SÆLDARLÍF EÐA EKKI ?

Það er ekkert nýtt að jólasveinar geti lent í kröppum dansi á jólaböllum. Þetta fékk ég óþyrmilega að reyna hér á árum áður þegar mikið fjölmenni var á stærsu böllunum svo að stundum stappaði nærri því að börn træðust undir. Ég hafði það fyrir reglu, að enda þótt við stæðum báðir, Gáttaþefur og Ketkrókur uppi á sviði mestallan tímann og færum þar með nýjan söngleik á hverju ári, fór Gáttaþefur alltaf tvisvar niður á gólfið til að heilsa öllum börnunum og ganga með þeim í tveimur lagasyrpum í kringum jólatréð.

Þá kom stundum fyrir að sveinki barst með straumnum upp að fögrum konum og var þar fastur í þvögunni í óþægilegri nálægð við þær. Fer nú reyndar eftir hugarfarinu hverju sinni hvort viðkomandi þykir nálægð af þessu tagi þægileg eða óþægileg.

Mér er einkum minnisstætt gríðarlega fjölmennt jólaball í Súlnasal Hótels Sögu þar sem minnstu munaði að börn træðust undir þvögunni sem myndaðist í kringum mig við jólatréð. Þar var Gáttaþefur fastur eins og í dýi í nokkra stund klemmdur fast upp við konu, sem hafði á sínum tíma verið kjörin fegurðardrottning Íslands og hafði orðið enn fegurri og föngulegri með aldrinum.

Þetta var um tíma pínlegt ástand, svo að notað sé tvírætt orðalag, en rættist þó úr því og enginn tróðst undir þótt sum börnin væru nálægt því og mörg þeirra farin að gráta.

Ég get borið um það að það var oft ekkert sældarlíf að standa í þessu, einkum þegar börnin hengju í skegginu eða klipu mann fast þar sem á var hangið.

En yfirleitt var þetta tóm ánægja þótt starfið væri erfitt og aldrei urðum við sveinarnir fyrir áreitni á borð við þá sem greint er frá að hafi átt sér stað í Bandaríkjunum. En það er jú allt mögulegt þar í landi.

Hér á landi benda nú nöfn jólasveinanna frekar til þess að þeir ættu að vera ágengir frekar en mæðurnar á jölaböllunum. Þarf ekki annað en að nefna Faldafeyki, Giljagaur, Gáttaþef og Stekkjastaur í því sambandi, jafnvel Kjötkrók ef menn skilja orðið lambakjöt með þröngri skýringu. Jafnvel mætti hafa Stúf grunaðan ef það er haft í huga að stærðin skipti ekki öllu máli.  

 


mbl.is Káfaði á jólasveininum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Það er satt Ómar við jólasveinarnir getum oft lent í óþægilegri stöðu.  Um helgina var ég með nokkru jólaböll, í einu þeirra þá létum við pokann síga ofan af hálofti sem er beint fyrir neðan dansgólfið eftir það þá hljóp ég niður og tók á móti Giljagaur sem kom sígandi niður úr loftinu.  Sem betur fer þá dettur mér í hug að grípa G en það sem ég vissi ekki fyrr en eftir á að skeggið festist í áttuni sem notuð var á sigbeltinu.  Þannig að Gilljagaur hékk á skegginu.  En þar sem ég hélt honum þá gat hann rifið sig lausan og haldið áfram að síga niður.  Þannig að jólasveinar lenda í ýmsu.

Þórður Ingi Bjarnason, 19.12.2007 kl. 13:42

2 Smámynd: Þráinn Sigvaldason

Ég lék oft jolasvein hér í denn en hætti því eftir eitt martraðar jólaball þar sem ágengni unga fólksins fór vel yfir strikið. Eina leiðin til að halda skegginu hefði verið að hefta það fast á andlitið. Sem sagt einn óþekktarormurinn náði af mér skegginu og hljóp með það sigri hrósandi í kringum jólatréð. En eftir að hafa lesið þessa frétt...þá er spurning um að taka fram skeggið aftur...ef ég finn það

Þráinn Sigvaldason, 19.12.2007 kl. 13:43

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skúli minn, ég starfa enn við það eins og undanfarin 49 ár að koma reglulega fram sem skemmtikraftur og gæti það ekki ef ég væri "fúll á móti". Hef sjaldan verið brattari og ákveðinn maður fyrir austan sá til þess að hin annars nokkurra vasaklúta heimildarmynd Örkin verður með ótrúlega grátbroslegan kafla.

Það er nóg af leiðindum í heiminum og alltaf hægt að brosa og sjá spaugilegu hliðarnar.  

Ómar Ragnarsson, 19.12.2007 kl. 15:09

4 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Þráinn það er best að líma skeggið fast það geri ég að það klikkar ekki.

Ómar ég hef farið á nokkra fyrirlestra hjá þér um virkjanir og þar sem þú talar gegn virkjunum.  En á sama tíma setur þú þínar frásagnir í gamansaman búning og er gaman að hlusta á.  Var á fyrirlestri í skagafirði þar sem þú söngst um Valgerði í álútsetningu og þínar lýsingar voru frábærar.  Húmorinn er greinilega enn til staðar.

Þórður Ingi Bjarnason, 19.12.2007 kl. 17:13

5 Smámynd: Þráinn Sigvaldason

Líma já...jú það er örugglega ekki eins sársaukafullt En það er ótrúlegt að þurfa þess

Þráinn Sigvaldason, 19.12.2007 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband