búa hér á klakanum.
Í Eþíópíu er sexfalt ódýrara að lifa en á Íslandi en hins vegar eru meðaltekur á mann tvöhundruð sinnum minni.
Einhverir kunna að segja að hægt væri að minnka þennan kostnað á Íslandi með því að færa alla byggð í landinu til suðvesturhornsins og spara kostnað við vegi og landbúnað. Varnarlínan við að halda byggð í landinu sé í Leifsstöð.
Mér hugnast ekki sú framtíðarsýn að landsbyggðin breytist í sumarbústaðalönd og að við verðum algerlega háðir landbúnaði annarra þjóða. Í Noregi er í sumum byggðum skylt að búa allt árið á sveitabæjum, halda þeim í byggð og hafa þar skepnuhald. Þetta kostar fé og Noregur er meðal efstu landanna á listanum yfir dýrustu löndin.
Þetta gera Norðmenn ekki vegna bændanna eða landbúnaðarins heldur vegna þeirrar sjálfsmyndar sem þeir telja sig þurfa að hafa sem menningarþjóð með fjölbreytta menningu og þeirra myndar sem þeir vilja gefa erlendum ferðamönnum af landi sunnudags selstúlkunnar, tónlist Griegs og umhverfisins og menningarinnar sem bókmenntir Björnssons, Strindbergs og Hamsuns fengu næringu sína frá.
Norðmenn telja það akk fyrir ferðaþjónustuna að kollvarpa ekki menningarlandslaginu og því hvernig þjóðin byggir landið.
Að sjálfsögðu eru takmörk fyrir því hve langt skuli ganga við að viðhalda allri byggð óbreyttri og óbreytanlegri. En söfnun lands á fáar hendur getur orðið meiri en æskilegt er. Hér á landi eiga sér nú stað miklar og hraðar eignatilfærslur í dreifbýli sem vert er að fylgjast náið með. Annars kann svo að fara að við stefnum til baka til þessa tíma þegar 90 prósent bænda voru leiguliðar.
![]() |
Dýrast að búa á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)