GUÐ VARÐVEITI DROTTNINGUNA, - ÓHÆFA?

Ef svipuð umræða væri nú um breska þjóðsönginn og er um hinn íslenska væru þar uppi háværar raddir um að afnema hann vegna þess að minnst er í fyrstu þremur orðunum á tvennt sem er umdeilt í Bretaveldi, Guð og drottninguna. Í þeim íslenska er þó aðeins minnst á Guð í hinum tveggja mínúta langa söng sem sunginn er, ekki á Krist eða neitt sem minnir frekar á kristna trú en önnur trúarbrögð sem hafa Guð sem þungamiðju. Af þessu dreg ég þá ályktun að tilvist orðsins Guð í þjóðsöngnum réttlæti það ekki frekar hér en í Bretaveldi að skipta þjóðsöngnum út.

Samt hef ég lengi efast um íslenska þjóðsönginn og þá af öðrum orsökum, einkum lengd hans og tónsviði.

Hann er fjórum sinnum lengri en breski þjóðsöngurinn og lengri en allir þeir þjóðsöngvar sem mér finnst bestir, en þeir eru þjóðsöngvar Frakka, Rússa, Breta, Þjóðverja og Bandaríkjamanna.

Tónsvið íslenska þjóðsöngsins er mest og erfiðast og stoðar lítið að lækka tóntegundina og taka þar með af honum tign hans, því að þá verða lægstu tónarnir of daufir. Að því leyti er ég sammála Gunnari Þórðarsyni um að efast um þessa nýjustu tilraun til að gera þjóðsönginn hæfari til söngs.

Fyrir tuttugu árum var rifist um þjóðsönginn og einn þeirra sem ekki vildi breyta neinu sagði að þjóðsöngur mætti aldrei verða "söngdrusla."

Mér fannst þetta ekki sterk röksemd. Eða eru hinir flottu þjóðsöngvar sem ég nefndi áðan, með þann franska á toppnum, "söngdruslur"?

Er þjóðsöngur íslenskra sveitamanna "Blessuð sértu sveitin mín" söngdrusla?

Ég hef raunar lengi öfundað íslenskt landsbyggðarfólk af að eiga svo fallegan og óumdeildan söng til að syngja þegar stilla þarf saman strengina.

Þjóðsöngur þarf að vera nákvæmlega það, sem felst í orðinu, söngur sem þjóðin syngur og getur sungið hvar sem tilefni gefst til.

Tvennt er það sem þyrfti helst að nefna í íslenskum þjóðsöng: Þjóðina og landið. Ekki skaðar að tungan og sagan fylgi með. Söngurinn á helst ekki að fara mikið yfir eina mínútu og tónsviðið þarf að vera viðráðanlegt fyrir venjulegt fólk.

Í þeim þjóðsöng sem nú er sunginn eða reynt að syngja á Íslandi er hvergi minnst á þjóðina, landið eða tunguna nema að í fyrstu setningunni er minnst á okkur og landið: "Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð."

Síðan liggur leiðin um sólkerfin og tímanna safn og hinn mikla eilífa anda og hið eina sem minnir okkur á hið jarðneska er "eilífðar smáblóm". Mér finnst rétt að geta þess að mér finnst setningin "Íslands þúsund ár" frábær og vísar til sögu þjóðarinnar.

Söngurinn heitir Lofsöngur og var ortur í tilefni af þúsund ára afmæli íslands byggðar. Ég kann vel að meta það hvernig Matthías teflir saman eilífðinni og alheiminum á móti mótsagnarkenndri lýsingu hans: "Eitt eilífðar smáblóm sem tilbiður Guð sinn og deyr. "

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um annað en það sem sungið er en ekki afganginn af Lofsöngnum sem nær aldrei er sunginn.

En fyrir flesta er nánast allt ljóðið, sem sungið er, of fjarrænt og háfleygt til að grípa hvern þáttakanda í söngnum eins og þarf í þjóðsöng. Að ekki sé minnst á það hve erfitt er fyrir venjulegt fólk að syngja hann.

Þess vegna kann að koma að því að Lofsöngur Matthíasar og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar verði fyrst og fremst hátíðarsöngur íslensku kirkjunnar og að til skjalanna komi nýr þjóðsöngur sem tvinnar í textanaum betur saman land, þjóð, tungu og sögu og samheldni og einkenni þjóðarinnar.

En að mínu mati á þörfin fyrir nýjan þjóðsöng ekki að ráðast af því hvort minnst er á Guð heldur af því hvort hann geti verið þjóðsöngur, söngur þjóðarinnar, hvenær sem þörf er á að hann sé sunginn, - ekki af fáum, heldur öllum, - allri þjóðinni.


BJARNI VAR JÓLASVEINNINN Á ÍSLANDI

Í pistli mínum um það hvernig Finnar hefðu hirt af okkur jólasveininn og stórgrætt á því að á margvíslegan hátt, gat ég þess hvílík plága það þótti á fyrstu áratugunum eftir stríð að evrópsk börn stóðu í þeirri trú að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og sendu hingað bréf til hans í þúsundatali. Í stað þess að sjá möguleikana sem þetta gat gefið, leyfðu Íslendingar Rovaniemi í Finnlandi að færa sér það í nyt að auglýsa borgina sem heimkynni jólasveinsins. Nú hef ég fengið upplýsingar sem skýra kannski að einhverju leyti af hverju "jólasveinsplágunni" fór að slota upp hér úr 1970.

