24.12.2007 | 14:43
ÁRNI ER LÁTINN EN LIST HANS LIFIR.
Með skömmu millibili hafa þrír menn sem fóru um landið með Sumargleðinni verið brott kallaðir af þessari jörð, Árni Scheving, Jón Sigurðsson og Bessi Bjarnason, allt frábærir listamenn, minnistæðir öðlingsmenn og gleðigjafar.
Árni fékk í vöggugjöf fágæta tónlistargáfu og var engu líkara en hann gæti spilað fyrirhafnarlaust á hvað það hljóðfæri sem barst upp í hendur hans. Ekki var hann síðri útsetjari og hljómsveitarstjóri.
Sem lítið dæmi get ég nefnt að á síðustu plötunni sem hann vann með Hauki Heiðari Ingólfssyni og félögum var lag sem ég vissi ekki fyrirfram að yrði á plötunni. Þegar ég heyrði þetta lag spilað í útvarpinu sperrti ég eyrun og hækkaði í tækinu um leið og ég velti því fyrir mér hvaða erlend hljómsveit spilaði þetta svona vel.
Þetta hlaut að vera upptaka hjá einhverjum þeirra frægustu, hljóðfæraleikurinn, hljómurinn og útsetningin voru svo "mikið erlendis" svo ég noti skemmtilegt orðtak Björgvins Halldórssonar.
Þá kom í ljós að hér hafði Árni haldið þar um taumana af einstæðri fágun og listfengi.
Mér telst til að nítján manns samtals hafi farið með Sumargleðinni um landið og nú eru sjö fallnir frá.
Við hin sitjum eftir og yljum okkur í mesta skammdeginu við góðar minningar sem við eignuðumst um Árna Scheving og aðra gleðigjafa sem voru samferða okkur en hafa nú horfið á braut um sinn.
Ég þakka fyrir allt það sem Árni vann fyrir mig allt fram undir það síðasta af aðlúð og smekkvísi, alltaf í góðu skapi, kurteis og fágaður. Ég var farinn að hlakka til að leita til hans með það að spila á frönsku nikkuna í lagi sem heitir "Flest er nú franskt".
Nú spyr ég: Hver getur nú spilað á nikkuna í þessu lagi?
Hans er sárt saknað en list hans lifir.
![]() |
Árni F. Scheving látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2007 | 14:25
AÐ GERA SÉR DAGAMUN.
Eitt af boðorðunum kveður á um að halda skuli hvíldardaginn heilagan. Þetta er ekki út í bláinn því að í amstri hversdagsins er það manninum nauðsynlegt að geta hvílst og "hlaðið batteríin" eins og við köllum það á okkar dögum. Það verður illa komið fyrir mannkyninu ef aldrei væri lát á brauðstritinu. Jafnvel hjá fáækasta fólkinu og frumstæðasta sem við hjónin heimsóttum á sínum tíma í Afríku gat fólk sest niður í skógarrjóðri og sungið og spilað.
Þar spilaði unglingur einn eins og engill á gítar, sem var bensínbrúsi, sem söguð hafði verið ein hliðin úr og fest við spýta með vírstrengjum.
Það er íhugunarefni hvort alla þá streitu og hraða og vinnu þurfi til að við getum haldið nauðsynlegustu hátíðina okkar, hátíð sem léttir okkur erfiðasta róðurinn í gegnum myrkur og kulda mesta skammdegisins.
Ég þakka öllum lesendum og bloggurum sem hafa tengst bloggsíðu minni á árinu fyrir yndisleg kynni og óska þeim gleðilegra jóla þar sem við gerum okkur öll nauðsynlegan dagamun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2007 | 14:13
JÓLAKÖTTURINN Á SPÁNI.
Í blaðaviðtali vonaðist Eiður Smári Guðjónsen eftir þeirri jólagjöf að fá að spila á í leiknum á móti Real Madrid. En þótt hann færi í jólaköttinn að þessu leyti getur hann vel við það unað að hafa eignast gott bakland hjá spönskum sparkspekingum sem furða sig á því að hann skyldi ekki vera í byrjunarliðinu. Athyglisverð er úttekt á þátttöku Eiðs Smára í leik Barcelona á leiktíðinni þar sem kemur í ljós að hann hefur tekið þátt í fleiri leikjum og verið lengur inn á en flestir aðrir miðju-og framlínuleikmenn.
Þeir sem hafa tönnlast á því að hann hafi ekki staðið fyrir sínu vegna þess hve lítið hann hefur verið inn á hafa greinilega ekki tekið það með í reikninginn að í leikmannahópnum sem um ræðir eru tíu af bestu knattspyrnumönnum heims og að það er afrek út af fyrir sig að hafa skákað þeim flestum þegar tölurnar eru skoðaðar.
Verra er að fleiri skyldu láta þetta glepja sig og velja ekki Eið Smára sem leikmann ársins á Íslandi. En Eiður Smári hefur sýnt það og sannað að hann lætur slíkt ekki á sig frá frekar en annað mótlæti.
VHver hefði getað spáð um það á sínum tíma að þjálfari yrði harðlega gagnrýndur fyrir að hafa ekki látið Íslending spila í stað sjálfs Ronaldinho?
Eiður á bara eftir að koma enn öflugri til leiks eftir hátíðar og á skilið að fá heitar jólakveðjur frá Íslandi með þökk fyrir frábæra þrautseigju og frammistöðu á árinu sem er að líða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)