Hildur Bjarnadóttir fréttamaður, skólasystir mín úr MR, rifjaði það upp fyrir mér sem ég hafði gleymt þótt ég hefði vitað þetta á sínum tíma, að faðir hennar, Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sem var alveg einstaklega bóngóður maður, tók það að sér að svara þessum bréfum.

Hann gerði meira en það, keypti sér heilu pokana af einseyringum, en einn einseyringur samsvaraði líklega nokkrum krónum nú að verðgildi, - og sendi hverju barni til baka einseyring með bréfinu. Þetta gerði Bjarni á eigin kostnað allt fram til 1970 og borgaði úr eigin vasa.

Þegar þessu tímabili lauk voru einhverjir einseyringspokar eftir og barnabörn Bjarna léku sér að þeim að sögn Hildar.

Bjarni var einhver mesti hæfileika- og mannkostamaður sem ég hef kynnst og það var honum líkt að aumka sig yfir evrópsk börn, enda var hann ákaflega víðsýnn heimsborgari. Hann var um margt á undan samtíð sinni og kom ótrúlega víða við í menningarlíf okkar. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig hann hefði notið sín á okkar tímum þegar möguleikarnir eru meiri fyrir hæfileikamenn að hasla sér völl í henni veröld.

Bjarni var hafsjór af þekkingu og hafði annan skilning en tíðkaðist meðal samtímamanna. Sem einstaklingur reyndi hann að þjóna uppvaxandi kynslóðum nágrannalandanna.

Ég greindi frá því í bloggpistli hér á undan hvernig Japanir náðu tökum á bandaríska bílamarkaðnum með 20 ára söluáætlun sem fólst í því að selja fyrst fátækum háskólastúdentum litla og ódýra bíla, en bjóða þessu fólki sem síðar varð velmegandi menntafólk, smám saman dýrari og stærri bíla.

Ef við Íslendingar hefðum sem þjóð gert það sama og Bjarni Guðmundsson gerði, - að þjóna uppvaxandi kynslóðum í Evrópu, hefðum við ekki aðeins fengið jólasveininn og allar tekjurnar af honum á silfurfati, heldur einnig getað skapað þann draum í hjörtum þessara barna sem leiddi þau til Íslands jafnt sumar sem vetur þegar þau yrðu fullorðin og hefðu efni á því að láta æskudrauma sína rætast.

Dæmið er sláandi, sem ég nefndi í pistli mínum, um fátæka þýska bakpokastúdentinn sem amast var við um 1970 vegna þess að gæfi ekkert af sér hér, en kemur nú árlega hingað með nokkra tugi nemenda sinna.

Bara ef við hefðum nú haft vit á því að taka upp merki Bjarna Guðmundssonar með myndarlegu og sameinuðu átaki þegar hann féll frá.


mbl.is Náttúruverndarsamtökin fagna stefnumótun Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MESTA HEIMSKAN?

Verkaskipting þjóðanna í gegnum frjálsa verslun og jafnræði í framleiðsluháttum er samkvæmt vestrænni hagfræði besta aðferðin til að bæta hag allra jarðarbúa. Þá verða vörur framleiddar þar sem það er hagkvæmast og verslunin sér um að þetta verði allra hagur. Reynt er að stunda þetta nema í einni framleiðslugrein: landbúnaði. Þar bregður svo við að iðnríkin í norðri nota auð sinn til að halda landbúnaði sínum uppi með stórfelldum ríkisstyrkjum og tollvernd, því annars gætu hin suðrænni lönd nýtt þá hagkvæmni sem heppilegri skilyrði veitia þeim til landbúnaðarframleiðslu.

Reiknað hefur verið út að öll aðstoð iðnríkjanna við þróunarlöndin sé aðeins brot af því sem af þeim er tekið með því að skekkja samkeppnisstöðu landbúnaðar þeirra.

Heimskan er margvísleg í heimi hér og hvorki lítur það gáfulega né mannúðlega út að standa í vegi fyrir dreifingu á matvælum til nauðstaddra í Sómalíu. En það má skoða fleira og stærra þegar menn leita að mestu heimskunni.

Við íslendingar getum lítið haft um þetta að segja því að okkar landbúnað verður að skoða með tilliti til þess sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Okkar landbúnaðarframleiðsla er innan við einn þúsundasti af framleiðslunni í Evrópu og Norður-Ameríku og íslenskum bændum finnst eðlilega ósanngjarnt að landbúnaðurinn hér sé rekinn með minni styrkjum og tollvernd en í nágrannalöndunum.

Það verður ekki fyrr en öflugustu landbúnaðarríkin í Evrópu og Norður-Ameríku endurskoða landbúnaðarstefnu sína sem eitthvað gerist í þessum málum. En það virðist borin von að það geti gerst.


mbl.is Neyð ríkir í Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband